Miðvikudagur 08.01.2014 - 10:00 - 10 ummæli

Vinnur Gylfi Arnbjörnsson fyrir SA?

Í Kastljósi í gærkvöldi byrjaði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, á því að útskýra að Samtök atvinnulífsins hefðu í upphafi viðræðna um nýgerða kjarasamninga lýst yfir að þau vildu ekki meira en 2% launahækkun, og Gylfi talaði eins og það hefði gert samningana erfiða.  Gylfi endurtók þessa möntru nokkrum sinnum í þættinum, í svolítið mismunandi formi.
Forystumaður ASÍ sem lýsir þessu yfir, og notar það sem afsökun fyrir arfalélegum samningum, er að segja SA að þau geti ráðið niðurstöðu samninga, með því bara að slá rétta tóninn í upphafi.  Fyrir hverja vinnur Gylfi?
Gylfi lagði líka mikla áherslu, aftur og aftur, á nauðsyn þess að hækka laun lítið til að koma í veg fyrir verðbólgu, og kaupmáttarrýrnun samfara henni, en samningarnir sem nú voru gerðir eru reyndar ávísun á launalækkun, miðað við að verðbólga verði á svipuðu róli og síðasta árið.  Ef Gylfi og SA trúa því að haldið verði aftur af verðbólgunni með þessum samningum, af hverju eru þá launin sem um var samið ekki verðtryggð?
Gylfa varð einnig tíðrætt um stöðugleika, en stöðugleiki er jú um það bil óbreytt ástand.  Fyrir fólk með 200 þúsund krónur í mánaðarlaun er stöðugleiki álíka eftirsóknarverður og óbreytt ástand er fyrir manneskju sem fallið hefur útbyrðis af togara fyrir norðan land í byrjun janúar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

 • Verðbólgusamningar eina ferðina enn eru algjörlega tilgangslausir.

  Launahækkunin er horfin áður en hún fæst.

  Þetta þekkja allir sem komnir eru til einhverra ára og vits.

  Mun viturlegra er að lækka skatta, opinber gjöld og álögur t.d. á bensín, áfengi, bíla og heimila innflutning á landbúnaðarvörum sem er stærsta hagsmunamál íslenskra heimila.

  Hækkun skattleysismarka á lægstu laun og minni opinberar álögur myndu gagnast hinum launalægstu best.

  Þessi hefðbundna leið sem virðist eiga að fara eina ferðina enn mun engum kaupmætti skila.

  Mér þykir ótrúlegt að menn á háum launum sitji vikum saman á fundum og þrátti um hækkun launataxta um einhverja þúsundkalla sem allir vita að hverfa um leið vegna hækkunar á vörum og þjónustu.

  Óskiljanlega vitlaust kerfi og furðulegt að fólk hér skuli láta bjóða sér þessa vitleysu ár eftir ár eftir ár.

 • kristinn geir st. briem

  rósa: við reindum þá leið líka að lækka skatta úttkoman var svokallað hrun. hóf er best í öllu líkka skattalækkunum

 • Grétar Thor Ólafsson

  Svarið við spurningunni er „nei“. Hann vinnur ekki fyrir SA.
  Hann vinnur fyrir launafólk, ASÍ.

  Fólk talar oft um þessa tölu, 2,8% hækkun + 5000 fyrir lægst launuðustu. Er þá ASÍ ekki búin að koma SA frá 2 til 2,8%? sem er 40% frá viðmiðum SA?
  Og er ekki í lagi að nefna í leiðinni að persónuafsláttur var hækkaður, sem og skattaprósenta miðstigsins var lækkuð um 0,5 próstentustig sem og að viðmiðin um miðstigið hækkuðu upp í 290þ kr.

  Svo er samningurinn bara til eins árs, þetta er ekki langur samningstími.

  Þetta upphlaup hjá Vilhjálmi og fleirum gegn Gylfa er skrítið og byggt á furðulegum rökum. Má vel vera að betri samningar hefðu náðst með því að sundra samstöðu stéttarfélaga (sem Villi er að gera núna m.a.). Það er þó ólíklegt miðað við reynslu fyrri ára (þó sum félög hafi STUNDUM fengið betri samninga). Og það er líka vel líklegt, miðað við reynslu annarra þjóða, sem og okkar, að hærri hækkun hefði hækkað verðbólgu og þar með rýrt kjör. Það eru engar helv. sér-íslenskar aðstæður sem stöðva slíka þróun á verðlagi.

  Svo er kannski ekkert vitlaust að nefna til sögunna Nash jafnvægið, þar sem kemur fram að ef fólk, í samkeppni, vinnur saman, þá getur niðurstaðan verið betri þannig heldur en ef þau keppa grimmt gegn hvort öðru i n.k. zero sum leik.

  • Einar Steingrímsson

   Gretar: Eins og ég var að reyna að benda á er fáránlegt að það að SA hafi talað í upphafi um að meira en 2% væri ekki ásættanlegt sé notað sem rök fyrir því að þetta séu góðir samningar. Alveg sérstaklega er klikkað að lýsa þessu yfir eins og Gylfi gerði núna, því þar með er hann að segja SA að þau geti bara ákveðið hvað þau vlji semja um, dregið svo einn þriðja frá þeirr tölu og samið á endanum um töluna sem þau hugsuðu sér upphaflega.

   Þetta er líka sérlega klikkað í ljósi þeirrar verðbólgu sem verið hefur, og sem full ástæða er til að ganga út frá að verði svipuð. A.m.k. hefði átt að verðtryggja launin ef SA er svona sannfært um að verðbólgan verði mjög lítil.

   Skattalækkanir eru ekki rök fyrir því að hlífa atvinnurekendum sem raka saman ofsagróða við launahækkunum.

   Í stuttu máli eru lægstu laun á Íslandi til háborinnar skammar, og það er ekki síður skammarlegt að forseti ASÍ skuli vera í liði með atvinnurekendum við að halda þeim niðri.

  • Sigríður

   Grétar:

   Nash jafnvægið á Íslandi næst með samfelldum leik svokallaðrar elítu gegn öllum öðrum.

   Með þeim leik nær elítan að halda aftur af lífskjörum flestra með að viðhalda:

   (1) Slökum innviðum, svo sem stjórnsýslu, mennta- og heilbrigðiskerfi.
   (2) Lágum launum flestra. Mannréttindabrot gagnvart þeim sem geta ekki búið í venjulegu húsnæði og keypt mat allan mánuðinn.
   (3) Ómannúðlegum kerfum (verðtryggingu neytendalána og gjaldþrota lífeyriskerfi sem byggir á henni).

   (1), (2) og (3) haldast að mestu leyti vegna okkar eigin auðlinda, þ.e. elítan hefur það markmið að gefa arð af auðlindum til lítilla sérhagsmunahópa. Þetta er það sem kallast bölvun auðlinda (e. resource curse) í hagfræðinni.

   Gott Nash-jafnvægi það.

   P.s. Aðeins um bölvun auðlinda og þá spillingu sem getur myndast vegna hennar, tekið af Wikipedia: „In resource-rich countries, it is often easier to maintain authority through allocating resources to favoured constituents than through growth-oriented economic policies and a level, well-regulated playing field. Huge flows of money from natural resources fuel this political corruption. The government has less need to build up the institutional infrastructure to regulate and tax a productive economy outside the resource sector, so the economy may remain undeveloped.[16] The presence of offshore tax havens provide widespread opportunities for corrupt politicians to hide their wealth.

   Many extractive operations are illegal and encouraged by corrupt multi-national corporations in collusion with national governments. Objections made by indigenous inhabitants are usually ignored.“

   Þetta á við um Ísland.

  • Nash-jafnvægi þýðir ekki að allir fái bestu útkomu, þvert á móti. Í Nash-jafnvægi getur meira að segja gerst að enginn fái bestu útkomu.

 • Guðný Ármannsdóttir

  Ef launahækkanirnar koma allar í gegnum skattkerfið eins og svo margir vilja en ekki frá fyrirtækjunum sjálfum, þýðir það bara að við borgum okkar launahækkanir sjálf. Og þeir halda áfram að leika sér með arðinn og hlægja að okkur

 • Sigríður

  Gylfi er einn af fjölmörgum undirmálsmönnum kerfisins sem hefur það eitt markmið í sínu starfi að rugga ekki bátnum. Þannig vinnur hann fyrir nokkra aðila, þar á meðal SA.

  Í Kastljósi í gær mátti sjá hvernig Gylfi notaði klassískar leiðir við að ná til íslensks almennings:

  (1) Rökfærslur sem ekki sæma manni í hans stöðu. Það er, mest var rætt um mögulegar og ólíklegar afleiðingar hækkun lægstu launa en skautað framhjá merkilegri afleiðingum ef ekki er gripið til slíkra aðgerða. Einnig var skautað framhjá ástæðum fyrir því af hverju lægstu launin eru svona lág til að byrja með. Þetta er í samræmi við hefðbundna íslenska rökræðu einstaklinga innan kerfisins þar sem stranglega bannað er að ræða kjarna vandamála.

  (2) „Þetta er einfaldlega rangt hjá þér“ var andsvar hans á einum tímapunkti. Klassískt svar hjá íslensku undirmálsfólki sem heldur í sinni firru að það geti ekki haft rangt fyrir sér og sér fram á að geta ekki svarað spurningum er snúa að kjarna vandamála án þess að líta illa út.

  (3) Einnig mátti sjá hvernig hann sóttist eftir hinni dæmigerðu íslensku meðvirkni. Hvolpaandlit látið upp með reglulegu millibili í bland við að hefja upp eigið ágæti í svokölluðum erfiðum aðstæðum sem og að gera lítið úr þeim völdum sem hann raunverulega hefur. Þannig nær hann að útiloka alla raunverulega rökræðu með að kalla fram eftirfarandi viðbrögð meðvirkra Íslendinga: „Æ, látið hann nú í friði, hann er nú bara að gera sitt besta.“

  Þetta er kannski það helsta, ég efast þó ekki um að það megi tína til fleiri svipuð atriði. Verst er að svona einföld ráð hafa dugað í gegnum tíðina til að meirihluti Íslendinga bíti á agnið og hlýði þegjandi eins og þrælar.

 • Hrafn Arnarson

  Umræðurnar eru settar á svið og undarlegt hvernig það er gert. Vilhjálmur er formaður verkalýðsfélags. Fjölmargir aðrir eru formenn slíkra félaga. Af hverju var þeim ekki öllum boðið eða þá 5 ? Eru skoðanir hinna formannanna ekki jafn gildar skoðunum Vilhjálms? Nú er það líka vitað að fjölmargir í baklandi verkalýðsfélaganna hafa gagnrýnt forystusveitina. Af hverju var fulltrúum þeirra ekki boðið? Í stað þess að hafa nokkurn veginn lýðræðislega umræðu er boðið uppá hanaslag eða pólitískt skemmtiatriði. Viðbrögð ónefndra bloggara voru 100% fyrirsjáanleg.

 • Sigurður Guðmundsson

  Hér er verið að ræða meðal annars um skynsemi í anda þjóðarsáttar 1990 og eða „verðbólgubál“ Það er rétt að skynsamlegra er að semja um minni hækkanir og aukin kaupmátt. Það verður hins vegar að skoða þetta í víðara samhengi. Ég tel að atvinnurekendur ofl. hafi gengið á lagið eftir þjóðarsáttina 1990 meðvitað og ómeðvitað, til þess halda launum niðri undir því yfirskyni að halda verðbólgu niðri. „Verkfallsvopnið“ hefur smám saman orðið bitlausara með árunum. Þ.a. það er spurning hvort verður ekki að fara beita því aftur af illri nauðsyn til þess að leiðrétta kúrsinn í samskiptum atvinnurekenda og launfólks.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur