Þriðjudagur 06.05.2014 - 19:54 - 14 ummæli

Opið bréf til Einars K. þingforseta

Sæll nafni

Það var nógu slæmt gerræðið (svo maður segi ekki valdaránið) sem þú framdir á Alþingi í dag, þar sem þú ákvaðst að innanríkisráðherra skyldi undanþeginn því sem hingað til hefur verið álitin skylda ráðherra, að svara spurningum þingmanna.  Þetta gerðir þú án þess að hafa til þess nokkurn rétt, nema rétt valdníðingsins sem telur að eigin völd réttlæti hvaða yfirgang sem er.
Það er sérlega sláandi að forseti Alþingis komi fram með þessum hætti, því þér er fullkunnugt um að hlutverk þingforseta er að tryggja að störf þingsins fari fram með sómasamlegum hætti, en ekki að hlífa eigin pólitísku vopnasystkinum við því að svara réttmætum spurningum um framgöngu sína.
Hafi einhver látið sér detta í hug að það hafi verið hlutlaust mat þitt á störfum þingsins sem réði för í þessari einræðisherralegu ákvörðun þinni, þá sýndirðu skömmu síðar svo ekki varð um villst hvað vakti fyrir þér, þegar þú djöflaðist á bjöliunni eins og vitfirrtur djákni í kirkjuturni til að reyna að yfirgnæfa orð þingmanns sem var að segja óþægilega hluti um flokkssystur þína innanríkisráðherrann.  Þegar ráðherrann kom svo næstur í ræðustól og fór fram yfir tíma sinn var bjöllukonsert þinn allt í einu orðinn að lágværum klið lotningarfullra kórdrengja.
Þú ættir að skammast þín, nafni, og biðjast fyrirgefningar á þessu í skyndi, frammi fyrir alþjóð.  Að öðrum kosti, ef þú ert ekki maður til þess, ættirðu að afsala þér bæði forsetatitlinum og þingmennskunni, sem þú ert þá ekki bógur til að ráða við.
Með samúðarkveðju,
Einar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Arnljótur Arnarson

    Fer framá að RUV hætti að sýna House Of Cards. Þættirnir eru augljóslega hættulegir fyrir ílla gefna ráðamenn. Þar af leiðandi hættulegir þjóðinni.

    • Ég þykist vita að þú sért að grínast.
      Frábærir þættir sem sýna hvernig stjórnmálabarátta gengur fyrir sig og hverskonar fólk velur sér þennan starfsvetvang –þar sem allt það vesta í mannlegu eðli fær að blómstra og bera ríkulegan ávöskt.
      Bóarnir kunna flestar brellurnar, en sem betur fer ekki nógu vel — og misstíga sig og lenda í klúðri. Kósendur geta á hinn bóginn vonandi lært eithvað af þessum þáttum – varla hægt að vera of cynical á pólitík.

  • Einar Steingrímsson

    Hér má alla umræðuna, sem Lára Hanna Einarsdóttir klippti og setti á netið. Bjöllukonsertarnir sem minnst er á í pistlinum hefjast annars vegar kl. 11:32 og hins vegar kl. 13:15:

  • Það er alltaf neyðarlegt þegar menn blogga fullir.

    • Einar Steingrímsson

      Það er rétt, Jón. Þess vegna birti ég aldrei blogg sem ég skrifa fullur fyrr en runnið er af mér.

  • Haukur Kristinsson

    Því miður eru „opin bréf“ í stíl við það sem Einar Steingrímsson skrifaði nauðsynleg, því miður.
    Landinu er stjórnað af plebbum, undirmálsfólki, þar sem saman fer hroki, óheiðarleiki og andleg fátækt.

  • Sigmundur Guðmundsson

    Jafnvel í Austur-Þýskalandi lét flokkurinn Honecker fjúka !!!

  • Lýðveldið Ísland er fyrir löngu fallið. Ef það var einhvern tímann til. Hvílík smán hið opinbera er hér á landi og hvílík smán sofandi almenningur er fyrir að láta allt yfir sig ganga. Við erum mörgum áratugum á eftir öðrum N-Evrópuþjóðum vegna þrælslundar og meðvirkni almennings. Aumkunarvert.

    Þakka þér kærlega fyrir, Einar, þú stendur vaktina. Þau eru of fá sem nenna því eða þora. Eina sem þarf er nefnilega fjölda. Þá vaknar fólk – og þorir jafnvel að stíga fram úr rúminu sínu líka.

  • Michelangelo

    Þorir að stíga fram úr rúminu já. Eða undan því.

  • Árni Gunnarsson

    Þetta er pistill sem hverjum manni væri til sóma. Gengið fram að brúninni en ekki fram af henni.
    Óþarflega margir hafa spurt hefðbundinnar heimskuspuningar: „Eru hinir eitthvað betri“?
    Það er mikið í húfi að við reynum að rétta af kúrsinn í siðgæði stjórnsýslunnar.
    Þar erum við greinilega enn á sama stað og við vorum fyrir hrun.
    Og lagaumhverfið – dómsýslan – er enn jafn galopin fyrir hvítflibbarónum og hún var þegar þessi stóri hópur siðlausra fjárglæframanna var að athafna sig í rólegheitum.

  • Þekktur bloggari á Eyjunni, kennari og afar farsæll og vinsæll varð fyrir ómaklegum aðdróttunum en gat starfs síns vegna ekki varið sig og borið af sér sakir. Forysta skólamála í Reykjavík brást honum og netdvergar á borð við Einar Steingrímsson sendu honum tóninn.
    Það var ekki fyrr en hann hafði sagt upp starfi sínu og frjáls undan þeim trúnaðarskyldum sem fylgdu starfi hans að hann gat haldið uppi vörnum og það gerði hann með svo afgerandi hætti, að menntaráðið stóð strípað eftir og netdvergarnir fóru í felur án þess þó að skammast sín.
    Lögreglurannsókn stendur nú yfir á þessu einkennilega lekamáli og ef eitthvað misjafnt kemur í ljós fer það sína leið inn í dómskerfið. Meðan málið er í þeim farvegi getur innanríkisráðherra og má ekki grípa þar inní með neinum hætti. Þetta skilja allir réttsýnir menn en ekki Einar Steingrímsson og ýmsir þeir sem samþykkja málflutning hans í athugasemdum hér að ofan.
    Netdvergarnir falla sífellt í þá gryfju að fella þunga dóma um menn og málefni með sóðalegu orðbragði og þeir þurfa engar sannanir. Slúðrið er þeirra ær og kýr og þegar svo sannleikurinn kemur í ljós hverfa þeir hljóðlega ofan í holurnar sínar án eftirsjár og bíða þar opinmynntir eftir nýju fórnarlambi. Og Einar Steingrímsson er glöggur og fundvís á meinta veikleika annarra manna og sparar ekki stóru orðin frekar en fyrri daginn. Nú skal taka forseta þingsins á beinið.

    • Já, GSS(væri nú skemmtilegra að sjá þitt rétta nafn). Einar Steingrímsson virðist lifa á óförum annarra ….

  • Haukur Kristinsson

    Íslenska stjórnarheimilið er að verða eitt aumkunarvert „Irrenhaus“.

  • Lárus M. Sveins

    Einar Steingrímsson, Haukur Kristinsson, Steini, Árni Gunnarsson og Sigmundur Guðmundsson.

    Þið eruð mennirnir sem ættu að stjórna Íslandi!

    Þið eruð alveg með þetta á hreinu hvernig eigi að stjórna.

    Af hverju eruð þið ekki löngu teknir við völdum hér á landi?

    Þið hefuð átt að bjóða ykkur fram til Alþingis og stjórna landinu.

    Hugsið ykkur hvað allt væru nú miklu betra hér á landi og þjóðin miklu hamingjusamari væru þið við stjórnvölin hér á landi!
    Öll okkar vandamál löngu leyst og Ísland orðið Paradís á Jörð.

    Þið eruð einfaldlega að bregðast þjóðinni með því að vera að skrifa endalaust í einhver blogg í staðinn fyrir að vera stjórna landinu.

    Í öðrum löndum hefðuð þið verið dregnir fyrir dóm fyrir landráð af því að þið bjóðist ekki til að stjórna landinu.
    Og þið sem eruð með allar lausnir á vanda þjóðarinnar á hreinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur