Sunnudagur 10.08.2014 - 10:16 - 19 ummæli

Eru Samtökin 78 á rangri leið?

Það er varla ofmælt að virðingin fyrir réttindum samkynhneigðra á Íslandi hafi gerbreyst á skömmum tíma.  Það eru örfáir áratugir síðan mörgu samkynhneigðu fólki fannst sér varla vera líft á Íslandi vegna fordóma og útskúfunar.  Í dag, eins og síðustu árin, tók nær helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins þátt í Gleðigöngunni, og þær örfáu manneskjur sem leyfa sér að tala niðrandi um samkynhneigða á opinberum vettvangi eru úthrópaðar svo að þær eiga sér varla viðreisnar von á eftir.
Hafi mér ekki yfirsést mikið í baráttunni fyrir jafnrétti til handa samkynhneigðum hefur hún nánast eingöngu verið háð með jákvæðum formerkjum.  Í stað þess að leggja áherslu á að úthúða þeim sem hafa haft neikvæða afstöðu, og sýna samkynhneigða sem fórnarlömb ofsókna (sem þeir hafa vissulega stundum verið), hefur áherslan verið á að sýna samstöðu með réttindum þeirra, og reyndar einnig á að kynna ýmiss konar kynhneigð aðra en gagnkynhneigð og samkynhneigð sem sjálfsagða og eðlilega.
Í Gleðigöngunni í gær báru Samtökin 78 nokkur spjöld með niðrandi og hatursfullum ummælum um samkynhneigða, ummælum sem tekin höfðu verið af Facebook.  Markmiðið virðist vera að sýna að enn sé til fólk með ógeðfelldar hugmyndir um samkynhneigð, fólk sem er tilbúið að ausa úr sér óþverranum á samfélagsmiðlum.
Það ætti engum að koma á óvart að fordómar gegn samkynhneigð séu ekki algerlega horfnir úr samfélaginu.  Slíkar hugmyndir deyja varla fullkomlega út á örskömmum tíma.  Það eru því engin tíðindi að hægt sé að finna ummæli af þessu tagi, auk þess sem við vitum ekkert um hugarástand, eða almennt sálarástand, þeirra sem létu þau falla.
Þegar svo gríðarlegur árangur hefur náðst sem raun ber vitni, á svo skömmum tíma, og ekkert bendir til að hægt sé að eyðileggja þann árangur, er þá skynsamlegt af samtökunum sem eiga heiðurinn af þessum glæsilegu sigrum að pakka í hatramma „vörn“ gegn einstaka eftirlegukindum sem spúa hatri sínu úr stöku skúmaskoti?  Er ástæða til að ætla að einhver hætta stafi af þessu fólki?  Er kannski hugsanlegt að andúð þeirra fáu sem eftir eru í fordómunum espist við það að þeim sé veitt þessi athygli?
Nú má vera að ég hafi ekki fylgst nógu vel með Samtökunum 78, en ég tók í fyrsta skipti eftir þessum neikvæða málflutningi af hálfu samtakanna fyrir ári eða svo.  Núverandi formann hef ég líka heyrt halda því fram, án þess að benda á neitt annað en „tilfinningu“ ótilgreinds fólks, að ástandið sé að versna; að  samkynhneigt fólk finni fyrir meiri fordómum.
Það er segin saga að þeir sem vilja sjá slæmt ástand sjá það; heimsósómaraus hefur fylgt mannkyninu frá því sögur hófust.  Það er til dæmis afar algengt að fólk haldi að ofbeldi, og harkan í því, hafi aukist á svæðum þar sem gögn segja allt annað.  Ég efast um að það sé gagnlegt fyrir samkynhneigða, og okkur öll sem viljum að allri mismunun gegn þeim sé útrýmt, að hefja nú „fórnarlambsvæðingu“ samkynhneigðra.
Ég hef meiri trú á því að áframhaldandi jákvæð umfjöllun um alls konar kynhneigð, sem ekkert lát er á í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, sé vænlegasta leiðin til að hrekja þá sem enn eru forpokaðir út í dagsbirtuna, þar sem þeim verður ljóst hvað hún er miklu betri en myrkur fordómanna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

 • Er það „hatrömm vörn“ að sýna fjölmörg dæmi um ummæli um samkynhneigða? Getur verið að þú sért að ýkja dálítið hressilega afstöðu samtakanna 78? Þarna er a.m.k. strax kominn mjög afdráttarlaus stíll í málflutningi þínum.

  > „Er kannski hugsanlegt að andúð þeirra fáu sem eftir eru í fordómunum espist við það að þeim sé veitt þessi athygli?“

  Allt er hugsanlegt. Er það líklegt? Nei. Hvaðan kemur þessi hugmynd eiginlega?

  > „Ég hef meiri trú á því að áframhaldandi jákvæð umfjöllun um alls konar kynhneigð…“

  Hver segir að þau geri það ekki líka?

  • Einar Steingrimsson

   Það má vel vera að ég hafi of miklar áhyggjur af þessu. En, sé það ekki misskilningur að hér kveði við nýjan tón í baráttu sem hingað til hefur náð stórkostlegum árangri með jákvæðum baráttuaðferðum, þá finnst mér ástæða til að spyrja hvort þetta sé skynsamlegt.

 • Anna María

  Sammála um að jákvæð barátta hefur sannarlega skilað miklum og góðum árangri. Hitt er svo annað mál að ég held að mörg okkar geri sér ekki alveg grein fyrir því hversu ógeðsleg framkoman við samkynhneigða, sérstaklega homma er oft á tíðum. Ég veit það vegna þess að mjög náinn mér er ungur hommi. Kannski er fólki hollt að sjá vibbann sem sumir þurfa að glíma við reglulega.

 • Haukur Hauksson

  Samtök 78 fá rausnarlegar greiðslur frá ríkinu árlega.
  Þessvegna eru ákveðin hagsmunir að takast á. Það er mikið undir hjá þessum samtökum að láta ástandið virðast verra en ella til þess að halda áfram að fá almannafé frá fjárlögum hvers árs.

  • Sigurður Guðmundsson

   Hvaðan hefur þú það að Samtökin fái „rausnarlega greiðslu“ frá ríkinu ár hvert? Og hvað hefur þú fyrir þér að setja það fram sem svo að samtökin séu í einhverjum leik til,að láta hlutina líta verr út en þeir eru? Hefur þú í fyrsta lagi einhverja hugmynd um stöðu hinsegin fólks á íslandi? Getur verið að þú tilheyrir jafnvel hópi samfélagsins sem nýtur mun meiri forréttinda en hinsegin fólk fyrir það eitt að falla inn í kynjanorm? Hefur þú tekið þátt í mannréttindavaráttu hinsegn fólks?
   Ég efast um að þú þekkir málefnið vel fyrst afstaða þín er þessi. Samtökin fá í fyrsta lagi enga rausnarlega greiðslu. Þau fá vissulega styrk líkt og flest mannréttindasamtök á landinu, en stuðningur við samtökin 78 er langt því frá hár og hafa samtökin t.a.m. ekki getað haft framkvæmdastjóra í fullu starfi í þónokkur ár. Mjög stór hluti fjármagns samtakanna kemur frá félagsgjöldum og verkefnatengdum greiðslum, en samtökin sinna einnig mörgum þjónustum líkt og ráðgjafaþjónustunni og jafningjafræðslu í skólum.
   En ég verð að heimta það að ég fái að meta það sjálfur hvernig komið er fram við mig sem hinsegin mann. Það er. Alls ekki þitt, eða ykkar að ákvarða það. Það er aðeins ég sem get túlkað það. Og það er eins um hinsegin samfélagið. Það er ekki meirihlutasamfeélagsins að tilkynna minnihlutanum að það sé allt í lagi og að það eigi að hætta þessu væli og vera bara glöð. Gleðigangan er full af gleði og kátínu. En það er líka vettvangur til að minna á að baráttunni er ekki lokið. Þessi komment sem finnast á facebook eru ekki örfá. Þau eru mjög algeng og nánast undandtekningarlaust að finna við fréttir vefmiðla sem fjalla um hinseing málefni. Það er nóg af fordómum í samfélaginu sem þarf að vinna í. Það er ekkert eðlilegt við það að segja bara „jæja, er þetta ekki bara ágætt, skiptir það nokkru máli að það er verið að berja nonna þarna úti á horni?“ Ekki gleyma því að það gerist líka frekar reglulega. Það er óeðlileg krafa af meirihlutasamfélaginu að heimta taumlausa gleði frá gleðigöngunni. Þetta er okkar ganga, þar sem við fáum að tjá okkur eins og við viljum fá að tjá okkur og meirihlutasamfélagið fær að horfa á. Ef boðskapur okkar fer í taugarnar á ykkur eru ágætis líkur á að einhverjir draugar séu enn að fela sig í hornunum á samviskuni. Þótt staðan sé frekar góð, þá er fásinna að ætlast til þess að við segjum bara fínt, við erum næstum komin með jafnrétti, hættum þessu bara og förum á djammið. Við erum enn annars flokks borgarar á meðan við getum ekki sagð að við höfum jafnrétti og það er hlutverk samtakanna að berjast fyrir jafnrétti. Það þýðir einfaldlega að það er langt þangað til samtökin pakka bara saman og fara á djammið.

 • Í það minnsta voru þessi ógeðfelldu spjöld býsna gleðisnautt stílbrot við gleðina sem sem hinsegin dagar ganga útá og þá ekki síst gleðigangan sjálf.

  Ógleðin er nógu áberandi þótt henni vísað brott út gleðigöngunni.

 • ég held að þú hafir hitt naglan á höfuðið hvað hér heima viðkemur Einar
  við erum frramlega í réttindabaráttu samkynhneigða miðað við æði mörg löndin en gleimum því ekki það verður og mun altaf verða til fólk sem úthúðar samkynhneigðum þannig er það bar en það fólk eins og þú rétirlega bendir á er komið í minnihluta.

 • Sveinn Snær

  Ég er ósammála, Samtökin eru á réttri leið og gangan var frábær.
  Skiltin stungu í stúf og virtust óþörf við fyrstu sín, við viljum ekki sjá þetta, við viljum ekki að þetta sé til, allavega ekki ég.
  En svo fór ég að hugsa að kannski er það nauðsynlegt, sér í lagi fyrir þá sem að draga nauðsyn hinsegin daga í efa, að sjá viðbjóðinn sem að við þurfum að sjá. Þó að minna sé um þetta í dag, og að við séum langt á undan meirihluta heimsins í þessum málefnum er alltaf viss sársauki sem að fylgir því að sjá fólk opinberlega óska manni alls ills, eða jafnvel dauða eins og sást á nokkrum þessara skilta, þó að manni sé bent á að þetta fólk eigi bara bágt þá er samt virkilega sárt til þess að hugsa að það sé fólk sem að finnst það í lagi að óska manni dauða og úthrópa manns fallegustu tilfinningar sem hroða og viðurstyggð.
  Mg grunar að það geri sér ekki margir grein fyrir þessu og finnist það jafnvel pjatt að vona að einn daginn muni maður ekki þurfa að sjá fólk úthrópa mann reglulega sem viðurstyggð.
  Baráttunni er ekki lokið.

 • Úlfar Viktor

  Það er ennþá til fólk sem hatar samkynhneigt fólk og vill drepa það. En það er nú í minnihluta. Svo so what?“ Þessi pistill er einhvernveginn svona. Þessi pistill er nefnilega lifandi sönnun þess að brýn þörf sé á þessari göngu og þessari baráttu. Maður þarf ekki leita langt yfir skammt til þess að reka sig á þessa fávisku.

  • Ég held einmitt að Einar hafi hitt naglann á höfuðið og barátta samkynhneigðra hafi einmitt náð flugi vegna þess að þeir sýndu jákvæða og uppbygilega mynd af sjálfum sér með aðferðum sínum og framgöngu — að þeir væru sigurvegar á sinn hátt því ekkert væri eðlilegra en að allir fengju að vera eins og þeir eru.
   Þeir létu á þessari löngu vegferð formlegrar baráttu sinnar algerlega vera að varpa kastljósi á hatursorð og þá sem vildu bjróta þá niður og féllu ekki fyrir þeirri freistingu að útmála sig sem fórnarlömd, heldur sem þá sem lýstu upp og sigruðust á erfiðri stöðu og nýttu hana í þágu allra og til að gera og skapa betra. Þeir ræktuðu eigið hugarfar og afstöðuna til þeirra sjálfra á uppbyggilegan hátt en nærðu ekki og ræktuðu fórnarlambshugarfarið og afstöðu til þeirra sem þolendur.
   Þegar ræktað er í samfélaginu hugarfar og afstaða fórnarlamba virðist ógerningur að finna punktinn eða aðferðina til að snúa til baka — hópurinn sjálfur gerir sig áfram undirmáls — er síður treyst til að gera, þora, breyta og að framkvæma — að stjórna — því innræting allra er að þeir sem honum tilheyra séu ekki gerendur sem breyti heldur fórnalömb sem ráði ekki við erfiðar aðstæður.

 • Einar Marel

  Það er orðið deginum ljósara að samkynhneigðir eru búnir að ná markmiðum sínum. Alltaf verða einhverjir til að úthúða þeim eins og þegar gyðingum,svörtum og aröbum er úthúðað. Það hverfur aldrei, annað er óraunhæft. Nú er svo komið að þeir sem skjóta á samkynhneigða verða að læðast með veggjum og sjá ekki til sólar lengi á eftir. En eitthvað virðist þeim (samkynhneigðum) erfitt að koma sér út úr fórnarlambshugsuninni og átta sig á því að þeir eru orðnir hluti af samfélaginu og gott betur en það. Því hvaða hópur fær þá þjónustu frá samfélaginu að heilu götunum er lokað og miðbærinn tekin undir gleðskap þessum hóp til handar. Þetta er á pari við það þegar þjóðin heldur 17 júní hátið eða fjölmennir á menningarnótt. Hvað vilja þeir meira. Að samfélagið falli fram og tilbiðji þá?

  • Sigurður Guðmundsson

   En hvað með hinsegin fólk sem er kki bara samkynhneigt? Þið gleymið þeim alltaf og að samtökin 78 berjast líka fyrir þeim. Jafvel þótt aðeins væri litið till samkynhneigðra, þá er alls ekki svo að allt sé komið, og það verður ekki komið fyrr en raunverulegu jafnræði verður náð. Með því er átt að það sé ekki litið niðrandi á hinsegin fólk, að það sé ekki verra að vera hinsegin í augum fólks, að viðhorf samfélagsins beri það ekki alltaf með sér að það sé verra að vera hinsegin og að við séum látin líða eins og annars flokks þegnar. En það verður eflaust erfiðasta baráttan að fá meirihlutann til að samþykkja það.

 • Ég held að Einar hafi hitt naglann á höfuðið og barátta samkynhneigðra hafi einmitt náð flugi vegna þess að þeir sýndu jákvæða og uppbyggilega mynd af sjálfum sér með aðferðum sínum og framgöngu — að þeir væru sigurvegar á sinn hátt og ekkert væri eðlilegra en að allir fengju að vera eins og þeir eru.
  Þeir létu á þessari löngu vegferð formlegrar baráttu sinnar vera að varpa kastljósi á hatursorð og þá sem vildu bjróta þá niður og féllu ekki fyrir þeirri freistingu að útmála sig sem fórnarlömd, heldur sem þá sem lýstu upp og sigruðust á erfiðri stöðu og nýttu hana í þágu allra og til að gera og skapa betra. Þeir væru gerendur sem sköpuðu og breyttu en ekki fórnarlömb. Þeir ræktuðu eigið hugarfar og afstöðuna til þeirra sjálfra á uppbyggilegan hátt en nærðu ekki fórnarlambshugarfarið.
  Þegar ræktað er í samfélaginu hugarfar og afstaða fórnarlamba virðist ógerningur að finna punktinn eða aðferðina til að snúa til baka — hópurinn sjálfur gerir sig áfram undirmáls lýtur sjálfur á sig sem fórnarlömb og þolendur og aðrir gera það líka — honum er síður treyst til að gera, þora, breyta eða framkvæma — að stjórna — því innræting allra er að þeir sem honum tilheyra séu ekki gerendur sem breyti og framkvæmi heldur fórnalömb sem ráði ekki við erfiðar aðstæður, — þolendur ákvarðanna annarra en ekki þeir sem byggja upp og taka ákvarðanir.

 • Samkynhneigðir hafa ekki „náð markmiði sínu“ á meðan kannanir sýna að samkynhneigðum unglingum líður verr en öðrum unglingum, andleg heilsa þeirra er verri en hjá öðrum unglingum, og þau eru margfalt líklegri en aðrir til þess að hafa reynt sjálfsvíg.

  Neikvæð viðhorf eins og þau sem voru opinberuð á skiltum í gleðigöngunni eru hluti af því umhverfi sem veldur vanlíðan samkynhneigðra ungmenna. Það er hægt að vera Pollýanna og loka augunum fyrir öllu neikvæðu og slæmu, en það hjálpar þessum krökkum ekki.

  • Einar Steingrimsson

   Telurðu að það hjálpi „þessum krökkum“ að flagga svona ógeðskommentum frá (eftir því sem ég best veit) algerlega óþekktu fólki? Hvernig hjálpar það þeim?

 • Það geta allir hópar fundið dæmi um hatursfull ummæli um sig á netinu, ESB sinnar og andstæðingar, sjálfstæðismenn og vinstri grænir o.s.frv. Enginn þessarra hópa hefur fjölmennt í geðshræringu niður á Austuvöll til að mótmæla þessu sem einhverju mannréttindabroti sem allt samfélagið beri sök á.

  Engum hefur verið sagt upp vinnunni fyrir að vera með eða á móti ESB aðild, en þess eru dæmi um að menn hafi verið reknir úr vinnunni með ólöglegum hætti, og það af opinberum aðila, fyrir að segja skoðun sína á samkynhneigð.

  Það er ljóst að samkynhneigðir njóta verndar umfram aðra hópa í þjóðfélaginu og því ekki tilefni fyrir þá að tapa sér í sjálfsvorkun.

 • Snæbjörn Björnsson Birnir

  Nú skulum við ekki falla í gryfjuna frægu. Að hinsegin dagar og gleðigangan eru orðin að föstum lið og fólki til ánægju er frábært, en það hefur sennilega aldrei verið markmiðið að gera þetta að fjölskylduhátíð og láta það nægja? Enn eru fordómar, sem birtast hinar 51 vikur ársins og sem samkynhneigt fólk finnur fyrir. Það er allt í lagi að fókusera á jákvæðni, en það verður galið, ef raunsæi er hent út um gluggann um leið og reynt að gera þetta að flottri ljósmynd, sem lýgur.

 • Óskar H. Valtýsson

  Er sammála pistilshöfundi, þessi spjöld með hatursummælum um samkynhneigða eiga ekki við í Gleðigöngunni, hún á að vera sigur- og fagnaðarhátíð eingöngu.

  En öll erum við fordómafull, slíkt er líklega hluti sjálfsbjargaratgervis mannsins og ármilljóna þróunar hans, er innbyggð fúnksjón sem hefur gert manninum kleift að forðast það sem er framandi eða óþekkt og felur í sér ímyndaða hættu. Mikilvægt er því að þekkja eigin fordóma og greina, spyrja sig að því hvers vegna eitthvað tiltekið og framandi veldur ótta eða óbeit og vinna á þeim ótta, reyna að nota skynsemina.

  Þrátt fyrir að samkynhneigðir, transfólk o.fl. hafi á undanförnum áratugum náð verulegum árangri á Vesturlöndum samt ískyggilega grunnt á fordómunum. Og mesta hættan stafar frá trúfólki hverskonar, sérstaklega trúfíflum sem nota fordæðulegar og grimmar forskriftir afdankaðra trúarrita til að verja eigin fordóma og segja, með vísan í trúarritin, að hitt og þetta sé syndsamlegt líferni, sérstaklega þó samkynhneigð, jafnvel að hún sé dauðasynd, segja samkynhneigða lifi óverðugu lífi.

  Skemmst er að minnast örlaga samkynhneigðra í Rússlandi Pútíns þar sem kirkjan krafðist þess að samkynhneigðir yrðu sviptir mannréttindum sínum og að ekki mætti einu sinni nefna samkynhneigð á nafn refsilaust. Svo þekkja margir skelfileg afdrif minnihlutahópa í Þýskalandi nasismans, þ.m.t. samkynhneigðra.

  Mikilvægt er því að vera á varðbergi, líka hér á landi, sælan getur verið skammvinn. Ef einhver upplausn verður í samfélaginu, hér eða annarstaðar, eru minnihlutahópar á borð við samkynhneigða í stórhættu. Af þeim sökum er nauðsynlegt að tala máli þeirra hvar og hvenær sem hægt er og halda því að ungmennum að fjölbreytt mannlíf sé af hinu góða.

 • Þorsteinn Jón Óskarsson

  Satt segirðu Óskar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur