Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um að ríkisstjórnin beiti sér fyrir „stofnun rannsóknarklasa á sviði taugavísinda og taugahrörnunarsjúkdóma“. Ýmsir hafa látið heyra það í sér að ekki sé gott að þingmenn reyni að handstýra vísindastarfi í landinu, enda sé ómögulegt að sjá fyrir á hvaða sviðum líklegast sé að framfarir verði í vísindarannsóknum, og alls ekki sé hægt að tryggja árangur á tilteknu sérsviði með því að veita í það fé.
Það er hins vegar skemmtileg tilviljun að Sigrún á dóttur að nafni Ragnhildur Þóra Káradóttir og kona með nákvæmlega sama nafn stundar einmitt rannsóknir í „neuroscience“, sem á íslensku útleggst sem taugavísindi. Í þjóðskrá er að vísu bara að finna eina manneskju með þessu nafni, en það hljóta að vera mistök; varla getur verið að Sigrún sé beinlínis að leggja til að Alþingi veiti sérstöku fé í rannsóknir á sérsviði dóttur sinnar?
Þetta er svakalega mikið Framsóknar.
Ég má til með að benda á að hún er fyrir löngu flutt af heimilinu, og að þær mæðgur hittast mun sjaldnar undanfarið en þær hefðu viljað, þannig að það er næstum því útilokað að þær hafi haft eitthað samráð með þetta mál.
Það er líka augljóst að hún er ekki að leggja fram þessa tillögu sem móðir, heldur sem þingmaður. Já, og flugvallavinur! Flug er líka vísindi. Viljum við ekki hafa flugvöll??
Ég vil trúa því að þingflokksformaðurinn hafi alls ekkert vitað um menntun dótturinnar og tengsl hennar við þennan geira. 🙂 En ef það er rangt hjá mér, þá er þetta ekkert annað en blygðunarlaust siðleysi að hætti stjórnmálamanna.
Þetta er líklega á gráu svæði því ekki getum við t.d álasað stjórnmálamanni fyrir að leggja til byggingu nýs spítala ef viðkomandi er giftur lækni.
Það er dálítið annað að leggja til byggingu spítala en framlög til rannsókna á ákveðnu sérsviði, þar sem ekki starfar sérstaklega margt fólk.
En ein höfuðreglan sem gildir um spillingarmál, í siðuðum samfélögum, er að valdafólk passi sig á að gera ekki hluti sem hægt er að gruna að snúist um spillingu.
‘Ekki á hún að gjalda þess fyrir að vera dóttir mín’, Jón Bjarnason var nú aldeilis ekki hræddur að notfæra stöðu sína til að skaffa börnum sínum starf. Spilling þar og spilling hér…sumsstaðar væri fólk látið taka pokann fyrir svona. En ekki á Íslandinu hinu góða.
enda Jón Bjarnasons úrvals Framsóknarmaður
WELCOME to ICELAND 🙂
Sigrún Magnúsdóttir er ekki sér á báti. Stærstur hluti þingmanna botnar hvorki í hlutverki sínu né stöðu, og finnst ekkert athugavert við að ganga erinda allskonar sérhagsmuna á Alþingi. „Sakleysið“ gagnvart slíkri spillingu er óskaplegt. Þeim finnst þetta ekki vera spilling, og eru þess vegna ekkert að fela það. Verst er að almenningur telur þetta eðlilegt líka. – Að Alþingi sé vettvangur almannahagsmuna – og einskis annars – er landsmönnum framandi.
Æji Einar. Ragnhildur er ekki á leiðinni til Íslands. Ég ræddi við Sigrúnu um þessa tillögu fyrir nokkru og er fullviss um það að hún er ekki að reyna að klæðskerasníða stofnun fyrir dóttur sína heldur gengur henni gott eitt til. Ragnhildur er framarlega á sínu sviði með fasta stöðu við Cambridge með vel fjármagnaða rannsóknarstofu á sínum snærum. Hún rannsakar ekki MND í dag.
Þetta auðveldar ekki umræðuna um vísindamál á landinu að beina henni í þessa átt.
Einbeitum okkur frekar að aðalatriðunum: Að vísindi eigi að styrkja í gegnum samkeppnissjóði.
Ég hef ekki haldið því fram að Ragnhildur sé á leiðinni heim. En það er nógu slæmt að valdafólk sé að reyna að stýra því hvert takmarkað rannsóknafé fer, og lítur afar illa út að reyna að beina því inn á sérsvið nákomins ættingja.
Ég held sem sagt ekki fram að Sigrún sé að reyna að hygla dóttur sinni. En það er nógu slæmt að vilja hygla sérstaklega, fyrir utan allar venjulegar fjárveitingar til visinda, sérsviði sem svo nákominn ættingi starfar á. Það er meira en nóg til að vekja grunsemdir um spillingu, og það á valdafólk ekki að gera.
Tökum hlíðstætt dæmi, Erna: Ég starfa erlendis og er ekki með nein plön um að flytja heim. Fyndist þér ekkert óeðlilegt við það ef móðir mín væri þingmaður og legði fram tillögu um sérstakar opinberar fjárveitingar til rannsókna í fléttufræði, sem er mín sérgrein innan stærðfræðinnar?
Út af fyrir sig virðingavert ef þingmaður vill styrkja stöðu grunnrannsókna á Íslandi. En maður hlýtur að gera þá kröfu að einhver snefill af skynsemi og raunsæi liggi þar að baka. En það er ekki tilfellið í þessari hugmynd þingkonunnar. Á þessu sviði (neuroscience) eru mikið um rannsóknir sem kosta gífurlegar upphæðir en engin trygging fyrir árangri, eins og Einar réttilega segir.
Fyrir neðan link í ZNZ Zürich, Sviss: Zentrum für Neurowissenschaften Zürich, Neuroscience Center Zurich.
Nær væri að leita samstarfs um slík verkefni og þá styrkt af t.d. ZNZ.
http://www.neuroscience.ethz.ch/about/znz_brosch12_e_WEB.pdf
Opinber fjárframlög til vísindarannsókna eru skiljanlega takmörkuð.
Þess vegna þarf að forgangsraða þeim verkefnum sem hægt er að styðja.
Ég tel heillavænlegast að Sigrúnu Magnúsdóttur verði haldið utan við þá vinnu 🙂
Afhverju getur þessi kona ekki bara lagt fram þingsályktunartilløgu um taugaransóknir á sauðkindum?, þá yrði ekkert vesen. það finnst altaf peningur í ríkisjóði fyrir sauðkindur og aðdáendur þerra.
Ég verð bara að segja, að ég get ekki orða bundist út af „vandlætingu“ og „hneyksli“ fólks út af þessu frumvarpi, sem telur sjálft sig vera hjartahreint.
Hér kemur þingkona fram með hugmynd og frumvarp að góðu málefni sem gæti leitt eitthvað gott af sér og skapað hér hátæknistörf, þá er það rifið og tætt í sundur og gert tortryggilegt af því að þingkonan er ekki í „réttum“ flokki.
Með öðrum orðum er gefið í skyn að þetta frumvarp sé sett fram í annarlegum tilgangi með sérhagsmuni að leiðarljósi og að um spillingu sé að ræða.
Ég verð bara að segja það, að ætla það að það liggi annarlegur tilgangur að baki þessari þingaályktunartillögu og að ætla Sigrúnu illt eitt með henni, sé ekkert annað en vænisýki og jafnvel öfundsýki.
Gæti ekki verið að dóttir hennar sem er sérfræðingur í taugarannsóknum, hafi nefnt það við móður sína, að það væri góð hugmynd að koma svona rannsóknarsetri á stofn hér á landi?
Og er eitthvað athugavert við það?
Meðalaldur fólks á Íslandi fer jú hækkandi, og því munu fleiri og fleiri eldri fá taugasjúkdóma hér á landi í framtíðinni eins og heilabilum og alzheimers.
Miðað við athugasemdir við fréttir í DV og visir.is út af þessu máli, sýnist mér reyndar ekki vera vanþörf á rannsóknarklasa í taugasjúkdómum hér á landi.
Svona viðbrögð við þessari þingsályktunartillögu gerir það bara að verkum að enginn hefur áhuga á að brydda upp á nýjungum og nýsköpun af ótta við að verða rægður og níddur niður og gerðar upp annarlegar hvatir.
Og það eru nákvæmlega svona viðbrögð við þessari þingsályktunartillögu sbr. athugasemdakerfi DV og visir.is, að manni langar ekki að búa á Íslandi, ef þessar athugasemdir endurspegla þjóðarsálina.
Af hverju í ósköpunum er eðlilegt að þingmaður leggi til sérstakar fjárveitingar, framhjá því umfangsmikla kerfi sem ríkið hefur til stefnumótunar í vísinda- og tæknimálum, og það til að styrkja eitt tiltekið, þröngt rannsóknasvið? Jafnvel þótt bara væri hugsað um rannsóknir á orsökum tiltekinna sjúkdóma, af hverju velja þessa sjúkdóma sérstaklega, þegar þeir skipta tugum eða hundruðum alvarlegu sjúkdómarnir semherja á fólk?
Það er líka rétt að hafa í huga að líkurnar á að rannsóknastarf á Íslandi á þessu sviði beri árangur sem nýtist til að fást við sjúkdóma eru nánast engar. Þannig er það bara með vísindarannsóknir; það er ekki bara hægt að setja nokkra tugi milljóna í slíkar rannsóknir í nokkur ár og búast við að það fáist niðurstöður sem nýtist til að lækna fólk af sjúkdómum. Auk þess yrðu slíkar fjárveitingar aldrei nema dropi í það haf rannsókna á þessu sviði alþjóðlega, svo það er vandséð af hverju Ísland ætti að velja nákvæmlega þetta svið til að setja örlítinn pening í.
Fyrir utan þetta er málið svo að það lyktar af spillingu að ætla að setja peninga almennings í rannsóknir á sérsviði sem dóttir manns starfar á. Stjórnmálafólk á að varast allt sem getur einu sinni leitt til grunsemda um spillingu. Og ég teldi meiri ástæðu til að flytja frá Íslandi vegna þeirrar hrikalegu spillingar sem þar viðgengst, en öfugt.
Leiðinlegt að góðar tillögur þurfi að koma í gegnum blóðbönd … það er hvort tveggja heiðarlegt og spillt.
Heiðarlegt af því að hún fær ekki eitthvert flokksystkyni sitt til þess að leggja fram málið, spillt af því að þarna er hagsmunatenging til valdhafa.
Ég hef líka hagsmunatengingu í þessu, konan mín er taugavísindamaður. Ég get vel stutt þessa tillögu vegna þess að ég veit hvers konar verkefni er verið að vinna á þessu sviði. Ég veit líka að það er verið að vinna að fullt af öðrum góðum verkefnum á fullt af öðrum sviðum, til dæmis á því sviði sem ég stundaði rannsóknir við, greiningu námslýsigagna (learning analytics).
Eina góða lausnin er því ekki að leggja til þess að eitthvað ákveðið svið fái aukin verkefni, heldur búa til aðstöðu þar sem öll svið geta komið jafnt að borðinu.
Stjórnvöld geta alveg lagt almenna stefnu í svona málum, til dæmis lagt almenna styrki til orkurannsókna, læsisrannsókna, … almenn stefnumótun, ekki áhersla á eitt ákveðið svið vísinda. Stjórnmálamenn eru ekki vísindamenn og ættu ekki að skipta sér af nema í almennri stefnumótun.