Mánudagur 13.10.2014 - 10:15 - 27 ummæli

Ósannindamanneskjan Þórey Vilhjálmsdóttir

Þórey Vilhjálmsdóttir, sem enn er aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem enn er innanríkis-(en ekki dóms- og lögreglumála-, en samt hælisleitendamála)ráðherra, hefur stefnt tveim blaðamönnum DV fyrir meiðyrði. Ástæðan er að þeir héldu því fram að Þórey væri „starfsmaður B“, sem nefndur var í dómi héraðsdóms í lekamálinu. Örfáum klukkutímum eftir að þetta ranghermi birtist í DV var það leiðrétt, og beðist afsökunar, og blaðamennirnir sendu þar að auki strax fréttatilkynningu til fjölmiðla til að tryggja að ranghermið fengi ekki meiri útbreiðslu.

Blaðamennirnir, Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson, höfðu sem sagt skrifað frétt þar sem haldið var fram að „starfsmaður B“ væri Þórey, en leiðréttu það strax þegar þeir komust að því að þar var átt við hinn aðstoðarmanninn, Gísla Frey Valdórsson, sem nú sætir ákæru í lekamálinu.

Þórey hugsaði sig vel og lengi um, eins og kemur fram í yfirlýsingu frá henni um stefnuna. Niðurstaða þessarar vönduðu ígrundunar hennar var að eðlilegt sé að ummælin skammlífu verði dæmd „dauð og ómerk“ og að blaðamennirnir greiði henni þrjár milljónir króna vegna þess miska sem þetta nokkurra klukkustunda ranghermi hefði valdið henni.

Þetta er þó ekki nóg, finnst Þóreyju. Hún komst að þeirri niðurstöðu, þegar hún hafði hugsað málið vandlega, að eðlilegt væri að blaðamennirnir sætu í fangelsi í eitt ár vegna þessa.

Nú vill svo til að í sjálfri stefnunni, sem birt hefur verið opinberlega, eru rangfærslur um það sem blaðamennirnir skrifuðu um þetta mál. Í stefnunni stendur meðal annars:

„Sú umfjöllun náði svo hámarki með þeim ummælum sem krafist er ómerkingar á þar sem beinlínis er fullyrt að stefnandi hafi lekið minnisblaðinu án þess að þær staðhæfingar eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum.“

Eins og sjá má af upphafi stefnunnar, þar sem þau ummæli eru talin upp sem krafist er ómerkingar á, er hvergi „fullyrt að stefnandi hafi lekið minnisblaðinu“. Einnig segir í yfirlýsingu Þóreyjar:

„Ýjað var að því í nokkra mánuði að ég hafi lekið trúnaðargögnum þar til að blaðamennirnir bitu höfuðið af skömminni með því að birta umræddar ásakanir sem sannaðar staðhæfingar í blaðinu þann 20. júní sl.“

Þetta er líka rangt; því er hvergi haldið fram í blaðinu að um sé að ræða sannaðar staðhæfingar þess efnis að Þórey hafi lekið skjalinu.

Þórey ber sem sagt rangar sakir á blaðamenn í stefnunni, sakir sem vega að starfsheiðri þeirra, og þær ásakanir hefur hún enn ekki dregið tilbaka, mörgum dögum eftir að þær birtust. Þeir Jón Bjarki og Jóhann Páll munu þó ekki ætla að stefna Þóreyju fyrir meiðyrði, né heldur krefjast þess að hún dúsi í svartholinu í heilt ár.

Þórey hefur reyndar oftar en einu sinni sagt ósatt um lekamálið, þótt ástæðulaust sé að telja það allt upp einu sinni enn. Þess má hins vegar geta að þegar ég spurði hana, í tölvupósti, hvort hún hefði haft lekaskjalið eða eitthvert svipað skjal undir höndum svaraði hún, þann 7. janúar í ár, að hún hefði ekki haft það. Miðað við það sem kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 7. apríl er hins vegar ljóst að hún hafði fengið skjalið í tölvupósti þann 19. nóvember. Hér eru spurningarnar sem ég spurði Þóreyju:

Hér að neðan er texti minnisblaðs sem virðist vera það sama og fjallað var um í fréttum Fréttablaðsins/Vísis og Morgunblaðsins fyrir nokkrum vikum. Að gefnu tilefni spyr ég þig eftirfarandi spurninga:

1. Hefur þú haft þetta minnisblað, eða minnisblað með svipuðum texta, undir höndum?

2. Hefur þú afhent aðilum utan ráðuneytisins þetta minnisblað eða minnisblað með svipuðum texta um mál Tony Omos?

Og svar hennar:

Nei ég hef ekki haft þetta minnisblað og því augljóslega ekki sent það heldur.

Þórey Vilhjálmsdóttir vill að blaðamenn sem leiðréttu ranghermi um hana fáum klukkustundum eftir að það birtist verði dæmdir til að greiða henni nokkrar milljónir, og látnir sitja í fangelsi í ár. Sjálf segir hún hins vegar ósatt um blaðamennina á opinberum vettvangi, og í starfi sínu sem háttsettur starfsmaður ráðuneytis.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (27)

  • Hver væri sanngjörn sekt fyrir fréttaflutning DV? Eða eiga blaðamenn að geta fríað sig frá ábyrgð ef þeir afsaka sig bara nógu snemma?

    • Hvað í þessum fréttaflutningi DV telur þú að ætti að vera refsivert?

    • Að DV leki trúnaðarupplýsingum um að saklaus borgari sé grunuður um glæp. Og spyrji afhverju sé ekki búið að sparka viðkomandi? Eftir margra mánaða pönkun og meira að segja beinar hótanir frá ritstjóra DV!

      Ætli þetta væri ekki kallað einelti einhverstaðar?

      Að halda því fram að DV hafi stundað „rannsóknarblaðamennsku“ í þessu máli er náttúrulega bara aðhlátursefni.

    • Einar Steingrimsson

      Kalli: Hvað áttu við með að „DV leki trúnaðarupplýsingum um að saklaus borgari sé grunuður um glæp“? DV lak engum upplýsingum. Og, ég spyr aftur, hvað telurðu að ætti að vera refsivert í því sem blaðamenn DV eru kærðir fyrir hér?

    • Einar Steingrimsson

      Auk þess var Þórey grunuð um umræddan glæp þegar þetta var skrifað …

    • Allar upplýsingar DV láku frá lögreglunni og innanríkisráðuneytinu. Í sinni einföldustu mynd er málið þannig: Ritstjórn og blaðamenn DV hömruðu á saklausri manneskju svo mánuðum skiptir í blaðagreinum, persónulegum upplýsingum, veffréttum og beinum persónulegum hótunum.

      Blaðamennirnir lögðu þennan starfsmann innanríkisráðuneytisins í einelti.

      Auðvitað var þetta ekki blaðamennska heldur einungis pólitísk krossferð hjá þeim tveimur VG liðum og Reyni. Þar sem tilgangurinn helgar meðalið á eins ljótan hátt og hægt er.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Ummæli blaðamanna eru dauð og ómerk nú þegar og urðu það þegar þeir leiðréttu og báðu afsökunar.

    Hún er í einhverjum furðulegum leiðangri stúlkukindin. Kannski eðlilegt þar sem hún er í SjálfstæðisFLokknum.

  • Þessi kona er ekki í lagi.

  • Sigfinnur Geira

    Einar, maður einn skrifar bók um annan mann og uppgötvar svo þegar bókin kemur úr prentun, að meinleg villa er í bókinni um manninn sem hann skrifar um, en sá hinn sami er þekktur og umdeildur í samfélaginu.

    Höfundur bregst strax við þegar hann uppgötvar þessa villu og biðst afsökunar á þessu og gefur út leiðréttingarblað með bókinni, þar sem villan er leiðrétt.

    Maðurinn sem er til umfjöllunar í bókinni ákveður hinsvegar að kæra höfundinn fyrir þessa villu í bókinni, þar sem að maður þessi telur að vegið sé að mannorði sínu með rangfærslum og vill því fá höfund bókarinna dæmdan.

    Er rétt að dæma höfund bókarinna út af þessu?

    • Þetta var ekki „meinleg villa“.

      Þetta voru stanslausar ofsóknir Reynis Traustasonar og blaðamannanna á hendur saklausum málsaðila svo mánuðum skipti.

      Auðvitað á hún að verja hendur sínar, þó ekki væri til þess eins að svona ógeðfelld misnotkun eigi sér ekki stað aftur.

      Þú eða ég gætum verið næstir.

    • Einar Steingrimsson

      Í hverju fólust þessar ofsóknir, Kalli? Hvað nákvæmlega telurðu að DV hafi gert rangt gagnvart Þóreyju í þessu máli? Það væri gott að fá dæmi, ekki bara órökstuddar fullyrðingar um ofsóknir.

    • Ef sakamál hjá stórum vinnuveitanda kæmi upp á yfirborðið og fjölmiðill tæki upp á því að pönkast á starfsmanni þar í rúmlega hálft ár án nokkura sannana um sekt viðkomandi?

      Hvað kallast það?

      http://www.dv.is/frettir/2014/1/30/tengdadottirin-medal-theirra-sem-kaerdir-eru/
      https://www.dv.is/frettir/2014/2/24/hanna-birna-og-logreglan-LW04Y0/
      http://www.dv.is/frettir/2014/2/26/hringurinn-threngist-917X5Y/
      http://www.dv.is/frettir/2014/2/2/thorey-bad-um-ad-ekki-yrdi-raett-um-lekamalid-hja-gisla-marteini/

      O.s.frv, o.s.frv. það eru hundruðir greina þarna hjá DV ásamt fleirum eins og um skilnað starfsmannsins.

      Hverskonar fréttamennska er þetta eiginlega?

    • Einar Steingrimsson

      Þú svaraðir ekki spurningunni, Kalli …

    • Lagabrotið fellst í því að ítrekað hafa borið út ádróttanir um að starfsmaðurinn hafi framið lögbrot (alm. hegningarlög. 235 gr). Sjá DV t.d. 30 jan, 2 feb. 18.júní, o.s.frv.

      Það er þó ekki það alvarlega í mínum augum heldur þetta ógeðfellda einelti á hendur saklausri ungri konu sem stóð yfir í meira en hálft ár.

    • Ásmundur

      Sigfinnur Geira, þetta gerðist einmitt þegar Björn Bjarnason fullyrti í bók sinni ranglega að Jón Ásgeir hefði verið dæmdur fyrir fjársvik.

      Þegar honum var bent á það viðurkenndi hann mistökin og baðst afsökunar en gaf ekki út leiðréttingarblað.

      Samt sem áður fór Jón Ásgeir í mál og krafðist bóta enda ljóst að bókinni varð ekki breytt og margir áttu eflaust eftir að lesa hana um ókomin ár án þess að vita af rangfærslunni.

      Ummælin voru dæmd dauð og ómerk en ég held að Björn Bjarnason hafi alveg sloppið við að greiða bætur. Og bókin var ekki gerð upptæk.

      Það er töluverður munur á því að vera með rangfærslur í bók eða fréttablaði vegna þessa að ummælin í bókinni eru miklu líklegri til að lifa áfram með þjóðinni. Þess vegna voru rangfærslur Björn Bjarnasonar alvarlegri en mistök DV.

      Það ætti að gefa vísbendingu um að vegferð Þóreyjar mun ekki bera neinn árangur annan en að ákveðin ummæli verði dæmd dauð og ómerk sem þau voru reyndar áður en málaferlin hófust.

      Þetta verður því sneypuför fyrir Þóreyju.

    • Einar Steingrimsson

      Kalli: Ég veit ekki hvort það þýðir að reyna að ræða þetta meira við þig, því þú styður aldrei staðhæfingar þínar þannig að hægt sé að ganga úr skugga um hvort þær eru réttar. Ég sé t.d. ekki neinar aðdróttanir um ólögmætt athæfi í frétt DV 30. janúar eða 2. febrúar, sem þú bendir á.

      Það er ekki nóg, vilji menn halda uppi vitrænni umræðu, að staðhæfa hluti án þess að útskýra með skiljanlegum hætti hvað er átt við. Það hefur þú ekki gert; þú hefur ekki tiltekið nein ummæli í fréttum DV sem fela í sér aðdróttanir um lögbrot.

    • Einar: Hlekkirnir á fréttina eru fyrir ofan.

      „Samkvæmt heimildum DV úr þremur mismunandi áttum – innan úr ráðuneytinu, af fréttastofu 365 og úr Hádegismóum – átti Þórey símtöl við fréttamenn um málefni hælisleitendanna tveggja þann 19. nóvember, daginn áður en upplýsingar úr minnisblaðinu um Tony Omos birtust í Fréttablaðinu og á vef Morgunblaðsins. “
      http://www.dv.is/frettir/2014/2/2/thorey-bad-um-ad-ekki-yrdi-raett-um-lekamalid-hja-gisla-marteini/

      Þarna er verið að ýja að því að Þórey sé sek um lögbrot. Fréttin er um leka minnisblaðsins og mynd birt af henni.

      Þessi staðhæfing var ítrekuð aftur og aftur í DV (c.a. 16 sinnum) og hefur að mér vitandi ekki verið leiðrétt eða afsökuð. A.m.k. hafa fréttirnar ekki verið uppfærðar þrátt fyrir að staðhæfingin um símtöl Þóreyjar sé kolröng. Þetta mun líklega hanga inni til elífðarnóns og Þórey máluð sem líklegur lögbrjótur þangað til slökkt verður á Internetinu.

    • Einar Steingrimsson

      Hér er ekki verið að drótta að Þóreyju neinum afbrotum. Og það hefur ekki einu sinni komið neins staðar fram svo ég viti til að Þórey hafi ekki átt samtöl við fréttamenn þennan dag. Þar að auki segist DV hafa heimildir fyrir þessu, en fullyrðir ekki að svo sé.

      Sam sagt, DV er hér EKKI að ásaka Þóreyju um lögbrot.

    • Auðvitað er DV að ýja sterklega að því að Þórey hafi lekið upplýsingunum. Það er algjör óþarfi að spila okkur sem einhverja sakleysingja.

      Nú hefur aftur á móti komið fram að einungis Gísli hafði samband við þessa fjölmiðla. En DV leiðréttir að sjálfsögðu ekki neitt á vefnum þrátt fyrir að hafa haldið öðru fram í hálft ár enda hefur málið frá upphafi verið pólitísk krossferð.

      Hvað er annars að frétta af lekamálinu í ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, flokksfélaga annars blaðamannsins?

    • Einar Steingrimsson

      Kalli: Hvar hefur þetta komið fram?:

      „Nú hefur aftur á móti komið fram að einungis Gísli hafði samband við þessa fjölmiðla.“

  • @Kalli

    Við skulum spyrja að leikslokum. Hér er ekki allt sem sýnist máttu vita.

  • Þetta er ekkert hjal. Aðstoðarmaður HB HEFUR verið ákærður. Við skulum spyrja að leikslokum, þe þegar þessu máli er lokið. Þú veist ekkert hvort öll kurl eru komin til grafar – er það?

  • Sigfinnur Geira

    Ásmundur, nákvæmlega.
    Þetta dæmi er um mál Jóns Ásgeirs gegn Birni Bjarnasyni.

    En af því að þetta var Björn Bjarnason, þá finnst mörgu það bara fínt að sá aðili sem þetta sama fólk finnst vera „góði“ útrásarvíkingur, hafi fengið Björn dæmdan fyrir meiðyrði.

    En þetta sama fólk fyndist aftur á móti það vera ósanngjarnt að blaðamennirnir á DV yrðu dæmdir fyrir samskonar gerning og Björn Bjarnason, af því að þessir blaðamenn eru að mati þessa fólks að gera góða hluti.

    Mál þessi eru sambærileg, og alveg sama þó að blaðamennirnir á DV hafi leiðrétt rangfærslur sínar, þá lifa ummæli þeirra og rangfærslur um Þóreyju, góðu lífi á netinu, því netið gleymir engu.
    Þess vegna ætti að dæma þessa fíra fyrir meiðyrði.

  • Sigfinnur Geira

    En sanniði til, verði blaðamennirnir á DV dæmdir fyrir meiðyrði, mun einhver „góðhjartaður“ standa fyrir styrktartónleikum eða styrktarsamkomu fyrir þá, svo að þeir geti greitt sektina.

    Blaðamennirnir yrðu þá hinsvegar að hafa í huga, að styrktarfé sem þetta eru skattskyldar tekjur sem þeim að gefa upp til skatts, því gefi menn ekki upp styrktarfé til skatts, telst það til skattalagabrota.

  • Er allt samsæri kommúnista gegn Flokknum.

  • Ólafur Bjarni Halldórsson

    Þekkja menn einhver dæmi þess að aðstoðarmaður sem ráðherra skipar sjálfur sé ákærður fyrir saknæmt athæfi og ráðherra siti eins og ekkert hafi í skorist?

    Rannsóknin hefur verið tímafrek vegna þess eins að sá eða þeir sem vita sannleikann í málinu hafa lagt sig fram um að breiða yfir hann. Ósannar yfirlýsingar sem hraktar hafa verið eru orðnar svo margar að vart verður tölu á þær kastað. „Nei ég hef ekki haft þetta minnisblað og því augljóslega ekki sent það heldur“ er aðeins hluti af röð ósanninda sem aðeins geta skaðað það ráðuneyti sem er sett yfir lög og rétt í landinu. Kæran á hendur blaðamönnunum er því í besta falli grjótkast úr glerhúsi. Kröfurnar um sekt og fangavist súrrealískar.

    Verður ekki þetta fordæmi um þrásetu ráðherra prýðilegt fordæmi til að sitja sem fastast í ráðuneyti rúinn trausti?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur