Fimmtudagur 13.11.2014 - 10:15 - 4 ummæli

Útlendingafordómar hjá Árna Páli, eða …?

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar þann 1. nóvember síðastliðinn sagði formaður flokksins, Árni Páll Árnason, meðal annars þetta:

„Íslendingar með meiri menntun flytja utan. Útlendingar með litla skólagöngu flytja til landsins.“

Ég sendi Árna Páli tölvupóst fyrir viku (og síðan tvær ítrekanir) og spurði hvað hann hefði fyrir sér í þessari staðhæfingu. Hann hefur ekki svarað. Einu gögnin sem ég hef rekist á sem tengjast þessu er Viðhorfskönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Fjölmenningarseturs frá október 2009. Sú könnun gefur alls ekki áreiðanlega mynd af skólagöngu innflytjenda á Íslandi, af því að hún er byggð á svörum fólks sem náðist í og vildi taka þátt, svo ekki er tryggt að úrtakið sé dæmigert. En þetta eru einu gögn sem ég hef rekist á um þetta (eftir ábendingu í góðum pistli Árna Matthíassonar um útlendingafordóma, í Morgunblaðinu 4. nóvember).

Af þeim innflytjendum sem svöruðu viðhorfskönnuninni 2009 höfðu um 22% lokið starfsnámi eða iðnnámi, um 13% bóklegu framhaldsskólanámi og um 51% háskólanámi. Nú veit kannski enginn hvaða skólagöngu þeir Íslendingar hafa lokið sem flust hafa frá landinu síðustu árin, en samkvæmt tölum Hagstofunnar höfðu árið 2010 aðeins um 25% Íslendinga lokið háskólanámi og um 36% framhaldsskóla.

Nú er auðvitað ekki útilokað að Árni Páll hafi í höndunum gögn sem styðji staðhæfingu hans, en ég leyfi mér að efast um það, sérstaklega í ljósi þess að hann vill ekki svara spurningu minni, sem ætti að vera einfalt mál, ef hann getur bent á slík gögn. Sá grunur er því sterkur að hér sé Árni Páll að staðhæfa hluti sem hann veit ekki.

Það væri kannski ekki stórmál þótt formaður stjórnmálaflokks henti á lofti tölfræðilegar staðhæfingar sem hann hefur ekki neinar heimildir fyrir, en það er verra en bagalegt að gera slíkt í máli sem þessu, þar sem fordómar gegn útlendingum eru óþægilega algengir á Íslandi og ekki bætandi á þá.

Það gerir þetta mál líka verra að þetta er ekki í fyrsta sinn sem Árni Páll hefur sagt „óheppilega“ hluti um útlendingamál. Í kosningasjónvarpi RÚV í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor, þar sem fjallað var um útspil Framsóknar í moskumálinu, sagði Árni nefnilega að það væri eðlilegt og málefnalegt að fólk hefði „ótta í brjósti um stöðu sína og um fólk frá framandi löndum“. Þótt hægt sé að skilja slíkan ótta, sérstaklega í samfélagi þar sem stöðugt dynur á okkur fordómaáróður, þá er skelfilegt að formaður stjórnmálaflokks haldi því fram að hann sé eðlilegur og málefnalegur.

Ég geri ekki ráð fyrir að Árni Páll sé rasisti í venjulegri merkingu þess orðs, en rasisminn, eins og svo margt annað ljótt, læðist gjarnan bakdyramegin inn í hugskot okkar. Ég geri líka ráð fyrir að langflestu Samfylkingarfólki bjóði við útlendingaandúð, og vilji ekki sjá slíkt í flokki sínum. En þá þarf líka að taka til í huga formannsins, og sjá til þess að hann losi sig við vafasamar hugmyndir og falli ekki aftur í þá gryfju að éta upp fordómana sem eru illu heilli á sveimi í samfélaginu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • „Íslendingar með meiri menntun flytja utan. Útlendingar með litla skólagöngu flytja til landsins.“

  Þetta eru tvær staðhæfingar og báðar sannar.

  Það eru mörg dæmi um að Íslendingar með mikla menntun flytji utan.

  Það eru mörg dæmi um að útlendingar með litla menntun flytji til landsins.

  Saman fela þær ekki nauðsynlega í sér þær ályktanir sem þú dregur. um meintan rasisma Árna.

  En ég fæ ekki betur séð en að þú haldir því fram, af gögnum sem þú telur ekki trúverðug, að helmingi fleiri háskólamenntaðir flytji til landsins en hinir sem fara héðan.

  Það er skemmtilegt.

  • Einar Steingrimsson

   Jóhann: Ef þú getur bent á gögn sem sýna að þessar staðhæfingar séu sannar, þá væri gott að þú gerðir það.

   Og það er rangt hjá þér, eins og augljóst er ef þú lest það sem ég skrifaði, að ég haldi fram að „helmingi fleiri háskólamenntaðir flytji til landsins en hinir sem fara héðan.“

 • Guðný Ármannsdóttir

  Svo er annað. Ómenntaðir sjá um ýmis störf sem þarf að sinna. Skúra spítalana og hjúkrunarheimilin og skipta á rúmunum hjá þeim sem þar dvelja. Verkamannastörf í útflutningsgreinum, Afgreiða okkur í matvörubúðunum, Sinna ýmsum öðrum þjónustustörfum og ferðaþjónustu. Sjá um sorpið okkar, halda götum hreinum og heilum. Þrífa allar þessar ríkisstofnanir sem búið er að byggja. Þrífa meira að segja háskólann líka og Alþingi og ráðhúsið.

  Hvað gerðum við án þeirra? Hvers vegna er látið eins og ómenntðir séu samfélagsbaggi? Hinir óhreinu?

 • Guðný Ármannsdóttir

  Það kostar samfélagið lítið að mennta þá óskólagengnu. Þeir krefjast lítilla launa fyrir verk sín. Hvernig skyldi samfélag funkera ef allir, hver einasti væri með háskólapróf? Hver þrífur? Eða myndum við bara líða undir lok eins og Rómarveldi?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur