Þriðjudagur 25.11.2014 - 10:15 - Rita ummæli

Útvistun: Saumað að láglaunafólki

[Þessi grein birtist í Kvennablaðinu í gær]

Talsvert hefur verið fjallað í fjölmiðlum síðustu daga um útvistun á ræstingum í opinberum stofnunum, eins og Landspítalanum og Stjórnarráðinu. Í gær skýrði ég hér frá tilraunum mínum til að fá upplýsingar um ástæðurnar að baki því að Rekstrarfélag Stjórnarráðsins sagði nýlega upp sautján ræstingakonum, í því skyni að bjóða verkið út. Erfiðlega gengur að fá þær upplýsingar, en ýmislegt í því sem þegar er komið fram vekur grunsemdir um að málið sé ekki eins einfalt og þeir vilja vera láta sem ábyrgðina bera.

Aðgerðir af þessu tagi virðast byggja á svokallaðri Útvistunarstefnu ríkisins, þar sem segir meðal annars þetta:

„Útvistun er ætlað að auka skilvirkni í rekstri ríkisins með því að innleiða samkeppni við veitingu þjónustu. Með útvistun er þannig dregið úr kostnaði ríkisins við kaup og veitingu þjónustu.“

Það er auðvitað gott og blessað að ríkið fari eins vel með peninga og mögulegt er, og auðvitað er sjálfsagt í mörgum tilvikum að láta aðra en fasta starfsmenn hins opinbera leysa verkefni fyrir ríkið, ef það er ódýrara. Það sem vantar þó algerlega í umrædda útvistunarstefnu er krafan um að athuguð séu þau samfélagslegu áhrif sem slíkar útvistanir geti haft. Þar er annars vegar um að ræða hreina útreikninga á því hvort ríkið muni tapa eða spara á útvistun þegar tekið er tillit til allra þátta sem áhrif hafa á fjárhag ríkisins og annarra opinberra aðila.  Hins vegar um samfélagslega ábyrgð hins opinbera gagnvart því fólki sem verður fyrir barðinu á því að vinna þess er útvistuð.

Jón Daníelsson gerði nokkuð ítarlega úttekt á því varðandi brottrekstur ræstingakvenna stjórnarráðsins, þar sem hann bendir á, meðal ýmissa annarra þátta, að talsverðar líkur séu á að einhverjar þeirra verði í kjölfarið atvinnulausar, sem óhjákvæmilega kostar hið opinbera talsvert fé. Þannig gæti útvistun á endanum valdið tapi fyrir opinbera aðila, þótt útreikningarnir sýni annað í upphafi, af því að þeim sem þá gera ber ekki að taka tillit til slíkra þátta.

Það sem er þó kannski verra er að ekkert er minnst á samfélagslega ábyrgð ríkisins þegar svona verkefni eru annars vegar. Kannski má rekja ástæðurnar til þess að stefnan var samin 2006, þegar Ísland var best í heimi, Viðskiptaráð lýsti yfir að Ísland gæti ekkert lært af hinum Norðurlöndunum af því að við stæðum þeim miklu framar á flestum sviðum, og ríkisstjórnin samþykkti nánast allar kröfur Viðskiptaráðs um lagasetningar. Í stefnunni er talað fjálglega á þessum nótum, um að útvistun og markaðsvæðing verkefna ríkisins leiði til þess að „Sérþekking og reynsla nýtist þannig atvinnulífinu í heild og styrkir alþjóðlega samkeppnisstöðu þess“, en sem sagt ekkert minnst á ábyrgð ríkisins gagnvart því fólki sem verður fyrir barðinu á slíkri útvistun til einkaaðila.

Í tilfelli ræstingakvennanna í stjórnarráðinu er verið að ráðast á kjör láglaunafólks, og trúlega hrekja margt af því út í atvinnuleysi síðustu árin sem hefðu átt að tilheyra starfsævinni. Þar er hvorki hirt um hver hinn endanlegi kostnaður verði fyrir ríkið og aðra opinbera aðila, hvað þá að nokkru máli skipti hvaða áhrif þetta muni hafa á andlega líðan kvennanna sem margar hafa sinnt þessu starfi afar lengi.

Í stuttu máli virðist útvistunarstefna ríkisins, í mörgum tilfellum, ganga út á að lækka laun fólks sem er þegar með mjög lág laun, og skipta „hagnaðinum“ sem af hlýst á milli ríkissjóðs og fólks úti í bæ sem fær að græða þannig á vinnu annarra, án þess að nokkur ástæða sé til að ætla að það sé í sjálfu sér til hagsbóta fyrir almenning, þ.e.a.s. ríkið. Nema hvað alls er óvíst að sparnaður ríkisins verði nokkur, þegar tekið er tillit til áhrifa þess að segja upp viðkomandi láglaunafólki. Þess vegna er svo erfitt að verjast þeirri tilhugsun að markmiðið sé ekki síst að geta hyglt einkavinum valdsins, enda dæmin um slíkt mýmörg.

Sá grunur minnkar ekkert þegar haft er í huga að ráðherrarnir sem bera ábyrgð á þessum aðförum láta almenning borga undir sig lúxusbíla án þess að nokkur skipti sér af því hversu miklu af almannafé þeir eyða í það.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur