Fimmtudagur 10.12.2015 - 11:59 - 5 ummæli

Opið bréf til Ólafar Nordal um hælisleitendur

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Sæl Ólöf,

Þegar ég ákvað að skrifa þér var það þessi frétt sem ég hafði í huga, og ætlaði eiginlega bara að fjalla um hana:

http://www.dv.is/frettir/2015/12/8/fjogurra-manna-fjolskylda-rekin-ur-landi-langveikur-sonur-faer-ekki-lyf/

Og bara að biðja þig, kurteislega og innilega, að sýna ekki þá grimmd að vísa þessu fólki úr landi. Sem ég geri hér með. En, svo rifjuðust upp fyrir mér fleiri mál sem þú berð ábyrgð á.

Íslensk yfirvöld hafa hræðilega oft komið illa fram við hælisleitendur síðustu árin. Ég þekki vel til nokkurra mála þar sem bæði Útlendingastofnun og forverar þínir á ráðherrastóli hafa tvímælalaust brotið gegn þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að. Ísland hefur ekki beinlínis fengið neina dóma á sig hjá Mannréttindadómstóli Evrópu í málefnum hælisleitenda enn sem komið er, en óhætt er að segja að einn af forverum þínum hafi gert sig sekan um mannréttindabrot samkvæmt dómum MDE, eins og fram kemur í því sem er reifað hér, um brot sem afsökuð voru, ranglega auðvitað, með Dyflinnarreglugerðinni:

http://stofnanir.hi.is/mannrettindastofnun/sites/files/mannrettindastofnun/Mannrettindi%201%20hefti%202011%203%20pr.pdf

Nýlega var sagt frá því í fréttum að til stæði að senda hælisleitendur tilbaka til Ítalíu, með skírskotun til Dyflinnarreglugerðarinnar. Það er ómannúðlegt í meira lagi, því allir vita hvernig staðan er í málum flóttamanna þar. Það er líka lítilmannlegt af jafn ríku landi og Íslandi, sem hefur tekið á móti svo ótrúlega fáum hælisleitendum. Ég vona að þú takir ekki þá áhættu að MDE muni úrskurða að þú hafir gert þig seka um mannréttindabrot, sem væri ekki bara ljótt í sjálfu sér, heldur enn verra í ljósi þess að þú ert æðsta vald í mannréttindamálum á Íslandi.

En ef þú stöðvar ekki brottvísanir til Ítalíu, sem þú hefur sjálf lýst yfir að sé ekki „öruggt land“ (sem er alveg rétt hjá þér), þá áttu á hættu að verða dæmd sek. Ekki bara af MDE, heldur líka af sögunni, eins og forverar þínir sem vísuðu gyðingum á dyr fyrir áttatíu árum eða svo.

Ef þú ert heiðarleg manneskja, sem ég geng út frá, og mannvinur, frekar en hitt, sem ég geng líka út frá, þá sé ég ekki að þú eigir neina kosti aðra en að lýsa yfir, og sjá til, að engri manneskju verði vísað tilbaka til Ítalíu, Grikklands eða Ungverjalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Sú reglugerð var ekki sett til að lönd eins og Ísland gætu komist hjá því að sýna mannúð og sanngirni. Að íslensk yfirvöld reyni að notfæra sér þessa reglugerð er í besta falli grimmdarlegt, en trúlega líka mannréttindabrot. Sem yrði á þína ábyrgð. Á þína ábyrgð, sem ráðherra mannréttindamála á Íslandi.

Hugsaðu málið, Ólöf. Hugsaðu málið og veltu fyrir þér hvort þú vilt kannski hætta á að veita dvalarleyfi fólki sem þú gætir mögulega komist upp með að halda fram að eigi ekki rétt á því. Eða frekar hætta á að senda fólk út í algera óvissu, eða eitthvað þaðan af verra. Hvort þú vilt hætta á að brjóta gegn því sem heilagast á að vera í mannheimum, mannréttindum. Og taka þá áhættu að verða dæmd af sögunni, eins og þeir sem úthýstu gyðingunum, og verða dæmd eins og allir nema einn vegfarendanna í sögunni um miskunnsama Samverjann.

Hugsaðu málið, Ólöf.

Bestu kveðjur,

Einar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

 • Mér finnst að við Íslendingar eigum að vera góðir við alla sem eru í neyð og þurfa á hjálp að halda og leita til okkar.,

  Við vitum heldur aldrei hvenær við þurfum sjálf á slíkri aðstoð annarra að halda, jafnvel flýja land vegna náttúruhamfara.

  Að finna til samkenndar og sýna það í verki er góðmennska, að gera það ekki er illska og grimmd.

 • Góðmennskan er aðall Íslendinga í bland við fordæmingar og upphrópanir. Að kynna sér málin og beina reiðinni í rétta átt er ekki sterkasta hlið margra sem hafa þörf fyrir að koma einstakri góðmennsku sinni opinberlega á framfæri. Albanskar fjölskyldur eru fluttar úr landi og það á sér skýringar. Á facebook síðu sinni skýrir Kristrún Elsa Harðardóttir, lögmaður á ljósan hátt meðferð mála hjá Útlendingastofnun og hvaða lögum og reglum henni ber að að fylgja. Hún starfaði um skeið hjá þeirri stofnun og þekkir því vel til mála. Þeir sem hæst fara í vandlætingunni ættu að lesa pistil hennar. Það skaðar ekki að hafa smá þekkingu á málefninu.
  Alabanía og fleiri lönd þar í austri búa ekki við stríðsástand, þar eru mannréttindi í heiðri, menntunarstig ágætt og heilbrigðiskerfið í sæmilegu ástandi þótt ekki standist það samanburð við það sem best gerist á Norðurlöndum. Af þessum ástæðum hefur maður ársins, Merkel kanslari Þýskalands og raunar einnig forystumenn flestra Evrópuríkja komið auglýsingum á framfæri í fyrrgreindum löndum með eftirfarandi skilaboðum: Komið ekki, ef þið reynið samt verðið þið send til baka með það sama. Það eru hundruð þúsundir flóttamanna sem búa við skelfilegar aðstæður vegna hungurs og stríðsátaka og sá hópur er í forgangi. Af vel athuguðu máli ættu flestir að geta sammælst um, að einhvers staðar verði að setja mörkin.

  • Kristrún segir frá þeirri ómannúðlegu afstöðu sem Útlendingastofnun hefur. Það er kolrangt hjá henni og UTL að ekki megi túlka ákvæðin um dvalarleyfi af mannúðarástæðum á mannúðlegri hátt.

   Og það er ömurlega leiðinlegt að hlusta á þetta endalausa kjaftæði þar sem gefið er í skyn að það gæti einhvern veginn komið flóttamönnum í sárri neyð vel að þessu fólki sé úthýst frá Íslandi. Vonandi bara heimska en ekkert verra en það.

 • Sigurður

  Mannréttindabrot að vísa fólki til suður Evrópulanda eins og Ítalíu, spánar og Grikklands…..

  Því þetta séu ekki örugg lönd….?

  Meira bullið.

 • Mín jólaósk í ár er að Ólöf taki sig til og láti sækja þessar fjölskyldur til baka og leyfi þeim að eiga hér skjól og framtíð. Það er ekki til of mikils mælst.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur