Þriðjudagur 02.02.2016 - 20:50 - Rita ummæli

Maðkað mjöl í boði Finns Árnasonar og lífeyrissjóðanna

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Finnur Árnason, forstjóri Haga sem eiga Hagkaup, Bónus og fleiri fyrirtæki, var í Kastljósi RÚV í gærkvöldi þar sem rætt var um

„nýja skýrslu Bændasamtakanna um matvöruverð, búvörusamninga, samkeppnismál, gagnrýni á laun hans og stjórnenda Haga og mikinn hagnað heildsölufyrirtækisins Banana sem Hagar eiga en fyrirtækið ræður yfir allt að 60 prósent af heildsölumarkaði með ávexti, grænmeti og kartöflur á Íslandi. Hagar hafa á síðustu fjórum árum fengið hátt í fimm milljarða í arð út úr því fyrirtæki, en velta þess er milli 7 og 8 milljarðar króna á ári.“

Í frétt RÚV um málið segir:

„Finnur Árnason forstjóri Haga segir það rétt að sterkara gengi hafi ekki skilað sér í lægra verði til neytenda. Hagar beri þó ekki ábyrgð.“

Auðvitað ber Finnur og fyrirtæki hans enga ábyrgð, nema gagnvart eigendum sínum. Það eina sem hann ber ábyrgð á er að græða nógu fjandi mikið. Ef það er hægt að gera með því að kaupa grænmeti erlendis sem þar hefði verið hent eða notað í svínafóður, og selja það svo á margföldu verði góðs grænmetis, þá er hann að vinna vinnuna sína fyrir eigendur. Það er ekki ætlast til þess að menn í hans stöðu hugsi um annað en að græða sem mest, sama hversu viðurstyggilegar aðferðir hans eru.

Og það er einmitt þannig sem aðferðirnar eru. Ég get a.m.k. ekki ímyndað mér að Finnur sé svo lélegur bisnissmaður (sérstaklega í ljósi þeirra ofurlauna sem hann fær) að hann láti plata sig til að borga fullu verði það ónýta rusl sem er stór hluti af grænmetinu sem selt er í verslunum Haga (og fleiri verslunum á Íslandi).

Dæmin um þetta eru óteljandi; það er sama hvort maður kaupir tómata eða lauk eða mandarínur eða epli eða salat, alltaf má maður eiga von á því að hluti af því sé skemmt, og oft þannig að það sést ekki fyrr en búið er að opna pakkana eða skera í sundur. Eitt svívirðilegasta dæmið um þetta eru innfluttar gulrætur, sem oftar en ekki eru ekki bara slepjulegar heldur bókstaflega margar skemmdar í hverjum poka, og allar eftir örfáa daga í ísskáp. Samt eru þær seldar á svo háu verði að það væri stórgróði af sölunni þótt keyptar hefðu verið fyrsta flokks gulrætur úti í búð í Glasgow og sendar heim með flugi.

Í stuttu máli er augljóst öllum sem búið hafa í nágrannalöndunum að það er eitthvað meirháttar rotið í verslun með grænmeti og ávexti á Íslandi (og svo sem margar fleiri vörur). Verðlagið er oft svívirðilega hátt, en vörurnar meira og minna ónýtt drasl.

Hitt er svo auðvitað kaldhæðni djöfulsins að lífeyrissjóðir skuli eiga stóran hlut í þessu ógeðslega fyrirtæki, og selja almenningi, sem að nafninu til á þessa lífeyrissjóði, nútímaútgáfuna af maðkaða mjöli dönsku einokunarverslunarinnar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur