[þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu, en er örlítið breyttur hér]
Óháð því hvað verður um máttlausar tillögur stjórnarskrárnefndar forsætisráðherra ættum við sem viljum að tillaga Stjórnlagaráðs verði samþykkt að leggja ofuráherslu á að það verði gert sem fyrst. Skynsamlegast tel ég að það verði gert eftir næstu kosningar (í apríl á næsta ári), á kjörtímabili sem standi aðeins í nokkrar vikur. Þar verði þetta mál afgreitt og boðað til nýrra kosninga í seinasta lagi í lok ágúst.
Rökin eru þessi: Ef það á að samþykkja þessa nýju stjórnarskrá þarf að gera það á tveim þingum, með kosningum á milli. Það væri glapræði að ætla að draga þá samþykkt til loka langs kjörtímabils, bæði af því að það er ástæðulaust að bíða með að þessi stjórnarskrá taki gildi og af því að á löngu kjörtímabili er hætt við að samstarf þess meirihluta sem það ætlar að gera veikist svo að málið lendi í ógöngum. Ef ætlunin er að kjörtímabilið verði ekki í fullri lengd er engin ástæða til að hafa það lengra en svo að hægt sé að ræða málið sómasamlega, og samþykkja nýju stjórnarskrána. Þannig yrði það mál afgreitt og önnur mikilvæg mál tekin fyrir strax um haustið eins og venja er, á kjörtímabili af venjulegri lengd.
Auk hættunnar á að samstaða meirihluta á þingi veikist um of á löngu kjörtímabili eykst líka hættan á að eftir það taki við meirihluti sem ekki samþykkir nýju stjórnarskrána, eins og nauðsynlegt er. Fái þeir flokkar meirihluta sem lýsa yfir þessari stefnu fyrir kosningarnar í apríl, þá ættu að vera miklar líkur á að sá meirihluti haldi í kosningum fáum mánuðum síðar, þegar ekkert hefur gerst í millitíðinni annað en það sem lofað var fyrir kosningar.
Ég tel því að Píratar ættu að reyna að komast að samkomulagi við aðra flokka um þetta. Að næsta kjörtímabil verði örstutt og á því verði samþykkt ný stjórnarskrá, í öllum aðalatriðum samhljóða tillögu Stjórnlagaráðs. Þetta verði kynnt fyrir kosningar svo kjósendur viti hvað þeir eru að kjósa. Samið verði fyrirfram um hámarkslengd á kjörtímabilinu, sem verði ekki lengra en svo að hægt verði að kjósa aftur (eftir þingrof) í seinasta lagi í lok ágúst.
Á þeim tíma sem þingið stendur verði rætt um hugsanlegar minniháttar (en engar efnislegar) breytingar á tillögu Stjórnlagaráðs. Í þeim atriðum sem ekki næst samkomulag meirihluta á þingi um breytingar, skuldbindi þeir sem standa að þessu samkomulagi sig til að samþykkja viðkomandi ákvæði í tillögu Stjórnlagaráðs óbreytt.
Einnig verði lýst yfir, fyrir kosningar, að tilraunir minnihluta til að drepa málið með málþófi verði stöðvaðar, enda væri andlýðræðislegt að minnihluti þingsins gæti komið í veg fyrir að meirihluti þess samþykkti það sem meirihluti kjósenda hefði lýst yfir stuðningi við, með því að kjósa framboð sem hefðu þessa yfirlýstu stefnu.
Sjálfsagt er að reyna að semja við minnihlutann á þingi um hvernig umræðum um málið skuli háttað, og tryggja þarf að minnihlutinn fái góðan tíma til að tjá sig um það. En skýrt verður að vera að það séu tímatakmörk á umræðunni, og að henni muni ljúka með atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.
Tek undir þetta nema að það þarf aðeins meira en nokkrar vikur. Málið þarf þinglega meðferð en það ætti þó ekki að taka nema tvo mánuði kannski þrjá. Næsta þing á eftir þyrfti einnig að vera stutt því það er ekkert vit í að sitja með þing heilt kjörtímabil kosið út á það skakka lýðræði sem gamla stjórnarskráin býður upp á þegar ný stjórnarskrá með stórfelldum lýðræðisumbótum bíður í startholunum. Það eru svo ákvæði í þingsköpum Alþingis á þremur stöðum um hvernig má takmarka umræðu um þingmál og ekkert mál að nota þau ef ríflegur umræðutími fer út í málþóf.
Já, Þór, það var kannski óþarflega bratt hjá mér að tala um nokkrar vikur. Aðalatriðið er að nýja stjórnarskráin verði samþykkt, og að það mál lendi ekki í ógöngum. Dragist kjörtímabilið fram á haust þýddi það væntanlega að klára þyrfti fjárlög og þá stæði þingið amk fram á næsta ár, sem ég tel að væri of langt. En allt að þrír mánuðir ætti að vera í lagi, til að nýtt þing hefji störf snemma um haustið.
Varðandi það að hafa kjörtímabilið þar á eftir líka stutt hljómar það ágætlega í mínum eyrum, þótt ég hafi svo sem ekkert velt því fyrir mér. 🙂
“ hugsanlegar minniháttar (en engar efnislegar) breytingar á tillögu Stjórnlagaráðs“. Nú, á þá að hafa þjóðaratvæði frá 2012 að engu? Þar var samþykkti meirihluti þjóðarinnar að þjóðkirkjuakvæðið stæði áfram í stjórnarskrá. Mér sýnist vinstri höndin ekki lengur vita hvað sú hægri gerir.
Skil ekki hvað þú átt við, Guðni. Hvað áttu við með að hafa þjóðaratkvæðið frá 2012 að engu? Hver er að leggja það til?
M.v. úrskurð HÍ á sínum tíma tekur varla undir 2 árum að fara yfir lagalega „krossa“ svo að jafnvel þó að vinna yrði sett á fullt í dag verður henni ekki lokið fyrr en í fyrsta lagi ár inní næsta kjörtímabili og á þá öll umræða, atkvæðagreiðsla og innleiðing eftir að fara fram.