[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]
Sæll Guðni
Það voru mikil vonbrigði að sjá rökstuðning þinn fyrir ákvörðuninni um að staðfesta skipun dómaranna í Landsrétt. Ég átti alveg eins von á að einhverjir lögspekingar hefðu bent þér á leið til að réttlæta þetta sem öðrum hefði yfirsést. En það sem þú segir í yfirlýsingu þinni er furðuleg samsuða sem engan veginn tekur á því sem ágreiningurinn snýst um, og það er þér ekki til sóma.
Rökstuðningurinn í yfirlýsingu þinni snýst aðallega um tvennt: Að afgreiðsla málsins hafi verið í samræmi við þingvenjur, sem styðjist við þingsköp, og að skrifstofa Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að afgreiðslan hafi verið lögmæt.
Hvort tveggja er út í hött að leggja til grundvallar:
Ef afgreiðslan fór í bága við dómstólalögin, þá geta þingvenjur ekki gert hana lögmæta. Og almenn ákvæði í þingskapalögum geta aldrei trompað ákvæði í sérlögum, sem dómstólalögin eru.
Að spyrja skrifstofu Alþingis hvort hún telji að staðið hafi verið að afgreiðslunni með lögmætum hætti er álíka skynsamlegt og að spyrja fólkið á skrifstofu Ólafs Ólafssonar hvort hann hafi nokkuð brotið af sér í Al-Thani-málinu. Það er sjokkerandi að sjá þig leggja slíkt til grundvallar, sérstaklega í ljósi þess að þú segir ekki frá neinum viðræðum þínum við lögfræðinga sem eru á öndverðum meiði, hvað þá röksemdafærslum þeirra.
Ágreiningurinn snýst um túlkun þessa bráðabirgðaákvæðis í dómstólalögum:
„Þegar ráðherra gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skal hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skal hann senda þær forseta Íslands sem skipar í embættin, sbr. 21. gr. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skal ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar.“
Vegna þess að sérstaklega er talað um „hverja skipun“ og „tiltekna skipun“ liggur beinast við að túlka þetta ákvæði svo að samþykkja þurfi hverja skipun fyrir sig, en ekki allar í einu búnti, enda er vandséð hver tilgangurinn hefði annars verið með þessu orðalagi, og sá er skilningur eins þeirra lögfræðinga sem tóku þátt í að semja umrætt ákvæði.
Vegna þessarar óvissu, og þess að það eru sterk rök fyrir því að þingið hafi ekki farið að lögum, er ljóst að þessi afgreiðsla mun alltaf sæta mikilli gagnrýni, og setja ljótan blett á starf Landsréttar sem er skipaður með þessum vafasama hætti.
Þess vegna hefðirðu átt að synja því að staðfesta þessar skipanir. Afleiðingin af því hefði trúlegast einfaldlega orðið sú að þingið hefði fjallað aftur um málið og staðfest hverja skipun fyrir sig. Þar með hefði sá blettur verið þveginn af réttinum.
Það er hægt að hafa þá afstöðu að forseti eigi bara að vera stimpilpúði fyrir framkvæmda- og löggjafarvaldið. En þar sem þú hefur tekið afstöðu til málsins verður að krefjast þess að þú vinnir þá vinnu af heilindum og á málefnalegan hátt. Það hefur þú ekki gert hér; þetta er hvítþvottur, sem augljóslega þjónar þeim valdhöfum sem telja sig hafna yfir lög og reglur, en ekki þeim hagsmunum almennings sem þú ættir að vinna fyrir.
Það voru mikil vonbrigði.
Kveðjur,
Einar
Ég verð því miður að vera sammála.
Afgreiðsla Guðna á þessu lögbroti Alþingis er honum ekki til sóma.
Almennt viðurkenndar lögskýringarreglur:
1. Yngri lög ganga framar eldri lögum. Lög um dómstóla frá 2016 ganga samkvæmt því framar lögum um þingsköp Alþingis frá 1998.
2. Sérlög ganga framar almennum lögum. Sérregla bráðabirgðaákvæðis við lög um dómstóla sem á einungis við um þessa tilteknu atkvæðagreiðslu, gengur því framar almennum reglum laga um þingsköp.
3. Sett lög ganga framar óskráðum réttarreglum á borð við venjur. Auk þess er um nýmæli að ræða þar sem Alþingi velur í fyrsta sinn dómara og því er í raun engri þingvenju til að dreifa um slíkt tilfelli.
Að auki, þar sem Alþingi fór ekki eftir þeim skýru fyrirmælum hinna nýlegu sérlaga um dómstóla að greiða skyldi atkvæði um hverja og eina tillögu sérstaklega heldur fór aðeins fram ein atkvæðagreiðsla, er ómögulegt að draga af niðurstöðu hennar neinar ályktanir um hver af hinum fimmtán tillögum ráðherra var í raun samþykkt með þeirri einu atkvæðagreiðslu. Réttaráhrif hennar eru því þau sömu og ef enginn tillaga hefði verið samþykkt, eða með öðrum orðum engin. Samkvæmt því lá ekki fyrir lögformlegt samþykki neinnar af hinum fimmtán tillögum og þar af leiðandi hafði forseti ekkert í höndunum sem veitti honum lagaheimild til að skipa neinn dómara, þegar hann gerði það engu að síður.
Að óbreyttu mun þetta leiða til þess að hinn nýji dómstóll fæðist úr lögleysu, sem mun setja smánarblett á störf hans um ókomna framtíð. Fall er ekki fararheill í vegferð af þessu tagi, því lengi býr að fyrstu gerð.
Þetta er skilmerkilega dregið saman, Guðmundur, og ætti að vera augljóst af þessu hversu fráleit málsmeðferðin og eftiráskýringarnar eru.
Þetta mál er gott dæmi um ástandið á löggjafarþingi Íslendinga. Hvernig í ósköpunum getur þetta gerst? Lögin eru mjög skýr um að það eigi að greiða atkvæði um hvern umsækjanda. Það getur ekki verið skýrara. Eitthvert rugl um þingsköp geta að sjálfsögðu ekki ógilt lög.
Ef greidd hefðu verið atkvæði um hvern og einn hefði ráðherra td ekki getað rökstutt hvers vegna hún valdi eiginmann fyrrverandi samstafskonu sinnar sem var í þrítugasta, sæti eða þar um bil, en hafnaði þeim sem var í sjöunda sæti og með meiri dómarareynslu en sumir þeirra sem ráðherra valdi. Var honum hafnað vegna þess að hann hafði verið á lista fyrir Samfylkinguna. Ef stjórnarþingmenn hefðu samþykkt þessa geðþóttaákvörðun ráðherra hefðu þeir orðið uppvísir að alvarlegum afglöpum í starfi.
Uppákoma Viðreisnar var svo í samræmi við annað. Í fyrsta lagi spyr maður sig, hvers vegna komu þessar yfirlýsingar svona seint? Voru Viðreisnarmenn og Óttarr beittir þrýstingi af Sjálfstæðismönnumum og létu undan til að halda ráðherrastólunum?
Það sem er kannski alvarlegast er að þingmenn Viðreisnar með stuðningi Óttarrs kröfðust þess að lög væru brotin . Það á alltaf að velja hæfustu menn til dómarastarfa. Krafa um jafna skiptingu kynjanna stangast því á við lög. Það má aðeins velja konu ef valið er milli tveggja jafnnhæfra einstaklinga.
Við hefðum aldrei samþykkt þennan lista sögðu þingmenn Viðreisnar og gerðu sér greinilega enga grein fyrir að það stóð aldrei til að heilu flokkarnir samþykktu lista. Það átti að greiða atkvæði um hvern umsækjanda og hver þingmaður átti að taka sjálfstæða ákvörðun. Eftir svona uppákomu spyr maður sig hvort ekki einn einast þingmaður meirihlutans sé hæfur til að leiðbeina öllum hinum sem greinilega eru óhæfir?
Ég held að forseti hljóti að hafa gert sér grein fyrir að hér var kolólöglega staðið að verki. Hann skorti hins vegar kjark til að fara gegn valdasjúkum meirihlutanum sem er líklegur til að hafa gert allt vitlaust ef forseti vogaði sér að skrifa ekki undir fyrr en löglega hefði verið staðið að verki.
Nú hafa tveir umsækjenda kært ráðherra. Vonandi mun gjörningur hans vera dæmdur ólöglegur.. Það mun þó væntanlega engu breyta um hverjir verða skipaðir dómarar.
Nei, skipanir þessara dómara verða líklega ekki afturkallaðar, nema dómstólar úrskurði þær beinlínis ólögmætar og því ógildar. Sem virðist ekki trúlegt. En það verður nógu slæmt þótt dómstólar fallist bara á að ríkið verði bótaskylt, þá er búið að viðurkenna að ekki hafi verið rétt staðið að þessu, og það er hrikaleg byrjun á heilu nýju dómstigi.