Fimmtudagur 22.06.2017 - 10:15 - 10 ummæli

Þegar lögreglan drap mann, að ástæðulausu

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Í umræðum síðustu daga um vopnaburð lögreglu hafa margir spurt þá sem gagnrýna hann hvort þeir „treysti ekki lögreglunni“. Það er ekki alveg heiðarleg spurning í ljósi þeirrar staðreyndar að vopnuð lögregla um allan heim er alltaf að gera þau mistök að skjóta saklaust fólk, og nákvæmlega ekkert bendir til að vopnuð lögregla leiði til færri drápa á saklausum borgurum.

En það vill svo til að við höfum gögn, þótt lítil séu, um framgöngu vopnaðrar lögreglu á Íslandi þar sem maður var drepinn. Og ef við ættum að taka afstöðu til vopnaburðar hennar á grundvelli þeirra gagna yrði niðurstaðan augljós; það er stórhættulegt borgurunum að setja vopn í hendur lögreglu.

Í eina skiptið sem sérsveitin hefur drepið mann gerði hún það nefnilega að ástæðulausu, og skapaði sjálf viljandi aðstæður þar sem ljóst var að hún myndi drepa manninn. Það var afleiðing af ótrúlegu fúski, kunnáttuleysi, skeytingarleysi og árásargirnd. Og reyndar munaði hársbreidd að lögreglan ylli þar dauða annars, alsaklauss, manns sem hún kallaði sjálf á vettvang, að nauðsynjalausu, og gerði bókstaflega að skotmarki.

Allt þetta má lesa út úr skýrslu ríkissaksóknara, Sigríðar Friðjónsdóttur, og það þótt skýrslan sé ósvífinn hvítþvottur á þessu manndrápi lögreglunnar. Þess vegna finnst mér full ástæða til að endurbirta, örlítið breyttan, eftirfarandi pistil, sem birtist fyrst á Eyjunni fyrir þrem árum:

Manndráp lögreglu, hvítþvottur saksóknara

Maður spilar of háa tónlist í íbúð sinni um nótt, en angrar að öðru leyti engan mann.  Nágranni hringir í lögreglu, kvartar yfir hávaðanum og segir hann (ranglega) koma frá manninum M.  Nágranninn segir líka, ranglega, að heyrst  hafi skothvellur og telur, einnig ranglega og án nokkurra trúverðugra skýringa, að M hafi skotið sjálfan sig til bana.  Þetta verður til þess að lögregla mætir á staðinn og drepur manninn S.
Síðastliðinn föstudag birti ríkissaksóknari skýrslu um rannsókn sína á því þegar sérsveit ríkislögreglustjóra drap mann í Hraunbæ þann 2. desember í fyrra. (Skýrslan sjálf er hér.)  Því miður hafa fjölmiðlar, með örfáum undantekningum, lítið fjallað um þetta mál með öðrum hætti en að birta yfirlýsingar yfirvalda, sem hafa verið af afar skornum skammti.  Auk þess hefur nú  komið í ljós að mikilvægum upplýsingum um atburðarásina var leynt, t.d. þegar lögregla hélt blaðamannafund um málið og fegraði þar framgöngu sína.  Þótt skýrsla ríkissaksóknara varpi ljósi á sumar hliðar málsins sem áður voru óljósar sýnir skýrslan að rannsókninni virðist ekki hafa verið ætlað að leiða í ljós allan sannleikann í málinu, og alls ekki að greina ástæður þeirra augljósu mistaka lögreglunnar sem höfðu svo hryllilegar afleiðingar. Auk þess lét ríkissaksóknari lögreglu framkvæma þessa rannsókn á aðgerðum lögreglu að stórum hluta, sem rýrir trúverðugleika hennar verulega.
Upphaf málsins er að nágranni mannsins sem skotinn var til bana hefur samband við lögreglu og kvartar undan tónlistarhávaða.  Nágranninn nafngreinir manninn ranglega og lögreglan áttaði sig ekki á þeim mistökum fyrr en löngu síðar, og  lögreglumenn á vettvangi vissu ekki af því fyrr en þeir voru að brjótast inn í íbúðina, og jafnvel þá var það ekki lögreglan sjálf sem lét þeim í té þær upplýsingar.
Nágranninn segist hafa heyrt skothvell, sem var rangt, því samkvæmt rannsókn lögreglu var engum skotum hleypt af í íbúðinni áður en hún kom á vettvang.  En vegna þessarar röngu staðhæfingar nágrannans er ákveðið að kalla til sérsveitina, sem vopnast og tekur sér stöðu við íbúðardyrnar.  Nágranninn (sem af óútskýrðum ástæðum er tilgreint að hafi gegnt herþjónustu) taldi líka að umræddur maður hefði skotið sjálfan sig.  Ekki er útskýrt af hverju lögreglan taldi álit nágrannans áreiðanlegt, en svo mikið er víst að hún gekk út frá því sem vísu að hann hefði giskað rétt (þótt síðar hafi komið í ljós að hann hafði rangt fyrir sér, í báðum atriðum).  Sú ranga ályktun lögreglu að nágranninn hefði rétt fyrir sér hratt hins vegar af stað atburðarás sem trúlega hefði aldrei þurft að verða, en endaði með því að lögreglan skaut manninn til bana.
Lögregla ákvað sem sagt að brjótast inn í íbúðina, og fékk til þess lásasmið utan úr bæ, en sagði honum ekki frá því að inni í íbúðinni væri maður sem talið væri að væri vopnaður og hefði hleypt af skoti.  Lásasmiðurinn var látinn vinna verk sitt algerlega óvarinn, og lögreglan á staðnum var ekki varin að fullu eins og hún hefði átt að vera, því sá lögreglumaður sem stóð næst dyrunum var ekki með skotheldan hjálm.  Þegar dyrnar voru svo opnaðar skaut íbúinn á lögreglumann fyrir utan þær, en hann sakaði ekki.  Hefði það skot lent á lásasmiðnum en ekki skildi lögreglumannsins er trúlegt að lögreglan hefði nú líf lásasmiðsins einnig á samviskunni.
Augljóst er að lögreglan stofnaði lífi lásasmiðsins í hættu, og að það var gert á fráleitum forsendum, það er að segja getgátum nágrannans einum saman.  Samt útskýrir ríkissaksóknari hvergi af hverju hér er ekki um að ræða refsivert gáleysi.  Hvergi í skýrslunni er heldur rætt um ábyrgð stjórnenda aðgerðarinnar eða annarra yfirmanna í lögreglunni sem ábyrgð ættu að bera.
Ekki var reynt að hafa samband við ættingja mannsins eða aðra þá sem hugsanlega hefðu getað náð sambandi við hann, til dæmis gegnum síma, enda fjalla verklagsreglur sérsveitar og lögreglu ekki um slíkt, samkvæmt skýrslu ríkissaksóknara, en hann gerir engar athugasemdir við skortinn á slíkum reglum.  Lögreglan bar fyrir sig að stuttur tími hefði verið til stefnu þar til „fólk færi til vinnu, börn í skóla og leikskóla o.s.frv.“  Ekki er útskýrt af hverju ekki var til dæmis hægt að senda lögreglumenn í alla stigaganga innan skotfæris við íbúð mannsins, til að koma í veg fyrir að íbúar sýndu sig utandyra.
Ríkissaksóknari segir líka í skýrslunni:
„Ekki verður séð að forsvaranlegt hefði verið að hafa samband við ættingja S og blanda þeim í aðgerðir lögreglu, sem voru hættulegar, auk þess sem ekki er gengið að upplýsingum um ættingja um miðja nótt, hvað þá að lögreglan geti vitað hvernig sambandi á milli fólks/ættingja er háttað og geti þannig metið hvort rétt sé að kalla þá til aðstoðar.“
Það er fáránlegt að halda fram að ekki hefði verið hægt að hafa uppi á ættingjum mannsins, og fráleitt að gefa sér að enginn þeirra hefði getað fengið hann til að svara í síma, því ríkissaksóknari ákveður hér að lögreglan hafi lög að mæla án þess að færa nokkur rök fyrir þessari sérkennilegu afstöðu.
Þegar hér var komið sögu var ákveðið að reyna að svæla manninn út úr íbúðinni með því að skjóta inn í hana gashylkjum, sem ættu að neyða hann til að yfirgefa íbúðina.  Rétt er að hafa í huga að þegar það var gert hafði maðurinn engum skotum hleypt af nema þegar brotist var inn í íbúðina.  Hann hafði sem sagt engan áreitt og ekki reynt að skaða neinn nema þegar brotist var inn í íbúðina, og ekkert sem bendir til að hann hafi haft slikt í hyggju.
Sú ákvörðun að beita gasi til að svæla manninn út er illskiljanleg, því maðurinn hafði áður brugðist við innrás í íbúðina með því að skjóta, og því varð að telja afar líklegt að hann myndi skjóta á lögreglu fyrir utan íbúðina ef hann léti svælast út úr henni.  Ljóst var líka að ef það gerðist myndi lögreglan drepa hann.  Lögreglan setti því vísvitandi af stað atburðarás sem yfirgnæfandi líkur voru á að myndi enda með því að manninum yrði banað, þótt hann hefði fram að því engum ógnað eða gert sig líklegan til að skjóta, nema þegar beinlínis var ráðist á hann.  Aldrei hefur verið útskýrt með skynsamlegum hætti af hverju lögregla beið ekki átekta, enda ætti hún að þekkja ótal sögur erlendis frá þar sem umsátur af þessu tagi stendur dögum saman.
Aðgerðinni lauk svo með því að lögregla braust inn í íbúðina eftir að gríðarlegum fjölda gashylkja hafði verið skotið inn um glugga og dyr, án þess að íbúinn kæmi út.  Þegar þangað var komið skaut maðurinn aftur gegn lögreglu.  Lögreglan sagði, samkvæmt ríkissaksóknara, að hún hefði ekki getað hörfað út úr íbúðinni, þótt ekki sé útskýrt af hverju, og því „neyddist“ hún til að skjóta manninn, og bana honum þannig.
Ljóst er að lögreglan hóf vopnaðar aðgerðir sínar á fölskum forsendum, sem hún reyndi ekki að sannreyna með nokkrum hætti.
Ljóst er að lögreglan setti lásasmiðinn í bráða lífshættu, og að fyrir því var engin afsökun.
Ljóst er að lögreglan réðst inn í íbúð manns sem engum hafði ógnað, sem leiddi til þess að hann skaut á lögreglumennina.
Ljóst er að lögreglan setti af stað, í stað þess að bíða átekta meðan maðurinn bærði ekki á sér og ógnaði engum, atburðarás sem nánast öruggt var að myndi leiða til þess að hún banaði honum.
Í stuttu máli er ljóst að lögreglan gerði mörg mistök, að sérsveitin ræður alls ekki við aðstæður af þessu tagi, og að það var hún sem þvingaði fram atburðarás sem leiddi til þess að hún drap mann, sem engum hafði ógnað áður en lögreglan kom til sögunnar.  Ljóst er einnig að yfirvöld, þar á meðal ríkissaksóknari, hafa engan áhuga á að upplýsa málið til fulls, og engan áhuga á að læra af mistökunum, bara að breiða yfir þau mistök sem höfðu svo hræðilegar afleiðingar.  Ljóst er því að ekkert verður gert til að koma í veg fyrir að harmleikur af þessu tagi endurtaki sig, því mikilvægara virðist vera að hvítþvo yfirvöld en að tryggja öryggi borgaranna.(Í útvarpsþættinum Harmageddon var fjallað um þetta mál í fyrradag)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

 • Það er sorglegur vintisburður um reynslu af vopnaburði lögreglu að í eina skiptið sem skotum hafi verið hleypt af að almennum borgara hafi það leitt til dauða hans. Það gerir atburðinn enn sorglegri að svo virðist sem þessar aðgerðir lögreglu hafi verið úr hófi fram og fyrir vikið nauðsynjalausar.

  Ég veit hreinlega ekki hvort er dapurlegra, að maður hafi látið lífið vegna þessa að nauðsynjalausu, eða að við Íslendingar sitjum uppi með að lögregluliði landsins sé ekki treystandi til þess að verja okkur fyrir hættum, án þess að stofna um leið okkur sjálfum í lífshættu.

  Lærdómurinn sem má draga af þessu er sá að miðað við við „track record“ lögreglunnar í svona málum er henni einfaldlega ekki treystandi fyrir réttri meðferð skotvopna. Svo ég orði þetta með óformlegum hætti: „Þessar górillur sem í sumum tilvikum virðast veljast í lögreglustörf eru því miður ekki rétta fólkið til að treysta fyrir því að bera skotvopn.“ Þetta er hinn sorglegi raunveruleiki sem við Íslendingar sitjum núna uppi með.

  Það skal tekið fram að ofangreint er sett fram með fullri virðingu fyrir þeim fjölmörgu lögreglumönnum sem inna sitt starf af hendi eftir bestu getu og reyna sitt besta til að valda ekki skaða með störfum sínum. Eftir stendur þó að það er ýmislegt sem þarf að taka til alvarlegrar skoðunar í þessum málum er varða vopnaburð lögreglu.

  • Einar Steingrimsson

   Já, eins og svo oft eru það örfá skemmd epli sem eyðileggja fyrir þeim yfirgnæfandi meirihluta lögreglumanna sem full ástæða er til að treysta til að vinna vinnu sína vel og skynsamlega. Því miður eru þessi skemmdu epli ekki síst meðal yfirstjórnar lögreglunnar.

 • Grétar Thor Ólafsson

  Heill og sæll Einar.
  Við lestur þessa yfirlits er athyglisvert að enn eina ferðina er því sleppt að nefna að viðkomandi, er lét lífið í þessari aðgerð, hafði verið áður dæmdur fyrir morðtilraun gegn lögreglumanni í Noregi. Hann reyndi að skjóta lögregluþjón þar með skammbyssu og það var einungis vegna þess að byssan virkaði ekki að það tókst ekki.
  Þetta er lykilatriði í að sýna að þessi maður var stórhættulegur umhverfi sínu. Alveg burtséð hvort að einhver misskilningur hafi átt sér stað í aðdraganda málsins. Nágranninn sem kallaði til lögregluna reyndist hafa rétt fyrir sér með að maðurinn væri a) stórhættulegur og b) vopnaður byssu sem hann hikaði ekki við að nota gegn manneskju. Já, lögregluþjónn er líka manneskja.

  Í þessu ljósi er athyglisvert að sjá að ekki er mikið farið yfir það í þinni yfirferð, Einar, að maðurinn skaut lögregluþjón í hausinn um leið og lögregluþjónninn kom inn í íbúðina. Engin viðvörun, ekkert hik hjá honum. Skaut strax með haglabyssu af stuttu færi í höfuð lögregluþjóns. Maðurinn var greinilega stórhættulegur, Einar. Og það hefur ekkert með þá hættu að gera hvort að einhver misskilningur hafi átt sér stað í aðdragandanum um hver væri á ferð, hvað hefði gerst nákvæmlega áður. Þessar tvær staðreyndir sýna svart á hvítu, fyrir utan miklar tilraunir lögreglunnar að beita öðrum leiðum í að ljúka málinu (samtöl, táragas etc.), að það voru ekki margir góðir möguleikar í stöðunni.
  Það er ekki lögreglunni að kenna að maðurinn að myrða lögreglumann. Tvisvar. Með skotvopni. Það er honum sjálfum að kenna.
  Það er líka stór galli í ályktunum þínum að það er erfitt að rýna í hvað framtíðin ber í skauti sér. Átti lögreglan, í þessari stöðu hverju sinni, að vita fyrirfram hvort að þessi maður myndi skjóta fleiri? Í höfuðið kannski? Því eitt lá jú fyrir á hreinu: Hann hikaði ekki eina einustu sekúndu áður en hann hleypti af haglabyssu í höfuð lögreglu á örstuttu færi!!!!
  Nei, vissulega er þetta sorglegt mál. En það er ekki lögreglunni að kenna hvernig þetta fór. Ábyrgðin liggur hjá manninum sem tók allar afdrífaríku ákvarðanirnar. Og hans ákvarðanir um að taka a í gikk kostuðu hann lífið.
  Þessi upptalning þín með „Ljóst er“ er því að mínu mati mjög vafasöm. Vilt þú kannski hugsa þá hugsun til enda hvað hefði getað gerst ef beðið hefði verið í marga daga? Ertu viss um að maðurinn hefði reynst jafn hættulaus og þú telur hann hafa verið? Ertu alveg viss?
  Lögreglan er ekki í þeirri lúxus stöðu að geta bara beðið og vonað hið besta í svona málum þegar einstaklingur hefur sýnt af sér banvænan vilja. Tvisvar. Það er lögreglunnar að stöðva svona ógn gegn almenningi, ekki bara bíða upp á von og óvon.

  • Einar Steingrimsson

   Að maðurinn hafi áður ráðist á lögregluþjón í Noregi er EKKI ástæða til að ráðast inn í íbúð hans á kolröngum forsendum. Þvert á móti.

  • Einar Steingrimsson

   Spurningin sem ég tel að þú þurfir að svara, Grétar, er þessi: Af hverju átti lögreglan að ráðast inn í íbúð mannsins? (Lastu kannski ekki pistilinn?)

  • Grétar Thor Ólafsson

   Heill og sæll Einar.
   Þú telur að engin ástæða hafi verið að fara inn í íbúð mannsins þrátt fyrir að hann hafi 1) skotið á lögreglu út um glugga íbúðarinnar, 2) sýnt af sér tvisvar fyrri hegðun um að viljandi reynt að drepa lögreglumenn 3) ekkert gekk að afvopna manninn með öðrum leiðum sem tiltækar voru (samtöl, gas).
   Ég tek þann pól í hæðina, Einar, að vera þér algerlega ósammála. Það var full ástæða að fara inn í íbúðina og binda endi á þessa lífshættulegu iðju mannsins. Aðdragandinn þykir mér algerlega óviðkomandi. Það sem skiptir máli er að hann var búinn að skjóta á fólk, bæði inni í íbúðinni sem og utan hennar. Það var búið að fullreyna aðrar leiðir en þessa ítrustu leið. Sem er skelfileg, vissulega, en í þessu tilfelli auðveldlega hægt að réttlæta.

   Ég las pistilinn þinn, og kann að meta hann sem innlegg í umræðuna, en met það sjálfur sem svo að svona stórhættulegan einstakling þurfti að stöðva en ekki bíða upp á von og óvon hvort hann ylli einhverjum öðrum mein.
   Maðurinn sjálfur sá til þess að engar aðrar leiðir voru færar en sú sem hann valdi. Sá á völina sem á kvölina. Ég met það einnig sem svo að sú staðreynd að hann hafi verið sakfelldur fyrir morðtilraun í Noregi segi einmitt að maðurinn sé stórhættulegur. Fyrri hegðun og sérstaklega ásetningur getur sagt til um seinni hegðun og hvað viðkomandi er tilbúinn að ganga langt.

   Svo ég noti nú orðatiltæki popúlistapólitíkusa, „leyfum umhverfinu að njóta vafans“.

  • Grétar Thor Ólafsson

   PS. Af hverju telur þú „Að maðurinn hafi áður ráðist á lögregluþjón í Noregi er EKKI ástæða til að ráðast inn í íbúð hans á kolröngum forsendum. Þvert á móti.“. Ég er forvitinn um hver þín afstaða er hvað þetta varðar.

  • Einar Steingrimsson

   Hver hefði verið hættan af því að bíða lengur en þessa 2 klukkutíma sem gert var? Af hverju er svo algengt að svona umsátur standi lengi í öðrum löndum? Hvernig var maðurinn hættulegur meðan hann var inni í íbúðinni (og búið að tæma nærliggjandi hús af íbúum)?

   Það var ekki gerð nein alvöru tilraun til að tala við manninn, og ekki var reynt að ná í ættingja hans sem e.t.v. hefðu getað talað hann til.

   Að maðurinn hafi áður ráðist á lögregluþjón í Noregi er EKKI ástæða til að ráðast inn í íbúð hans á kolröngum forsendum, af því að það bendir til að hann sé hættulegur ef hann verður fyrir áreiti lögreglu. Þess vegna hefði átt að bíða amk miklu lengur en gert var.

 • Sigurður

  1) Áður verið dæmdur fyrir morðtilraun.
  2) Var búinn að skjóta á lögregluna út um glugga íbúðarinnar.
  3) Þegar lögreglan komst inn skaut hann lögreglumanninn í hausinn, augljós morðtilraun.

  Þessi maður hefði verið skotinn hvar sem er í heiminum eftir svona atburðarás.

  Réttilega.

  • Einar Steingrimsson

   Að maðurinn hafi áður ráðist á lögregluþjón í Noregi er EKKI ástæða til að ráðast inn í íbúð hans á kolröngum forsendum. Þvert á móti.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur