Sunnudagur 24.09.2017 - 16:35 - 3 ummæli

Hvað ættum við að gera á næsta kjörtímabili?

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Það verða kosningar eftir fimm vikur, og með smá heppni verður næsta kjörtímabil fjögur ár eða svo. Þær áherslur sem ég vil sjá á því kjörtímabili eru í stuttu máli þessar:

 • Samþykkjum nýju stjórnarskrána
 • Ríkið komi upp skikkanlegum leigumarkaði
 • Heilbrigðisþjónusta og lyf verði gjaldfrjáls
 • Eflum sveigjanleika og frelsi í skólakerfinu
 • Stöndum vörð um tjáningarfrelsið og önnur mannréttindi
 • Hættum að vísa brott hælisleitendum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar
 • Setjum upplýsingalög sem tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum
 • Stefnum að því að koma á lífvænlegum borgaralaunum

profkjor

Nýja stjórnarskráin: Það er óbærileg valdníðsla að sú stjórnarskrá sem kjósendur lýstu yfirgnæfandi stuðningi við helstu atriðin í 20. október 2012 skuli síðan hafa verið hunsuð af þinginu. Þessa stjórnarskrá ber að samþykkja, en til vara að tillögugerð um breytingar frá frumvarpi Stjórnlagaráðs yrði falin sams konar samkomu, sem kosin yrði beint af almenningi til þess verks.

Húsnæðismál: Viðunandi húsnæði er grunnþörf sem samfélagið ætti að leitast við að tryggja öllum borgurum. Til þess þarf fólk að geta leigt húsnæði á viðráðanlegu verði. Leigumarkaðurinn á Íslandi hefur aldrei boðið leigjendum upp á öryggi og síðustu árin hefur leiguverð verið svo hátt að leiga á lítilli íbúð kostar lungann úr tekjum þeirra tekjulægstu.

Vegna viðvarandi hárra raunvaxta er útilokað að einkaaðilar geti byggt upp leigumarkað með viðunandi leigu og öryggi til langs tíma.

Þess vegna legg ég til að hið opinbera beiti sér fyrir byggingu mörg þúsund íbúða á næstu árum sem verði leigðar hverjum sem er, til ótakmarkaðs tíma og á hóflegu verði. Eðlilegt er að miða við raunvexti upp á 1%, þar sem ríkið ætti að geta tekið erlend langtímalán á slíkum vöxtum ef með þarf. (Fyrir íbúð sem kostar 30 milljónir þýðir þetta 75.000 króna mun í leigu á mánuði, miðað við þann u.þ.b. 3% vaxtamun sem þetta er.)

Auk þess að koma upp leigumarkaði með þessum hætti væri sjálfsagt að veita búseturéttarfélögum lán á sams konar kjörum.

Heilbrigðiskerfið: Heilbrigðisþjónusta og lyf ættu að vera notendum gjaldfrjáls. Úr því það er hægt í Skotlandi, sem er ekki ríkara land en Ísland, hlýtur það að vera gerlegt á Íslandi. Auk þess að losa þá sem minnst hafa við áhyggjur af kostnaði vegna veikinda myndi þetta væntanlega spara talsverðar fjárhæðir í bókhaldi.

Mennta- og skólamál: Ég tók mikinn þátt í vinnunni við stefnu Pírata um mennta- og skólamál síðasta rúma árið (sjá hér), og tek heilshugar undir þessar tillögur. Mikilvægustu atriðin í þeim finnst mér vera aukinn sveigjanleiki og mikið frelsi skóla, nemenda og kennara till að stjórna kennslu og námi, að skólakerfið eigi að sinna menntunarhagsmunum hvers nemanda, en ekki hagsmunum atvinnnulífs og samfélags (nema óbeint), og að námsefni verði sem mest opið og ókeypis á netinu.

Mannréttindi: Það er mikilvægt að standa vörð um tjáningarfrelsið, og bæði óverjandi og hættulegt að gera tjáningu refsiverða á þeim forsendum að hún sé niðrandi fyrir tiltekna hópa fólks. Bara einstaklingar hafa mannréttindi; ekki hópar.

Hælisleitendur: Ísland ætti að hætta að beita Dyflinnarreglugerðinni til að vísa burt hælisleitendum til annarra landa. Hún var ekki samþykkt til að Ísland gæti verið stikkfrí í því neyðarástandi sem verið hefur í þeim málum í Evrópu síðustu árin. Samstundis þarf að stöðva brottvísanir barna, sem fara í bága við barnalög. Ísland verður betra af því að við fáum fólk frá mörgum menningarheimum.

Gagnsæi: Auk þeirra breytinga sem helst hafa verið ræddar í nýju stjórnarskránni tel ég ákvæðið um upplýsingalög afar mikilvægt. Það þarf að snúa við „sönnunarbyrðinni“; stjórnvald sem neitar að afhenda upplýsingar tafarlaust á að þurfa að vísa í vel afmörkuð undantekningarákvæði, sem helst eiga að vera í stjórnarskrá.

Borgaralaun: Vinnum að því að borgaralaun sem nægi til sómasamlegrar framfærslu verði að veruleika. Það yrði grundvöllur að samfélagi þar sem allir fengju að njóta sín án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.  Þetta er mál sem mun taka tíma að koma í gegn, og það er alls ekki raunhæft markmið fyrir næsta kjörtímabil.  Þess vegna er þetta ekki á listanum á myndinni efst í þessum pistli. Ég tel samt að við eigum að byrja strax að vinna að þessu markmiði, þótt það verði ekki að veruleika í nánustu framtíð.

 

Á þessu vefsvæði er að finna alla bloggpistla sem ég hef skrifað, á síðustu tæpum sex árum.

Höfundur er í framboði í prófkjöri Pírata fyrir alþingiskosningar 2017

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

 • Hvað með afnám verðtryggingar og okurvaxta?

  • Einar Steingrimsson

   Við þurfum nauðsynlega að losna við okurvextina á Íslandi (sem ég held því miður að ekki muni hverfa sjálfkrafa þótt verðtrygging lána yrði bönnuð). Hvernig hægt er að koma því í kring veit ég ekki vel, en ég sé ekki af hverju ríkið ætti að halda áfram að ábyrgjast banka í eigu einkaaðila sem raka saman ofsagróða ár eftir ár úr vösum almennings.

 • Lízt vel á þetta innlegg þitt. En hvað varðar húsnæðismálin, þá þarf að hugsa málefnið alveg upp á nýtt (frá grunni). Þurfum að fara í smiðju t.d. Dana til að fá lífvænlegar hugmyndir. Einnig er vert að hafa í huga, að kominn er tími til að breyta algerlega um stefnu í húsnæðismálum. Ganga út frá því, að séreignastefnan er steindauð, svo lengi sem ótrygg króna tekur hvað eftir annað völdin af efnaminni hluta þjóðarinnar. Einnig má bæta því við á listann, að kominn er tími til að endurskoða neyzluvenjur fólks til að breyta, ef ástæða er fyrir hendi, útreikningum neyzluvísitölunnar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur