Háskóli Íslands hefur það yfirlýsta markmið að komast í fremstu röð meðal háskóla heimsins, og reyndar ekki aftar en meðal hundrað bestu. Margir hafa gert grín að þessu markmiði og talið það óraunhæft. Undir það má e.t.v. taka, en hitt er mikilvægara að ef forysta skólans hefði í raun áhuga á að gera skólann frambærilegan á alþjóðavettvangi þá væri þetta markmið í sjálfu sér ekki til tjóns, því hafi maður það markmið að keyra til Víkur í Mýrdal frá Reykjavík er í fínu lagi að setja stefnuna á Hornafjörð.
Hitt er annað mál að það er ekki skynsamlegt fyrir skóla sem vill verða öflugri í alþjóðlegum samanburði að einblína á mælikvarðana sem notaðir eru og reyna beinlínis að skora hærra á þeim. Til að HÍ verði góður skóli þarf nefnilega að breyta skólanum, alveg eins og maður þarf að kynda allt húsið til að hækka í því hitann, ekki bara undir hitamælinum. Forysta HÍ hefur gortað mikið af því undanfarið að skólinn skuli hafa komist á lista yfir 300 bestu. Henni hefur hins vegar láðst að geta þess að hér er bara um að ræða einn lista af mörgum slíkum (og HÍ sést ekki á hinum), auk þess sem aðferðin hefur verið að blása heitu lofti á hitamælinn:
- HÍ hefur fjölgað doktorsnemum gríðarlega, en mjög mörgum þeirra er boðið upp á umhverfi sem stendur alls ekki undir þeim akademísku kröfum sem gerðar eru í sæmilegum skólum, ekki síst vegna þess að leiðbeinendurnir ná ekki máli sem fræðafólk á alþjóðavettvangi. Í stað þess að byggja upp öflugt rannsóknaumhverfi sem yrði umgjörð fyrir gott doktorsnám var bara ákveðið að fjölga þeim sem skráðir eru í doktorsnám. Það er líka ljóst að til að fjölga doktorsnemum verulega, og byggja upp gott doktorsnám, þyrftu flestir nemendurnir að koma erlendis frá. Íslendingar eru nefnilega ekki betri en annað fólk, og það er einfalt reikningsdæmi að 320 þúsund manna samfélag á ekki nema brot af þeim fjölda af nógu góðum doktorsnemum sem þarf fyrir skóla af því tagi sem HÍ segist vilja verða. Auk þess fer mikið af bestu íslensku nemendum til útlanda í doktorsnám, og það væri brjálæði að reyna að stöðva þann straum. En, HÍ virðist nánast ekkert hafa gert til að geta laðað til sín erlenda doktorsnema í stórum stíl.
- Fyrir fáum árum var nokkuð af öflugasta vísindafólkinu hjá Íslenskri Erfðagreiningu og Hjartavernd gert að prófessorum við HÍ, sem leiddi til þess að vísindagreinar þessa fólks eru nú taldar skólanum til tekna (og það hækkaði skólann á þessum eina lista sem hann sést á), þótt skólinnn leggi ekkert nýtt af mörkum í því vísindastarfi sem hér um ræðir. Hér er sem sagt um að ræða bókhaldsbrellur (og stórkarlalegar yfirlýsingar um eigið ágæti) sem minna óþægilega á árið 2007 í fjármálageiranum. Um þessa bókhaldsbrellu má lesa svolítið hér.
Það er sláandi að bæði HÍ og HR (sem samanlagt eru yfir 90% af háskólakerfi landsins) hafa þá yfirlýstu stefnu að verða öflugir rannsóknaskólar á alþjóðavettvangi, í ljósi þess hverjir sitja í æðstu akademísku forystu þeirra. Þessi forysta telur 12-15 manns, þar sem eru rektorar, aðstoðarrektorar, sviðsforsetar í HÍ og deildarforsetar í HR. Ekki ein af þessum manneskjum hefur nokkra teljandi reynslu af starfi við háskóla á þeim alþjóðavettvangi sem skólarnir segjast ætla að hasla sér völl á. Vissulega verður engin manneskja sjálfkrafa góð til forystu af því einu að hafa slíka reynslu, og auðvitað er ekki ómögulegt að verða öflugur akademískur leiðtogi án þess að hafa slíka reynslu erlendis frá. Sú staðreynd að ekkert af öllu þessu fólki hefur slíkan bakgrunn er hins vegar ekki tilviljun, heldur markvisst val þeirra sem ráða för í þessu andverðleikasamfélagi; það er of óþægilegur samanburður að vera með innan um alvöru fólk sem veit hvernig góðir skólar eru byggðir upp og vill gera það.
Háskóli Íslands er ekki á þeim buxunum að breyta þessu. Fyrir fáum mánuðum auglýsti skólinn eftir sviðsforsetum yfir
Menntavísindasvið og
Félagsvísindasvið. Í auglýsingunum var tekið fram að umsækjendur þyrftu að hafa gott vald á íslensku. Þar með er búið að útiloka nánast alla útlendinga frá því að sækja um þessar stöður. Í athugasemd á eftir pistlinum er að finna lista yfir umsækjendur, og þeir listar eru dapurlegt vitni um metnaðarleysi HÍ.
Þetta er þó e.t.v. ekki kjarni vandans, heldur bara birtingarmynd þess sem veldur því að HÍ mun aldrei eflast til muna með þeirri stefnu sem núverandi forysta skólans hefur. HÍ hefur nefnilega nánast ekkert gert til að hlúa að því vísindafólki sem einhverja burði hefur til að lyfta skólanum, hvað þá að hann hafi lagt áherslu á að laða til sín fleira öflugt fólk af þeim alþjóðavettvangi sem hann þykist ætla að hasla sér völl á. Í staðinn hefur fólk sem ekki nær máli á þessum vettvangi (eins og hver sem er getur gengið úr skugga um á netinu) víða fengið að halda í burtu þeim sem eitthvað geta.
Hér er minnst á eitt hrikalegasta dæmið um þetta, þegar tölvunarfræðiskor HÍ hrakti á stuttum tíma frá sér flestalla bestu tölvunarfræðinga landsins, án þess að forysta skólans lyfti fingri til að stöðva skemmdarverkið.
Það kom svo glöggt í ljós eftir hrun, þegar talað var um nauðsyn þess að endurskipuleggja háskólakerfið, að vilji forystu HÍ stóð ekki til þess að verja það besta í skólanum. Við þær aðstæður hefði HÍ getað notað tækifærið og hætt að eyða gríðarlegum hluta þess fjár sem skólinn fær til rannsókna í fólk sem aldrei hefur stundað rannsóknir, eða a.m.k. ekki rannsóknir af þeim gæðum sem skóli með metnað þarf að krefjast. Í staðinn hefði verið hægt að krefjast þess að starfsmenn sem ekki ná máli í rannsóknum hættu að fá greitt fyrir slíkt og sinntu kennslu í auknum mæli. Þá hefði mátt nota rannsóknaféð til að koma í veg fyrir að aðstæður þeirra sem eitthvað geta í rannsóknum versnuðu til muna, eins og raunin virðist hafa orðið, enda ekki á það bætandi víða í skólanum. Og það er auðvitað glórulaust fyrir skóla sem hefur takmörkuð fjárráð en vill eflast sem rannsóknaháskóli að sóa rannsóknafé sínu í fólk sem aldrei getur eflt rannsóknastyrk skólans.
HÍ segist ætla að verða einn af bestu háskólum heims. Forysta hans hagar sér hins vegar eins og um skólann gildi einhver allt önnur lögmál en aðra skóla á þeim vettvangi, og „falsar bókhaldið“ til að sannfæra stjórnvöld og almenning um að hún sé á réttri leið. Það verður ekki hrun í háskólakerfinu í sama skilningi og í fjármálakerfinu 2008, enda hefur boginn aldrei verið spenntur hátt; strengurinn er slakur og boginn sjálfur víða fúinn. Lýðskrumsaðferðirnar eru hins vegar þær sömu og í fjármálageiranum fyrir hrun.