Mánudagur 27.5.2013 - 14:32 - 19 ummæli

Eyjan og Róbert Wessman

Í dag var frétt á Eyjunni með yfirkriftinni „Önnur kreppa vofir yfir verði ekkert að gert„.  Þar er fjallað um erindi Róberts Wessmans á „morgunverðarfundi Eyjunnar um snjóhengjuvandann“.  Þessi frétt er, eins og svo oft í íslenskum fjölmiðlum, lítið umskrifuð yfirlýsing frá hópi sem Róbert tilheyrir, hópi sem hefur ákveðnar skoðanir á því hvernig eigi að leysa vandann sem felst í gríðarlegum krónueignum erlendra (?) aðila.
Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að segja frá skoðunum ýmissa aðila á þessu máli, og ekki heldur að Eyjan gangist fyrir sérstökum fundi um slíkt, þótt manni geti fundist val framsögumanna ansi einsleitt.  Hitt er verra, að Eyjan, sem hefur valið að hampa Róbert og skoðunum hans með þessum hætti, virðist ekki telja neina ástæðu til að grafast fyrir um hvaða hagsmuna Róbert eigi hugsanlega að gæta í þessu máli.  Það er vond fréttamennska.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.5.2013 - 11:18 - 4 ummæli

Grimmdarverk í uppsiglingu?

Í tilefni af því sem fram kemur í þessari frétt sendi ég Ögmundi innanríkisráðherra eftirfarandi póst.  Ég hvet alla sem telja þetta mikilvægt mannréttindamál til að skrifa Ögmundi. Netföng hans eru
   ogmundur.jonasson@irr.is   og   ogmundur@althingi.is
____________________________________________________
Sæll Ögmundur
Miðað við þessa frétt, http://visir.is/vilja-drekkja-ogmundi-i-tolvuposti/article/2013130509308, er í uppsiglingu grimmdarverk, sem þú berð ábyrgð á, en getur enn afstýrt.  Eins og þú veist auðvitað leggur Dyflinnarreglugerðin engar skyldur á herðar Íslandi varðandi flóttamenn, heldur veitir bara heimild.  Eins og þú veist líka hefur Ísland fengið tiltal Mannréttindadómstóls Evrópu (þótt óbeint sé) fyrir að skýla sér á bak við þessa reglugerð, og þvo hendur sínar í stað þess að taka sjálft ábyrgð og sýna þá lágmarksmannúð sem Mannréttindasaáttmáli Evrópu og flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir. Eins og þú veist braut forveri þinn í starfi gegn þessum mannréttindasáttmálum með því að senda til Grikklands flóttamenn sem beðist höfðu hælis á Íslandi.  Um örlög sumra þessara manna vitum við ekki neitt; við lifum í óvissu um hvort íslenska ríkið beri ábyrgð á ofsóknum, pyntingum eða jafnvel morðum á þessu fólki.
Það er í þínu valdi að koma í veg fyrir þetta forherta miskunnarleysi.  Það er á þína ábyrgð að ekki bætist fleira fólk á þann lista mannréttindabrota sem innanríkisráðuneytið hefur á samviskunni.
Bestu kveðjur,
Einar

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.5.2013 - 09:57 - 22 ummæli

Háskóli Íslands vill ekki útlendinga

Háskóli Íslands hefur það yfirlýsta markmið að komast í fremstu röð meðal háskóla heimsins, og reyndar ekki aftar en meðal hundrað bestu.  Margir hafa gert grín að þessu markmiði og talið það óraunhæft.  Undir það má e.t.v. taka, en hitt er mikilvægara að ef forysta skólans hefði í raun áhuga á að gera skólann frambærilegan á alþjóðavettvangi þá væri þetta markmið í sjálfu sér ekki til tjóns, því hafi maður það markmið að keyra til Víkur í Mýrdal frá Reykjavík er í fínu lagi að setja stefnuna á Hornafjörð.
Hitt er annað mál að það er ekki skynsamlegt fyrir skóla sem vill verða öflugri í alþjóðlegum samanburði að einblína á mælikvarðana sem notaðir eru og reyna beinlínis að skora hærra á þeim.  Til að HÍ verði góður skóli þarf nefnilega að breyta skólanum, alveg eins og maður þarf að kynda allt húsið til að hækka í því hitann,  ekki bara undir hitamælinum.  Forysta HÍ hefur gortað mikið af því undanfarið að skólinn skuli hafa komist á lista yfir 300 bestu.  Henni hefur hins vegar láðst að geta þess að hér er bara um að ræða einn lista af mörgum slíkum (og HÍ sést ekki á hinum), auk þess sem aðferðin hefur verið að blása heitu lofti á hitamælinn:
  • HÍ hefur fjölgað doktorsnemum gríðarlega, en mjög mörgum þeirra er boðið upp á umhverfi sem stendur alls ekki undir þeim akademísku kröfum sem gerðar eru í sæmilegum skólum, ekki síst vegna þess að leiðbeinendurnir ná ekki máli sem fræðafólk á alþjóðavettvangi.  Í stað þess að byggja upp öflugt rannsóknaumhverfi sem yrði umgjörð fyrir gott doktorsnám var bara ákveðið að fjölga þeim sem skráðir eru í doktorsnám.  Það er líka ljóst að til að fjölga doktorsnemum verulega, og byggja upp gott doktorsnám, þyrftu flestir nemendurnir að koma erlendis frá.  Íslendingar eru nefnilega ekki betri en annað fólk, og það er einfalt reikningsdæmi að 320 þúsund manna samfélag á ekki nema brot af þeim fjölda af nógu góðum doktorsnemum sem þarf fyrir skóla af því tagi sem HÍ segist vilja verða.  Auk þess fer mikið af bestu íslensku nemendum til útlanda í doktorsnám, og það væri brjálæði að reyna að stöðva þann straum.  En, HÍ virðist nánast ekkert hafa gert til að geta laðað til sín erlenda doktorsnema í stórum stíl.
  • Fyrir fáum árum var nokkuð af öflugasta vísindafólkinu hjá Íslenskri Erfðagreiningu og Hjartavernd gert að prófessorum við HÍ, sem leiddi til þess að vísindagreinar þessa fólks eru nú taldar skólanum til tekna (og það hækkaði skólann á þessum eina lista sem hann sést á), þótt skólinnn leggi ekkert nýtt af mörkum í því vísindastarfi sem hér um ræðir.  Hér er sem sagt um að ræða bókhaldsbrellur (og stórkarlalegar yfirlýsingar um eigið ágæti) sem minna óþægilega á árið 2007 í fjármálageiranum.  Um þessa bókhaldsbrellu má lesa svolítið hér.
Það er sláandi að bæði HÍ og HR (sem samanlagt eru yfir 90% af háskólakerfi landsins) hafa þá yfirlýstu stefnu að verða öflugir rannsóknaskólar á alþjóðavettvangi, í ljósi þess hverjir sitja í æðstu akademísku forystu þeirra.  Þessi forysta telur 12-15 manns, þar sem eru rektorar, aðstoðarrektorar, sviðsforsetar í HÍ og deildarforsetar í HR.  Ekki ein af þessum manneskjum hefur nokkra teljandi reynslu af starfi við háskóla á þeim alþjóðavettvangi sem skólarnir segjast ætla að hasla sér völl á.  Vissulega verður engin manneskja sjálfkrafa góð til forystu af því einu að hafa slíka reynslu, og auðvitað er ekki ómögulegt að verða öflugur akademískur leiðtogi án þess að hafa slíka reynslu erlendis frá.  Sú staðreynd að ekkert af öllu þessu fólki hefur slíkan bakgrunn er hins vegar ekki tilviljun, heldur markvisst val þeirra sem ráða för í þessu andverðleikasamfélagi; það er of óþægilegur samanburður að vera með innan um alvöru fólk sem veit hvernig góðir skólar eru byggðir upp og vill gera það.
Háskóli Íslands er ekki á þeim buxunum að breyta þessu.  Fyrir fáum mánuðum auglýsti skólinn eftir sviðsforsetum yfir Menntavísindasvið og Félagsvísindasvið.  Í auglýsingunum var tekið fram að umsækjendur þyrftu að hafa gott vald á íslensku.  Þar með er búið að útiloka nánast alla útlendinga frá því að sækja um þessar stöður.  Í athugasemd á eftir pistlinum er að finna lista yfir umsækjendur, og þeir listar eru dapurlegt vitni um metnaðarleysi HÍ.
Þetta er þó e.t.v. ekki kjarni vandans, heldur bara birtingarmynd þess sem veldur því að HÍ mun aldrei eflast til muna með þeirri stefnu sem núverandi forysta skólans hefur.  HÍ hefur nefnilega nánast ekkert gert til að hlúa að því vísindafólki sem einhverja burði hefur til að lyfta skólanum, hvað þá að hann hafi lagt áherslu á að laða til sín fleira öflugt fólk af þeim alþjóðavettvangi sem hann þykist ætla að hasla sér völl á.  Í staðinn hefur fólk sem ekki nær máli á þessum vettvangi (eins og hver sem er getur gengið úr skugga um á netinu) víða fengið að halda í burtu þeim sem eitthvað geta.  Hér er minnst á eitt hrikalegasta dæmið um þetta, þegar tölvunarfræðiskor HÍ hrakti á stuttum tíma frá sér flestalla bestu tölvunarfræðinga landsins, án þess að forysta skólans lyfti fingri til að stöðva skemmdarverkið.
Það kom svo glöggt í ljós eftir hrun, þegar talað var um nauðsyn þess að endurskipuleggja háskólakerfið, að vilji forystu HÍ stóð ekki til þess að verja það besta í skólanum.  Við þær aðstæður hefði HÍ getað notað tækifærið og hætt að eyða gríðarlegum hluta þess fjár sem skólinn fær til rannsókna í fólk sem aldrei hefur stundað rannsóknir, eða a.m.k. ekki rannsóknir af þeim gæðum sem skóli með metnað þarf að krefjast.  Í staðinn hefði verið hægt að krefjast þess að starfsmenn sem ekki ná máli í rannsóknum hættu að fá greitt fyrir slíkt og sinntu kennslu í auknum mæli.  Þá hefði mátt nota rannsóknaféð til að koma í veg fyrir að aðstæður þeirra sem eitthvað geta í rannsóknum versnuðu til muna, eins og raunin virðist hafa orðið, enda ekki á það bætandi víða í skólanum.  Og það er auðvitað glórulaust fyrir skóla sem hefur takmörkuð fjárráð en vill eflast sem rannsóknaháskóli að sóa rannsóknafé sínu í fólk sem aldrei getur eflt rannsóknastyrk skólans.
HÍ segist ætla að verða einn af bestu háskólum heims.  Forysta hans hagar sér hins vegar eins og um skólann gildi einhver allt önnur lögmál en aðra skóla á þeim vettvangi, og „falsar bókhaldið“ til að sannfæra stjórnvöld og almenning um að hún sé á réttri leið.  Það verður ekki hrun í háskólakerfinu í sama skilningi og í fjármálakerfinu 2008, enda hefur boginn aldrei verið spenntur hátt; strengurinn er slakur og boginn sjálfur víða fúinn.  Lýðskrumsaðferðirnar eru hins vegar þær sömu og í fjármálageiranum fyrir hrun.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.5.2013 - 09:25 - 52 ummæli

Að níðast á ungum drengjum

Nýlega kom út „Skýrsla og tillögur um aukinn hlut karla í jafnréttismálum„, unnin af starfshópi á vegum Velferðarráðuneytisins, en í honum sátu níu karlar, undir formennsku Jóns Yngva Jóhannssonar.  Það væri efni í marga pistla að fjalla um allar órökstuddu fullyrðingarnar sem fram eru settar í skýrslunni (eða „studdar“ með vísun í titla á stöku rannsóknagreinum eða bókum), en sem samt eru notaðar til að réttlæta ýmsar tillögur um aðgerðir.
Það er ýmislegt fyndið í þessari skýrslu, eins og til dæmis eftirfarandi tillaga um enn frekari klámvæðingarvæðingu:
„Starfshópurinn telur að tryggja verði að klám, áhrif kláms og klámvæðing séu til umræðu í samfélaginu. Rannsóknir á klámi og áhrifum kláms eru mikilvægar til að tryggja að umræða byggist á faglegum grunni.“
Eða, væri fyndið ef þetta væri bara brandari.  Að vísu hafa verið gerðar talsverðar rannsóknir á hugsanlegum áhrifum kláms á beitingu ofbeldis, en skemmst er frá því að segja að aldrei hefur verið sýnt fram á að nokkur slík áhrif séu til staðar, auk þess sem aldrei hefur verið nein sérstök ástæða til að ætla að um slík áhrif væri að ræða.  Auk þess  er, sem betur fer, öllum sem vilja heimilt að tala eins mikið og þeir kæra sig um, á opinberum vettvangi, um klám.  Og hafi skýrsluhöfundar lítið fylgst með íslenskum fjölmiðlum síðustu árin væri gustukaverk að benda þeim á að þar líða sjaldan meira en fáir dagar í einu á milli klám“fréttanna“.  En, hér er væntanlega verið að leggja til að ríkisvaldið tryggi það að þessi umræða eflist til muna, og leitt er að þessi frábæra skýrsla skyldi ekki lögð fram sem rökstuðningur við Klámstofutillögu fráfarandi innanríkisráðherra.
Því miður er þessi skýrsla þó ekki bara til þess fallin að skemmta sér við upplestur úr henni á síðkvöldum.  Í henni eru líka tillögur með hrollvekjandi undirtóni:
„Kynjafræði og nám um ofbeldi í nánum samböndum verði veigameiri hluti skólastarfs. Sérstaklega þarf að huga að og útfæra fræðslu fyrir drengi um tengsl siðferðis og samskipta í nánum samböndum.“
Það er að vísu ekki nýtt að íslenskir femínistar leyfi sér að úthrópa unga drengi með þessum hætti, því Stígamót tala í ársskýrslu sinni um unga drengi, jafnvel niður fyrir tíu ára aldur, sem kynferðisofbeldismenn, og það án þess að hafa heyrt nema aðra hliðina á meintum brotum.  Ljóst er að sumir þessara drengja vita að verið er að fjalla um þá (einn þeirra var m.a. borinn ljótum sökum af „kynjafræði“kennara í Borgarholtsskóla í löngum þætti á Stöð 2 í fyrra, þannig að hann getur varla hafa velkst í vafa um við hvern var átt).
Til eru karlmenn sem beita ofbeldi.  (Það sama gildir um konur, þótt vel megi vera að það sé sjaldgæfara.)  Að taka skóladrengi sérstaklega fyrir og „mennta“ þá um slikt ofbeldi lyktar hins vegar illilega af því sem á ensku er kallað „guilt by association“, að stimpla fólk sem viðsjárvert af því einu að það tilheyrir tilteknum hópi, sem það hefur ekki valið sér þátttöku í.  Myndu Jón Yngvi og félagar hans leggja til sams konar „menntun“ fyrir unga bandaríska blökkumenn, þar sem þeir eru mun líklegri en karlmenn af annars konar hörundslit til að verða sakfelldir fyrir ofbeldisglæpi?
Er kannski kominn tími til að femínistar hætti að úthrópa karlmenn sem viðsjárverðar skepnur?  Hætti að leggja til að aðrir femínistar verði ráðnir til að gera meiri „rannsóknir“ til að sanna hvers konar skepnur karlmenn eru?  Hætti að mála klámskrattann upp um alla veggi til að skapa sér vinnu við „hreinsunarstörfin“?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.4.2013 - 12:51 - 17 ummæli

Lýðræði og 5% reglan

Þegar þingsætum er úthlutað til lista í hverju kjördæmi fyrir sig, þá er notuð regla D’Hondts.  Hún er tiltölulega einföld:
Fyrsti maður á tilteknum lista fær stig sem nema öllum atkvæðum listans, annar maður fær stig sem nema helmingi atkvæðanna, sá þriðji fær 1/3, og svo koll af kolli.  Þannig er sérhverjum frambjóðanda í kjördæminu úthlutað stigum, og svo er frambjóðendum raðað í þingsætin eftir þessum stigum, þar til búið er að úthluta öllum sætum.
Í núverandi kerfi eru 54 kjördæmakjörnir þingmenn, en jöfnunarsætunum níu er úthlutað með það fyrir augum að jafna eins og hægt er hlutfallslegan þingstyrk miðað við atkvæðafjölda hvers lista á landsvísu, enda er markmiðið að skipting þingsæta endurspegli sem best heildarskiptingu atkvæða.  Undantekningin er 5%-þröskuldurinn; framboð sem nær ekki 5% á landsvísu fær engin jöfnunarsæti.
Ef öllum þingsætunum 63 væri hins vegar úthlutað á grundvelli reglu D’Hondts, út frá atkvæðafjölda á landsvísu, og enginn væri þröskuldurinn, þá hefðu þingsæti skipst með eftirfarandi hætti í nýafstöðnum kosningum:
     18  D  Sjálfstæðisflokkur
     16  B  Framsókn
      8  S  Samfylking
      7  V  Vinstri Græn
      5  A  Björt Framtíð
      3  Þ  Píratar
      2  T  Dögun
      2  I  Flokkur heimilanna
      1  L  Lýðræðisvaktin
      1  G  Hægri Grænir
Regla D’Hondts hyglir listum með mörg atkvæði nokkuð.  Önnur regla, sem gerir það síður og sem sums staðar hefur verið notuð, er regla Sainte-Laguës.  Þar fær fyrsti maður á lista öll atkvæði listans, næsti maður 1/3 þeirra, þriðji maður 1/5, fjórði maður 1/7 og svo koll af kolli, og svo er sætum úthlutað með sama hætti og lýst er að ofan, eftir stigunum sem reiknuð eru hverjum frambjóðanda.  Ef þessi aðferð hefði verið notuð með sama hætti og í dæminu hér að ofan hefði útkoman orðið þessi:
     17  D  Sjálfstæðisflokkur
     15  B  Framsókn
      8  S  Samfylking
      7  V  Vinstri Græn
      5  A  Björt Framtíð
      3  Þ  Píratar
      2  T  Dögun
      2  I  Flokkur heimilanna
      2  L  Lýðræðisvaktin
      1  G  Hægri Grænir
      1  J  Regnboginn
Það er ekki hægt með einföldum hætti að úrskurða hver sé réttlátasta reglan hér (það er hægt að hugsa sé ýmsar fleiri aðferðir en þessar tvær), en það má t.d. spyrja hversu mörg atkvæði séu að meðaltali á bak við hvern þingmann tiltekins lista.  Í fyrra dæminu hér að ofan eru neðstu listarnir tveir, Lýðræðisvaktin og Hægri Grænir, með fleiri atkvæði á bak við þingmenn sína en nokkur hinna listanna.  Í síðara dæminu er Regnboginn hins vegar með umtalvert færri atkvæði á bak við sinn þingmann en nokkur hinna listanna; þau eru bara 2021, en næstlægsta meðaltalið (hjá Lýðræðisvaktinni) er 2329.
Einhvern tíma seinna langar mig að fjalla svolítið um hversu (ó)lýðræðisleg 5% reglan er (og hversu fáránleg mér finnast rökin fyrir henni, miðað við skilvirkni þings og ríkisstjórna síðustu áratugina, ekki síst ef miðað er við skilvirkni Stjórnlagaráðs).  Í bili læt ég nægja að segja að mér finnst hræðilega ólýðræðislegt að allt það fólk sem kaus framboð sem ekki náðu inn á þing fái enga fulltrúa þar, í staðinn fyrir þá að minnsta kosti sex þingmenn sem hefðu átt að fást fyrir þessi atkvæði, samkvæmt fyrra dæminu hér að ofan, ef séð væri til þess að atkvæði allra kjósenda vægju jafnt.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.4.2013 - 17:24 - 13 ummæli

Að koma í veg fyrir meirihluta B+D

Því hefur verið haldið fram síðustu daga að öruggasta leiðin til að koma í veg fyrir að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fái meirihluta á þingi sé að kjósa Samfylkinguna eða VG, frekar en Dögun eða Lýðræðisvaktina (LV).  Þetta er rangt.
Samanlagt fylgi Dögunar og LV mælist nú 6,5%.  (Vera má að þessar kannanir sýni ranga mynd, en það er á þessari forsendu sem ofangreind staðhæfing byggir.)  Ef allt þetta fylgi færðist yfir á VG og S, þá er trúlegast að það myndi auka samanlagðan þingstyrk þeirra um fjögur sæti.
Ef hins vegar VG og S sæju af þeim 3,5% sem þarf til að bæði Dögun og LV kæmust upp í 5% myndu síðarnefndu framboðin fá samtals sex þingsæti, og þessi 3,5% myndu trúlegast kosta VG og S bara tvö sæti. „Nettógróði“ andstæðinga B+D-stjórnar yrði þannig fjögur þingsæti.
Það verður að teljast afar ólíklegt að Dögun og LV fari niður fyrir samtals 4%, jafnvel þótt margir ákveði á síðustu stundu að kjósa „taktískt“.  Þar er því varla um að ræða að VG og S geti bætt við sig nema í mesta lagi einu eða tveimur sætum.  Fyrir þá sem velta fyrir sér að kjósa taktíst, til að koma í veg fyrir meirihluta B og D, og velja á milli VG-S annars vegar og LV-Dögunar hins vegar, ætti niðurstaðan að vera nokkuð ljós:  Öruggasta leiðin er sú að kjósa LV eða Dögun; það er líklegra til að minnka þingstyrk B og D en að kjósa VG eða Samfylkinguna.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur