Laugardagur 30.3.2013 - 12:09 - 13 ummæli

Framboð ættu að sameinast

Útlit er fyrir að það verði óvenjulegur fjöldi framboða í þingkosningum í vor, og því hafa sumir velt fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt að sameina sum þeirra, til að auðvelda kjósendum valið.  Þetta á auðvitað helst við framboð sem hafa keimlíka stefnu í mikilvægustu málunum.
Það er ljóst að nokkur framboðanna hafa í raun sömu eða mjög svipaða stefnu í ýmsum þeim málum sem margir kjósendur telja til þeirra mikilvægustu.  Þetta á við um kvótamálin, stóriðjumál, náttúruverndarmál og stjórnarskrármálið (og almennt um valdakerfið og hlut almennings í ákvörðunum varðandi það), þar sem þessi framboð virðast í raun hafa mjög áþekka stefnu.
Það væri því gustukaverk gagnvart kjósendum að þessi framboð sameinuðust í eitt.  Þau eru: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking, Vinstri Græn og Björt Framtíð.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.3.2013 - 11:45 - 7 ummæli

Þrjátíu gullpeningar handa Ástu R.

Vegna mikils verðfalls á silfri síðustu tvö þúsund árin hefur verið ákveðið að leysa Ástu R. Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, út með þrjátíu gullpeningum þegar hún lýkur störfum í vor.

Í öðru og þriðja sæti eru Árni Páll Árnason og Katrín Jakobsdóttir.  Þau verða að láta sér nægja silfur í þetta sinn, en á næsta þingi verður Ásta ekki meðal keppenda, svo möguleikar þeirra á gulli ættu að aukast umtalsvert.

Þrjátíu bronspeninga fær Guðmundur Steingrímsson.  Hann er nýliði í bransanum og enn ekki ljóst hvort hann hefur til lengdar þann sálarstyrk sem þarf til að vinna þau verk sem að jafnaði hafa verið launuð með þrjátíu silfurpeningum.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.3.2013 - 14:22 - 13 ummæli

Fullt gjald eða „eðlilegt“ fyrir auðlindir?

Eitt af því sem of lítið virðist spurt um í fjölmiðlum í því fjaðrafoki sem stendur yfir á Alþingi vegna stjórnarskrárfrumvarpsins er breytingatillaga fjögurra stjórnarliða, þeirra Oddnýjar G. Harðardóttur, Álfheiðar Ingadóttur, Árna Þórs Sigurðssonar og Skúla Helgasonar.  Þetta er breytingatillaga við þá tillögu formanna Samfylkingar, VG og Bjartrar Framtíðar  að samþykkja á þessu þingi bara þá breytingu á stjórnarskrá að henni megi breyta með því að Alþingi samþykki það og síðan séu breytingarnar samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Markmiðið með breytingartillögu fjórmenninganna er væntanlega að sjá til þess að eitthvað bitastætt sé samþykkt af öllum þeim breytingum sem felast í heildarfrumvarpinu, og sem mikill meirihluti almennings styður, miðað við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október, og það sem vitað er  um málið úr skoðanakönnunum.  Þetta er því væntanlega hugsað sem málamiðlun, til þess að afla frekari stuðnings við það sem virðist vera fyrirætlan forystu stjórnarflokkanna, að drepa stjórnarskrármálið.

Í breytingatillögunni er lagt til að auðlindaákvæðið úr heildarfrumvarpinu sé samþykkt, í viðbót við breytingarnar á því hvernig breyta megi stjórnarskránni án þess að rjúfa þing.  Þessu ákvæði hefur hins vegar verið breytt á sérkennilegan hátt.  Þar stendur nefnilega þetta  (skáletrun mín):

Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.

Í upphaflegu tillögunni er þetta hins vegar orðað svona (skáletrun mín):

Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.

Það hlýtur að vera ástæða fyrir því að þingmennirnir vilja ekki að greitt sé fullt gjald fyrir afnot af auðlindum, heldur bara „eðlilegt“ gjald.  Það síðarnefnda er ekki afdráttarlaust, heldur háð mati þeirra sem með völdin fara hverju sinni, sem þannig fá mikið svigrúm til að ákveða hvað sé „eðlilegt“.

Hvaða hagsmunir eru hér að baki?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.3.2013 - 12:56 - 9 ummæli

Steingrímur J. og stóriðja á Bakka

Þegar Steingrímur J. Sigfússon ákvað að flytja sig úr stóli fjármálaráðherra yfir í atvinnuvegaráðuneytið útskýrðu það sumir með því að hann væri orðinn lúinn á álaginu sem fylgdi því að vera fjármálaráðherra á erfiðum tímum.
Getur verið að skýringin sé önnur?  Að Steingrímur hafi farið í atvinnuvegaráðuneytið til að passa upp á að staðið yrði „rétt“ að þeim milljarða stuðningi ríkisins við stóriðjuver á Bakka við Húsavík sem felst í ýmiss konar ívilnunum til þess?   Það væri ekki í fyrsta skipti sem atkvæði í komandi kosningum eru keypt dýru verði, á kostnað skattgreiðenda.

Og, verður þessi milljarða ríkisstyrkur til stórkapítalistanna sem vilja byggja á Bakka, með tilheyrandi virkjunum og náttúruspjöllum sem þeim fylgja, svanasöngur „Vinstri Grænna“ í þessari fyrstu ríkisstjórn sem flokkurinn situr í?  Verður svo fjallað um þessa snilld í Kastljósi eftir tíu ár, eins og stóriðjuverin sem nú eru þar til umræðu?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.3.2013 - 18:31 - 11 ummæli

Ósmekkleg örvænting Árna Páls

Í gærkvöldi birti Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, eftirfarandi á Facebook-síðu sinni:
Stjórnarskrármálið sýnir eitt afar skýrt: Samfylkingin er alvöru jafnaðarmannaflokkur.
Við stöndum fyrir skynsamlegar og færar leiðir í þessu máli rétt eins og öllum öðrum. Og eins á öllum tímum er við að eiga sameinað afturhald: Þá sem engu vilja breyta og últramennina sem berjast af hörku gegn áfangasigrum til að geta upplifað fróun yfir eigin hetjudauða þegar málið siglir í strand en kæra sig kollótta yfir því hvort yfir höfuð muni verða mögulegt að vinna málefninu fylgi á síðari stigum.
Þetta er saga jafnaðarmanna á öllum tímum – og svikabrigslin eru eins og lóukvak á vori: Staðfesta að við erum á réttri leið!
Það er eiginlega óþarfi að hafa mörg orð um þetta; Árni segir hér allt sem segja þarf um leiðtogahæfileika sína og afstöðu sína til þeirra sem vilja (eins og meirihluti almennings) fá nýja stjórnarskrá samþykkta á þessu þingi, þar á meðal afstöðu sína til sumra þeirra sem tilheyra þingflokki Samfylkingarinnar.
Það er athyglisvert að sjá ummælin við þessa yfirlýsingu Árna á Facebook-síðu hans; þau eru nánast öll á eina lund, og bæði mjög gagnrýnin og yfirleitt málefnaleg.  Hvorki Árni né stuðningsmenn hans reyna að svara gagnrýninni.  Hitt er ekki síður sláandi, að Árni Páll hefur ekki, frekar en aðrir á sama máli, útskýrt hvernig hann sér fyrir sér að farið verði að því að „vinna málefninu fylgi á síðari stigum“.
Af hverju hefur Árni Páll aldrei þurft að útskýra af hverju hann haldi að fjandmenn nýrrar stjórnarskrár verði meðfærilegri á næsta þingi en þessu?  Er ekki augljóst að Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn verða varla í veikari stöðu á næsta þingi en þeir eru núna, og að engri hugsandi (og heiðarlegri) manneskju dettur í hug að þeir muni þá hætta að hatast við þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir?
Árni Páll virðist staðráðinn í að láta það verða sitt fyrsta verk sem formanns Samfylkingarinnar að drepa stjórnarskrármálið.  Ekki nóg með það; hann reynir að kenna öðrum um, fólki sem hann fer um niðrandi orðum, sem augljóslega eiga einnig við fólk í hans eigin þingflokki sem hefur barist einarðlega fyrir því að róa málinu í höfn.  Spurningin er hvort formennska Árna Páls í Samfylkingunni, og Samfylkingin sem annað en smáflokkur, muni lifa það stríð af.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.3.2013 - 12:08 - 17 ummæli

Endalok Samfylkingarinnar?

Samfylkingin var upphaflega stofnuð til að sameina fólk sem taldi sig til vinstri í samfélagsmálum, þ.e.a.s. félagshyggjufólk.  Það tókst að vísu ekki fullkomlega þar sem sumt „vinstrafólk“ vildi frekar verða beinir arftakar Alþýðubandalagsins en að taka þátt í sameiningu allra á vinstri vængnum.  Reyndar virðast Vinstri Græn hvorki vera sérstaklega vinstrisinnuð né græn miðað við framgöngu sína á kjörtímabilinu, og það er táknrænt að þau ætli að ljúka því með því að samþykkja milljarða styrki til þeirra stórkapítalista sem vilja byggja stóriðju á Bakka, með tilheyrandi náttúruspjöllum vegna nauðsynlegra virkjana.  En það er annað mál …
Samfylkingin fékk mikinn meðbyr fljótlega á ferli sínum, enda þóttust margir sjá að þar væri kominn flokkur sem myndi standa vörð um hagsmuni almennings, og sérstaklega þeirra sem minna mega sín, samtímis því að verja frelsi í viðskiptum og svigrúm einkaframtaks, sem mörgum hugnast vel, þótt minni ánægja sé oft með raunverulegar gerðir á þeim sviðum, enda atvinnulíf landsins undirlagt af klíkuveldi sem hirðir um það eitt að maka eigin krók.  Á því sviði, að brjóta upp það gegnrotna spillingarkerfi sem drottnað hefur yfir atvinnulífi og stjórnmálum landsins, hefur Samfylkingin lítið eða ekkert gert, en það er líka annað mál …
Efasemdaraddirnar þögnuðu samt aldrei hjá þeim sem töldu að hægrisinnaðir kratar, sem  á Íslandi voru alltaf langt hægra megin við félaga sína á hinum Norðurlöndum, hefðu slík ítök í flokknum að hann yrði aldrei  jafnaðarmannaflokkur af norrænni gerð, og allra síst ef hann skæri ekki í alvöru upp herör gegn því gegndarlausa  ráni lítillar valdaklíku á auðlindum landsins sem einn Samfylkingarmaðurinn nefndi svo snilldarlega „Rányrkjubúið Ísland„.  Til hægrikratanna töldu margir Árna Pál Árnason, nýkjörinn formann, sem gekk þó vel að kynna sig sem eitthvað allt annað í baráttu sinni um formannstignina, og í nokkrar vikur eftir það.
Árna þraut þó snemma örendið.  Í krafti formennsku sinnar komst hann fljótlega í þá aðstöðu að hafa veruleg áhrif á eitthvað sem skipti máli, þ.e.a.s. stjórnarskrármálið.  Miðað við það sem síðar kom á daginn, og sem Árni hefði verið fljótur að finna út sjálfur hefði hann kært sig um, var meirihluti þingmanna tilbúinn að lýsa yfir stuðningi við að stjórnarskrárfrumvarpið í heild sinni yrði samþykkt á þessu þingi.  Til þess þarf að stöðva væntanlegt  málþóf þingmanna Sjálfsstæðisflokksins og einhverra úr Framsókn, svo valið stóð augljóslega á milli tveggja kosta:
  • Að beygja sig fyrir kúgunarvaldi Sjálfstæðisflokksins, sem skírskotar til  samtryggingarinnar sem felst í þeirri „hefð“ að stöðva ekki málþóf, hversu brjálæðislegt sem það er, og hversu hrikalega sem það fer í bága við augljósan og stöðugan vilja almennings (og sem er  óþekkt fyrirbæri í nágrannalöndunum, enda fáránlega ólýðræðislegt).
  • Eða að gerast sá leiðtogi sem sýndi að hann bæri hagsmuni almennings fyrir brjósti, og léti afturhaldsöflin ekki stöðva sig.  Hefði Árni valið þann kostinn er nokkuð ljóst að nánast enginn Samfylkingarþingmaður hefði treyst sér til að standa einn á víðavangi með það á samviskunni að vilja drepa stjórnarskrárfrumvarpið, og Árna hefði ekki orðið skotaskuld úr að tryggja það áður en í odda skærist.  Við þær aðstæður er líka útilokað að stjórnarliðar meðal VG hefðu þorað að láta það verða sitt síðasta verk fyrir kosningar að bana nýrri stjórnarskrá.
En Árna virðist aldrei hafa dottið í hug að hann gæti tekið sér slíkt leiðtogahlutverk.  Í staðinn hóf hann afskipti sín af málinu með því að ganga  á fund formanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og segja þeim nánast að þeir mættu alveg ráða því hvernig þeir færu að því að murka lífið úr stjórnarskrármálinu; hann ætlaði bara að vera hlutlaus áhorfandi að morðinu.
Með þessu tiltæki reitti Árni til reiði mikinn fjölda þess fólks sem kosið hefur Samfylkinguna síðustu árin, en vandséð er að hann hafi í staðinn laðað til sín nokkra nýja kjósendur, enda finnst þeim fæstum ástæða til annars en að kjósa ómengaða útgáfu þess afturhalds sem Árna er svo í mun að ná „sáttum“ við.
Sé það markmið Samfylkingarinnar að vera stór flokkur með afgerandi áhrif í íslenskum stjórnmálum er ljóst að hún gerði hrikaleg mistök með því að kjósa Árna yfir sig sem formann (þótt eini valkosturinn í formannskjörinu hafi ekki heldur verið gæfulegur).  Sé það markmið Samfylkingarinnar að vera krataflokkur að norrænni fyrirmynd (sem er ekki endilega djarfasta pólitíska hugmynd sem skotið hefur upp kollinum á Íslandi), þá er Árni á góðri leið með að breyta þeim draumi í martröð, því hans eina markmið virðist vera að verða hækja Sjálfstæðisflokksins, svo mjög sem hann hamrar á nauðsyn samninga við Sjálfstæðisforystuna, án þess að hafa nokkurn tíma minnst á hagsmuni þess almennings sem Samfylkingin hefur gert út á að vera málsvari fyrir.  Það kom enda glöggt í ljós í löngu viðtali Ingva Hrafns við Árna Pál á ÍNN nýlega að Árni virðist hugsa um stjórnmál eingöngu sem samninga milli valdaklíkna í fjórflokknum, sem komi þessum almenningi lítið við.
Það er ýmislegt sem ég er ósáttur við í tillögu Stjórnlagaráðs.  Ég er hins vegar mjög ánægður með vinnubrögð þess, og það er hægt að sætta sig við að vera í minnihluta þegar vinnubrögðin eru lýðræðisleg.  Sama gildir um Samfylkinguna.  Þótt ég myndi varla kjósa hana í bráð þá tæki ég því fagnandi ef á Íslandi yrði til það sem kalla mætti heiðarlegan krataflokk (með sterkri áherslu á „heiðarlegan“), enda myndi ég helst lýsa stjórnmálaskoðunum mínum sem svo að ég sé frjálslyndur félagshyggjumaður (með áherslu á frjálslyndi ef ég er að tala við „vinstrafólk“ og félagshyggju þegar ég tala við „hægrafólk“).
Núverandi formaður flokksins er hins vegar að leiða hann yfir í undirlægjuhlutverk gagnvart þeim sótsvörtu afturhaldsklíkum sem hafa drottnað yfir atvinnulífi og pólitík í landinu í áratugi.  Verði formanninum ekki fljótlega fundinn annar staður í tilverunni má allt eins búast við að flokkurinn verði  sundurtætt rekald í þeirri ólgu sem nú kraumar á Íslandi, og sem ekkert útlit er fyrir að lægi í bráð.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur