Fimmtudagur 22.6.2017 - 10:15 - 10 ummæli

Þegar lögreglan drap mann, að ástæðulausu

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Í umræðum síðustu daga um vopnaburð lögreglu hafa margir spurt þá sem gagnrýna hann hvort þeir „treysti ekki lögreglunni“. Það er ekki alveg heiðarleg spurning í ljósi þeirrar staðreyndar að vopnuð lögregla um allan heim er alltaf að gera þau mistök að skjóta saklaust fólk, og nákvæmlega ekkert bendir til að vopnuð lögregla leiði til færri drápa á saklausum borgurum.

En það vill svo til að við höfum gögn, þótt lítil séu, um framgöngu vopnaðrar lögreglu á Íslandi þar sem maður var drepinn. Og ef við ættum að taka afstöðu til vopnaburðar hennar á grundvelli þeirra gagna yrði niðurstaðan augljós; það er stórhættulegt borgurunum að setja vopn í hendur lögreglu.

Í eina skiptið sem sérsveitin hefur drepið mann gerði hún það nefnilega að ástæðulausu, og skapaði sjálf viljandi aðstæður þar sem ljóst var að hún myndi drepa manninn. Það var afleiðing af ótrúlegu fúski, kunnáttuleysi, skeytingarleysi og árásargirnd. Og reyndar munaði hársbreidd að lögreglan ylli þar dauða annars, alsaklauss, manns sem hún kallaði sjálf á vettvang, að nauðsynjalausu, og gerði bókstaflega að skotmarki.

Allt þetta má lesa út úr skýrslu ríkissaksóknara, Sigríðar Friðjónsdóttur, og það þótt skýrslan sé ósvífinn hvítþvottur á þessu manndrápi lögreglunnar. Þess vegna finnst mér full ástæða til að endurbirta, örlítið breyttan, eftirfarandi pistil, sem birtist fyrst á Eyjunni fyrir þrem árum:

Manndráp lögreglu, hvítþvottur saksóknara

Maður spilar of háa tónlist í íbúð sinni um nótt, en angrar að öðru leyti engan mann.  Nágranni hringir í lögreglu, kvartar yfir hávaðanum og segir hann (ranglega) koma frá manninum M.  Nágranninn segir líka, ranglega, að heyrst  hafi skothvellur og telur, einnig ranglega og án nokkurra trúverðugra skýringa, að M hafi skotið sjálfan sig til bana.  Þetta verður til þess að lögregla mætir á staðinn og drepur manninn S.
Síðastliðinn föstudag birti ríkissaksóknari skýrslu um rannsókn sína á því þegar sérsveit ríkislögreglustjóra drap mann í Hraunbæ þann 2. desember í fyrra. (Skýrslan sjálf er hér.)  Því miður hafa fjölmiðlar, með örfáum undantekningum, lítið fjallað um þetta mál með öðrum hætti en að birta yfirlýsingar yfirvalda, sem hafa verið af afar skornum skammti.  Auk þess hefur nú  komið í ljós að mikilvægum upplýsingum um atburðarásina var leynt, t.d. þegar lögregla hélt blaðamannafund um málið og fegraði þar framgöngu sína.  Þótt skýrsla ríkissaksóknara varpi ljósi á sumar hliðar málsins sem áður voru óljósar sýnir skýrslan að rannsókninni virðist ekki hafa verið ætlað að leiða í ljós allan sannleikann í málinu, og alls ekki að greina ástæður þeirra augljósu mistaka lögreglunnar sem höfðu svo hryllilegar afleiðingar. Auk þess lét ríkissaksóknari lögreglu framkvæma þessa rannsókn á aðgerðum lögreglu að stórum hluta, sem rýrir trúverðugleika hennar verulega.
Upphaf málsins er að nágranni mannsins sem skotinn var til bana hefur samband við lögreglu og kvartar undan tónlistarhávaða.  Nágranninn nafngreinir manninn ranglega og lögreglan áttaði sig ekki á þeim mistökum fyrr en löngu síðar, og  lögreglumenn á vettvangi vissu ekki af því fyrr en þeir voru að brjótast inn í íbúðina, og jafnvel þá var það ekki lögreglan sjálf sem lét þeim í té þær upplýsingar.
Nágranninn segist hafa heyrt skothvell, sem var rangt, því samkvæmt rannsókn lögreglu var engum skotum hleypt af í íbúðinni áður en hún kom á vettvang.  En vegna þessarar röngu staðhæfingar nágrannans er ákveðið að kalla til sérsveitina, sem vopnast og tekur sér stöðu við íbúðardyrnar.  Nágranninn (sem af óútskýrðum ástæðum er tilgreint að hafi gegnt herþjónustu) taldi líka að umræddur maður hefði skotið sjálfan sig.  Ekki er útskýrt af hverju lögreglan taldi álit nágrannans áreiðanlegt, en svo mikið er víst að hún gekk út frá því sem vísu að hann hefði giskað rétt (þótt síðar hafi komið í ljós að hann hafði rangt fyrir sér, í báðum atriðum).  Sú ranga ályktun lögreglu að nágranninn hefði rétt fyrir sér hratt hins vegar af stað atburðarás sem trúlega hefði aldrei þurft að verða, en endaði með því að lögreglan skaut manninn til bana.
Lögregla ákvað sem sagt að brjótast inn í íbúðina, og fékk til þess lásasmið utan úr bæ, en sagði honum ekki frá því að inni í íbúðinni væri maður sem talið væri að væri vopnaður og hefði hleypt af skoti.  Lásasmiðurinn var látinn vinna verk sitt algerlega óvarinn, og lögreglan á staðnum var ekki varin að fullu eins og hún hefði átt að vera, því sá lögreglumaður sem stóð næst dyrunum var ekki með skotheldan hjálm.  Þegar dyrnar voru svo opnaðar skaut íbúinn á lögreglumann fyrir utan þær, en hann sakaði ekki.  Hefði það skot lent á lásasmiðnum en ekki skildi lögreglumannsins er trúlegt að lögreglan hefði nú líf lásasmiðsins einnig á samviskunni.
Augljóst er að lögreglan stofnaði lífi lásasmiðsins í hættu, og að það var gert á fráleitum forsendum, það er að segja getgátum nágrannans einum saman.  Samt útskýrir ríkissaksóknari hvergi af hverju hér er ekki um að ræða refsivert gáleysi.  Hvergi í skýrslunni er heldur rætt um ábyrgð stjórnenda aðgerðarinnar eða annarra yfirmanna í lögreglunni sem ábyrgð ættu að bera.
Ekki var reynt að hafa samband við ættingja mannsins eða aðra þá sem hugsanlega hefðu getað náð sambandi við hann, til dæmis gegnum síma, enda fjalla verklagsreglur sérsveitar og lögreglu ekki um slíkt, samkvæmt skýrslu ríkissaksóknara, en hann gerir engar athugasemdir við skortinn á slíkum reglum.  Lögreglan bar fyrir sig að stuttur tími hefði verið til stefnu þar til „fólk færi til vinnu, börn í skóla og leikskóla o.s.frv.“  Ekki er útskýrt af hverju ekki var til dæmis hægt að senda lögreglumenn í alla stigaganga innan skotfæris við íbúð mannsins, til að koma í veg fyrir að íbúar sýndu sig utandyra.
Ríkissaksóknari segir líka í skýrslunni:
„Ekki verður séð að forsvaranlegt hefði verið að hafa samband við ættingja S og blanda þeim í aðgerðir lögreglu, sem voru hættulegar, auk þess sem ekki er gengið að upplýsingum um ættingja um miðja nótt, hvað þá að lögreglan geti vitað hvernig sambandi á milli fólks/ættingja er háttað og geti þannig metið hvort rétt sé að kalla þá til aðstoðar.“
Það er fáránlegt að halda fram að ekki hefði verið hægt að hafa uppi á ættingjum mannsins, og fráleitt að gefa sér að enginn þeirra hefði getað fengið hann til að svara í síma, því ríkissaksóknari ákveður hér að lögreglan hafi lög að mæla án þess að færa nokkur rök fyrir þessari sérkennilegu afstöðu.
Þegar hér var komið sögu var ákveðið að reyna að svæla manninn út úr íbúðinni með því að skjóta inn í hana gashylkjum, sem ættu að neyða hann til að yfirgefa íbúðina.  Rétt er að hafa í huga að þegar það var gert hafði maðurinn engum skotum hleypt af nema þegar brotist var inn í íbúðina.  Hann hafði sem sagt engan áreitt og ekki reynt að skaða neinn nema þegar brotist var inn í íbúðina, og ekkert sem bendir til að hann hafi haft slikt í hyggju.
Sú ákvörðun að beita gasi til að svæla manninn út er illskiljanleg, því maðurinn hafði áður brugðist við innrás í íbúðina með því að skjóta, og því varð að telja afar líklegt að hann myndi skjóta á lögreglu fyrir utan íbúðina ef hann léti svælast út úr henni.  Ljóst var líka að ef það gerðist myndi lögreglan drepa hann.  Lögreglan setti því vísvitandi af stað atburðarás sem yfirgnæfandi líkur voru á að myndi enda með því að manninum yrði banað, þótt hann hefði fram að því engum ógnað eða gert sig líklegan til að skjóta, nema þegar beinlínis var ráðist á hann.  Aldrei hefur verið útskýrt með skynsamlegum hætti af hverju lögregla beið ekki átekta, enda ætti hún að þekkja ótal sögur erlendis frá þar sem umsátur af þessu tagi stendur dögum saman.
Aðgerðinni lauk svo með því að lögregla braust inn í íbúðina eftir að gríðarlegum fjölda gashylkja hafði verið skotið inn um glugga og dyr, án þess að íbúinn kæmi út.  Þegar þangað var komið skaut maðurinn aftur gegn lögreglu.  Lögreglan sagði, samkvæmt ríkissaksóknara, að hún hefði ekki getað hörfað út úr íbúðinni, þótt ekki sé útskýrt af hverju, og því „neyddist“ hún til að skjóta manninn, og bana honum þannig.
Ljóst er að lögreglan hóf vopnaðar aðgerðir sínar á fölskum forsendum, sem hún reyndi ekki að sannreyna með nokkrum hætti.
Ljóst er að lögreglan setti lásasmiðinn í bráða lífshættu, og að fyrir því var engin afsökun.
Ljóst er að lögreglan réðst inn í íbúð manns sem engum hafði ógnað, sem leiddi til þess að hann skaut á lögreglumennina.
Ljóst er að lögreglan setti af stað, í stað þess að bíða átekta meðan maðurinn bærði ekki á sér og ógnaði engum, atburðarás sem nánast öruggt var að myndi leiða til þess að hún banaði honum.
Í stuttu máli er ljóst að lögreglan gerði mörg mistök, að sérsveitin ræður alls ekki við aðstæður af þessu tagi, og að það var hún sem þvingaði fram atburðarás sem leiddi til þess að hún drap mann, sem engum hafði ógnað áður en lögreglan kom til sögunnar.  Ljóst er einnig að yfirvöld, þar á meðal ríkissaksóknari, hafa engan áhuga á að upplýsa málið til fulls, og engan áhuga á að læra af mistökunum, bara að breiða yfir þau mistök sem höfðu svo hræðilegar afleiðingar.  Ljóst er því að ekkert verður gert til að koma í veg fyrir að harmleikur af þessu tagi endurtaki sig, því mikilvægara virðist vera að hvítþvo yfirvöld en að tryggja öryggi borgaranna.(Í útvarpsþættinum Harmageddon var fjallað um þetta mál í fyrradag)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.6.2017 - 10:15 - 5 ummæli

Að hvítþvo fúskið — opið bréf til forseta

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Sæll Guðni

Það voru mikil vonbrigði að sjá rökstuðning þinn fyrir ákvörðuninni um að staðfesta skipun dómaranna í Landsrétt. Ég átti alveg eins von á að einhverjir lögspekingar hefðu bent þér á leið til að réttlæta þetta sem öðrum hefði yfirsést. En það sem þú segir í yfirlýsingu þinni er furðuleg samsuða sem engan veginn tekur á því sem ágreiningurinn snýst um, og það er þér ekki til sóma.

Rökstuðningurinn í yfirlýsingu þinni snýst aðallega um tvennt: Að afgreiðsla málsins hafi verið í samræmi við þingvenjur, sem styðjist við þingsköp, og að skrifstofa Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að afgreiðslan hafi verið lögmæt.

Hvort tveggja er út í hött að leggja til grundvallar:

Ef afgreiðslan fór í bága við dómstólalögin, þá geta þingvenjur ekki gert hana lögmæta. Og almenn ákvæði í þingskapalögum geta aldrei trompað ákvæði í sérlögum, sem dómstólalögin eru.

Að spyrja skrifstofu Alþingis hvort hún telji að staðið hafi verið að afgreiðslunni með lögmætum hætti er álíka skynsamlegt og að spyrja fólkið á skrifstofu Ólafs Ólafssonar hvort hann hafi nokkuð brotið af sér í Al-Thani-málinu. Það er sjokkerandi að sjá þig leggja slíkt til grundvallar, sérstaklega í ljósi þess að þú segir ekki frá neinum viðræðum þínum við lögfræðinga sem eru á öndverðum meiði, hvað þá röksemdafærslum þeirra.

Ágreiningurinn snýst um túlkun þessa bráðabirgðaákvæðis í dómstólalögum:

„Þegar ráðherra gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skal hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skal hann senda þær forseta Íslands sem skipar í embættin, sbr. 21. gr. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skal ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar.“

Vegna þess að sérstaklega er talað um „hverja skipun“ og „tiltekna skipun“ liggur beinast við að túlka þetta ákvæði svo að samþykkja þurfi hverja skipun fyrir sig, en ekki allar í einu búnti, enda er vandséð hver tilgangurinn hefði annars verið með þessu orðalagi, og sá er skilningur eins þeirra lögfræðinga sem tóku þátt í að semja umrætt ákvæði.

Vegna þessarar óvissu, og þess að það eru sterk rök fyrir því að þingið hafi ekki farið að lögum, er ljóst að þessi afgreiðsla mun alltaf sæta mikilli gagnrýni, og setja ljótan blett á starf Landsréttar sem er skipaður með þessum vafasama hætti.

Þess vegna hefðirðu átt að synja því að staðfesta þessar skipanir. Afleiðingin af því hefði trúlegast einfaldlega orðið sú að þingið hefði fjallað aftur um málið og staðfest hverja skipun fyrir sig. Þar með hefði sá blettur verið þveginn af réttinum.

Það er hægt að hafa þá afstöðu að forseti eigi bara að vera stimpilpúði fyrir framkvæmda- og löggjafarvaldið. En þar sem þú hefur tekið afstöðu til málsins verður að krefjast þess að þú vinnir þá vinnu af heilindum og á málefnalegan hátt. Það hefur þú ekki gert hér; þetta er hvítþvottur, sem augljóslega þjónar þeim valdhöfum sem telja sig hafna yfir lög og reglur, en ekki þeim hagsmunum almennings sem þú ættir að vinna fyrir.

Það voru mikil vonbrigði.

Kveðjur,

Einar

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.4.2017 - 10:15 - Rita ummæli

Sovésk lög um jafnlaunavottun

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra lagði nýlega fram frumvarp til laga sem myndi skylda öll fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri til að undirgangast jafnlaunavottun á þriggja ára fresti, en hún á að tryggja að starfsmenn fái sömu laun fyrir sambærileg störf. Frumvarpið gerir þá kröfu til fyrirtækja að þau fái slíka vottun, sem samkvæmt frumvarpinu grundvallast á staðlinum ÍST 85:2012, sem Staðlaráð Íslands gefur út, en Staðlaráðið er „samstarfsráð þeirra sem hagsmuna hafa að gæta af stöðlum“ og „setur sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir“.

En þótt Staðlaráðið starfi samkvæmt lögum, og reglum sem ráðherra setur, þá eru staðlarnir sem það býr til ekki aðgengilegir almenningi, nema gegn greiðslu. Til dæmis kostar það 10.730 krónur að fá að sjá staðalinn ÍST 85:2012, sem umrætt frumvarp byggir á.

Af því að lög eru fyrir almenning (og fyrirtæki) til að fara eftir er almennt talið að þau verði að vera skiljanleg þeim sem eiga að hlýða. Þess vegna gerði ég ráð fyrir að umræddur staðall myndi fylgja frumvarpinu, svo ljóst væri hvað væri verið að leiða í lög. Þar sem ég fann þó ekki staðalinn á vef Alþingis í tengslum við þetta frumvarp skrifaði ég ráðherranum, og velferðarráðuneytinu, og spurði hvort til stæði að birta staðalinn. Ég ítrekaði svo fyrirspurnina nokkrum sinnum (hafandi þá reynslu af íslenskum ráðuneytum að þau svari ekki fyrirspurnum nema eftir því sé gengið ítrekað), og fékk á endanum þetta svar (viku eftir fyrirspurnina):

„Staðlaráð Íslands gaf út staðallinn Jafnlaunakerfi ÍST 85:2012. og áskilur ráðið sér öll réttindi varðandi hann. Í staðlinum er tekið fram eftirfarandi: ,, Án skriflegs leyfis útgefanda má ekki endurprenta eða afrita þennan staðal með neinum hætti, vélrænum eða rafrænum, svo sem ljósritun, hljóðritun eða annarri aðferð sem nú er þekkt eða verður síðar fundin upp, né miðla staðlinum í rafrænu gagnasafni“. Því getur ráðuneytið ekki birt staðalinn en tekið skal fram að hægt er að kaupa hann hjá Staðlaráði Íslands.“

Félagsmálaráðherra vill sem sagt setja lög sem byggja á reglum sem ekki verða gerðar opinberar almenningi (nema þeim sem eru tilbúin að borga slatta af þúsundköllum fyrir).

Leynileg lög eru ekki íslensk uppfinning; þau voru mikið notuð í Sovétríkjunum sálugu. Engum dylst að Sjálfstæðisflokkurinn er sigursælasti sovétflokkur Vesturlanda (og í heiminum, eftir fall Sovétríkjanna), með sinn þrautskipulagða ríkisverndaða kapítalisma, sem grunur leikur á að rússneskir ólígarkar hafi lært trix sín af eftir hrun sovétsins þar eystra.

En að Viðreisn, með Þorstein í fararbroddi, ætli sér að keppa við Sjálfstæðisflokkinn einmitt í sovétmennskunni hlýtur að koma einhverjum á óvart.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.3.2017 - 11:26 - 14 ummæli

Það er einfalt mál að leysa húsnæðisvandann

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Nýlega undirritaði Dagur borgarstjóri samning um byggingu 332 íbúða á Gelgjutanga í Reykjavík. Markmiðið er væntanlega að létta svolítið þann gríðarlega þrýsting sem er á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Það er góðra gjalda vert, og kannski algert aukaatriði þótt það sé kaldhæðnislegt, að eigandi fyrirtækisins sem samið var við, og sem væntanlega mun græða þokkalega á þessu, er Ólafur Ólafsson. Hann er einn af þeim sem ábyrgð bera á hruninu, sem er ein af orsökum hins hryllilega ástands í húsnæðismálunum.

En það er samt dapurlegt að sjá borgarstjóra svokallaðra félagshyggjuflokka semja við dæmdan stórkapítalista um að byggja örfáar af þeim þúsundum íbúða sem þarf til að koma þessum málum í skikkanlegt horf, í stað þess að vinna að því að leysa vandann í eitt skipti fyrir öll.

Húsnæðisvandinn á Íslandi er margs konar. Að kaupa er brjálæðislega dýrt vegna þeirra okurvaxta sem fólk þarf að borga; þeir hafa lengi verið þrefaldir til fimmfaldir á við það sem gerist í nágrannalöndum. Hin hliðin á vandanum er að það er enginn áreiðanlegur leigumarkaður á Íslandi, öfugt við það sem gildir í flestum löndum sem við þekkjum.

Vaxtaokrið verður erfitt að losna við, geri ég ráð fyrir, meðan við höldum í örmyntina ISK. En það er einfalt mál að búa til skikkanlegan leigumarkað. Það er hægt að gera svona:

Hið opinbera (ríkið, hugsanlega fyrir sveitarfélögin) tekur erlend lán til langs tíma (t.d. 50 ára) til að byggja svo sem tíuþúsund leiguíbúðir á næstu 10 árum (og svo fleiri eftir það). Slík lán ætti að vera hægt að fá með 1% vöxtum (sjá t.d. þetta).

Með því að byggja mikinn fjölda íbúða í einu, með skipulegum hætti, má ná byggingarkostnaðinum talsvert niður. Með 1% raunvexti á lánunum gæti leigan orðið miklu lægri en gerist á höfuðborgarsvæðinu í dag, og alveg sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum, enda græða jafnvel einkaaðilar þar á því að leigja út húsnæði á hóflegu verði. Hið opinbera þyrfti ekki einu sinni að niðurgreiða vextina, þótt það væri ekki endilega frágangssök, enda fullt af slíkum niðurgreiðslum í gangi til ýmissa aðila (t.d. fá bílaleigur milljarða í afslátt af tollum á bíla sem þær kaupa).

Einkaaðilar munu aldrei sjá sér hag í að leigja út íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði meðan raunvextir eru eins háir og raun ber vitni á Íslandi, auk þess sem þeir ætla sér jafnan talsverðan hagnað. Hið opinbera getur hins vegar auðveldlega komið á fót slíkum leigumarkaði, þar sem verðið væri viðunandi, og leigjendur gætu búið eins lengi og þeim sýndist í íbúðum sínum, í stað þess að vera allt í einu hent út af því að dóttir eigendanna var að koma heim úr námi.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að hinir svokölluðu félagshyggjuflokkar á Íslandi hafa ekki hunskast til að beita sér fyrir þessu, og það fyrir löngu? Af hverju eru þeir að tala um að byggja nokkur hundruð íbúðir eins og það sé stórmál, og berja sér á brjóst fyrir það, í stað þess að vinna að því af alefli að ríki og sveitarfélög byggi þá tugi þúsunda leiguíbúða sem þarf til að húsnæðismálin komist í þokkalegt og varanlegt horf?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.12.2016 - 10:15 - 5 ummæli

Opið bréf til Steingríms J.

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

.
Sæll Steingrímur

Ég var að lesa þennan pistil Björns Vals Gíslasonar: http://bvg.is/blogg/2016/12/04/rikisstjorn-um-velferdarmal-og-jofnud

Ég geri ráð fyrir að þú hafir lesið hann líka. Því langar mig að spyrja þig hvort þú ert á sama máli og Björn, og lítir svo á að „hraðar kerfisbreytingar“, svo sem þær hægu breytingar á kvótamálunum sem aðrir flokkar hafa lagt til, séu í andstöðu við velferð og jöfnuð.

Augu þjóðarinnar hvíla á VG, því það eruð þið sem hafið það í hendi ykkar hvort mynduð verður stjórn fimm flokka, eða stjórn með Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn innanborðs. (Ákall um nýjar kosningar er óskiljanlegt; kusu kjósendur vitlaust? Á að hafa vit fyrir þeim og segja þeim að haga sér?)

Ert þú sama sinnis og Björn Valur? Er hópur áhrifafólks innan VG sem vill koma í veg fyrir að gerðar verði „kerfisbreytingar“, breytingar á því kerfi sem íslenska auðvaldið hefur notað áratugum saman til að mergsjúga þá alþýðu sem VG ættu að réttu lagi að vinna fyrir?

Eru það hagsmunir alþýðunnar, en ekki LÍÚ, að viðhalda núverandi kvótakerfi? Eru það ekki hagsmunir almennings að hann fái sjálfur að taka ákvarðanir í mikilvægum málum, svo sem í kvótamálunum, með því að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur? Af hverju ættu LÍÚ, Sjálfstæðisflokkkurinn, Framsóknarflokkurinn og Björn Valur að fá að ráða yfir auðlindinni, en ekki sá yfirgnæfandi meirihluti almennings sem vill „kerfisbreytingar“ í því máli?

Það eru alls konar kerfisbreytingar sem mikill fjöldi fólks vill sjá á Íslandi. Breytingar sem hægt sé að nota til að uppræta þá spillingu sem gegnsýrir valdakerfið, bæði stjórnmála- og peningakerfið. Ætlið þið að standa gegn þeim? Ætlið þið að standa vörð um það gegnrotna kúgunarkerfi sem auðvaldið hefur komið upp, til að hægt sé að mergsjúga það fólk sem ætti að vera umbjóðendur ykkar sem kallið ykkur Vinstri Græn?

Bestu kveðjur, með von um að þú sért að hundskamma Björn Val fyrir að ganga erinda auðvaldins,

Einar

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.12.2016 - 15:21 - Rita ummæli

Opið bréf til innanríkisráðherra

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Sæl Ólöf

Sem innanríkisráðherra berð þú ábyrgð á þeim málum sem hér er fjallað um:http://www.frettatiminn.is/utlendingastofnun-sendir-stridshrjad-born-aftur-til-talibana/

Þetta er ekki í fyrsta, ekki í annað, ekki í þriðja skiptið sem íslensk yfirvöld sýna af sér svona viðurstyggilega grimmd.

Þú getur ekki skýlt þér á bak við það að ráðherra eigi ekki að blanda sér í afgreiðslu svona mála. Í fyrst lagi hefðir þú, sem æðsti yfirmaður þessara mála og í samræmi við þær hefðir sem gilda um frumkvæði ráðherra í lagasetningu á Íslandi, fyrir löngu átt að beita þér fyrir lagabreytingum til að stöðva þetta sturlaða miskunnarleysi.

Í öðru lagi hlýtur það að vera í þínu valdi sem ráðherra, að stöðva beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar í málum af þessu tagi (og helst að hætta því alveg; reglugerðin var EKKI samþykkt til að lönd eins og Ísland væru stikkfrí í þeim hörmungum sem flóttamannavandinn er). Það er ekkert sem krefur Ísland um að beita þessari reglugerð til að endursenda hælisleitendur, og það er því leikur einn fyrir þig að ákveða að því verði hætt.

Að endingu langar mig að minna þig á að þú ert ekki bara ráðherra dómsmála, heldur líka ráðherra mannréttindamála. Hér er verið að traðka á mannréttindum varnarlauss fólks, þar á meðal barna sem sætt hafa hrottalegri meðferð. Með þessu væri nánast örugglega verið að brjóta gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem og Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagt þungar skyldur á aðildarríkin varðandi endursendingar hælisleitenda í tilfellum sem þessum.

Ábyrgðin er þín, Ólöf, og þú getur ekki skorast undan henni. Það ert þú sem berð ábyrgð á því að þessum börnum verði ekki úthýst. Það ert þú sem berð ábyrgð á velferð þeirra. Ekki leggja það á samvisku þína að hafa eyðilagt líf þessara varnarlausu barna.

Með von um að þú sjáir að þér,

Einar

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur