Flokkar: Óflokkað
Þeir Ágúst Þór Árnason og Skúli Magnússon hafa nýlega lagt fram tillögu að nýrri stjórnarskrá sem óhætt er að segja að sé stefnt gegn tillögum Stjórnlagaráðs, sem þeir virðast telja of „róttækar“, enda felur tillaga þeirra félaga í sér litlar breytingar frá núverandi stjórnarskrá, nema hvað varðar ákvæði um þjóðareign á auðlindum, sem þeir vilja góðu heilli hafa með.
Nú er að vísu ekkert erfitt að skilja hugsunarhátt fólks sem er íhaldssamt í stjórnmálum, þ.e.a.s. í grundvallaratriðum andsnúið miklum breytingum, þótt mér finnist sú afstaða ekki sérlega aðlaðandi. (Eins og einhver orðaði það: „Ég skil ekki af hverju fólk er hrætt við nýjar hugmyndir. Það er meiri ástæða til að vera hræddur við gamlar hugmyndir.“) Hins vegar er lítið um það deilt að núgildandi stjórnarskrá sé í aðalatriðum afrit af meira en hundrað ára gamalli danskri stjórnarskrá, og síðan hefur margt gerst sem ástæða er til að láta hafa meiri áhrif á grundvöll stjórnskipulagsins en raunin er nú.
Það er að vísu vel hægt að taka undir að betra væri að endurskoða stjórnarskrána í rólegheitum, á nokkrum árum. Ef það væri raunhæf von til að það yrði gert myndu sjálfsagt flestir vera fylgjandi slíku verklagi. Hin óumflýjanlega staðreynd er þó að íslensku stjórnmálaflokkarnir hafa í meira en sextíu ár staðið algerlega í vegi fyrir því að nokkur teljandi endurskoðun færi fram, og nákvæmlega ekkert bendir til að þeir hyggist breyta afstöðu sinni í náinni framtíð. Það væri því glapræði að fresta breytingum á forsendum hugsanlegra loforða stjórnmálaflokkanna. Verði tillaga Stjórnlagráðs samþykkt, og komi í ljós að á henni séu teljandi vankantar, þá eru talsvert meiri líkur á að þeir verði lagaðir, og stjórnarskráin í heild endurskoðuð frekar, ef tekist hefur að breyta núgildandi skrá, en ef andstæðingar allra breytinga í valdakerfinu hafa sitt fram og stöðva nú allar breytingar. Hugsanlegir vankantar eru ekki of dýrt verð fyrir þennan eina möguleika til að hefja breytingar á stjórnarskránni.
Það sem ég sakna ekki síst í tillögu þeirra félaga eru ákvæði um upplýsingalög (sem eru nokkuð ítarleg í tillögu Stjórnlagaráðs), þ.e.a.s. um aðgengi almennings að upplýsingum í fórum opinberra aðila. Íslensku upplýsingalögin eru nefnilega hræðilega vond, því þau standa á þeirri grunnhugsun að stjórnvöld megi skammta upplýsingar úr hnefa þeim almenningi sem þau ættu með réttu að þjóna. Framkvæmd þessara laga, og úrskurðir Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, hafa rækilega staðfest þessa sýn sem gegnsýrir íslensku stjórnsýsluna, sýn sem ætti að vera aflögð fyrir löngu. Rót þessarar afstöðu er af hinu illa: Fólkið sem mannar valdastöður í stjórnsýslunni lítur upp til hópa svo á að valdið sé þess, en ekki að það eigi að þjóna hagsmunum almennings, og þessi afstaða er allsráðandi í þeim stjórnmálaflokkum sem farið hafa með völdin í landinu í áratugi. Það er hægt að breyta upplýsingalögum til verulegra bóta með stjórnarskrárákvæðum, og færa almenningi og fjölmiðlum þannig öflugt tæki til aðhalds, og þar þarf ekki neina róttækni; sænska stjórnarskráin hefur innihaldið slík ákvæði í marga áratugi.
Það er líka afar íhaldssamt af þeim Ágústi og Skúla (þótt þeir séu þar á sama báti og tillaga Stjórnlagaráðs) að halda ákvæði um ríkiskirkju í stjórnarskránni, og reyndar verður það að teljast afturhaldssamt í ljósi þess að skoðanakannanir hafa sýnt árum saman að stöðugur og yfirgnæfandi meirihluti kjósenda (og reyndar yfirgnæfandi meirihluti meðlima ríkiskirkjunnar) er fylgjandi því að ríki og kirkja verði skilin að.
Það er gott að sem flestir taki þátt í umræðunni um nýja stjórnarskrá. Það er ekki síður gott að það geri „fræðimenn“, sem ég set hér innan gæsalappa af tveim ástæðum: Það er afar hæpið að tala um stjórnarskrárfræði, og fræðimenn á því sviði, á Íslandi, einfaldlega vegna þess að það hefur ekki verið sérlega umfangsmikil fræðileg umræða um slíkt í landinu. Það er líka varasamt að halda fram að sérfræðiþekking á stjórnarskrármálum, þótt hún sé gagnleg, sé betri grundvöllur en almenn skynsemi í þessum efnum, því stjórnarskrár eru grundvöllur allra laga, þ.e.a.s. reglur um það svið sem lögfræðingar starfa á, settar af borgurunum, og það er ekki skynsamlegt að láta lögfræðingastéttina sjálfa setja leikreglur um eigið svið, né heldur að láta það eftir fræðimönnum, enda eru stjórnarskrárfræði ekki óyggjandi fræði í þeim skilningi að fræðafólkið á sviðinu sé sammála um mikilvæg atriði.
Það er sem sagt gott að fá fram sem flest sjónarhorn, og ekki síst frá fólki sem hefur velt þessum málum mikið fyrir sér eins og gildir um þá Skúla og Ágúst. Það eru mér hins vegar mikil vonbrigði að sjá hversu íhaldssamir þeir félagar eru í tillögum sínum, og hversu fjötraðir þeir virðast vera í þann gamla hugsunarhátt sem einkennir núverandi stjórnarskrá, og þá íslensku stjórnsýslu sem litur á almenning og hagsmuni hans sem óþægilega truflun í starfi sínu.
Flokkar: Óflokkað
Árið 1997 fengu Robert C. Merton og Myron Scholes Nóbelsverðlaunin í hagfræði. (Það er reyndar ekki alveg rétt, því umrædd verðlaun veitir sænski seðlabankinn og kallar „verðlaun til minningar um Alfred Nobel“, og þeir eru til sem telja að þessi verðlaun séu álíka mikill virðingarvottur við Alfred og þegar friðarverðlaunin voru veitt Henry Kissinger, eða Barack Obama um það leyti sem hann var að herða á hernaðaraðgerðum í Afganistan, sem kostað hafa hundruð eða þúsund saklausra borgara lífið.)
Verðlaunin fengu þeir Robert og Myron fyrir kenningar sem snerust um að meta verðgildi fjármálagerninga sem kallaðir eru „options“ á ensku. Þeir geta til dæmis falist í því að ég semji við þig um að eftir tíu ár sért þú skuldbundin til að selja mér tíu þúsund hlutabréf í tilteknu fyrirtæki, á hundrað krónur stykkið. Sé markaðsverð bréfanna 200 krónur græði ég stórlega (og þú tapar), en sé gangverð þeirra lægra en 100 krónur læt ég vera að kaupa af þér, og hef þá aðeins tapað því sem ég borgaði þér upphaflega fyrir að tryggja mér kaupréttinn.
Robert og Myron voru lykilmenn í vogunarsjóði sem hét Long Term Capital Management, eða LTCM. Þetta var gríðarlega stór sjóður, sem upphaflega gekk vel, og var rekinn í samræmi við kenningar þeirra félaga. Árið 1998, ári eftir að Robert og Myron fengu „Nóbelsverðlaunin“, urðu hins vegar ýmsir atburðir sem leiddu til þess að LTCM fór á hausinn með miklum hvelli, og með talsverðum eftirskjálftum á fjármálamörkuðum.
Einhverjum þætti líklega eðlilegt að svipta Robert og Merton verðlaunum sænska seðlabankans, en svoleiðis er víst aldrei gert (og reyndar eru Nóbelsverðlaunin á flestum sviðum ekki veitt fyrr en löngu er orðið ljóst að slík „hneyksli“ geti bara ekki átt sér stað, af því að viðkomandi fræðikenningar geti alls ekki verið tóm þvæla).
Þvert á móti voru kenningar þessara manna leiðarljós í starfi margra fjármálaverkfræðinga eftir hrun LTCM, og að minnsta kosti næstu tíu árin. Þá, árið 2008, varð allsherjarhrun á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, eins og allir vita.
Samt er uppi rökstuddur grunur um að umræddar kenningar, sem og önnur „fræði“ sem stunduð hafa verið óbreytt gegnum endurtekin hrun stórra fjármálastofnana, séu ennþá grundvöllur fjármálastarfsemi sem enn gerir þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari, í skjóli ríkisvaldsins, sem tryggir viðkomandi fjármálastofnunum rekstrargrundvöll, og jafnvel reiðufé, á kostnað almennings.
Til að bæta gráu ofan á svart eru íslenskir fjölmiðlar svo daglega uppfullir af spám svokallaðra „greiningardeilda“ bankanna, og annara fjármálaspekinga. Fjölmiðlafólkið, að ekki sé nú minnst á hið virðulega viðskiptafréttafólk, virðist hafa gleymt því að hér, og víðar, varð svokallað hrun. Og að fólkið sem olli því, og „sérfræðingarnir“ sem sáu bara rósrauða framtíð þar til veröld þeirra hrundi (að mestu ofan á saklaust fólk), er sama liðið og þetta fjölmiðlafólk slefar nú yfir í taumlausri aðdáun.
Flokkar: Óflokkað
(ATH: Þetta er ekki blogg í venjulegum skilningi, heldur er ég bara að fiska eftir tilteknum upplýsingum, frá fólki sem hefur jákvæða afstöðu til þess sem spurt er um.)
Ég þekki margt fólk sem telur núverandi ríkisstjórn hafa gert margt gott. Mig langar að safna saman því helsta á þeim lista, til að gera mér betur grein fyrir meintum gæðum þessarar stjórnar. Þess vegna yrði ég þakklátur þeim sem vildu skýra í stuttu máli, í athugasemdakerfinu hér, frá því sem þeir telja að þessi stjórn hafi gert gott (og sem ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, til dæmis, hefði varla gert).
Ég er bara að fiska eftir því sem fólk telur jákvætt, og til að trufla ekki umræðuna vil ég ekki neinar neikvæðar athugasemdir, né heldur gagnrýni á það sem sagt er hér. Slíkt er hægt að ræða í athugasemdakerfinu við „pistilinn“ hér að neðan, ef einhverjum finnst nauðsynlegt að koma á framfæri neikvæðum athugasemdum. Ég mun þess vegna fjarlægja allar neikvæðar athugasemdir við þennan pistil.
Flokkar: Óflokkað
Hér er hægt að koma á framfæri athugasemdum sem ekki eiga heima við pistilinn hér að ofan.
Flokkar: Óflokkað
Þau eru orðin mörg dómsmálin á Íslandi þar sem fólk hefur verið sakfellt fyrir að segja skoðun sína á mönnum og málefnum, og jafnvel fyrir að segja sannleika sem áður hafði birst í fjölmiðlum. Ég hef fylgst nokkuð vel með fjölmiðlum í tveimur öðrum löndum í langan tíma, Bandaríkjunum og Svíþjóð. Þessi lönd eru gerólík varðandi það hvað fjölmiðlar leyfa sér að birta um fólk. Í Bandaríkjunum er nánast hægt að birta hvað sem er sem ekki eru hreinar lygar viðkomandi fjölmiðils, án viðurlaga. Í Svíþjóð er frelsi fjölmiðla líka mikið, en þar fara þeir þó yfirleitt varlegar í sakirnar en í Bandaríkjunum, og þeir fá stundum tiltal af hálfu siðanefndar fjölmiðla, sem þykir ekki gott. Í báðum löndum er þó einfaldlega litið svo á að tjáningarfrelsið, og þá ekki síst frelsi fjölmiðla, sé svo mikilvægt lýðræðislegu samfélagi að það megi ekki skerða, og því verði borgararnir að þola eitt og annað til að vernda þennan mikilvæga rétt.
Ísland virðist vera í sérflokki hvað þetta varðar meðal nágrannalandanna. Fyrir tuttugu árum vann Þorgeir Þorgeirson mál gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, en dómstóllinn úrskurðaði að það bryti í bága við tjáningarfrelsisákvæði að veita opinberum starfsmönnum sérstaka vernd gagnvart tjáningarfrelsi almennings. Um þetta má lesa dálítið hér.
Á Íslandi er hins vegar ennþá refsivert að tjá sig opinberlega um ótrúlegustu mál, jafnvel á Facebook og lítið lesnum bloggsíðum, og það þótt fjallað sé um mál sem birst hafa fréttir um í fjölmiðlum og viðkomandi geri ekki annað en að endurtaka það sem þar hefur staðið. Dæmi um það er nýlegt dómsmál sem meðal annars er fjallað um hér. Þar er Andrés Valgarðsson sakfelldur fyrir ummæli um svokallað Aratúnsmál, á bloggsíðu og á Facebook. Það er fljótlegt að kynna sér ummælin sem sakfellt er fyrir; þau eru talin upp í upphafi dómsins, og var sakfellt fyrir þau öll nema lið 1D. Ummælin eru þess eðlis að ef ætti að stöðva alla tjáningu af þessu tagi á netinu yrðu það endalok skoðanaskipta um samfélagsmál. Lög sem hefðu slíkar afleiðingar, væri þeim framfylgt skipulega, eru ólíðandi í lýðræðisþjóðfélagi. Ég hvet þá sem vilja vinna gegn þessum hættulegu takmörkunum á tjáningarfrelsinu til að taka þátt í að borga himinháan kostnað Andrésar af málarekstrinum (sjá hér í lokin).
Það sem er að í íslenskri meiðyrðalöggjöf er að hún sniðgengur þá grundvallarhugsun sem flest lýðræðisríki líta á sem ófrávíkjanlega: Tjáningarfrelsið er svo mikilvægt fyrir gott samfélag, að það má ekki skerða nema í algerum undantekningartilfellum, þar sem hagsmunir almennings eru í húfi. Það sem margir, þar með talinn hinn sljói íslenski löggjafi, átta sig ef til vill ekki á er að allt frelsi af þessu tagi kostar. Kostnaðurinn sem við berum af tjáningarfrelsinu er að við eigum það á hættu að einhver tali illa um okkur á opinberum vettvangi. Það er kostnaður sem lýðræðisþjóðfélög líta svo á að þau verði að bera, til að tryggja tjáningarfrelsið.
Það er löngu kominn tími til að ganga skrefi lengra en tókst með máli Þorgeirs, þegar Mannréttindadómstóllinn þvingaði íslensk stjórnvöld til að afnema lög sem fóru freklega í bága við tjáningarfrelsið. Enn er því miður langt í land í þessum málum á Íslandi, og það væri þjóðþrifaverk að stofna samtök sem berðust fyrir auknu tjáningarfrelsi og gegn öllum tilraunum til að skerða það. Eitt af því sem slík samtök gætu tekið að sér, auk þess að berjast fyrir breyttri löggjöf, er málarekstur í máli eins og því sem nefnt er hér að ofan. Einnig gætu þau e.t.v. safnað fé til að standa straum af málarekstri og til að greiða sektir vegna slíkra dóma, þegar augljóst þykir að um sé að ræða óeðlilega skerðingu á tjáningarfrelsi. Vonandi komast slík samtök bráðum á legg. Þangað til ætla ég að hvetja þá sem annt er um tjáningarfrelsið til að taka þátt í að greiða kostnaðinn við ofangreint mál. Með því að sýna slíka samstöðu er ef til vill hægt að vekja meiri athygli á því ólíðandi ástandi sem ríkir í þessum málum á Íslandi. Það er hægt að gera með því að leggja inn á eftirfarandi reikning, sem er í eigu Andrésar þess sem dóminn fékk (Hæstiréttur neitaði því miður að fjalla um dóminn):
Reikningsnúmer: 0513-14-403842, kennitala: 180883-4019
Flokkar: Óflokkað