Þriðjudagur 15.11.2016 - 10:15 - Rita ummæli

Íkorninn býður Bjarnadýrinu upp í dans

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Einu sinn var Íkorni. Hann átti heima í skóginum. Hann dansaði á trjátoppunum og gerði grín að Bjarnadýrinu, sem var svo þunglamalegt og fúllynt og frekt. Svo kom mamma Íkornans og sagði við hann „öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“. Þá skammaðist Íkorninn sín smá og ákvað að bæta ráð sitt. Hann fór niður úr trjátoppunum og bauð Bjarnadýrinu upp í dans. Og Bjarnadýrið og Íkorninn dönsuðu saman í smá tíma. Svo missteig Bjarnadýrið sig óvart og datt ofan á Íkornann …

 


„Það er íkorninn sem dansar á trjátoppunum en ekki bjarndýrið.

Þessi furðulegu skilaboð eru mér ofarlega í huga við upphaf þings. Það hefur oft betri áhrif að sýna mýkt og sveigjanleika en að ryðjast áfram af krafti og með látum. Við fyrstu sýn er bjarndýrið tignarlegt, vöðvastælt og kraftmikið dýr en það kemst ekki á efstu toppa trésins. Við fyrstu sýn virðist íkorninn hlaupa stefnulaust fram og til baka eins og vitstola einfeldningur en það er ekki heldur svo einfalt. Íkorninn hefur skýr markmið, hann er að safna forða fyrir veturinn og öll hans taugaveiklunarlega iðja þjónar því markmiði.

Hv. þingmenn. Tökum íkornann með sinni iðjusemi og útsjónarsemi okkur til fyrirmyndar frekar en þunglamalegt valdabrölt bjarnarins.“

http://www.althingi.is/altext/raeda/142/rad20130610T220215.html

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.9.2016 - 10:15 - 3 ummæli

Guðni forseti ræðst á Sjálfstæðisflokkinn

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Í viðtali við erlenda fréttastofu í gær sagði Guðni Th Jóhannesson, forseti Íslands, að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki líklegur til að geta myndað stjórn eftir næstu kosningar:

„Sjálfstæðisflokkurinn er andsnúinn öllum kerfisbreytingum. Í ljósi þess að krafan um slíkar breytingar er gríðarlega sterk hjá flestum öðrum flokkum gæti það reynst erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að mynda stjórn,“ sagði Guðni.

Sjálfstæðismenn eru að vonum margir reiðir og telja að með þessu sé forsetinn að blanda sér í flokkspólítísk átök sem hann ætti alls ekki að gera.  Benda þeir á að ef Guðni standi frammi fyrir því eftir næstu kosningar að velja milli þess að veita Pírötum eða Sjálfstæðisflokknum stjórnarmyndunarumboð, og veiti það Pírötum, muni augljóslega vakna grunsemdir um að hann láti fordóma sína þar ráða för.  Auk þess er hann með þessu að leggja andstæðingum Sjálfstæðisflokksins lið með því að letja kjósendur til að kjósa flokkinn, því augljóslega forðast margt fólk að kjósa flokk sem það telur eiga litla möguleika á að hafa áhrif gegnum ríkisstjórnarsamstarf.

Það er hávær krafa meðal Sjálfstæðismanna, og reyndar margra fleiri, að forsetinn biðjist afsökunar á þessum ummælum, útskýri að hann hafi með þeim gert alvarleg mistök, og viðurkenni að það hafi verið fráleitt að halda fram að hann geti vitað fyrirfram hvernig Sjálfstæðisflokkurinn muni haga hugsanlegum stjórnarmyndunarviðræðum.

Ekki náðist í Guðna við vinnslu þessarar fréttar.

PS.  Nei, þessi „frétt“ er uppspuni.  En Guðni var einmitt að ráðast með rakalausri gagnrýni á annan flokk, sem ætla verður að hann líti hornauga, og að hætt sé við að hann muni láta gjalda fordóma sinna eftir næstu kosningar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.7.2016 - 10:15 - 3 ummæli

Fótbolti, konur, karlremba?

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Íslenska þjóðin (í stórum dráttum) ærðist af gleði yfir sigrum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi á dögunum (þótt sumir þessara sigra hafa víst bara verið jafntefli). Gleði er yfirleitt frábær fyrir þann sem fyrir verður, svo enginn ætti að agnúast út í skemmtunina (og reyndar er illskiljanlegt hvað sumir gátu orðið fúlir út í okkur þessi örfáu sem leyfðum okkur að gera grín að látunum, rétt eins og við, fimmtán fýlupúkar, gætum varpað skugga á tryllta gleði hinna þrjúhundruðþúsundanna).

Ég skil líka alveg nýkjörinn forseta, Guðna Th, að hafa misst sig svolítið út fyrir velsæmismörkin, og viljað gera sænskan þjálfara landsliðsins að heiðursborgara, þótt maðurinn hafi bara verið að vinna vinnuna sína, sem hann hefur örugglega mikið gaman af auk þess að fá borguð ofurlaun fyrir hana, öfugt við allt hitt fólkið sem gerir svo mikið gagn í samfélaginu með því að vinna leiðinlega vinnu fyrir skítalaun og aldrei neinar fálkaorður, hvað þá heiðursborgarasess, eins og t.d. sorphirðumenn og afgreiðslufólk í matvöruverslunum.

En það er eitt sem ég skil ekki. Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur árum saman staðið sig miklu betur en karlalandsliðið. Og þótt vissulega sé fjallað um það í fjölmiðlum þegar vel gengur, þá er sá munur á að þegar það gerist er samt alveg hægt að lesa íslenska netmiðla. Þótt kvennalandsliðið sé að rústa liðum annarra landa (og vinna sigra sem eru ekki jafntefli heldur sigrar, í klassískri merkingu þess orðs) þá eru bara ein eða tvær fréttir á hverjum miðli þegar mest lætur, en ekki allar þrjátíu og fimm efstu „fréttirnar“ á RÚV, Vísi, Kjarnanum, …

Það eru heldur ekki sagðar neinar fréttir af því þegar kvennalandsliðið vinnur glæsta sigra að Siggi Jóns hafi dottið íða með Gunnu Sig á einhverjum bar í einhverju krummaskuði í útlöndum, þar sem allir útlendingarnir hafi slefað yfir þau bæði, án þess nokkur Íslendingur (nema vinir og vandamenn) hafi heyrt á þau skötuhjú minnst áður, bara af því að allir elska Íslendinga í öllum útlöndum af því að Íslendingar eru svo frábærir af því að kvennalandsliðið er svo frábært, og Gunna og Siggi sögðu hú á þessum bar. (Reyndar var Gunni bara að æla, en það hljómaði alveg eins og alvöru hú.)

Nei, þegar kvennalandsliðið fer sína endurteknu sigurför á stórmótum eru fréttir af því bara nokkurn veginn eðlilegar (í augum okkar sem finnst íþróttafréttir allt í lagi, en ekkert merkilegri en fréttir af kartöfluuppskeru í Þykkvabænum).

Og nú spretta fýlupokabanarnir fram úr skúmaskotum sínum og fara að kalla mig fýlupoka sem ekkert fatti. Af því að allir sem fylgist með íþróttum viti jú að skýringin á þessari þjóðarmaníu, ef ekki -geðsturlun, yfir strákunum ykkar sé sú að karlafótbolti sé miklu, MIKLU stærri íþrótt en kvennabolti. Þess vegna sé alveg eðlilegt að allir fjölmiðlar í landinu leggi niður alla fréttamennsku í þrjár vikur til að pláss verði fyrir allar sögurnar sem nauðsynlega þarf að segja af því hvernig Gunna og Siggi fundu snilldarlega leið til að ferðast frá Nice til Parísar þótt umferðaröngþveitið hefði átt að gera það ómögulegt að mæta á leikinn í tæka tíð. Og aðrar svipaðar heimsfréttir þá dagana …

Nema, … Það vill svo til að íslenska þjóðin, forseti og fjölmiðlar hafa líka farið á hliðina (bæði af monti og drykkju) þegar karlalandsliðið í handbolta hefur unnið einhverja sæmilega sigra. Þá safnast saman tugir þúsunda á Arnarhóli til að hylla hina strákana ykkar, forsetinn notar tækifærið og baðar sig í sviðsljósinu, og gott ef hann nælir ekki fálkaorðu í barm þeirra fyrir að hafa mætt í vinnuna, eins og gert er við suma sem það gera.

Og, handbolti er pínulítil jaðaríþrótt í heiminum …

Í ofanálag er svo einn og aðeins einn Íslendingur á listanum yfir tíu mestu markaskorarana á Evrópumótum í fótbolta. Það er kona, og enginn karl í sjónmáli. Öðru hverju er sagt frá þessu í tuttugu orða fréttum, sem enginn tekur eftir, og enginn ærist yfir, hvað þá að allir sem krítarkorti geta valdið straui úr því tvöfalda aleiguna til að fá að berja snilldina augum á erlendri grund.

Eins og mér finnst ömurlegt að þurfa að horfast í augu við þetta, er hugsanlegt að karlremba sé ennþá til á Íslandi, ekki bara í einhverjum afkimum, heldur sem útbreiddur smitsjúkdómur? Hah?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.3.2016 - 10:15 - 5 ummæli

Stutt þing, nýja stjórnarskrá

[þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu, en er örlítið breyttur hér]

Óháð því hvað verður um máttlausar tillögur stjórnarskrárnefndar forsætisráðherra ættum við sem viljum að tillaga Stjórnlagaráðs verði samþykkt að leggja ofuráherslu á að það verði gert sem fyrst. Skynsamlegast tel ég að það verði gert eftir næstu kosningar (í apríl á næsta ári), á kjörtímabili sem standi aðeins í nokkrar vikur. Þar verði þetta mál afgreitt og boðað til nýrra kosninga í seinasta lagi í lok ágúst.

Rökin eru þessi: Ef það á að samþykkja þessa nýju stjórnarskrá þarf að gera það á tveim þingum, með kosningum á milli. Það væri glapræði að ætla að draga þá samþykkt til loka langs kjörtímabils, bæði af því að það er ástæðulaust að bíða með að þessi stjórnarskrá taki gildi og af því að á löngu kjörtímabili er hætt við að samstarf þess meirihluta sem það ætlar að gera veikist svo að málið lendi í ógöngum. Ef ætlunin er að kjörtímabilið verði ekki í fullri lengd er engin ástæða til að hafa það lengra en svo að hægt sé að ræða málið sómasamlega, og samþykkja nýju stjórnarskrána. Þannig yrði það mál afgreitt og önnur mikilvæg mál tekin fyrir strax um haustið eins og venja er, á kjörtímabili af venjulegri lengd.

Auk hættunnar á að samstaða meirihluta á þingi veikist um of á löngu kjörtímabili eykst líka hættan á að eftir það taki við meirihluti sem ekki samþykkir nýju stjórnarskrána, eins og nauðsynlegt er. Fái þeir flokkar meirihluta sem lýsa yfir þessari stefnu fyrir kosningarnar í apríl, þá ættu að vera miklar líkur á að sá meirihluti haldi í kosningum fáum mánuðum síðar, þegar ekkert hefur gerst í millitíðinni annað en það sem lofað var fyrir kosningar.

Ég tel því að Píratar ættu að reyna að komast að samkomulagi við aðra flokka um þetta. Að næsta kjörtímabil verði örstutt og á því verði samþykkt ný stjórnarskrá, í öllum aðalatriðum samhljóða tillögu Stjórnlagaráðs. Þetta verði kynnt fyrir kosningar svo kjósendur viti hvað þeir eru að kjósa. Samið verði fyrirfram um hámarkslengd á kjörtímabilinu, sem verði ekki lengra en svo að hægt verði að kjósa aftur (eftir þingrof) í seinasta lagi í lok ágúst.

Á þeim tíma sem þingið stendur verði rætt um hugsanlegar minniháttar (en engar efnislegar) breytingar á tillögu Stjórnlagaráðs. Í þeim atriðum sem ekki næst samkomulag meirihluta á þingi um breytingar, skuldbindi þeir sem standa að þessu samkomulagi sig til að samþykkja viðkomandi ákvæði í tillögu Stjórnlagaráðs óbreytt.

Einnig verði lýst yfir, fyrir kosningar, að tilraunir minnihluta til að drepa málið með málþófi verði stöðvaðar, enda væri andlýðræðislegt að minnihluti þingsins gæti komið í veg fyrir að meirihluti þess samþykkti það sem meirihluti kjósenda hefði lýst yfir stuðningi við, með því að kjósa framboð sem hefðu þessa yfirlýstu stefnu.

Sjálfsagt er að reyna að semja við minnihlutann á þingi um hvernig umræðum um málið skuli háttað, og tryggja þarf að minnihlutinn fái góðan tíma til að tjá sig um það. En skýrt verður að vera að það séu tímatakmörk á umræðunni, og að henni muni ljúka með atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.2.2016 - 20:50 - Rita ummæli

Maðkað mjöl í boði Finns Árnasonar og lífeyrissjóðanna

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Finnur Árnason, forstjóri Haga sem eiga Hagkaup, Bónus og fleiri fyrirtæki, var í Kastljósi RÚV í gærkvöldi þar sem rætt var um

„nýja skýrslu Bændasamtakanna um matvöruverð, búvörusamninga, samkeppnismál, gagnrýni á laun hans og stjórnenda Haga og mikinn hagnað heildsölufyrirtækisins Banana sem Hagar eiga en fyrirtækið ræður yfir allt að 60 prósent af heildsölumarkaði með ávexti, grænmeti og kartöflur á Íslandi. Hagar hafa á síðustu fjórum árum fengið hátt í fimm milljarða í arð út úr því fyrirtæki, en velta þess er milli 7 og 8 milljarðar króna á ári.“

Í frétt RÚV um málið segir:

„Finnur Árnason forstjóri Haga segir það rétt að sterkara gengi hafi ekki skilað sér í lægra verði til neytenda. Hagar beri þó ekki ábyrgð.“

Auðvitað ber Finnur og fyrirtæki hans enga ábyrgð, nema gagnvart eigendum sínum. Það eina sem hann ber ábyrgð á er að græða nógu fjandi mikið. Ef það er hægt að gera með því að kaupa grænmeti erlendis sem þar hefði verið hent eða notað í svínafóður, og selja það svo á margföldu verði góðs grænmetis, þá er hann að vinna vinnuna sína fyrir eigendur. Það er ekki ætlast til þess að menn í hans stöðu hugsi um annað en að græða sem mest, sama hversu viðurstyggilegar aðferðir hans eru.

Og það er einmitt þannig sem aðferðirnar eru. Ég get a.m.k. ekki ímyndað mér að Finnur sé svo lélegur bisnissmaður (sérstaklega í ljósi þeirra ofurlauna sem hann fær) að hann láti plata sig til að borga fullu verði það ónýta rusl sem er stór hluti af grænmetinu sem selt er í verslunum Haga (og fleiri verslunum á Íslandi).

Dæmin um þetta eru óteljandi; það er sama hvort maður kaupir tómata eða lauk eða mandarínur eða epli eða salat, alltaf má maður eiga von á því að hluti af því sé skemmt, og oft þannig að það sést ekki fyrr en búið er að opna pakkana eða skera í sundur. Eitt svívirðilegasta dæmið um þetta eru innfluttar gulrætur, sem oftar en ekki eru ekki bara slepjulegar heldur bókstaflega margar skemmdar í hverjum poka, og allar eftir örfáa daga í ísskáp. Samt eru þær seldar á svo háu verði að það væri stórgróði af sölunni þótt keyptar hefðu verið fyrsta flokks gulrætur úti í búð í Glasgow og sendar heim með flugi.

Í stuttu máli er augljóst öllum sem búið hafa í nágrannalöndunum að það er eitthvað meirháttar rotið í verslun með grænmeti og ávexti á Íslandi (og svo sem margar fleiri vörur). Verðlagið er oft svívirðilega hátt, en vörurnar meira og minna ónýtt drasl.

Hitt er svo auðvitað kaldhæðni djöfulsins að lífeyrissjóðir skuli eiga stóran hlut í þessu ógeðslega fyrirtæki, og selja almenningi, sem að nafninu til á þessa lífeyrissjóði, nútímaútgáfuna af maðkaða mjöli dönsku einokunarverslunarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.1.2016 - 10:15 - 3 ummæli

Sannleiksförðun og karlaníð Hrannars B. Arnarssonar

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Það er mörg manneskjan nú um stundir sem vill slá sig til riddara með því að berja sér ógurlega á brjóst og krukka með bitlausum kuta í ræksnið af karlaveldinu, sem liggur í andarslitrunum, og þótt fyrr hefði verið. Það er engin ástæða til að amast við því í sjálfu sér, en hitt er dálítið lakara að í stað þess að fagna dauða þursins espa hinir blóðþyrstu til áframhaldandi ófriðar, nú gegn helmingi samfélagsins, þeim sem hafa fæðst karlkyns, án þess að vera spurðir hvort þeir kærðu sig um það, og þótt nánast engir þeirra hafi nokkurn tíma tilheyrt neinu karlaveldi.

Nýjustu atlöguna að þessu máttfarna skrímsli gerði hinn hugumprúði riddari Hrannar B. Arnarsson, núverandi framkvæmdastjóri flokkahóps jafnaðarmannna í Norðurlandaráði. Vopn hans í árásinni eru heimildir um heimilisofbeldi á Norðurlöndunum og framferði ISIS-liða, enda virðist hann telja hvort tveggja runnið af sömu rótum, hinu illa karlaveldi.

Hrannar tvinnar saman ýmsar staðreyndir, og gerir það listavel (gefi maður sér að markmið hans hafi verið að blekkja lesandann en ekki að þjóna sannleikanum). Hann segir meðal annars þetta:

„Samkvæmt norrænum rannsóknum, er algengast að morð séu framin í tengslum við heimilisofbeldi eða í nánum samböndum einstaklinga. Á Íslandi hafa 10 slík morð verið framin á liðnum 12 árum, eða um 60% allra morða á tímabilinu og í Noregi voru 206 morð, eða um fjórðungur allra morða á tímabilinu frá 1990-2014 framin af einstaklingi sem átti í nánu sambandi við hinn myrta. Í Finnlandi eru 17 konur myrtar með þessum hætti á hverju ári og í Svíþjóð 21 kona.

Sú staðreynd blasir einfaldlega við, að jafnvel á Norðurlöndnunum, þar sem jafnrétti kynjanna er mest í öllum heiminum, er líklegra að konur verði myrtar af núverandi eða fyrrverandi lífsförunauti sínum, en nokkrum öðrum einstaklingum eða öfgahópum. Morð í tengslum við heimilisofbeldi eða náin sambönd einstaklinga, eru þó aðeins ein birtingarmynd þess ofbeldis sem konur búa við af hendi karla.“

Í fyrri efnisgreininni talar Hrannar fyrst um öll makamorð (morð í nánum samböndum) á Íslandi, en lýkur henni svo með því að tala um konur sem myrtar eru af maka. Í seinni efnisgreininni talar hann svo eingöngu um makamorð karla á konum og staðhæfir að konur á Íslandi séu líklegri til að falla fyrir hendi maka en nokkurs annars. Vel má vera að það sé rétt, en þær tölur sem Hrannar nefnir sýna það alls ekki. Hann virðist hafa blekkt sjálfan sig, því vonandi var hann ekki vísvitandi að reyna að blekkja lesendur.

Hrannar talar hér eins og þessi 60% morða á Íslandi á síðustu 12 árum sem framin voru í tengslum við heimilisofbeldi séu morð karla á konum, og dregur þá ályktun að um sé að ræða „birtingarmynd þess ofbeldis sem konur búa við af hendi karla.“ Samkvæmt tölum Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar (neðst til hægri í þessu skjali) voru reyndar framin 11 en ekki 10 morð af þessu tagi á Íslandi á árunum 2003-14. Af þeim voru þrjú framin af konum og varla geta þau morð verið „ein birtingarmynd þess ofbeldis sem konur búa við af hendi karla“, eða hvað?

Mér virðist (af því að skoða dóma siðasta árs í héraði og Hæstarétti) að eina makamorðið árið 2015 hafi verið þetta, þar sem kona myrti maka sinn. Miðað við það hafa á síðustu 13 árum verið framin tólf makamorð, fjögur þeirra af konum. Það er að segja, svo virðist sem einn þriðji makamorða síðustu 13 ára, eða 33%, hafi verið framinn af konum.

Samt dregur Hrannar þessa ályktun í lok greinar sinnar:

„Því ætti að vera óhætt að fullyrða að alvarlegasta ofbeldisógn samtímans er ekki hryðjuverk eða einstök trúarbrögð, heldur ofbeldi karla gagnvart konum. Og þannig hefur það verið um áratugaskeið, þó að fram til þessa hafi lítið borið á liðssafnaði eða aðgerðum okkar ástsælu stjórnmálaleiðtoga til höfuðs þessari meinsemd hins ofbeldisfulla karlaveldis – eða feðraveldis, eins og það heitir víst samkvæmt fræðunum.“

Burtséð frá því hversu óheiðarlegt það er að gefa í skyn að makamorð á Íslandi séu bara morð karla á konum, þegar staðreyndirnar eru allt aðrar, þá er líka vitfirring að tala um þessi morð sem verk einhvers konar karlaveldis. Á síðustu 13 árum (sem þessar tölur fjalla um) hefur um það bil einn af hverjum tuttugu þúsund karlmönnum á Íslandi myrt maka sinn (og ein af hverjum fjörtíu þúsund konum). Að draga þá ályktun að þessi morð tengist einhverju sem sé sameiginlegt karlmönnum, af því að 0,005% þeirra fremji svona glæp, lýsir hugsunarhætti sem á ekkert skylt við rökhugsun.

Markmið Hrannars, og flestra þeirra sem hamra endalaust á því að á Íslandi ríki karl- og feðraveldi, er ekki að færa rök fyrir máli sínu, né heldur virðist það vera að bæta eitt eða neitt, því ekki er að sjá neinar tillögur um hvernig hægt væri að fækka makamorðum sem eru víst feðraveldinu að kenna. Markmiðið er augljóslega að kynda undir venslasekt allra karlmanna; þeir skulu allir stimplaðir samsekir því örlitla broti þeirra sem eru ofbeldismenn og morðingjar. Það er sama markmiðið og allir lýðskrumarar hafa sem finnst handhægt að geta bent á tiltekinn þjóðfélagshóp og kennt honum um allt sem miður fer.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur