Miðvikudagur 21.3.2012 - 20:04 - 11 ummæli

Ólafur Ragnar, Messías og Dalai Lama

Að gefnu tilefni sendi ég áðan eftirfarandi póst á forsvarsmenn Fletcher-skólans við Tufts University.

 

————————————————————————
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: Wed, Mar 21, 2012 at 19:57
Subject: The Dalai Lama and His Holiness the President of Iceland
To: miranda.fasulo@tufts.edu, Stephen.Bosworth@tufts.edu
Dear Ms. Fasulo and Dean Bosworth

I just saw your ad for a talk by the Beloved Leader Mr. President of the Republic of Iceland Ólafur Ragnar Grímsson at the Fletcher School. I fear this ad will not be seen as a compliment by the Leader, for two reasons:

When the President and Supreme Leader recently announced his candidacy for a fifth four year period as President (and Heavenly Benefactor) of Iceland he presented himself as the Messiah, both to Iceland and the rest of the world. I therefore don’t think His Excellency would like to have his Godly image obfuscated by simultaneously likening him to an alleged representative of another deity, however well deserving His Royal Highness is of that.

As Fletcher is „A Graduate School of International Affairs“ I am certain that you are well aware that the Venerable Mr. President is one of the best friends of the Beijing Government and seen by this Government as one of its most important and stalwart allies. Also that said Government has frequently been accused (wrongly, no doubt) of perpetrating various human rights violations on the followers of the Dalai Lama. Because of the righteous war of the Beijing Government against the warmongering terrorist sect worshipping the Dalai Lama, and because of the amicable relations and mutual admiration of this government and His Holiness the President of Iceland, I fear that you are doing a disservice to the President (and the People’s Esteemed Government in Beijing) by likening Mr. Grimsson to the Dalai Lama.

Sincerely,

Einar Steingrímsson

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 18.3.2012 - 15:43 - 17 ummæli

Öfgar í virkjanamálum

Öfgarnar í virkjanamálum eru tvenns konar:

  • Annars vegar að vilja rífa helminginn af þeim stórvirkjunum sem byggðar hafa verið.
  • Hins vegar að vilja virkja meira, þótt búið sé að virkja sjöfalt það sem þarf til innanlandsnota, það er að segja ef stóriðjan er undanskilin.

Hófsemdarfólkið vill fara bil beggja: Láta hér staðar numið, en ekki rífa neitt af því sem fyrir er.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.3.2012 - 11:48 - 41 ummæli

Rannsóknir og forréttindafemínismi

Ef fimm konur og fimmtán karlar í hundrað manna úrtaki reyndust hafa tiltekinn sjúkdóm dytti manni ef til vill í hug að sjúkdómurinn legðist fremur á karla en konur.  Fengi maður að vita að í úrtakinu væru 25 konur og 75 karlar lægi hins vegar beinna við að álykta að sjúkdómurinn væri jafn algengur meðal beggja kynja.  Væri um að ræða 10 konur og 90 karla væri nærtækara að álykta að konur væru þrefalt líklegri til að fá sjúkdóminn.  Sigríður Halldórsdóttir, prófessor á heilbrigðisvísindasviði við Háskólann á Akureyri, virðist hafa frumlegri afstöðu til tölfræði.

Sigríður var í viðtali í Víðsjá á Rás 1 í gær, og hún ætlar að halda fyrirlestur í hádeginu í dag, um meint kynjamisrétti í úthlutun úr tveimur stærstu rannsóknasjóðum landsins, Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði.  Samkvæmt kynningu á fyrirlestrinum, á vef Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, telur Sigríður ámælisvert að konur fái miklu minna úthlutað úr þessum sjóðum, sérstaklega úr Tækniþróunarsjóði.

Sjálfsagt hefur Sigríður kynnt sér gögnin sem hún vísar í.  Í þeim kemur fram að í úthlutunum úr Rannsóknasjóði síðustu fjögur árin er svipað árangurshlutfall hjá körlum og konum, þ.e.a.s. 24,8% karla sem sóttu um styrk fengu hann og 23,4% kvenna.  Um er að ræða samtals 1544 karla og 770 konur sem sóttu.  Ef við gefum okkur að fagráðin og ytri umsagnaraðilar sem fjalla um umsóknir hafi unnið faglega eins og þeim ber, þá lægi beint við að álykta að konur og karlar sem sóttu um séu að meðaltali með álíka góðan vísindaferil að baki og álíka góðar rannsóknaáætlanir í umsóknum sínum.  Auðvitað er þetta ekki gefið mál, en fátt virðist benda til að hér sé verið að hygla öðru kyninu, enda virðist Sigríður ekki hafa nein gögn sem styðja það.

Í Tækniþróunarsjóði lítur þetta aðeins öðru vísi út.  Þar sóttu á tímabilinu 80 konur og 384 karlar, og fengu 27% karla sem sóttu styrki, en 35% kvenna.  Það er sem sagt 30% líklegra að kona sem sækir fái styrk en karl.  Ef við gæfum okkur að konur og karlar sem sækja hér séu að meðaltali með  jafn góðan feril og jafn góðar rannsóknaáætlanir væri niðurstaðan að verið væri að mismuna, konum í hag.  Ég hef þó engan heyrt halda því fram; eðlilegra virðist vera að álykta að konurnar sem sækja séu að meðaltali betri en karlarnir.

Sigríður vill breyta þessu.  Hún virðist vilja að  gæði vísindafólksins og gæði rannsóknaáætlana þess verði sett í baksætið, og úthlutunum  stýrt þannig að jafn margar konur og karlar fái styrki.  Það myndi óhjákvæmilega leiða  til að lakara vísindafólk með lakari rannsóknaverkefni fengi styrki á kostnað hinna sem betri eru.  Ein afleiðing af því gæti orðið að undirmálskarlar færu að fá styrki til rannsókna í hjúkrunarfræði, sviði Sigríðar, af því að í því fagi er svo miklu meira af konum en körlum.  Að sama skapi myndu þá konur sem væru betri vísindamenn en styrktu karlarnir verða útundan.

Jafnrétti gengur út á að fólk sé metið að verðleikum, ekki eftir kynferði. Sigríður vill ekki jafnrétti. Hún vill ekki að fólk sé metið að verðleikum, heldur eftir kynferði. Hún vill andverðleikasamfélag, þar sem tryggt er að þeim sem lakari eru sé hyglt á kostnað þeirra sem betur standa sig.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.3.2012 - 20:52 - 44 ummæli

Hræðsluáróður um kynlíf unglinga

Í gær var þáttur í Íslandi í dag sem bar yfirskriftina „Kláminu að kenna?“

Þar sagði ung stúlka ófagra sögu af sambandi sem hún hafði verið lengi í. Einnig kom fram kennari í kynjafræði sem hélt fram ýmsum staðhæfingum um klám og samlíf unglinga. Kennarinn sagði meðal annars að þetta (sem stúlkan lýsti) væri algengara en við höldum, og að strákar væru gjarnan með ranghugmyndir um kynlíf sem stelpurnar gæfu eftir fyrir. Enn fremur að stelpur séu oft með laskaða sjálfsmynd, og fréttamaðurinn segir að þeim fari fjölgandi stelpunum sem lendi í þessari stöðu sem stúlkan lýsti. Engin gögn voru nefnd sem styddu nokkrar af þessum staðhæfingum („algengara en við höldum*, „fer fjölgandi“ eða hversu algengar „ranghugmyndir“ um kynlíf væru).

Í þættinum var sterklega gefið í skyn að klámhorf drengja leiddi af sér ofbeldisfulla hegðun gagnvart stúlkum. Ekki var bent á neitt sem styður þessa staðhæfingu, enda veit ég ekki til að nokkurn tíma hafi tekist að sýna fram á slík tengsl, ekkert frekar en tekist hefur að sýna fram á að það hafi skaðleg áhrif á unglinga að horfa á aragrúa mynda sem snúast fyrst og fremst um ofbeldi og manndráp, oft á upphafinn hátt. Kennarinn talaði líka um að munnmök og endaþarmsmök væru „ekki eðlileg á þeim aldri“ (meðal unglinga), án þess að útskýra af hverju, né heldur var útskýrt hvað væri eðlilegt kynlíf fyrir þennan aldurshóp. Gera má ráð fyrir að kennarinn telji þetta „óeðlilega kynlíf“ algengt því annars hefði hún varla talið þetta svo mikilvægt mál, en hér var ekki heldur bent á neitt sem styddi það.

Ekkert virðist liggja til grundvallar staðhæfingum kennarans annað en meint reynsla hennar (þótt við fengjum ekkert að vita um umfang þeirrar reynslu), og svo þessar venjulegu flökkusögur um munnmök og endaþarmsmök sem ungar stúlkur séu þvingaðar í. Fyrir utan auðvitað að þetta heimsósómastef um hegðun unglinga er a.m.k. þrjú þúsund ára gamalt, og hefur lítið breyst nema hvað varðar útfærslu sagnanna.

Þessi sami kennari var í löngu viðtali í þættinum Sirrý á sunnudagsmorgni þann 22. janúar, þar sem hún talaði meðal annars um tengsl á mili píkuraksturs og barnagirndar, án þess að nefna nokkur gögn eða rök máli sínu til stuðnings. (Því miður er vefur RÚV bilaður sem stendur, svo ég get ekki haft þetta orðrétt eftir, en hér er tengill á þáttinn, sem vonandi verður lagaður.)

Auk þess hversu vafasamt það hlýtur að teljast að úthrópa drenginn sem stúlkan ræddi um sem nauðgara í sjónvarpsþætti, var hér í stuttu máli um að ræða hræðsluáróður kennara sem ekki virðist geta stutt mál sitt nokkru sem hönd á festir. Það er sjálfsagt að taka hart á hvers konar kynferðisofbeldi (eins og öðru ofbeldi). Það er líka sjálfsagt að gera það sem hægt er til að styrkja unglinga í því viðhorfi að þeir eigi ekki að láta þvinga sig til að gera neitt sem þeim líkar ekki. Það er hins vegar ekki „fræðsla“ af ofangreindu tagi sem unglingar þurfa á að halda frá kennurum sínum. Kennarar ættu að halda slíkum krossferðum fyrir sjálfa sig.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.3.2012 - 20:58 - 24 ummæli

Er RÚV verjandi Geirs?

Íslenskir fjölmiðlar eru, með fáum undantekningum, drasl. Undantekningarnar eru vissulega til staðar, eins og Sigrún Davíðsdóttir og Helgi Seljan (og þær eru fleiri, þótt ég tíundi þær ekki hér). Þess vegna átti ég ekki von á frábærri umfjöllun um Landsdómsmálið. Samt varð ég fyrir gífurlegum vonbrigðum, aðallega með RÚV, sem ég hafði leyft mér að vona að liti svo á að hér væri um slíkan stórviðburð að ræða að öllu yrði tjaldað til. Reyndin er önnur; umfjöllunin hingað til hefur verið eins og í menntaskólablaði árgangs með enga hæfileikakrakka.

Satt að segja hefur umfjöllunin verið talsvert verri en slæm, því Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður hefur bókstaflega tekið að sér að tala sem verjandi Geirs og annarra hrunkvöðla. Í Kastljósi fyrsta kvöld réttarhaldanna át hún upp, með sannfæringar- og aðdáunarhljóm í röddinni, það sem sagt hafði verið af Geir og stuðningsmönnum hans, að „hann gat bara ekkert gert“. Engar gagnrýnar vangaveltur um hvort þetta væri rétt, hvað þá hvort það væri í sjálfu sér saknæmt af forsætisráðherra að gera ekkert.

Í gærkvöldi tók Jóhanna langt viðtal við Davíð Oddsson, þar sem ekki var spurt neinna þeirra erfiðu spurninga sem hún hefði spurt væri hún metnaðarfullur fréttamaður og hefði undirbúið sig. Jóhanna beit svo höfuðið af skömminni með því að spyrja Davíð, í lokin, hvaða skoðun hann hefði á núverandi ríkisstjórn. Allt saman með óblandinn aðdáunarhreim í röddinni.

Í gærkvöldi birtist líka sérkennileg frétt í RÚV þar sem m.a. má lesa þetta: „Sex vitni gáfu skýrslu fyrir landsdómi í dag. Allt voru þetta hátt settir embættismenn árið 2008. Skýrslur þeirra voru Geir Haarde frekar í hag.“ Þetta á væntanlega að útskýrast af því, sem kemur fram í fréttinni, að þessi vitni héldu fram að „ekkert hefði verið hægt að gera“ og að vinnan í samráðshópnum „hafi verið markviss og árangursrík.“ Þannig virðast fréttamenn RÚV telja sig vita að þetta sé góð málsvörn fyrir Geir (aðgerðaleysi vegna getuleysis), og að þannig hljóti dómararnir að hugsa. Engin (gagnrýnin) hugsun hér á ferð, hvað þá að mönnum detti í hug að það geti verið einhver alvara með ákvæðunum í þeim lögum sem kært er út af, um að aðgerðaleysi ráðherra geti verið í saknæmt.

Spegillinn, sem oft hefur verið með góða umfjöllun um þjóðmálin, hefur svo sett í þetta mál fréttamenn, sem sjálfir hafa greinilega ekkert undirbúið sig. Það sem verra er, þar er á hverjum degi talað við „góðkunningja“ Spegilsins sem á vanda til að tala í löngu máli, með afar hægum og „virðulegum“ talanda um … ekki neitt. Sú er líka raunin hér. Spegillinn virðist ekki telja það koma að sök að viðkomandi var ekki einu sinni viðstaddur réttarhöldin fyrstu tvo dagana, þótt rætt væri við hann þá daga líka, en hann „lét svo lítið að fara þangað í heimsókn í eigin persónu í dag“. Þetta er fimm mínútna viðtal, þótt texta þess megi flytja á skikkanlegum hraða á helmingi þess tíma. Hefði viðmælandinn þar að auki einskorðað sig við það sem voru einhverjar upplýsingar í máli hans hefði viðtalið hins vegar tekið um átján sekúndur. Þá hefði hann meðal annars sleppt fyrstu þrem mínútunum af þessum fimm, þar sem hann flutti eftirfarandi innihaldsríku ræðu, sem bregður óvenju björtu ljósi á þessi merkustu réttarhöld Íslandssögunnar, og útskýrir fyrir okkur hinum það sem annars hefði verið okkur hulið um alla eilífð. (Til að stytta textann hef ég klippt út allar kúnstpásur, sem eru um helmingur tímans):

„Þetta er náttúrulega heilmikil upplifun, þetta er auðvitað heimssögulegur viðburður sem þarna á sér stað, að þarna sé dreginn og látinn svara til saka forsætisráðherra þjóðarinnar fyrir, ja, fyrir stórfellda vanrækslu, ja það er það sem honum er borið á brýn, í aðdraganda efnahagshrunsins sem að við urðum fyrir. Þetta er mikil upplifun að sitja þarna og fylgjast þarna með hvernig þetta fer fram, hvernig saksóknari og verjandi bera sig við spurningarnar og hvernig hvernig vitnin haga sínum orðum og og sömuleiðis hvernig, hvernig dómarar, eftir atvikum, spyrja eftir því sem að þeim þykir efni til. Auðvitað má svona velta því fyrir sér sko, hvort að þessi leið til þess að draga fram atburði í aðdraganda hrunsins er sú skilvirkasta, þarna náttúrulega beinast spurningarnar náttúrulega að því að leiða í ljós atvik sem að tengjast þessum ákæruefnum, þannig að önnur aðferð, til að mynda einhvers konar sannleiksnefnd eða eitthvað, hefði náttúrulega verið með allt öðrum hætti.

[stutt spurning fréttamanns um Hreiðar Má Sigurðsson]

Jú, það bárust af því fréttir að annars vegar hefðu þarna, að minnsta kosti sést þarna öryggisvörður, og síðan að í salnum hefðu setið, meðan skýrslutakan yfir honum fór fram, menn frá sérstökum saksóknara. Það auðvitað minnir á það að þar sem hann fer er náttúrulega maður sem að af mörgum er talinn einn af helstu gerendum hrunsins, og sömuleiðis fer þar sem hann er maður sem að sætir ákæru fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun, ásamt fleiri mönnum. Þannig að hann náttúrulega hefur út af fyrir sig sýniiega verið í í ákveðinni aðstöðu þarna sem einkennist af því að hann þarf að gæta mjög að því hvað það er sem hann lætur sér um munn fara þannig að hann, ja, mögulega skaði ekki sjálfan sig í því máli sem fyrir liggur að verði höfðað gegn honum.“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.3.2012 - 17:04 - 18 ummæli

Spurning og svör frá stjórn FME

Ég efast um að hér komi fram nokkuð nýtt um mál Gunnars Andersens og Fjármálaeftirlitsins, en finnst rétt að birta þessi póstskipti mín við formann stjórnarinnar.

———————————————————————————————–

Date: 2012/2/18
To: Aðalsteinn Leifsson <al@hr.is>

Til formanns stjórnar FME

Sæll Aðalsteinn

Er rétt skilið að til standi að segja Gunnari Andersen upp störfum (eða honum hafi þegar verið sagt upp störfum) sem forstjóra FME, að það sé gert á grundvelli skýrslu eftir Ástráð Haraldsson (og e.t.v. fleiri höfunda), og að Ástráður sé stjórnarmaður í Arctic Finance?

Ef svo er, heyrir Arctic Finance undir eftirlit FME?  Ef svo er, er eðlilegt að stjórnarmaður úr slíku fyrirtæki sé fenginn til að gera skýrslu um svo mikilvægt mál innan FME, skýrslu sem virðist ætla að hafa svo afgerandi áhrif?

Bestu kveðjur,

Einar Steingrímsson
———-
From: Aðalsteinn Leifsson <al@hr.is>
Date: 2012/3/1
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>

Sæll Einar,

Afsakaðu sein svör.

Ákvörðun stjórnar byggir á ítarlegri skoðun á öllum gögnum málsins – ekki á einni álitsgerð umfram aðra.

Ásbjörn og Ástráður unnu frjálsa álitsgerð fyrir stjórnina – og hafa hvorki sértæka né almenna hagsmuni af niðurstöðu málsins.

Pælingar um vanhæfi þeirra til að vinna frjálsa álitsgerð fyrir stjórn eru ákaflega langsóttar, svo ekki sé meira sagt.

Með kveðju / Best regards

Aðalsteinn

———-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2012/3/1
To: Aðalsteinn Leifsson <al@hr.is>

Sæll aftur Aðalsteinn

Er ekki augljóst að stjórnarmaður í fjármálafyrirtæki sem heyrir undir eftirlit FME getur haft hagsmuni af því að tiltekinn forstjóri FME hverfi frá störfum?

Bestu kveðjur,

Einar

———-
From: Aðalsteinn Leifsson <al@hr.is>
Date: 2012/3/1
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>

Sæll Einar,

Það birtist punktur / smáfrétt í Viðskiptablaðinu áður en álitsgerðin kom fram þar sem fullyrt var hið gagnstæða; að það væru hagsmunir aðila sem situr í stjórn eftirlitsskylds aðila að koma sér í mjúkinn hjá forstjóra með jákvæðu áliti…

Stjórnin fór yfir þetta og það var samdóma álit að þar sem um er að ræða frjálsa álitsgerð fyrir stjórn, engin aðgangur er að trúnaðargögnum eftirlitsins og hvorki eru til staðar sértækir né almennir hagsmunir þá væri ekki ástæða til að draga í efa hæfi til að vinna þetta  verkefni.

Ég undirstrika enn – eins og kemur fram í yfirlýsingu okkar í dag – að stjórnin byggir ekki niðurstöðu sína á áliti Ástráðs og Ásbjörns fremur en áliti Andra Árnasonar. Stjórnin byggir niðurstöðu sína á ítarlegri og vandaðri yfirferð yfir öll gögn málsins – þar með talið frumgögn, álitsgerðir og andmæli Gunnars sjálfs.

Einar, stjórnin hefur leitast við allt frá upphafi að hafa ferli hæfismatsins skýrt, faglegt og gagnsætt. Þannig var tilkynnt um það stax 18 febrúar að ferlið fæli í sér a) að Andri færi yfir hvort og hvað hefði nýtt komið fram og hvort þær upplýsingar hefðu áhrif á hans niðurstöðu, b) að fengnir væru tveir einstaklingar – lögfræðingur og endurskoðandi – til að koma nýjir að málinu og c) að stjórnin myndi að ending taka sjálfstæða ákvörðun á grunni allra gagna málsins. (sjá útprent af frétt um þetta í viðhengi). Við höfum birt álitsgerðirnar strax og gætt þess í hvívetna að standa faglega að málum, með það fyrir augum að endanleg niðurstaða hefði trúverðugleika í reynd og ásýnd.

Bestu kveðjur,

Aðalsteinn


Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur