Þriðjudagur 22.11.2011 - 12:20 - 32 ummæli

Meira um þjónkun RÚV við LÍÚ

Í framhaldi af þeim viðskiptum mínum við Auglýsingadeild RÚV sem lýst er í síðustu bloggfærslu minni, sendi ég Auglýsingadeild RÚV í gær póst þar sem ég fór fram á að fá lesna í útvarp auglýsingu um framferði LÍÚ og RÚV (sjá tölvupóst hér neðst á síðunni).  Þeirri beiðni var hafnað, og mér var jafnframt tjáð að RÚV hefði ákveðið að hætta að birta auglýsingar LÍÚ, sem dunið hafa á landsmönnum síðustu vikurnar.  Þar sem þessi skilaboð voru frekar óljós, sendi ég áðan eftirfarandi póst til útvarpsstjóra RÚV.

Það er góðra gjalda vert ef RÚV er hætt að birta þann ósmekklega áróður sem LÍÚ hefur ausið yfir landsmenn, en það er umhugsunarefni að það skuli ekki gerast fyrr en óbreyttir borgarar vilja fá að svara í sömu mynt, og þá af því að RÚV telur að auglýsingar þessara borgara séu ekki í lagi, en ekki af því að RÚV virðist hafa haft neitt að athuga við auglýsingar LÍÚ.

Reyndar hringdi Markaðsstjóri RÚV, sem er yfir Auglýsingadeildinni, í mig í gærkvöldi og sagði meðal annars að það væri ófært að auglýsingatímar RÚV yrðu að vettvangi fyrir svona átök.  Erfitt er að skilja viðbrögðin öðru vísi en svo að í fínu lagi sé að LÍÚ herji á landsmenn með áróðri sínum í auglýsingatímum RÚV, en að ekki sé ætlast til að almenningur blandi sér í þann slag.

—————————————————————————–

Til útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins

Í gær sendi ég beiðni til Auglýsingadeildar RÚV um að tiltekin auglýsing yrði lesin í útvarpi þá um kvöldið.  Póstur minn um þetta fylgir með hér í lokin.  Beiðni minni var hafnað.  Áður, s.l. föstudag, var beiðni minni hafnað um að eftirfarandi auglýsing yrði lesin:

„Er herferð útgerðaraðals gegn almenningi siðleg?  Borgari“

Uppgefin ástæða var að „Borgari“ væri of „almenn“ undirskrift.  Eins og ég hef bent á í  bloggfærslu (http://blog.eyjan.is/einar/2011/11/19/politisk-ritskodun-a-ruv-fyrir-liu/) er hér um mismunun að ræða þar sem Landssamband Íslenskra Útvegsmanna hefur fengið birtan fjölda auglýsinga með undirskriftinni „íslenskir útvegsmenn“.  Engin samtök með því nafni eru til, auk þess sem LÍÚ hefur ekki alla íslenska útvegsmenn innan sinna vébanda.

Ég benti líka á að auglýsingar LÍÚ fara greinilega í bága við reglur RÚV um auglýsingar eins og þær birtast hér, nánar tiltekið við 3. og 4. mgr. 3. greinar:   www.auglysendur.is/Forsida/Gjaldskra/Reglurumauglysingar/.  Augljóslega er ekki hægt að halda fram að auglýsingar LÍÚ innihaldi „það eitt sem er satt og rétt“, auk þess sem þær fólu margar í sér „ádeilu eða hlutdræga umsögn um […] stefnur í almennum málum.“

Ég fer hér með fram á eftirfarandi:

1.  Að neðangreind auglýsing mín verði birt einhvern virkan dag í þessari viku, annað hvort milli kvöldfrétta og Spegils eða milli fréttayfirlits á hádegi og hádegisfrétta.  Sé því hafnað vil ég fá skýringar á því hverjar forsendur höfnunarinnar séu.

2.  Sé það rétt skilið að RÚV hafi ákveðið að stöðva frekari birtingar á auglýsingum LÍÚ í sama anda og þeim sem einkennir auglýsingar sambandsins síðustu vikurnar, þá gefi útvarpsstjóri ótvíræða yfirlýsingu um það.

3.  Skilji ég rétt að RÚV telji að auglýsingar LÍÚ hafi brotið gegn auglýsingareglum RÚV fer ég fram á að útvarpsstjóri gefi út yfirlýsingu þess efnis, tiltaki hvaða greinar reglnanna hafi verið brotnar, og biðji afsökunar á að RÚV hafi gert þessi mistök, og því að hafa mismunað þeim einstaklingum sem vildu auglýsa í sama stíl og LÍÚ.

4. Ég fer fram á að fá formlegt svar frá útvarpsstjóra við þessu erindi mínu.

Kveðjur,

Einar Steingrímsson

———- Forwarded message ———-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/11/21
Subject: Lesin auglýsing milli kvöldfrétta og Spegils
To: auglysingar@ruv.is

Sælt veri fólkið

Ég vil láta lesa eftirfarandi auglýsingu mill kvöldfrétta og Spegils í kvöld:

„LÍÚ auglýsti undir fölsku flaggi og braut auglýsingareglur Ríkisútvarpsins. Borgari“

Ég vek athygli á að þetta eru sannar og réttar staðhæfingar, eins og sjá má af eftirfarandi úr reglum RÚV um auglýsingar:

3.  Þess skal gætt að auglýsingar séu látlaust orðaðar, lausar við skrum og hæpnar fullyrðingar, en segi það eitt sem er satt og rétt.
4.. Auglýsing skal ekki fela í sér ádeilu eða hlutdræga umsögn um einstaka menn, stofnanir, félög, félagasamtök, stefnur í almennum málum eða stjórnmálaflokk.

Ýmsar staðhæfingar í auglýsingum LÍU hafa ekki innihaldið „það eitt sem er satt og rétt“, þvi augljóst er að um þær má deila.  Auk þess fólu margar þeirra í sér „ádeilu eða hlutdræga umsögn um […] stefnur í almennum málum.“

Þessar auglýsingar brutu því í bága við reglur RÚV.  LÍÚ sigldi líka undir fölsku flaggi í þessum auglýsingum, því LÍÚ er ekki opinber fulltrúi „íslenskra útvegsmanna“, enda eru þeir alls ekki allir í samtökunum.

Auglýsingin hér að ofan sem ég fer fram á að fá lesna er því augljóslega sönn og rétt.

Ég fer fram á að auglýsingin verði birt með undirskriftinni „Borgari“, enda er ekkert að finna í reglum RÚV eða lögum um auglýsingar sem þær vísa í sem kemur í veg fyrir það.  Ef þið hyggist gera það að frágangssök er ég til í að fallast á að hún verði undirrituð „Einar Steingrímsson“, en þá mun ég hugsanlega leita réttar míns gagnvart ykkur fyrir að gera kröfur sem ykkur er ekki heimilt að gera, auk augljósrar og grófrar mismununar.

Ég geri svo ráð fyrir að þið sendið mér reikning í tölvupósti og að ég leggi inn á bankareikning ykkar eins og ég gerði í síðustu viku.

Bestu kveðjur,

Einar Steingrímsson

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.11.2011 - 12:54 - 33 ummæli

Pólitísk ritskoðun á RÚV. Fyrir LÍÚ.

Eins og flestir hafa tekið eftir sem hlusta á Ríkisútvarpið hefur undanfarið birst urmull auglýsinga í nafni „íslenskra útvegsmanna“, þar sem haldið er fram að stjórnvöld séu að „lama fjárfestingar“ í sjávarútvegi, og að tugir þúsunda starfa séu í hættu vegna stefnu ríkisstjórnarinnar, svo fátt eitt sé nefnt.

Þótt ég sé enginn vinur núverandi ríkisstjórnar blöskraði mér svo þessi  áróður að ég ákvað að setja auglýsingu á móti.  Hún birtist síðastliðinn miðvikudag og hljóðaði svo:

Íslenskir útvegsmenn vilja lama þjóðfélagið með kröfum sínum.  Borgari.

Mér skilst að daginn eftir hafi komið svohljóðandi auglýsing sem annar borgari setti inn:

Í krafti peninga ætlar útgerðaraðallinn líka að kaupa almenningsálitið. Er það sæmandi? Borgari.

Í gær bað ég svo um að eftirfarandi auglýsing yrði lesin:

Er herferð útgerðaraðals gegn almenningi siðleg?  Borgari.

Þá kom babb í bátinn og ég fékk eftirfarandi svar frá Auglýsingadeild RÚV:

Ég þarf að biðja þig um að setja undirskrift undir auglýsinguna, það verður alltaf að vera ljóst hver er að auglýsa. „Borgari“ er of allmennt.

Mér var líka sagt að það yrði að vera einstaklingur eða samtök eða fyrirtæki sem undirrituðu, en eitthvað var þetta samt óljóst, því ekki var á hreinu hvort slík samtök þyrftu að vera formlega skráð einhvers staðar.

Mér var líka sagt að þetta væri „almenn vinnuregla sem á sér stoð í lögum um auglýsingar.“  Þegar ég benti á að „íslenskir útvegsmenn“ væru alls engin opinber samtök var mér sagt að það hefðu verið mistök að leyfa það og það yrði leiðrétt.  Þetta var í gær.  Í morgun, rétt fyrir klukkan 11 kom svo auglýsing af sama toga og þær fyrri, undirrituð „íslenskir útvegsmenn punktur is“.  Það er til vefsíða á slóðinni http://islenskirutvegsmenn.is.  Þar kemur hins vegar ekki fram, eða gerði a.m.k. ekki á hádegi í dag, hver ætti hana.

Auglýsingadeild RÚV virðist því hafa ákveðið að það sé í lagi að reka harðorðan áróður gegn stjórnvöldum þar sem haldið er fram að þau séu að „lama“ sjávarútveginn með aðgerðum sínum, og að undir slíkar auglýsingar þurfi ekki að skrifa nein samtök eða einstaklingar. Almennir borgarar mega hins vegar ekki svara í sömu mynt.  RÚV virðist sem sagt telja að það eigi að þjóna hagsmunum voldugra hagsmunasamtaka, en alls ekki almennra borgara.

Hitt er svo annað mál, en ekki síður athyglisvert að hvorki í reglum RÚV um auglýsingar, né heldur lögum sem þær vísa í, er að finna stafkrók um að yfirleitt þurfi að koma nokkuð fram um hver stendur fyrir tiltekinni auglýsingu.  Hins vegar stendur þetta í 3. grein auglýsingareglna RÚV:

3.  Þess skal gætt að auglýsingar séu látlaust orðaðar, lausar við skrum og hæpnar fullyrðingar, en segi það eitt sem er satt og rétt.

4. Auglýsing skal ekki fela í sér ádeilu eða hlutdræga umsögn um einstaka menn, stofnanir, félög, félagasamtök, stefnur í almennum málum eða stjórnmálaflokk.

Það er augljóst að auglýsingar „íslenskra útvegsmanna“ segja ekki „það eitt sem er satt og rétt“, að minnsta kosti virðist ótrúlegt að RÚV hafi komist að þeirri niðurstöðu að pólitískur áróður LÍÚ sé hinn eini sannleikur í þessum málum.  Augljóst er líka að þessar auglýsingar „fela í sér ádeilu eða hlutdræga umsögn um […] stefnur í almennum málum“.

Auglýsingadeild RÚV hefur sem sagt ákveðið að sniðganga eigin reglur til að leyfa LÍÚ að halda uppi hatrömmum áróðri án þess að samtökin þurfi einu sinni að gangast við að liggja að baki honum.  Og að banna almennum borgurum að tjá sig um sama mál, með sams konar hætti.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.11.2011 - 23:30 - 20 ummæli

Blóð handa hrægömmum, kökur handa fólkinu

(Það er búið að segja þetta mörg hundruð sinnum, en það virðist ekki nægja …)

Eftir því sem ég best veit hefur eftirfarandi margendurteknu staðhæfingum ekki verið mótmælt:

  • Núverandi eigendur Arionbanka og Íslandsbanka (sem leynd hvílir yfir hverjir eru) fengu þá upp í kröfur sem þeir áttu á bankana fyrir hrun.
  • Þessir bankar (og Landsbankinn líka, sem er að mestu í ríkiseigu) yfirtóku lán í eigu gömlu bankanna, þar á meðal mikið af húsnæðislánum, með gríðarlegum afslætti.
  • Bankarnir geta engu að síður innheimt þessi lán að fullu, og af hörku, sem þeir gera í mjög mörgum tilfellum.
  • Bankarnir hafa grætt hátt í tvö hundruð milljarða frá hruni.
  • Þar sem ríkið yfirtók bankana í hruninu var það ríkið sem bar ábyrgð á hvernig staðið var að samningum við kröfuhafana sem nú eiga þá.

Í stuttu máli starfa hrægammarnir sem eiga bankana í skjóli ríkisins, sem fyrst seldi þeim húsnæðislán á brunaútsölu, og nú horfir aðgerðalaust á hvernig þeir mergsjúga skuldara, meðal annars í krafti mikillar verðbólgu frá hruni, og verðtryggingar sem ríkisstjórnin neitar að hrófla við.

Augljóst virðist að hér hafi eitthvað farið illilega úrskeiðis.  Hver ber ábyrgð á því, og af hverju er ekkert gert í málinu?

Mikill fjöldi þeirra sem skulda þessi húsnæðislán er að kikna undan þeim, eða hefur að minnsta kosti tapað ævisparnaðinum og sér fram á að eyða áratugum í að borga niður stórhækkaðan höfuðstól.

Á þetta hefur ríkisstjórnin horft í bráðum þrjú ár, og þrátt fyrir gríðarlega óánægju meðal almennings heldur hún áfram að svara út í hött.  Nú síðast var það Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sem rakti allt það sem ríkisstjórnin væri að gera, án þess að nefna neitt sem  ástæða er til að ætla að leysi nema örlítinn hluta vandans, hvað þá að það fjarlægi sjálft meinið.

Eins og systurflokkurinn í ríkisstjórn, VG, hefur þetta fólk lært sína lexíu, en hjá vitlausum lærimeistara.  Nefnilega hjá Maríu Antoinette, sem ráðlagði fólkinu að borða bara kökur úr því að það ætti ekki brauð.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.11.2011 - 17:20 - 16 ummæli

Við þurfum erlenda fjárfestingu. Not.

Hann er orðinn síbylja, kórinn um að Ísland þurfi mikla erlenda fjárfestingu.  En það gildir sama um hann og ýmsar aðrar staðhæfingar í pólitísku „umræðunni“ á Íslandi:  Það eru aldrei færð fram nein rök, og allt of fáu fjölmiðlafólki dettur í hug að spyrja þá út úr sem slíku halda fram.

Þangað til einhver rök koma fram er skynsamlegast að leiða hjá sér þessa staðhæfingu, svona almennt séð.  En, ein nýleg sérútgáfa af henni er svo frumleg að sjálfsagt er að benda á það, jafnvel þótt kórinn sem kyrjar hana hafi ekki heldur í því tilviki fært fram nein rök.  Nefnilega að sjálfsagt sé að veita í hvelli undanþágu frá lögum til að auðjöfurinn Huang Nubo fái að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, af því að það vanti svo sárlega útlenskt fé til Íslands.  Eða, eins og haft er eftir Hjörleifi Sveinbjörnssyni, aldavini Huangs, í China Daily í gær„Iceland has gone through a deep economic crisis since the banking problems in 2008. We need foreign investment to get things going“.

Hjörleifur þessi er mágur utanríkisráðherra, og eiginmaður fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar, auk þess sem sendiherrann í Kína, Kristín Árnadóttir, sem er yfir sig hrifin af áformum Huangs, er fyrrum náin samstarfskona Ingibjargar til margra ára (Ingibjörg gerði hana svo að sendiherra) og reyndar systir ráðuneytisstjórans í Fjármálaráðuneytinu.  Þetta skýrir ef til vill af hverju Huang virðist svona viss um jákvæð viðbrögð úr íslensku stjórnsýslunni; maðurinn er í talsambandi við gott fólk.

Þetta var nú útúrdúr, um hið klassíska íslenska talsamband og mægðir valdafólks.  Hitt er athyglisverðara að svo illa sé komið fyrir Íslandi að nauðsynlegt sé að flytja hingað fé í stórum stíl frá Kína.  Síðast þegar ég vissi voru nefnilega milljónir manna þar eystra við hungurmörk, og mér datt svona í hug að skárra væri að Huang notaði auðæfi sín til að gera eitthvað í þeim málum, frekar en að láta okkur Íslendinga njóta rausnar sinnar.  En, hvað veit ég; vel má vera að fólk svelti tugþúsundum saman á sléttunum fyrir norðan, þarna á þessu landflæmi sem er jörðin Grímsstaðir á Fjöllum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.11.2011 - 22:55 - 26 ummæli

Hvað veit Magnús Orri um áform Huangs Nubo?

Magnús Orri Schram skrifaði bloggpistil í dag um kaup Huangs Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum, sem Magnús virðist áfram um, af því að „Ísland þurfi á erlendri fjárfestingu að halda til hagvaxtar“.  Þessi gatslitna klisja um að „Ísland  þurfi á erlendri fjárfestingu að halda“ er að vísu aldrei rökstudd (sem er sérkennilegt, og þar að auki þversagnakennt í ljósi þess að Landsbankastjórinn hefur nýlega kvartað yfir því að geta ekki sett í umferð alla tugmilljarðana sem bankinn hefur grætt), en látum það liggja á milli hluta í bili, enda myndi það æra óstöðugan að ætla að greina á einu bretti alla þvæluna í þeim yfirlýsingum sem íslenskir stjórmálamenn láta dynja á landsmönnum um „hagfræði“.

Maður spyr sig, eðlilega, á hverju Magnús byggi þessar vonir sínar um að hratt verði gengið í að veita Huang leyfi til að kaupa Grímsstaði; hvað hann viti um áform þessa manns sem geri að verkum að hann sé svona áhugasamur um að Huang séu opnaðar allar dyr.

Svarið er að Magnús Orri veit ekki neitt.  Ekkert umfram það sem fjölmiðlar segja að Huang hafi sagt, og það sem þeir hafa sagt að vinir mannsins hafi sagt að hann hafi sagt.

Magnús veit því það sama og við hin:  Huang Nubo varð á tíu árum, eftir að hann hætti að vinna hjá Áróðursráðuneyti kínversku ógnarstjórnarinnar, einn ríkasti maður í heimi (meðal annars með starfsemi í Tíbet, þar sem fyrrum húsbændur hans stjórna með pyntingum og morðum).  Erfitt er að henda reiður á hvernig maðurinn efnaðist svona ógurlega.  Hann hefur lýst yfir miklum áformum um uppbyggingu í ferðamannabransa í USA, en minna orðið úr framkvæmdum.  Huang hefur líka lýst yfir að það sé góður tími til að kaupa land á Íslandi, því verðið sé lágt, og Íslendingar þurfi að selja.

Af þessum takmörkuðu upplýsingum finnst mér eðlilegra að giska á allt annað en það sem Magnús Orri virðist gera:  Nefnilega að Huang Nubo sé trúlega braskari, sem ætli að kaupa ódýrt til að selja öðrum bröskurum síðar dýrt.  Góðviljaðar „yfirlýsingar“ hans um að hann hafi lítinn áhuga á auðlindum (sem þar að auki áttu bara við Jökulsá á Fjöllum) eru lítils virði, og einskis virði þegar hann er búinn að selja landið öðrum.

Það er eins og Magnús Orri, Árni Páll efnahags- og viðskiptaráðherra, og margir aðrir ráðamenn, hafi verið á fjöllum síðustu tíu árin, og hafi aldrei heyrt um auðjöfra sem lofa gulli og grænum skógum, en sem reynast síðan aðeins hafa áhuga á því sem þeir sannanlega hafa haft mestan áhuga á, nefnilega að græða sem mesta peninga, sama hvernig að því er farið.  Ekki vill maður frýja þessum stjórnmálamönnum vits.  Hvað er það sem drífur þá áfram í þessu máli?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.11.2011 - 12:39 - 10 ummæli

Eru ekki allir hressir?

Það er búið að eyðileggja mikið af lífríkinu í Lagarfljóti, öfugt við staðhæfingarnar áður en farið var af stað. Hellisheiðarvirkjun dreifir brennisteinsvetni í miklu magni og veldur hörðum jarðskjálftum, sem hvorugt var kynnt áður en framkvæmdir hófust. Í Svartsengi er ekki mikið lengur hægt að dæla affallssvatninu niður í hraunið svo það þarf væntanlega að leiða það út í sjó, fyrir fleiri milljarða, og án þess nokkur viti hvaða áhrif það muni hafa á lífríkið.  Enginn virðist hafa áttað sig á þessu áður en virkjað var.  Ekki heldur hefur heyrst minnst á þetta vandamál varðandi fyrirhugaða virkjun á Þeistareykjum,

Nú er eitthvert fólk að halda fram að virkjun í neðri hluta Þjórsár gæti haft neikvæð áhrif á lax og aðra fiska sem lifa í ánni, og á þetta hefur  reyndar verið bent áður.

En, eru ekki allir hressir?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur