Sunnudagur 2.10.2011 - 22:04 - 26 ummæli

Einkavinavæðing — taka tvö

Þegar Elín Jónsdóttir sagði upp sem forstjóri Bankasýslunnar sagði hún:

Framundan eru stór og aðkallandi verkefni.  Ber þar hæst að leggja þarf drög að sölu á eignarhlut ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum að hluta eða öllu leyti.

Stjórn Bankasýslunnar er nú búin að ráða mann í hennar stað, Pál Magnússon.  Því hefur verið haldið fram að Páll hafi litla reynslu í bankamálum, og reyndar minnsta reynslu af umsækjendum um starfið.  Stjórnarformaður Bankasýslunnar, Þorsteinn Þorsteinsson, telur það þó ekki til vansa, enda hafi Páll mikla reynslu úr stjórnkerfinu.  Sú reynsla felst ekki síst í því að hafa verið aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur þegar hún, ásamt Geir Haarde, einkavinavæddi Landsbankann og Búnaðarbankann, en þann síðarnefnda fengu flokksbræður þeirra Valgerðar og Páls á þægilegum kjörum.

Nú á Páll sem sagt að fá annað tækifæri til  að selja „eignarhlut ríkissjóðs  í fjármálafyrirtækjum“.

Ef Ísland væri ekki bananalýðveldi væri Páll búinn að afþakka stöðuna, og Þorsteinn að segja af sér, fyrir hádegisfréttir á morgun.  Það væri samt engin trygging fyrir því að spillingin haldi ekki áfram heljartökum sínum á valdi og peningum á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.9.2011 - 21:20 - 27 ummæli

Bankasýslan og spillingin

Páll Magnússon var í dag ráðinn forstjóri Bankasýslu ríkisins.  Páll þessi var aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, árin 1996-2006.  Árið 2003 afhenti Valgerður ráðherra (ásamt fjármálaráðherra) flokksbræðrum sínum Búnaðarbankann.  Páll er sem sagt maður með reynslu af að einkavinavæða banka.  Er þetta í lagi?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.9.2011 - 10:49 - 7 ummæli

Hrædd stjórnvöld eru hættuleg

Ákveðið hefur verið að flýta setningu Alþingis á laugardaginn, svo hún hefjist klukkan tíu en ekki hálftvö eins og venja hefur verið. Fáir trúa því væntanlega sem skrifstofustjóri Alþingis segir um þetta, nefnilega að þingmönnum sé svo í mun að geta byrjað helgina snemma.

Greinilegt er að hræðsla hefur gripið um sig meðal stjórnvalda. Þetta er hræðsla við réttláta reiði almennings, sem hefur horft upp á húsnæðislán sín stökkbreytast, samtímis því sem bankarnir halda áfram að raka saman ofsagróða með því að þrautpína þetta fólk, og auðjöfrar fá skuldir sínar afskrifaðar.

Búsáhaldabyltingin var nánast algerlega friðsamleg, og þau litlu átök sem þar áttu sér stað urðu ekki síst vegna vanstillingar óeirðalögreglu, til dæmis þegar hún ruddi Austurvöll með algerlega tilefnislausri táragasárás.

Sagan hefur margsinnis sýnt að hrædd stjórnvöld eru hættuleg almenningi. Það er við slíkar aðstæður sem mótmæli leiða helst til valdbeitingar lögreglu. Stjórnvöld á Íslandi eru hrædd, og þau grípa til örþrifaráða, í stað þess að mæta eðlilegum kröfum almennings. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.9.2011 - 21:38 - 14 ummæli

Svör Guðfríðar Lilju og Sigríðar Ingibjargar

Í síðustu viku birti ég hér opið bréf til Alþingismannanna Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þar sem ég spurði hvað þær hygðust gera varðandi skuldavanda þeirra sem eru með  stökkbreytt húsnæðislán, samtímis því sem bankarnir raka saman ofsagróða.  Þær hafa nú báðar svarað, og birtast svörin hér að neðan.

Ég er þakklátur þeim Sigríði og Guðfríði fyrir svörin.  En ég hef ekki skipt um skoðun í þessum málum, þótt ég  ætli ekki að segja meira um það núna, umfram það að benda á þennan pistil minn.


Svar Guðfríðar Lilju:

Takk fyrir bréfið Einar og fyrirgefðu mér að hafa ekki svarað fyrr. Málið er margþætt en tvíþætt að því leyti að það vísar inn í fortíð og framtíð. Því miður náðist ekki samstaða um að fara almenna niðurfærsluleið eins og grasrótarsamtök heimilanna vildu og við mörg hver á þingi (þvert á flokka). Sú leið – sem lögð var til af hálfu grasótarsamtaka og nokkurra þingmanna – að eindurreikna lán aftur í tímann þar sem aðeins hluti verðbótanna væri reiknaður inn í höfuðstólinn, var skynsamleg og réttlát. Þannig hefðu lánin verið leiðrétt í réttlætisátt hjá öllum. Þetta var hins vegar ekki gert eins og við vitum, heldur farið í sértækar aðgerðir sem eru því miður háðar því hvar lánin voru tekin en ekki forsendubrestinum. Þessar sérstæku aðgerðir hafa hjálpað ýmsum sem fengið hafa verulega lækkun á lánum sínum. Það á hins vegar ekki við um alla! Þeir sem lögðu verulegt sparifé í fasteignakaupin og hafa greitt samviskusamlega af lánum sínum hafa séð spariféð verða að engu vegna verðbólgunnar. Margir berjast í bökkum við að ná endum saman án þess að eiga rétt á aðstoð. Fyrir þennan hóp skipta auknar vaxtabætur máli. Sú staðreynd að fjármálakerfinu er ætlað að borga þær með sérstökum skatti er ígildi eins konar niðurfærslu – það er að segja, fyrir þá sem eiga rétt á vaxtabótum. Enn á eftir að koma í ljós hverju greiðsluaðlögun skilar, sem minnir á að mikilvægt er að hafa eftirfylgni með því að þau úrræði sem gripið hefur verið til virki sem skyldi. En þótt ýmislegt hafi verið gert breytir það ekki því að mikill fjöldi fólks á í gríðarlegum erfiðleikum og nýtt fólk kemur til með að bætast inn í þann hóp svo lengi sem vextir verða háir og verðtryggingin við lýði. Þess vegna verður verðtryggingin að hverfa og vextir að lækka – verðtrygginguna verður að afnema.
Það væri hægt að skrifa margar síður um þetta efni en ég læt þetta nægja a.m.k. að sinni og sendi góðar kveðjur,
Guðfríður Lilja


Svarið frá Sigríði Ingibjörgu:

Sæll Einar og afsakaðu hversu seint ég svara.

Ég þakka þér fyrir hlý orð í garð okkar Guðfríðar Lilju.
Skuldavandi fyrirtækja og heimila er einn erfiðasti fylgifiskur hrunsins. Ég skil vel reiði fólks yfir stöðu mála en í orðum þínum liggur þó sú ásökun að ekkert hafi verið gert, en það er fjarri lagi. Þegar hrunið skall á var engin heildstæð löggjöf til um málefni skuldara, þrátt fyrir að Jóhanna Sigurðardóttir hafi flutt tillögu um slíkt á Alþingi sjö þing í röð. Frá hruni hafa verið sett lög um umboðsmann skuldara, greiðsluaðlögun og lögum um gjaldþrotaskipti breytt. Löggjöf um skilvirka skuldaniðurfellingu er flóknari en við geðrum ráð fyrir í upphafi, enda réttarstaða kröfuhafa mjög sterk í íslensku réttarfari. Halda þarf áfram að finna lausn fyrir þá sem eru í vanda vegna lánsveða og ábyrgðarmanna. Það hefur reynst flókið m.a. vegna þess að veðin eru varin af eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.
Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til eru mikilvægir áfangar sem, þegar upp er staðið, munu bjarga mjög mörgum heimilum frá alvarlegum fjárhagsvanda. Markmið þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til er að hjálpa þeim sem verst fóru út úr hruninu og forða þeim frá þroti. Skuldastaða verður með þessu færð að greiðslugetu. Þá býðst þeim sem eru með verðtryggð lán greiðslujöfnun mánaðarlegra greiðslna og vaxtabætur greiða niður um þriðjung vaxtakostnaðar heimilanna vegna húsnæðisskulda. Húsnæðisskuldir eru stór hluti vandans, en bílalán, yfirdráttur og önnur neyslulán hafa ekki síður reynst mörgum erfiður hjalli. Það er mikilvægt að bæta enn frekar stöðu fólks gagnvart fjármálafyrirtækjum og mun ég beita mér fyrir því að það verði gert.
Eftir stendur að verðtryggð húsnæðislán hafa verið færð niður að 110% veðsetningu en að örðu leyti ekki með almennum hætti, þannig að flestir sitja uppi með stórhækkuð lán. Vandamálið hér er að kostnaðurinn við slíka niðurfærslu er gríðarlegur og fylgismenn hennar hafa ekki getað bent á hvar finna eigi slíkt fjármagn. Kostnaður ríkissjóðs vegna afskrifta Íbúðarlánasjóðs verður ekki minni en 30 milljarðar. Þessi upphæð mun margfaldast ef lán verða færð niður með almennum hætti. Hér er okkur því vandi á höndum.
Hvað bankana varðar vil ég segja tvennt: í fyrsta lagi má spyrja hvort afkomutölur gefi rétta mynd af rekstri þeirra, en bankakerfið er of stórt og óhagkvæmt og ekki hefur verið skilið á milli bankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi. Það er nauðsynlegt að mínu mati. Að bankarnir skuli berja sér á brjóst með þessum hætti er með ólíkindum. Og í öðru lagi eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi afskriftir lána til einstaklinga og fyrirtækja. Bankarnir hafa dregið fæturna hvað þetta varðar og furðanlega seint gengið að afskrifa lán með sanngjörnum og eðlilegum hætti. Tryggja þarf að bankarnir afskrifi í samræmi við sett lög og samþykktir, en ef í ljós kemur að herða þarf löggjöfina enn frekar verður það gert. Viðskiptanefnd Alþingis hefur þegar hafið skoðun á þessu.
Umræðan hefur mikið snúist um verðtrygginguna og vandamál henni tengd. Hátt vaxtastig hefur fengið minni umfjöllun, en er þó ekki síður alvarlegt vandamál til lengri tíma. Vandinn ristir þó dýpra. Í Bandaríkjunum er engin verðtrygging á húsnæðislánum, en þar eru samt um fjórðungur allra húsnæðislána hærri en verðgildi eignanna. Bæði í Bandaríkjunum og hér heima varð eignabóla með of mikilli skuldsetningu. Í ofanálag olli fall krónunnar mikilli verðbólgu. Þó enginn banki hefði farið í þrot árið 2008 hefðu eftirköst eignabólu og gengishruns farið illa með heimili og fyrirtæki.
Þegar skuldamálin eru annars vegar hef ég ekki trú á einföldum patentlausnum eða því að hægt sé að vinda ofan af margra ára óstjórn í efnahagsmálum í einni svipan. Þá er ég ekki að segja að mér finnist viðunandi gangur í afskriftum heimila og fyrirtækja og fagna aðhaldi almennings.
Með kveðju
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.9.2011 - 12:31 - 16 ummæli

Dómstólar sniðganga stjórnarskrána

Eitt mikilvægasta einkenni réttarrríkis er að dómstólar dæma eftir lögum, og þar er stjórnarskrá æðri öllum öðrum lögum.  Á Íslandi hefur það gerst oftar en einu sinni síðustu árin að dómstólar sniðganga stjórnarskrána í málum sem augljóslega varða hana.

Í gær var vísað frá frávísunarkröfu í máli  ákæruvaldsins gegn Lárusi Páli Birgissyni, sem er ákærður fyrir að hafa staðið með skilti fyrir framan Bandaríska sendiráðið á Laufásvegi.  Lárus var reyndar sakfelldur fyrir sams konar „brot“ í sumar, og þann dóm má lesa hér.   Sá dómur er afar athyglisverður, svo ekki sé meira sagt.

Í stuttu máli var Lárus kærður fyrir að neita að hlýðnast lögreglu, sem vildi færa hann frá gangstéttinni við sendiráðið, þar sem hann stóð með mótmælaskilti, yfir á gangstéttina hinum megin við götuna.  Í dómnum er sagt að lögregla hafi ráðfært sig við (ótilgreinda) starfsmenn sendiráðsins, sem hafi farið fram á að Lárus yrði fjarlægður, og kemst rétturinn að þeirri niðurstöðu að það hafi verið „hófleg beiðni“, og er vísað í lög um skyldu íslenskra stjórnvalda til að verja sendiráð erlendra ríkja, en ekki útskýrt gegn hverju þurfti að verjast.

Það sem gerir þennan dóm sérkennilegan, og ámælisverðan, er að í honum er ekki vikið að stjórnarskrárbundnum rétti til skoðana- og tjáningarfrelsis, sem málið snýst þó augljóslega um, heldur er haldið til streitu þeim praxís að borgurunum beri skýlaust að hlýða boðum lögreglu, jafnvel þegar hún brýtur gegn stjórnarskrárvörðum réttindum.  Því er varla hægt að komast að annarri niðurstöðu en að dómurinn hafi viljandi sniðgengið stjórnarskrána.  Slíkt gera ekki dómstólar sem bera nokkra virðingu fyrir réttarríkinu.

Þessi endurteknu málaferli gegn Lárusi eru því miður ekki einsdæmi.  Skemmst er að minnast Nímenningamálsins, þar sem níu manns sættu glórulausum ákærum um valdarán, fyrir að hafa neytt réttar síns til að mótmæla.  Í þeim dómi voru fjórir sakfelldir, en einungis fyrir að óhlýðnast fyrirmælum valdstjórnarinnar.  Þar gaf rétturinn stjórnarskránni líka langt nef, og setti rétt valdsmanna ofar henni, þótt sakborningar væru sýknaðir af öllum öðrum ákærum.

Dómstólar sem endurtekið hunsa ákvæði stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi eiga ekki skilið þá virðingu sem dómstólar i réttarríki þurfa að njóta.  Hins vegar er við fleiri að sakast, því mál af þessu tagi ættu aldrei að koma til kasta dómstólanna.  Ákæruvaldinu virðist þykja það nauðsynlegt að ofsækja fólk sem leyfir sér að hafa skoðanir sem eru yfirvöldum ekki þóknanlegar.  Það eru nefnilega ofsóknir að draga fólk gegnum réttarkerfið, með ærnum tilkostnaði og tímatapi, svo ekki sé minnst á þá árás á eðlilega sálarró sem það er að þurfa að verja sig gegn upplognum sökum fyrir dómstólum.

Á bak við þessar ofsóknir ákæruvaldsins, og þetta löglausa framferði dómstólanna, er fólk, því svona hlutir gerast ekki sjálfkrafa, heldur er það fólk af holdi og blóði sem tekur ákvarðanirnar.  Þetta fólk ætti að hugsa sinn gang, því það gerir sig að verkfærum fyrir kúgun sem ekki ætti að þekkjast í lýðræðisríki.

Mikilvægara er þó að uppræta þennan praxís, bæði hjá ákæruvaldinu, og dómstólunum.  Hvernig það verður gert er ekki einfalt mál, því það á að vera innbyggt í réttarkerfið að þessir aðilar fari að þeim lögum sem þeir eiga að vinna eftir, en brjóti ekki gegn þeim.  Þegar ákæru- og dómsvaldið leyfir sér að ganga endurtekið gegn stjórnarskránni er úr vöndu að ráða.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.9.2011 - 23:08 - 24 ummæli

Tryggvi Þór: Hroki, heimska eða lygataktík?

Í bloggpistli sem var að birtast hneykslast Tryggvi Þór Herbertsson á bloggpistli Egils Helgasonar, um böl verðtryggðra lána.  Tryggva finnst nóg að svara þessu með því að klippa út tilvitnun í einhverja erlenda skýrslu, sem fjallar um „Public Debt Management“, væntanlega vegna þess að þar kemur fram að verðtrygging á skuldum sé til erlendis.

Það sem Tryggvi leiðir hjá sér er að á Íslandi er fyrst og fremst rætt um hvernig verðtrygging húsnæðislána hefur rústað efnahag venjulegs fólks. „Andsvar“ hans við þessu snýst um allt aðra hluti, enda ætti hann að vita að verðtrygging húsnæðislána er óþekkt í löndunum í kringum okkur.

Það kemur ekki í veg fyrir að hann rjúki upp í offorsi, til að setja ofan í við fólk sem leyfir sér að gagnrýna verðtrygginguna og hvernig hún hefur leikið almenning.

Spurningin sem vaknar er þessi:  Er þetta bara heimska og hroki hjá Tryggva? Eða er þetta meðvituð lygataktík, stunduð með það fyrir augum að reyna að gera lygina að sannleika?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur