Sunnudagur 4.9.2011 - 13:34 - 14 ummæli

Samfylkingin, forsetinn og fasisminn í Kína

Eftirfarandi hugleiðingar hafa, þótt þær séu ekki nýjar, vissulega sprottið upp nú vegna kaupa Huangs Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum. Það ætti að vera eðlilegt, í ljósi þess að maðurinn er fyrrum háttsettur starfsmaður ógnarstjórnarinnar í Kína, að hann efnaðist illskiljanlega á örskömmum tíma og þess að kínversk stjórnvöld hafa hönd í bagga með þessum kaupum, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Hitt er mikilvægara, og alvarlegra, að afstaða íslenskra stjórnvalda til Kína er vægast sagt ógeðfelld.

Það er nógu slæmt hvernig forseti Íslands leggur nótt við dag til að efla viðskiptatengslin við Kína, án nokkurra bakþanka um stjórnarfarið í landinu.  Og það væri hlálegt, ef það væri ekki svona sorglegt, þegar hann þykist þess umkominn að lýsa Huang Nobu heiðarlegan mann.  Reyndar má ætla, miðað við hvaða auðjöfra forsetinn hefur álitið heiðarlega síðustu árin, og götu hverra hann hefur greitt í viðskiptum, að Huang væri lítill greiði  gerður með þessu heiðarleikavottorði frá forsetanum, sem gefið hefur út slík vottorð fyrir flesta verstu fjármálaglæpamenn landsins.

Hitt er verra, hvernig forysta Samfylkingarinnar (eða a.m.k. hluti hennar) hefur komið fram í þessu máli.  Það er skiljanlegt og eðlilegt að vinur og fyrrum skólabróðir Huangs sé honum hliðhollur, og þvæli um að hér sé um að ræða mjög „græna “ ferðamennsku (öfugt við það sem hingað til hefur verið talið um að fljúga fólki yfir hálfan hnöttinn).  Það er auðvitað bara tilviljun að þessi vinur er eiginmaður fyrrum utanríkisráðherra og mágur núverandi utanríkisráðherra.  En það skiptir hins vegar máli, því hvar sem er í heiminum, og ekki síst á Íslandi, hafa slík fjölskyldutengsl áhrif á gerðir fólks, og þykir óeðlilegt annað en að draga þau fram í dagsljósið.

Það sem er hins vegar verst við þetta, bæði hvað varðar forystu Samfylkingarinnar og forsetann, er sú afstaða sem þetta fólk, í krafti embætta sinna, og fyrir hönd íslenska ríkisins, sýnir til kínverskra stjórnvalda.  Forsetinn  hefur lagt sig fram um að efla tengslin við Kína, og segir varla styggðaryrði um stjórnarfarið í landinu.  Utanríkisráðherrar Samfylkingarinnar hafa gengið skrefi lengra.  Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsti því yfir árið 2008 að Ísland styddi stefnuna um „Eitt Kína“.  Í því felst, í stuttu máli, að Ísland viðurkenni að Kína eigi löglegt tilkall til yfirráða yfir Tævan, sem er nógu slæmt, enda vandséð af hverju Ísland ætti að styðja það að ógnarstjórnin í Kína fái að kúga líka borgara 36 þúsund ferkílómetra eyju, meira en hundrað kílómetra frá meginlandinu, með 23 milljónir íbúa, sem augljóslega vilja fá að ráða sér sjálfir og hafa gert það vandræðalítið í mörg ár.

Hitt dylst fæstum, að með því að lýsa yfir stuðningi við „Eitt Kína“ (sem minnir óþægilega, en eðlilega, á hollustuyfirlýsingar við forystu Þriðja ríkisins), samtímis því sem ekki er annað gert en að lýsa „áhyggjum“ vegna ástandisns í Tíbet, var Ingibjörg að lýsa yfir afskiptaleysi gagnvart því sem þar fer fram, sem og gagnvart allri kúgun annars staðar í Kína.  Núverandi utanríkisráðherra, Samfylkingarmaðurinn Össur Skarphéðinsson, hefur ekki dregið þessar eindregnu stuðningsyfirlýsingar við kínversk stjórnvöld tilbaka.

Það er misjafnt hversu strangar skilgreiningar fólk notar á fasisma.  Hitt er ljóst, að kúgunaraðferðir Kínastjórnar eru nákvæmlega þær sem beitt er í fasistaríkjum.  Kínastjórn hikar ekki við að fangelsa, pynta og myrða þá sem leyfa sér að viðra aðrar skoðanir en þær sem eru stjórnvöldum þóknanlegar, og þetta er gert í stórum stíl.  Þetta er það sem Ingibjörg Sólrún, Össur og forysta Samfylkingarinnar, að miklu leyti, veitir siðferðilegan stuðning með yfirlýsingunni um stuðning við „Eitt Kína“.  Það er sama fólkið og gagnrýndi, réttilega,  gerræðislega ákvörðun fyrri valdhafa um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

Asinn á forsetanum og forystu Samfylkingarinnar, þar sem margir eru með peningaglampann í augum, er ógeðfelldur, og ekki annað að sjá en þetta fólk sé búið að gleyma því sem gerðist á Íslandi síðustu árin, þegar þeir voru kallaðir úrtölumenn, eða eitthvað þaðan af verra, sem vildu fara varlega í „uppbyggingunni“.

Hitt er sýnu verra, en trúlega tengt ofangreindum peningahagsmunum, hvernig þetta forystufólk gengst, í æði sínu, undir það siðferðilega ok sem það er að lýsa yfir óbeinum stuðningi við hina hryllilegu kúgunarstjórn í Kína.  Það bætir ekki úr skák að þær yfirlýsingar voru gerðar að almenningi forspurðum, þótt þær væru gefnar í nafni hans.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.8.2011 - 22:17 - 14 ummæli

Huang Nubo og bláeygir fjölmiðlar

Íslenskir fjölmiðlar hafa síðustu dagana keppst við að fjalla um Huang Nubo sem er að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, land sem nemur 0,3% af öllu Íslandi.  Ekki er laust við að umfjöllunin minni svolítið á það þegar dýrlingurinn Ross Beaty var kynntur í íslenskum fjölmiðlum sem bjargvættur og mannvinur, sem vildi festa fé á Íslandi til langframa, ekki til að græða, heldur hafði hann svo mikinn áhuga á vistvænni orku og langtímaverkefnum á því sviði.  Fæstum fjölmiðlum virtist einu sinni detta í hug að gúgla nafn mannsins, en þeir sem það gerðu sáu á tveim mínútum við hvað þessi maður hafði fengist síðustu árin:  Að braska með ýmiss konar auðlindir víða um heim.  Ekki byggja upp eitt né neitt, heldur braska.

Nú er svipað hljóð í strokknum.  Ross Beaty fékk drottningarviðtal í Kastljósi á sínum tíma.  Huang hefur víst ekki birst sjálfur, en félagi hans Halldór Jóhannsson fékk a.m.k. hirðsveinsviðtal fyrir hönd meistara síns í Sîðdegisútvarpi Rásar 2.  Halldór mátti vart vatni halda yfir mannkostum Huangs, sem er ljóðskáld og náttúruunnandi og óskaplega „þrautseigur“, sem á víst að skýra hvernig hann varð einn ríkasti maður Kína (og heimsins) á tíu árum eftir að hann hætti að vinna fyrir kínversk stjórnvöld, þ.á.m. sem einhvers konar deildarstjóri í Áróðursmálaráðuneytinu, eins og sjá má hér.

Engum íslenskum fjölmiðlum virðist detta í hug að grafast fyrir um fortíð mannsins, annars vegar hvernig hann fór að því að verða svona fokríkur á svo skömmum tíma, hins vegar hversu háttsettur hann var í stjórnsýslunni, og þannig hversu mikla ábyrgð hann ber á þeirri svívirðilegu kúgun sem er daglegt brauð í Kína.

Eins og fyrri daginn eru það fremur bloggarar en fjölmiðlar sem vinna vinnu af þessu tagi.  Hér er ein áhugaverð bloggfærsla um málið.  Þar er því m.a. haldið fram að Huang þessi sé maðurinn sem Hjörleifur Sveinbjörnsson rúntaði með um landið fyrir fáum árum, á  bíl sem Utanríkisráðuneytið lánaði, og einhverjum þótti vera spilling.  Ég hef ekki sannreynt það, svo ég sel það á innkaupsverði, en vona að einhverjir fjölmiðlar gangi úr skugga um sannleiksgildi þessa.

Landsbankanum er uppálagt að athuga fortíð þeirra sem hann hyggur á stórviðskipti við, til að ganga úr skugga um að þar sé á ferð fólk sem ekki á vafasama fortíð.  Er ekki full ástæða til að gera sams konar úttekt á Huang Nubo, sem efnaðist á svo undraverðum hraða að flestir íslenskir viðskiptaglæpamenn síðustu ára blikna við hliðina á honum?  Og, ef það er ástæða til að athuga viðskiptafortíð fólks áður en gerðir eru samningar við það, er nokkuð minni ástæða til að athuga hvort það á að baki störf við stórfelld mannréttindabrot?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.8.2011 - 20:11 - 30 ummæli

Ógeðslegur fréttaflutningur

Margir fjölmiðlar, þeirra á meðal ríkissjónvarpið og ruv.is, hafa í dag birt fréttir af njósnum manns nokkurs um aðra manneskju sem áður var honum nátengd.  Ef til vill spinnst af þessu einhver umræða um hvenær fjölmiðlar eigi að nafngreina fólk í svona málum.  Um það ætti að gilda sú einfalda regla að það sé aðeins gert ef augljósir almannahagsmunir krefjist þess.

Það verður sjálfsagt reynt að teygja og toga skilgreiningarnar á almannahagsmunum, og eitthvert fjölmiðlafólk mun þykjast geta réttlætt þetta með einhverjum rökum.

En þetta er ekki flókið mál.  Það er mjög varasamt að banna fjölmiðlum með lögum að birta svona fréttir.  Þetta á ekki að vera ólöglegt.  En þetta er  viðbjóðslega siðlaus fréttaflutningur, og þá sem bera ábyrgð á honum á tvímælalaust að sækja til saka í dómstól almenningsálitsins.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.8.2011 - 13:34 - 37 ummæli

Örsögur úr hruninu og undirskriftasöfnun HH

Tölurnar í eftirfarandi sögum eru ekki nákvæmar, en nógu nærri lagi til að kjarni málsins sé réttur.

Manneskja A keypti, fyrir hrun, íbúð sem kostaði 21 milljón.  Hún átti 7 milljónir sjálf sem hún setti í þetta, og tók 14 að láni, með verðtryggingu.  Lánið var sem sé fyrir 67% af andvirði íbúðarinnar, sem telst yfirleitt varkárt í slíkum viðskiptum, í löndum þar sem efnahagslífið er ekki í tómu rugli, og þar sem hægt er að treysta stjórnvöldum til að gera allt sem þau geta til að borgararnir lendi ekki í stórum stíl í óyfirstíganlegum vandræðum ef þeir haga sér skynsamlega.

Núna er íbúðin metin á 16 milljónir, en skuldin er komin í 20.  Það sem var 7 milljóna eign er orðið að 4 milljóna skuld.  Tapið er 11 milljónir.  Samt hafði A hagað sér með afar ábyrgum hætti, miðað við það sem gert er ráð fyrir í löndum með alvöru efnahagsstjórn og stjórnvöld sem hafa einhverja sjálfsvirðingu.

Manneskja B , sem einnig átti 7 milljónir, keypti ekki íbúð, heldur geymdi féð í banka.  Innistæðutryggingar hefðu líklega átt að tryggja um þriðja hluta fjárins í hruninu, en ríkisstjórnin ákvað að allt skyldi tryggt (hjá þeim sem áttu innistæður á Íslandi).  Á rúmum tveim árum eftir hrun fékk B eina og hálfa milljón í vexti frá bankanum, svo milljónirnar 7 urðu að 8,5.

Það hefur verið deilt um nýlega útreikninga Hagsmunasamtaka Heimilanna varðandi verðtryggingu.  Það er aukaatriði hér, því staðreyndirnar tala skýru máli:  Rîkisstjórnin ákvað eftir hrun að tryggja hagsmuni fjármagnseigenda, en setja fjöldann allan af fólki sem hafði keypt fasteign í góðri trú, og  með ábyrgum hætti, út á guð og gaddinn.

Það var hryllileg skammsýni, ef ekki svívirðileg afglöp, að taka verðtryggingu lána ekki úr sambandi strax eftir hrun.  Það hefði verið hægðarleikur, úr því hægt var að yfirtaka allt bankakerfi landsins á hálfum sólarhring, auk þess sem skuldir fjölmargra milljarðamæringa, sem enn eru fokríkir, hafa verið afskrifaðar.  Í ljósi þess er bæði rangt, og fullkomlega siðlaust, að halda fram að ekki sé hægt að leiðrétta lán þess saklausa fólks sem margt er að kikna undan byrðunum af verðtryggðum lánum.  Það er hægt að afnema verðtrygginguna í dag, og það er hægt að niðurfæra lán þeirra sem sáu þau stökkbreytast.  Þess vegna ættum við sem flest að skrifa undir áskorun Hagsmunasamtaka Heimilianna þessa efnis.  Hún er hér.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.8.2011 - 14:18 - 25 ummæli

Leggjum niður Landsvirkjun

Landsvirkjun er fyrirtæki sem byggir og rekur virkjanir, og á að vinna í þágu almannahagsmuna.

Samkvæmt þessari frétt kom það núverandi forstjóra Landsvirkjunar á óvart að „margir virkjunarkostir hafi hafnað á verndarlista“ í nýlegri rammaáætlun.  Fyrr í sumar lét sami forstjóri gera skýrslu um þau gríðarlegu auðæfi sem Landsvirkjun gæti fært þjóðinni ef hún fengi bara að virkja nógu mikið.  Meðal skýrsluhöfunda voru hátt settir menn úr greiningardeild Kaupþings sáluga sem látlaust spáðu áframhaldandi gulli og grænum skógum alveg þangað til spilaborgirnar hrundu yfir þá.

Þótt núverandi forstjóri Landsvirkjunar hafi hingað til virst auðmýkri en fyrirrennari hans er ljóst að forysta fyrirtækisins er í bullandi pólítískum áróðri.  Það er ef til vill óhjákvæmilegt, og kannski ekkert óeðlilegt, að forstjóri stórfyrirtækis vilji að veltan og gróðinn séu sem mest.  Vandamálið er að hér takast á afar ólíkir hagsmunir, þ.e.a.s. virkjanagróði annars vegar og náttúruvernd hins vegar (auk alls konar annarra vandræða, eins og t.d. ruðningsáhrifanna vegna byggingar Kárahnúkavirkjunar).

Af því að hlutverk Landsvirkjunar er að byggja og reka virkjanir, en ekki að vernda náttúruauðæfi, er óumflýjanlegt að áróður fyrirtækisins sé einhliða.  Þar er hins vegar augljóslega um að ræða hagsmunaárekstra sem ófært er að búa við.  Landsvirkjun ætti eingöngu að fást við byggingu og rekstur virkjana sem ákvarðanir hafa verið teknar um af aðilum sem bera ábyrgð á þeim ákvörðunum, sem Landsvirkjun gerir ekki.

Af því að það er vonlítið að kenna gömlum hundi að sitja er líklega nauðsynlegt að leggja Landsvirkjun niður í núverandi mynd.  Hana ætti svo að endurreisa með það hlutverk eitt að byggja og reka virkjanir, en leggja blátt bann við að hún noti fé skattgreiðenda til að standa í blygðunarlausum pólitískum áróðri fyrir meiri virkjunum, þvert á öll náttúruverndarsjónarmið.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.8.2011 - 22:25 - 20 ummæli

Dópskuld Bjarna Ben

Í dag birtist athyglisverð grein í Fréttablaðinu, eftir Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur. Greinin er athyglisverð af því að hún segir einfaldan sannleika á einfaldan hátt. Það er alltaf sláandi þegar maður hefur sjálfur hugsað svipaðar hugsanir, án þess að geta fært þær í svona einfaldan búning. Afhjúpanir af þessu tagi eru náskyldar sögunni um Nýju fötin keisarans, og nú þegar Ólöf er búin að benda á nektina get ég ekki stillt mig um að endursegja örlítið af því sem hún sagði:

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er nátengdur þeim sem settu Ísland á hausinn, bæði pólitískt og fjárhagslega. Þetta lið stundaði hrikalegt eiturlyfjasukk árum saman, þar sem helsta fíkniefnið var peningar. Afleiðingarnar voru hörmulegar fyrir fjöldann allan af fólki sem ekkert hafði til saka unnið, og ekki naut góðs af því „góðæri“ sem félagar Bjarna mökuðu krókinn á, hvað þá að það hafi verið með í partíinu. Sama fólkið þarf nú að greiða dýru verði dópskuldir Bjarna og félaganna. Og nú vill Bjarni meira dóp.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur