Föstudagur 8.7.2011 - 22:53 - 7 ummæli

Stjórnlagaráð: Eftirlit með leynilögreglu

Eftirfarandi erindi sendi ég til Stjórnlagaráðs.

Á Íslandi hafa yfirvöld lengi stundað ýmiss konar rannsóknir sem skerða persónufrelsi og friðhelgi einkalífs.  Flestir munu sammála um að slíkt sé óhjákvæmilegt og nauðsynlegt við ýmsar aðstæður.  Engu að síður er ljóst að slíkar heimildir eru stundum misnotaðar.  Því meiri leynd sem hvílir yfir slíkri starfsemi, og því víðtækari heimildir sem yfirvöld hafa, því líklegra er að misnotkunin verði gróf, og fari í bága við mannréttindi sem eru í orði tryggð í stjórnarskrá.  Jafnvel í löndum eins og Svíþjóð og Noregi hefur leynilögregla af ýmsu tagi orðið uppvís að alvarlegum og kerfisbundnum brotum gegn saklausu fólki, eins og kom fram í úttektum rannsóknarnefnda um þessi mál í umræddum löndum.

Nýlega hafa verið uppi áform um að auka „forvirkar rannsóknaheimildir“ lögreglu á Íslandi.  Jafnvel þótt ekki verði af því er ærin ástæða til að koma á fót eftirliti með þeirri starfsemi yfirvalda sem leynt fer og sem skerðir það almenna persónufrelsi og friðhelgi einkalífs sem tryggð eru í stjórnarskrá.

Þetta mætti til dæmis gera með því að binda í stjórnarskrá að starfandi sé nefnd sem hafi það hlutverk að fylgjast með starfsemi af þessu tagi.  Nefndin ætti að hafa ótakmarkaðar heimildir til að kynna sér starf lögreglu í þeim tilgangi að koma í veg fyrir misnotkun á rannsóknaheimildum hennar.  Hún ætti að sjálfsögðu að vera bundin þagnarskyldu um allt sem hún kæmist að, nema hvað hún ætti að upplýsa opinberlega um öll atvik þar sem yfirvöld hefðu brotið af sér.  Nefndin ætti að rannsaka kvartanir sem henni bærust, og enn fremur taka frumkvæði að rannsóknum ef tilefni gæfist til.  Hún ætti hvenær sem er að geta kallað fyrir sig opinbera starfsmenn (og aðra) sem tengst gætu málum á hennar forræði, það ætti að vera skylda viðkomandi að svara spurningum nefndarinnar og gefa henni allar upplýsingar sem hún bæði um, og það ætti að varða brottrekstri úr starfi (eða eftir atvikum mildari eða harðari viðurlögum) að segja ósatt frammi fyrir nefndinni.

Reynslan af starfi umboðsmanns Alþingis er nokkuð góð, og hún hefur sýnt að það er hægt að hafa opinberan eftirlitsaðila með starfsemi yfirvalda.  Því er ástæða til að ætla að sama gæti átt við um eftirlit með starfsemi „leynilögreglu“, bæði þeirri sem þegar er til staðar, og ekki síður þeirri starfsemi sem rætt er um að koma á fót með auknum rannsóknaheimildum.  Slíkt eftirlit er nauðsynlegt ef við viljum tryggja að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar verði virk, en ekki háð geðþótta yfirvalda á hverjum tíma.

Miklu skiptir að skýrt sé að hlutverk slíkrar nefndar sé að vernda réttindi almennings gegn yfirvöldum, en hún sé ekki einhvers konar „innra eftirlit“ yfirvalda sjálfra.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.6.2011 - 00:54 - 17 ummæli

Um Landsvirkjun, hræGamma og Porter

Í gær kynnti Landsvirkjun nýja framtíðarsýn.  Í stuttu máli er hér lofað gulli og grænum skógum, nánar tiltekið að Landsvirkjun muni skapa tólf þúsund ný störf á næstu árum, að fyrirtækið muni skila ríkissjóði tugum milljarða króna árlega í framtíðinni og að þetta muni „hafa ámóta áhrif á lífskjör á Íslandi og olíuiðnaðurinn í Noregi.“

Svo verður þetta eiginlega allt gefins.  Að vísu þarf að tvöfalda orkuframleiðsluna, en það er auðvitað smámunasemi og svartagallsraus að leyfa sér að efast um að það sé meira en barnaleikur.  Enda eru höfundar þessarar skýrslu miklir fagmenn og reynsluboltar þegar kemur að spádómum um efnahagsmál.  Þeir vinna fyrir fyrirtækið Gamma (nei, nei, ekki hrægamma), og þeirra á meðal má finna a.m.k. tvo sem störfuðu í greiningardeild Kaupþings, og víðar í því sæla fyrirtæki, árin fyrir hrun.

Reyndar var efnahagsráðgjafi Gamma, Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings í nokkur ár fyrir hrun og einnig dálítinn tíma eftir hrun. Ég man ekki til að hann hafi nokkuð þurft að leiðrétta eftirá staðhæfingar sínar um stöðuna fyrir hrun, svo ég geri fastlega ráð fyrir að hann hafi verið þar með allt á hreinu og varað við því sem vofði yfir.  Því væri fráleitt að draga í efa glæsta spádóma þessara snillinga um framtíðarorkuframleiðslu og meðfylgjandi ofsagróða Landsvirkjunar oss tilhanda.

Það var svo afar passandi að Kastljós skyldi í kvöld veita drottningarviðtal prófessornum Michael Porter, sem mátti vart vatni halda yfir þeim stórkostlegu tækifærum sem biðu Íslendinga í jarðvarmaklasanum svokallaða, sem hann virðist vera guðfaðir að, enda höfundur hugmyndarinnar um klasa, sem ein sér gerir heilu þjóðirnar fokríkar.

Porter vill sjá umfangsmikil ný orkuverkefni, og það sem fyrst.  Það liggur auðvitað mikið á, því hver veit nema öðrum takist annars að kviðrista gullgæsina á undan okkur.  Og auðvitað skiptir engu máli þótt afar lítið sé vitað um nýtingarmöguleika jarðhita, eða endinguna á slíkum virkjunum, það eru jú bara einhverjir jarðhitafræðingar sem eru með þess konar dragbítshátt.

Hér er um að ræða „hnattræna risaflóðbylgju tækifæra“ sagði Porter.  Íslendingar þurfa að vera „meiri frumkvöðlar, aggressívari, og áhættusæknari.“

Ætli hér einhverjir að malda í móinn, og muldra um „klisjur frá 2007“ eða hafa uppi efasemdir um að gulldrengirnir úr greiningardeild Kaupþings hafi fægt kristalskúlurnar nógu vel í þetta skiptið, þá er þeim vinsamlegast bent á að halda sér til hlés.  Við hin ætlum í þetta partí og fokkjú.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.6.2011 - 15:59 - 14 ummæli

Þjónkun háskóla við valda- og hagsmunaaðila

Í nýlegri frétt á RÚV er sagt frá athugasemdum Ólínu Þorvarðardóttur við kostun á stöðum starfsmanna háskóla, en hún nefndi sérstaklega stöðu Helga Áss Grétarssonar við Lagastofnun HÍ, sem kostuð er af LÍÚ.  Hér verður ekki rakið það sem Helgi hefur látið frá sér fara um þessi mál í fjölmiðlum, en augljóst er að ýmsar staðhæfingar hans um þau eru ekki byggðar á óyggjandi niðurstöðum úr rannsóknum.

Í umræddri frétt er vitnað í forseta Félagsvísindavsviðs HÍ, Ólaf Þ. Harðarson, en hann „segir skólann huga vel að þessum málum, mestu máli skipti að fyrirkomulagið sé gagnsætt.“  Það þætti þó varla nóg í háskólum sem annt er um orðstír sinn sem sjálfstæðra rannsóknastofnana.

Það ætti t.d. að vera augljóst að framganga Helga Áss, sem LÍÚ greiðir fyrir, hlýtur að skerða traustið á sjálfstæði HÍ og orðstír sjálfstæðra rannsókna við skólann.  Ég spurði forstöðumann Lagastofnunar, Maríu Thejll, hvort stofnunin hefði reglur um kostun utanaðkomandi aðila.  Svar hennar var svohljóðandi (auk vísunar í 3. mgr. 26. gr. laga nr. 85/2008, um að háskólar megi semja við aðrar stofnanir og fyrirtæki um ráðningu kennara og annarra starfsmanna):

Lagastofnun hefur ekki sett sérstakar reglur um kostaðar stöður og er ekki kunnugt um slíkar reglur á vegum Háskóla Íslands. Starfsmenn í kostuðum stöðum eru ráðnir í samræmi við ráðingarferli samkvæmt reglum Háskóla Íslands og lúta nákvæmlega sömu reglum og starfsskilyrðum og aðrir starfsmenn háskólans við störf sín.

En það eru fleiri dæmi um blygðunarlausa (skilningsvana?) samtvinnun HÍ og valda- og hagsmunaaðila.  Á vef Alþjóðamálastofnunar HÍ stendur meðal annars þetta:

Markmið Alþjóðamálastofnunar er að vera leiðandi í rannsóknum um alþjóðamál og smáríki í heiminum, að auka gæði og framboð náms um alþjóðamál og smáríki í grunn- og framhaldsnámi á háskólastigi, og að vera þjónustustofnun við atvinnulífið og hið opinbera. Stofnunin starfar með utanríkisráðuneytinu, Varnarmálastofnun Íslands, Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins.

Að vera „þjónustustofnun við atvinnulífið og hið opinbera“ fer  augljóslega í bága við hugmyndina um sjálfstæða rannsóknastofnun, og um það ætti ekki að þurfa að deila.  Enda segir Ólafur Þ., í ofangreindri frétt RÚV:

En hins vegar hefur það iðulega gerst varðandi starfsmenn sem eru í stöðum sem eru kostaðar af ríkinu, og þá eru það stjórnmálamenn sem eru að gera athugasemdir við ummæli eða niðurstöður einstakra fræðimanna við Háskólann.

Það er e.t.v. ekki skrítið, því sumar deildir HÍ virðast lengi hafa litið á sig sem þjónustustofnanir við ríkisvaldið (og jafnvel hið svokallaða „atvinnulíf“, þ.e.a.s. atvinnurekendur af ýmsu tagi).  Starfsmenn Lagadeildar HÍ hafa margir eytt gífurlegum tíma í vinnu fyrir hið opinbera (eins og fram hefur komið í fréttum nýlega, sjá t.d. hér), og vandséð að þeir stundi á meðan mikið af þeim fræðistörfum sem háskólafólki er ætlað (og sem það fær greitt fyrir stóran hluta af launum sínum við ríkisháskólana).

Það lýsir líka sérkennilegri afstöðu til háskólarannsókna að forstöðumenn „rannsóknastofnana“ við HÍ eru gjarnan fólk sem hefur lítinn eða engan rannsóknaferil að baki.  Það gildir t.d. um ofangreinda Alþjóðamálastofnun, en einnig, að því er virðist, um Lagastofnun og sama gilti til skamms tíma um Félagsvísindastofnun, en algengt hefur verið að forstöðumenn þessara stofnana hafi ekki einu sinn lokið doktorsprófi, hvað þá að þeir hafi haslað sér völl sem öflugir fræðimenn.

Það er ástæða fyrir því að góðum háskólum erlendis dettur ekki í hug að setja í akademískar forystustöður fólk sem ekki hefur að baki umtalsverðan feril sem háskóla- og fræðafólk.  Þetta vita allir sem kynnst hafa sæmilegu háskólastarfi á alþjóðavettvangi, en á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum virðist valdafólk í íslensku háskólunum enn halda í hugmyndina að Ísland sé svo „sérstakt“ og Íslendingar svo miklir snillingar að hér geti hver sem er leitt háskólastarf sem sómi sér meðal bestu háskóla heims.  Það er væntanlega af sömu ástæðu að meðal æðstu forystumanna HÍ og HR (um fimmtán talsins) er aðeins ein manneskja sem hefur reynslu af starfi á þeim alþjóðavettvangi þar sem þessir skólar segjast ætla að skara fram úr.

Til að þjóna þeim sem með völdin fara á Íslandi, bæði í stjórnkerfinu og efnahagslífinu, þarf hins vegar ekki annað en sæmilega þjónslund, og raunveruleg fræðimennska og gagnrýnin hugsun er þar bara til trafala.

PS.  Rétt er og skylt að geta þess að innan HÍ og HR (og e.t.v. fleiri háskóla hér) er að finna talsvert af góðu vísindafólki, sem margt stendur framarlega á alþjóðavettvangi háskólasamfélagsins.  Þetta fólk á hins vegar gjarnan undir högg að sækja, enda er starf þessara skóla meira og minna skipulagt með annað fyrir augum en að efla vísindastarf.  Þar er oftar lögð áhersla á að styggja ekki þá sem ekki ná máli í því alþjóðasamfélagi sem vísindastarf er.  Um það var lítillega fjallað hér, og meira verður e.t.v. gert af því í þessu bloggi síðar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.6.2011 - 01:27 - 22 ummæli

Álfatrúartrú Íslendinga

Því er stundum haldið fram að Íslendingar trúi á álfa og huldufólk.  Um þetta má deila, en fæstir vita þó uppruna þessarar trúar á álfatrú landsmanna.  Lausleg athugun leiðir eftirfarandi í ljós (í samræmi við þær hefðir sem virðast gilda í umræðum um þessi mál og skyld verður hér vandlega forðast að geta heimilda eða áreiðanlegra gagna):

Seint á áttunda áratug síðustu aldar átti ung bandarísk stúlka að nafni Li E., nýútskrifuð úr þarlendum háskóla, nokkra íslenska vini sem hún hafði kynnst í skólanum, og sem hana dauðlangaði að heimsækja.  Hún var auralítil og brá því á það ráð að fá Wall Street Journal til að borga undir sig far til Íslands, gegn því að hún skrifaði „human interest“ grein um þetta frumstæða land, en stöku slíkar greinar birtir blaðið til að lífga upp á annars dapurlegt líf helstu lesenda sinna, sem flestir eyða ævinni í að flytja tölur á milli bréfsnifsa í gluggalausum skrifstofum á Manhattan.

Þegar Li kom til landsins biðu hennar höfðinglegar móttökur íslensku vinanna, sem fóru með hana út á lífið og héldu henni þar við efnið í þrjár nætur og tvo daga.  Þegar hún raknaði úr rotinu á hádegi þriðja dags, og átti að fljúga heim síðdegis, mundi hún eftir greininni sem skyldi borga ævintýrið.  Nú voru góð ráð dýr, en henni tókst að kría út góðan afslátt, enda með afbrigðum lunkin  eins og samningur hennar wið WSJ gefur til kynna.  Li fékk sem sé einn af vinunum íslensku til að keyra sig út á flugvöll, ákveðin í að rekja úr honum garnirnar á leiðinni, og spinna úr þeim söguþráð í greinina.  Það gekk í fyrstu treglega, enda vinurinn bæði fámáll að upplagi, grúttimbraður og með svæsna garnaflækju.  Þó missti hann út úr sér, skömmu eftir að hann keyrði fram hjá Kúagerði, að þarna hefði afi hans fótbrotnað í vegavinnu eftir að hann  sprengdi steininn sem amma hans hafði sagt honum að í byggju álfar.

Í flugvélinni á leiðinni tilbaka til New York skrifaði Li í snatri grein um þessa sérkennilegu þjóð sem virtist í flestu hafa tileinkað sér háttu vestrænna manna, en trúði enn á álfa og huldufólk.  Greinin birtist viku síðar, undir fyrirsögninni „Where elves are all the rage“.  Hún var að sjálfsögðu þýdd og birt í Morgunblaðinu, og þess getið að bandarískur sérfræðingur í trúarbragðafræði hefði komist að því eftir áralangar rannsóknir að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga tryði á álfa, enda hefðu birst um þetta greinar í virtum tímaritum erlendis.

Síðan hafa Íslendingar trúað að Íslendingar trúi á álfa.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.6.2011 - 16:17 - 28 ummæli

Stjórnlagaráð, kynjakvótar og jafnt vægi atkvæða

Eins og sjá má í Áfangaskjali stjórnlagaráðs er lagt til að setja megi „í lög ákvæði um lágmarkshlutfall karla og kvenna“ í kosningum til Alþingis.  Svo virðist sem flest stjórnlagaráðsfólk geri sér ekki grein fyrir að með þessu er brotið gegn þeirri grundvallarreglu sem flestir virðast vera sammála um í orði, nefnilega að öll atkvæði eigi að vega jafnt í kosningum til Alþingis.

Það er hægt að hafa ólíkar skoðanir á réttmæti og skilvirkni kynjakvóta.  Það er hins vegar ekki hægt að halda því fram að kosningar séu frjálsar og atkvæði allra vegi jafnt ef sett eru skilyrði um lágmarkshlutfall kynja (eða yfirleitt nokkurra hópa).  Ef til þess kæmi að lög af þessu tagi yrðu virk þýddi það óhjákvæmilega að frambjóðandi fengi sæti á þingi sem hefði færri atkvæði á bak við sig en sá sem yrði að víkja vegna kynferðis.  Þar með er minnkað atkvæðavægi þeirra sem kusu þann sem var af „réttu“ kyni, og vægi hinna minnkað að sama skapi.

Stjórnlagaráðsfólk verður því að gera upp hug sinn og ætti, í nafni gagnsæi og heiðarleika, að segja hreint út hvort það vill jafnt vægi atkvæða og frjálsar kosningar, eða leyfa kynjakvóta.  Það er ekki hægt að hafa hvort tveggja, og það er ekki heiðarlegt að segja hið gagnstæða.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.6.2011 - 14:10 - 7 ummæli

Einn maður eitt atkvæði — en sum atkvæði vega þyngra en önnur

Í þessari frétt segir meðal annars:  „Sú nefnd stjórnlagaráðs sem fjallar um kjördæmaskipan og þingkosningar leggur til talsverðar breytingar á fyrirkomulagi kosninga til Alþingis og vill að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt líkt og þjóðfundur lagði mikla áherslu á.“

Síðar segir svo:  „Þá er lagt til að setja megi í lög ákvæði um lágmarkshlutfall karla og kvenna á þingi.“

Ef þetta er rétt eftir haft er það ráðgáta að stjórnlagaráð, sem hingað til virðist hafa unnið gott starf laust við rugl, skuli setja fram tillögu sem er í svo hróplegri mótsögn við hugmyndina um jafnan atkvæðisrétt og frjálsar kosningar.  Afleiðingarnar af kerfi sem þessu gætu orðið að miklu fleiri konur en karlar hlytu brautargengi í kosningum, en til að „leiðrétta“ ranga kosningu kjósenda þyrftu konur með mikið fylgi að víkja fyrir körlum með miklu minna fylgi.

Að margir telji líklegra að halla myndi á konur er ekki afsökun fyrir ákvæði af þessu tagi; stjórnarskrá sem á að endast verður að innihalda grundvallarreglur sem standast tímans tönn.  Burtséð frá því á hvort kynið hallaði í kosningum ætti það líka að vera óbærileg tilhugsun sérhverjum lýðræðissinna að ætla að svipta stóran hóp kjósenda fulltrúa sem hann hefur valið, af því að þessi hópur hafi einfaldlega valið rangt að mati einhverra besserwissera.

Hugsunarháttur af þessu tagi á ekki heima í nútímalýðræðisríki, ekkert frekar en hugmyndirnar fyrir hundrað árum um að konur ættu ekki að njóta sama kosningaréttar og karlar.  Þvert á móti ætti að vera í stjórnarskrá ákvæði um jafnan og frjálsan atkvæðisrétt, og afleiðing af því hlyti að vera að ekki væri hægt að leið í lög þá mismunun sem hér er rætt um.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur