Þriðjudagur 7.6.2011 - 16:55 - 16 ummæli

Ranghugmyndir um háskólastarf og 2007

Nýlega kom fram þingsályktunartillaga „um sameiningu háskólastofnana og rekstur tveggja öflugra háskóla.“  Fyrir henni talaði Baldur Þórhallsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, og prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.  Þessi tillaga er ansi barnaleg og lýsir auk þess litlum skilningi á góðu háskólastarfi.  Í henni segir meðal annars (og maður spyr sig hvort enn sé árið 2007): „Þannig verði starfræktar tvær vísindastofnanir á landinu með nokkrar starfsstöðvar sem hafi getu til að vinna að rannsóknum og bjóða upp á háskólakennslu eins og best gerist í heiminum.“

Skilningsleysi flutningsmanna felst í því að á Íslandi búa 320 þúsund manns, hér er hlutfallslega álíka margt fólk í háskólanámi og mest gerist í heiminum, og Íslendingar eru, því miður, ekki margfalt klárari en aðrar þjóðir þegar kemur að vísindastarfi.  Sé t.d. borið saman við Kaliforníu, þar sem langstærstur hluti háskólakerfisins er rekinn af ríkinu, má sjá að í efsta hlutanum af þremur eru um 200 þúsund nemendur (þetta eru rannsóknaháskólarnir í kerfinu, þ.á.m. Berkeley, UCLA og aðrir minna þekktir).  Íbúar Kaliforníu eru 115 sinnum fleiri en Íslendingar.  Ef íslenskur háskóli ætti að bjóða upp á það sem „best gerist í heiminum“ — og þótt ekki væri gengið lengra en að bera sig saman við ofangreindan hluta Kaliforníukerfisins, fremur en bara þá sem fremst standa á alþjóðavettvangi — þá væri óraunhæft að reikna með að slíkur skóli hýsti meira en tvö þúsund nemendur, í stað þeirra fimmtán-tuttugu þúsunda sem hér stunda nám á háskólastigi.

Í stuttu máli er fráleitt að ætla að meira en tíu prósent nemenda í íslenskum háskólum hafi burði til að stunda nám í skólum sem bjóða upp á það sem „best gerist í heiminum.“  Í slíkum háskólum eru nefnilega gerðar kröfur sem einungis lítill hluti nemenda í árgangi stendur undir, og án slíkra nemenda er tómt mál að tala um framúrskarandi háskóla.  Að sama skapi er útilokað að hér á landi sé stærra hlutfall af góðum fræðimönnum en gerist annars staðar í heiminum.

Væri alvara á bak við hugmyndirnar um að byggja upp öflugt háskólastarf mætti skapa slíkan skóla með því að safna saman því vísindafólki landsins sem stendur föstum fótum í alþjóðasamfélaginu (og það einungis á sviðum sem eru nógu burðug hér til að standa undir starfi sem sómir sér á alþjóðavettvangi).  Hugmyndir á þessum nótum voru lagðar fram af þremur meðlimum svokallaðs rýnihóps ráðherra sem átti að gera tillögur um endurskipulagninguna sumarið 2009. Þær hugmyndir má sjá hér, en skemmst er frá því að segja að þær hlutu ekki mikinn hljómgrunn í hópnum, enda var hann samsettur í nokkurn veginn réttum hlutföllum af fólki úr öllum háskólum landsins, og varð því að sams konar hagsmunagæslunefnd og við mátti búast, þar sem sammælst var um að gera nánast engar breytingar.

Það er barnaskapur hjá flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar að segja að „Verkefni háskólanna er að koma sér saman um hvernig sameiningu þeirra er best háttað.“  Háskóli Íslands vill gleypa mestallt háskólastarf í landinu, og hinir háskólarnir vilja ekki láta gleypa sig.  Forysta skólanna mun því aldrei koma sér saman um sameiningar.  Enda er ekki skynsamlegt að ætla að forysta tiltekinnar stofnunar vinni heilshugar að því að leggja sjálfa sig niður.  Auk þess þjónar það varla hagsmunum eigendanna, ríkisins fyrir hönd almennings, að láta forystumenn stofnana sem e.t.v. ætti að gerbreyta eða leggja niður véla um hvernig eigi að standa að því.

Ef ætti að byggja upp öflugt háskólastarf á Íslandi (og það væri hægt, í litlum mæli, þrátt fyrir fámenni og fjárskort) þá þyrftu þau yfirvöld sem ráða yfir fjárframlögunum að taka ákvörðun um slíkt, og fá til þess verks aðra en þá sem nú ráða lögum og lofum í kerfinu.  Það hafa þessi yfirvöld (menntamálaráðherrar) aldrei gert.  Þvert á móti hefur ekkert raunverulegt eftirlit verið með gæðum háskólastarfsins, og aldrei spurt hvað fengist (í gæðum) fyrir féð sem lagt hefur verið í þetta kerfi.

Þrátt fyrir yfirlýsingar núverandi menntamálaráðherra (sem er í leyfi sem stendur) um að endurskipuleggja ætti háskólakerfið er ekkert slíkt á prjónunum.  Það hafa verið skrifaðar nokkrar skýrslur, sumar með góðum ábendingum um gallana í kerfinu, en allar tilraunir til að koma á teljandi breytingum hafa verið kæfðar.  Í forystu fyrir því verki hefur verið sérstakur ráðgjafi ráðherra um endurskipulagningu háskólakerfisins, Berglind Rós Magnúsdóttir.  Eins og títt er í íslenskri stjórnsýslu er þar á ferðinni manneskja með enga reynslu af starfi á því sviði sem hún átti að leiða endurskipulagninguna á, þ.e.a.s. hún hefur aldrei starfað í háskóla (öðru vísi en sem nemandi), hvað þá að hún hafi umfangsmikla reynslu af slíku starfi.

Undirrituðum sagði Berglind, skömmu eftir að hún var ráðin til starfans, að ráðuneytið hefði sér til ráðgjafar í þessum málum tvo reynda háskólamenn, þá Jón Torfa Jónasson, forseta menntavísindasviðs HÍ, og Pál Skúlason, fyrrum rektor þess skóla.  Það er nógu slæmt að láta forystumenn úr einum þeirra skóla sem endurskipulagningin átti að taka til ráða hér för.  Ekki er skárra að umræddir menn eru þekktir fyrir allt annað en að reyna að byggja upp öflugt háskólastarf í alþjóðlegum samanburði, eins og er yfirlýst stefna HÍ og HR (en í þeim skólum eru yfir 90% háskólanema landsins).

Þetta er kjarni vandans: Þeir sem ráða lögum og lofum í íslensku háskólastarfi vilja ekki hrófla við kerfinu, sem hyglir undirmálsfólki (í trássi við yfirlýsta stefnu HR og HÍ), neitar að hlaða undir starf þeirra sem raunverulega eru frambærilegir á alþjóðavettvangi, og kemur þannig í veg fyrir að hægt sé að laða til landsins fólk sem gæti stóreflt háskólastarf hér.

Hér er svo örlítið, en afar lýsandi, dæmi um áherslurnar sem í raun ráða för í Háskóla Íslands, sem gefur sig út fyrir að vilja verða einn af hundrað bestu í heimi (ástandið er ekkert skárra í HR, þótt þar sé um að ræða annars konar kerfi): Samkvæmt vinnumatskerfi Háskóla Íslands fá höfundar sem eru einir á grein í tímaritum eins og Tímariti sálfræðinga, eða RAUST (Tímariti um raunvísindi og stærðfræði), fjórfalt fleiri punkta en Freysteinn Sigmundsson fékk, sem fyrsti höfundur, fyrir þessa grein í einu virtasta tímariti heims. Vinnumatskerfið ræður hluta af launum akademískra starfsmanna, auk framgangs þeirra.  Ofangreint, sem er því miður dæmigert fyrir kerfið, veldur því annars vegar að framúrskarandi vísindamönnum er refsað fyrir að gera sitt besta, samtímis því sem starfsmenn eru hvattir til að eyða tíma sínum í að framleiða greinar sem eru algerlega marklausar í því alþjóðasamfélagi sem vísindin eru.  Að birta greinar um sálfræði á íslensku er ekki þátttaka í alþjóðlega fræðasamfélaginu, og erfitt er að verjast þeim grun að það sé gert vegna þess að þær fengjust aldrei samþykktar í góðum alþjóðlegum tímaritum.  Tímaritið RAUST er líka á íslensku, sem þýðir að það er ekkert framlag til vísindasamfélagsins í raunvísindum, auk þess sem greinar þess eru nánast aldrei framlag til rannsókna, heldur bara yfirlitsgreinar, skrifaðar fyrir leikmenn.

Eins og svo margt á Íslandi byggist íslenska háskólakerfið, og völdin í því, á svikum og blekkingum,  í bland við hrokafullan þvætting um alþjóðlega yfirburði, á borð við það sem tíðkaðist í íslenska fjármálaheiminum á árunum fram að hruni.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.5.2011 - 12:36 - 11 ummæli

Langt mál Karls Th. — lítil svör

Ritstjóri Eyjunnar, Karl Th. Birgisson, reynir í pistli að útskýra hvað ritstjórn Eyjunnar var að hugsa þegar hún birti númerið á bíl manns sem grunaður er um morð.  Einnig er fjallað um málið í þessari frétt á Eyjunni.

Þetta er langt mál hjá Karli, þar sem hann reynir að réttlæta birtinguna.  Rök hans eru þau að „Fyrir lá að lík stúlkunnar fannst í nokkurra ára gömlum dökkgráum Mitsubishi Galant“ og að þar með hafi fallið grunur á alla sem ættu slíkan bíl.

Spurningin sem Karl svarar ekki í þessu langa máli er af hverju Eyjan ætti að flýta sér að taka af vafa um eiganda bílsins, þótt myndir af bílnum hafi birst í öðrum fjölmiðlum.  Vilji fjölmiðlar vernda alla aðstandendur segja þeir frá málavöxtum með þeim hætti að ekki sé hægt að tengja þá við einstaklinga.  Þannig fá aðstandendur fréttirnar eftir öðrum leiðum áður en gert er opinbert um hvaða fólk er að ræða.  Það er vandalaust, og jafnan gert við svipleg dauðsföll þar sem ekki er glæpum til að dreifa.

Þótt aðrir fjölmiðlar hafi leyft sér að birta strax myndir af bílnum er vandséð af hverju Eyjan ætti að blanda sér í þann subbuskap.  Gruninum um að Eyjan hafi einfaldlega misst sig í sorpblaðamennsku hefur því ekki verið eytt.  Og langloka ritstjórans lítur enn út eins og aumlegt yfirklór, í stað þeirrar afsökunarbeiðnar sem honum hefði verið meiri sómi að.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.4.2011 - 15:35 - 8 ummæli

Þorsteinn Már og alþjóðlegur rekstur

Þorsteinn Már Baldvinsson segir, í nýlegri grein, farir Samherja ekki sléttar þegar starfsmenn fyrirtækisins þurftu að fá gjaldeyri vegna ferðar á sjávarútvegssýningu erlendis.  Þetta er afleiðing af reglum sem settar hafa verið í tengslum við gjaldeyrishöftin  Vegna þessa spyr Þorsteinn „Eigum við að reka alþjóðleg markaðsfyrirtæki á Íslandi?“

Um þetta er tvennt að segja:

Það er vel hægt að taka undir með Þorsteini að skrifræðið sem hann lýsir hér sé óbærilegt.  En gæti verið hollt að minnast þess að gjaldeyrishöftin voru sett á í kjölfar hruns íslensku bankanna, sem árum saman höfðu byggt upp spilaborg lyga og svika, spilaborg sem hrundi haustið 2008.  Bankinn sem hrundi fyrst hét Glitnir.  Stjórnarformaður hans var Þorsteinn Már Baldvinsson.

Miðað við þessa reynslu af forystu Þorsteins í rekstri alþjóðlegs markaðsfyrirtækis á Íslandi ætti svarið við spurningu hans að vera nokkuð ljóst:  Nei, Þorsteinn, þú ættir greinilega ekki að reka nein alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi.  Það hefur þegar reynst þjóðinni of dýrkeypt.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.4.2011 - 15:21 - 23 ummæli

Samtrygging, einelti, Ögmundur og Sigmundur

Það er ekki geðslegt að sjá Ögmund Jónasson taka til varna fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson hér, og ömurlegt að heyra íslenskt valdafólk tala eina ferðina enn um réttmætar spurningar fjölmiðla sem einelti.  Ögmundur gengur reyndar skrefi lengra, og líkir fjölmiðlum við morðingja, sennilega af því honum finnst einelti ekki nógu krassandi lýsing á þeim „ofsóknum“ sem hann og félagar hans verða fyrir.

Hér er samtryggingin, svikamylla íslensku stjórnmálastéttarinnar, ljóslifandi komin.  (Skemmst er að minnast hvernig Katrín Jakobsdóttir og Steingrímur Sigfússon gerðu Baldur Guðlaugsson að ráðuneytisstjóra, Katrín lagði blessun sína yfir áframhaldandi starf Halldórs Ásgrímssonar hjá Norrænu ráðherranefndinni og Össur Skarphéðinsson skrifaði mærðarlegt meðmælabréf handa Árna Mathiesen svo hann gæti fengið feitt djobb hjá Sameinuðu þjóðunum.)

Ögmundi rennur blóðið til skyldunnar, því ekkert er heilagra honum (eins og flestum íslenskum stjórnmálamönnum) en vernd þess valdaklíkukerfis sem hann á allt sitt undir, auk þess sem hann hefur sjálfur nýlega neitað að svara spurningum um afstöðu sína í mikilvægu máli (þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave).  Í því máli reiddist hann líka fjölmiðlum fyrir þann dónaskap að leyfa sér að spyrja um afstöðu hans, og vék sér undan að svara.

Allir sem fylgst hafa með fjölmiðlum í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við (og köllum lýðræðisríki) vita að þar væri Sigmundur nú í miklum vanda, sem flestir væru sammála um að væri sjálfskaparvíti.  Hann hefur talað um menntun sína við fjölmiðla, og sagt misvísandi hluti um hana.  Þetta er smámál í sjálfu sér, enda skiptir skólaganga Sigmundar litlu máli fyrir stöðu hans sem oddvita stjórnmálaflokks.  Stóra málið er hins vegar að Sigmundur hefur neitað að skýra þetta með viðhlítandi hætti, svo enn eru mörg spurningarmerki á lofti.

Það er ekki bara í Bandaríkjunum sem stjórnmálamenn komast ekki upp með að segja ósatt, eða einu sinni að drepa sannleikanum á dreif með loðnum svörum, þegar ljóst er að til eru skýr svör og einfaldur sannleikur í málinu.  Þetta viðhorf er orðið ríkjandi í flestum löndum með óhefta fjölmiðlun og gildir um hvaðeina sem stjórnmálamenn kjósa að tjá sig um, jafnvel þegar um er að ræða hluti sem koma starfi þeirra lítið við.

Ástæðan er einföld:  Skólaganga gerir fólk ekki endilega að betri stjórnmálamönnum.  En sannsögli gerir það.  Á því prófi hafa bæði Sigmundur og Ögmundur fallið, þótt með óbeinum hætti sé.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.4.2011 - 13:40 - 6 ummæli

Leyndarhyggja sjálfhverfra stjórnmálamanna

Í frumvarpi að nýjum upplýsingalögum, sem haldið er fram að muni auka aðgengi almennings að upplýsingum í fórum hins opinbera, er meðal annars að finna ákvæði um að sumum opinberum upplýsingum megi halda leyndum í 110 ár.  Vel má vera að hægt sé, með frjóu ímyndunarafl, að láta sér detta í hug opinberar upplýsingar sem slíkt ætti að gilda um.  Hitt er verra, að þetta ákvæði, sem og allur andi laganna, afhjúpar hugsunarhátt sem ætti að vera farinn á öskuhauga sögunnar, ekki síst í ljósi þeirra hörmunga sem hafa dunið yfir stjórnsýslu landsins síðustu árin.

Þótt ekki sé allt til fyrirmyndar í Svíþjóð má þó hrósa sænskum fyrir upplýsingalögin þar í landi.  Þau eru ítarleg og fest í stjórnarskrá.  Grundvallarregla þeirra, og hugsunin á bak við flest sem í þeim býr, er að allar upplýsingar sem opinberir aðilar búa yfir, skuli afhentar hverjum sem er, tafar- og undanbragðalaust.  Tafarlaust þýðir hér ekki að stjórnvöld geti tekið sér tíma til að hugsa málið, enda ekki þeirra að halda slíkum upplýsingum frá almenningi.  Heldur ber að afhenda samstundis upplýsingar þeim sem mætir á opinbera skrifstofu og biður um gögn, og gjarnan er miðað við einn dag ef beiðni berst í pósti.

Hugsunin á bak við sænsku upplýsingalögin er einföld:  Stjórnvöld eiga að vinna fyrir hagsmuni almennings og enga aðra, og mega því ekki láta hagsmuni þeirra sem gegna opinberum stöðum hverju sinni hafa nein áhrif á slíkar ákvarðanir.  Stjórnvöld eiga að þjóna almenningi.  Einfalt, ekki satt?

Á Íslandi er hins vegar enn við lýði viðhorf sem á frekar heima í lénsveldistímanum en nútíma lýðræðisríki:  Upplýsingalög miða ekki að því að takmarka völd opinberra aðila til að leyna upplýsingum sem þeir búa yfir. Heldur að hinu, að gera yfirvöldum kleift að skammta úr hnefa þær upplýsingar sem þeim þykir henta.  Íslenska stjórnmálastéttin lítur enn á ríkisvaldið sem tæki til að viðhalda eigin völdum og telur að  upplýsingalög eigi því að vernda hagsmuni hennar, en ekki almennings.

Hvað var aftur sagt um gagnsæi í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.4.2011 - 22:50 - Rita ummæli

Vilhjálmur bullar og fjölmiðlar lepja upp

Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra „Samtaka Atvinnulífsins“, líst illa á þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð kvótakerfisins.  Það er skiljanlegt, því hann hefur tekið að sér að vera sérstakur talsmaður þeirra sem vilja halda áfram að ausa ofurgróða í eigin vasa úr þeirri fiskveiðiauðlind sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill nú taka til sín aftur, eftir slæma reynslu síðustu ára.

Það er að nokkru skiljanlegt að Vilhjálmur beiti sér í þessu máli, þótt hann fari þar trúlega gegn hagsmunum ýmissa umbjóðenda sinna, sem líklega myndu frekar vilja ganga frá kjarasamningum til nokkurra ára en að láta LÍÚ og Vilhjálm taka þá í gíslingu til að knýja á um áframhaldandi einkayfirráð sín yfir því sem þjóðin þykist eiga.

Það er enginn lengur hissa á því hvað Vilhjálmur bullar ólánlega, þótt menn greini á um hvort þetta sé herkænskubragð (eins og þegar Georg W. Bush lék aula í ríkisstjórakosningabaráttu i Texas forðum tíð, og hafði sigur).

Það er hins vegar ráðgáta af hverju fjölmiðlar á borð við Vísi og Eyjuna birta umhugsunarlaust þvættinginn úr manninum þegar hvert mannsbarn sér að ekki stendur steinn yfir steini í „röksemdafærslu“ hans:

„Sjávarútvegsmálin og þessi löggjöf um fiskveiðar er lifandi löggjöf sem þarf alltaf að breyta öðru hverju eftir aðstæðum. Og það getur verið mjög óhöndulegt ef þarf alltaf að setja slíkar breytingar í þjóðaratkvæðagreiðslu“

Datt viðkomandi fréttamönnum virkilega ekki í hug að spyrja af hverju ætti að þurfa að „breyta öðru hverju eftir aðstæðum“ hver ætti kvótann?  Hafa þeir ekki fylgst með sínum eigin fjölmiðlum og orðið þess áskynja að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill endurheimta eignarhaldið á kvótanum til eilífðar, og að  í þjóðaratkvæðagreiðslu yrði því lýst yfir í eitt skipti fyrir öll?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur