Sunnudagur 6.3.2011 - 23:52 - 12 ummæli

Besta kaffi á Íslandi

Það var stórkostleg framför þegar farið var að brenna gott kaffi á Íslandi, og gera það vel, eins og sumar af litlu kaffibrennslunum með metnað gerðu í upphafi, í kringum 1990.  Það var sorglegt að sú kaffibrennsla sem náði undirtökunum á markaðnum (Kaffitár) og sem átti drýgstan þátt í að stórbæta kaffimenninguna hér, skyldi á endanum hætta að selja kaffi sem er nógu mikið brennt til að hægt sé að gera úr því alvöru espresso í vél.  Ennþá sorglegra var þegar Kaffitár hætti að selja (og nota á eigin kaffihúsum) nýbrennt kaffi, og lét sér nægja að selja kaffi sem var brennt nokkrum vikum áður en það var til sölu.  Það þarf engan sérfræðing til að finna muninn á slíku kaffi og því sem er brennt fáum dögum áður en það er malað og lagað.

Í dag var ég svo lánsamur að kaupa kaffi í lítilli kaffibrennslu þar sem fólk veit hversu mikið þarf að brenna kaffi til að góðar espressovélar nái út úr því öllum þeim blæbrigðum bragðs sem hægt er (og til þess að losna við moldarbragðið sem loðir við of lítið brennt kaffi í slíkum vélum).  Það leyndi sér heldur ekki munurinn á því að drekka loksins aftur nýlega brennt kaffi, miðað við gamalt.

Kaffibrennslan sem selur alvöru espressokaffi, og það nýbrennt, heitir Café Haiti.  Loksins er margra ára þrautagöngu lokið.  Í bili að minnsta kosti, og nú er bara að vona að þetta fyrirtæki lifi áfram, og komist ekki að þeirri niðurstöðu að það gæti grætt meira á að búa til lélegra kaffi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.3.2011 - 11:36 - 17 ummæli

Sorphirða, sparnaður og heimska

Borgarstjórn Reykjavíkur ákvað nýlega að krefjast sérstakrar greiðslu fyrir sorphirðu í þeim húsum þar sem meira en 15 metrar eru að sorptunnunum frá þeim stað sem sorpbílarnir komast næst.  Uppgefin ástæða er sparnaður, þ.e.a.s. útgjaldaminnkun hjá borginni.

Almennt séð er sjálfsagt að borgin innheimti gjöld fyrir þann kostnað sem hún verður fyrir vegna þjónustu við íbúana.  En það er hæpið að láta þá íbúa borga aukalega sem eiga sorptunnur fjærst gatnakerfinu og fáránleikinn verður sérlega frumlegur þegar þetta gildir um íbúa eins stigagangs í blokk en ekki næsta. Engum dettur í hug að láta þá borga hærri gatnagerðargjöld sem búa innst í botnlanga, þótt þeir noti augljóslega meira af gatnakerfinu en nágrannar þeirra.  Jafn fráleitt væri að heimta hærri gjöld fyrir vatnið af þeim sem búa fjærst dælustöðvunum.

Það sem er þó verra við þetta, sérstaklega fyrir flokk eins og Samfylkinguna, sem þykist vera félagslega sinnaður,  er sú sóun sem felst í því að eyða peningum í vinnu við að mæla fjarlægðina í sorptunnur borgarbúa, og að koma upp innheimtukerfi þar sem þessu er haldið til haga.  Þannig er dregið úr vinnunni við þá þjónustu sem borgarbúar njóta (og borga fyrir) og þeir peningar sem sparast settir í míkrókapítalískt innheimtukerfi sem er til ama fyrir íbúana, og til háborinnar skammar fyrir þá sem fara með völdin í Reykjavík.

Þetta er í besta falli ófyrirgefanleg heimska, en í versta falli andfélagslegur hugsunarháttur.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.3.2011 - 15:21 - 3 ummæli

Alþingi, Ástráður og valdahrokinn

Í hádegisfréttum útvarps í dag sagði Ástráður Haraldsson að það væri eðlilegt að hann tæki aftur sæti í Landskjörstjórn, af því að hann nyti trausts Alþingis.  Hann minntist ekki á að þetta sama Alþingi nýtur trausts um tíu prósenta þjóðarinnar, og því er traustsyfirlýsing þess engin yfirlýsing um traust þeirra sem þurfa að treysta honum, almennings í landinu.  Auk þess er það skrípaleikur að segja af sér embætti og setjast í það aftur mánuði síðar.

Hér er enn og aftur kominn sá valdahroki sem Ísland þarf svo sárlega að losna við.  Stjórnvöld í lýðræðisríki eiga að þurfa traust almennings, þau eiga að sækja vald sitt til hans, og til þess eins að þjóna hagsmunum þessa sama almennings.

Það er ekki nóg að fólk í opinberum valda- og ábyrgðarstöðum njóti trausts hvert annars.  Að tala á þeim nótum lýsir nákvæmlega þeirri afstöðu sem íslenska valdaklíkusamfélagið byggir tilveru sína á.  Sú afstaða hefur meðal annars verið kölluð samtrygging og fjórflokkur, og ekki að ástæðulausu.

Ástráður Haraldsson er  ekki stærsta vandamálið í íslensku stjórnsýslunni.  En staðhæfing hans í dag er lýsandi fyrir verstu meinsemdina í íslensku stjórnmálalífi:  Þá hugmynd að ríkisvaldið sé til fyrir valdastéttina, en ekki þjónn almennings.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.2.2011 - 17:35 - 19 ummæli

Alþingi sýnir f-merkið

Fyrir fáum vikum sagði Landskjörstjórn af sér, þar með talinn formaður hennar, Ástráður Haraldsson, af því að kosningin til Stjórnlagaþings var úrskurðuð ógild fyrir handvömm kjörstjórnarinnar.  Það er hægt að hafa ólíkar skoðanir á úrskurðinum, en það tíðkast í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við að segja af sér embætti ef maður nýtur ekki trausts þeirra sem yfir mann eru settir.  Fyrir því er góð ástæða, jafnvel þótt maður sé ósammála þeim sem ræður för, og það er sérlega mikilvægt að kjörstjórn njóti óskoraðs trausts.

Það var ekkert athugavert við að Ástráður gagnrýndi úrskurðinn opinberlega, eftir að hann sagði af sér (þótt oftast sé betra að aðrir sjái um það en sá sem þurfti að segja af sér).  Við gerum öll mistök, og þegar það gerist þurfum við að geta játað það og tekið afleiðingunum, sem hefur lítt verið í tísku hér á landi.  Þegar Ástráður sagði af sér var ekki laust við að maður þættist sjá bjarma af nýjum degi  og færi að vona að hér myndi á endanum rísa nýtt Ísland úr öskunni.
En, Ástráður ákvað að bíta höfuðið af skömminni með því að taka aftur sæti í sömu Landskjörstjórn, eins og sagt var frá hér, og nú hellist svartnættið yfir á ný.

Það verður heldur ekki til að bæta laskaða ímynd Alþingis að það skuli senda þjóðinni fokkmerki með þessum hætti.  Því nægir ekki að setja áfram flokksgæðinga í þá Landskjörstjórn sem ætti auðvitað að vera fulltrúi borgaranna en ekki þeirra stjórnmálaflokka sem nú eiga fólk á þingi.  Alþingi finnst greinilega ástæða til að ganga skrefi lengra og tryggja að í Landskjörstjórn sitji flokksgæðingar sem hafa klúðrað nákvæmlega því starfi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.2.2011 - 14:20 - 3 ummæli

Bankarnir skipa stjórn Fjármálaeftirlitsins

Fyrirsögnin á þessum pistli er röng, en til þess gerð að draga athyglina að staðreynd sem er álíka fáránleg.  Eins og sjá má hér er það venjan að flokkarnir á Alþingi velji fulltrúa sína í Landskjörstjórn.  Mér dettur ekki í hug að halda að þetta hafi valdið því að svindlað hafi verið í kosningum.  Það er hins vegar lýsandi dæmi fyrir hugsunarhátt sem gegnsýrir íslenska stjórnsýslu, og er ekki í lagi:  Að ríkisvaldið sé til fyrir stjórnmálaflokkana, en ekki fyrir almenning.

Þessi hugsunarháttur er eitt af því sem ný stjórnarskrá þyrfti að snúa við, meðal annars með  upplýsingaákvæðum í stíl við sænsku stjórnarskrána.  Þar er grundvallarreglan að allar upplýsingar í fórum opinberra aðila eiga að vera aðgengilegar almenningi, tafar- og undanbragðalaust.  Hugsunin á bak við íslensku upplýsingalögin, meira að segja þau nýju sem eiga að vera í burðarliðnum, er hins vegar að stjórnvöld skammti borgurunum upplýsingar úr hnefa.  Sú hugsun byggir á þeirri afstöðu að stjórnsýslan eigi að vera tæki valdhafa til að treysta völd sín, ekki þjónn almennings.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.2.2011 - 14:17 - 3 ummæli

Saksóknari deilir við dómarann

Lára V. Júlíusdóttir,  saksóknari í Nímenningmálinu, hefur tjáð sig í fjölmiðlum.  Erlendis.  Sjá hér.

Það er margt athyglisvert sem hún segir, ekki síst vegna þess að hún staðhæfir hluti sem dómurinn tók af öll tvímæli um, og þvert á það sem hún heldur fram.  Meðal annars komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að sakborningar hefðu ekki valdið neinum meiðslum á þingvörðum, öfugt við það sem forseti Alþingis hafði haldið fram opinberlega, og einnig að meint brot þeirra gætu alls ekki átt við 100. grein hegningarlaga, því „með engu móti [yrði] talið að fyrir þeim hafi vakað að reyna að kúga Alþingi eða að athafnir þeirra geti talist vera sú árás á þingið að sjálfræði þess hafi verið hætta búin.“

En,  Lára þrjóskast við:

„What they [Rvk9] did was exactly what is described in article 100 of the penal code. They attacked the staff of parliament, forced their way into the parliament building and beat up the staff, some of whom got hurt.“

Það er margt fleira athugavert við það sem Lára segir, þ.á.m. rangfærslur um vanhæfi hennar, en ég læt hér við sitja.  Ég vona hins vegar að Lára komi aldrei aftur nálægt ákæru- eða dómsvaldi þessa lands, og að þeir sem öttu henni á foraðið, eða hvöttu hana a.m.k. með svívirðilegum og röngum yfirlýsingum um saklaust fólk, hafi lært þá lexíu að þeir reyni ekki aftur að beita dómsvaldinu til að berja niður tjáningarfrelsi borgaranna.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur