Þriðjudagur 22.2.2011 - 13:05 - 29 ummæli

Karl Th. og Bingi vinur hans

Karl Th. Birgisson skrifaði bloggpistil á Eyjunni skömmu eftir að hann tók við sem ritstjóri.  Pistillinn er í spaugsömum og vingjarnlegum tón, og svo sem gott að vita að Karl geti brugðið fyrir sig þeim betri fæti.    Hann talar kumpánlega um fótboltafréttamanninn Binga, svo kumpánlega að ætla má að þeir séu bestu vinir.  Sem er líka í fínu lagi í sjálfu sér, og það jafnvel þótt maður trúi því að vinir manns segi til um hvers konar manneskja hann sé sjálfur.

Hitt er verra, að það hafa ekki fengist nein svör við þeim spurningum sem margir hafa spurt sig, sumir upphátt, hver verði ristjórnarstefna fótboltafréttamannsins Binga, vinar Karls, en Bingi þessi er titlaður útgefandi Eyjunnar, þótt Karli virðist hugnast betur fótboltafréttamannstitillinn, enda mun krúttlegri.

Í gær fékkst e.t.v. svar við þessari spurningu að hluta, þegar slúðurmeistarinn Eiríkur Jónsson, og Facebookvinateljarinn Jakob Bjarnar Grétarsson voru kynntir sem „Öflugur liðsauki Eyjunnar“.  Gott væri að fá á hreint  hvort þessi liðsauki lýsi því liði sem ætlunin er að byggja upp, fremur en „gamla liðið“ á Eyjunni.  Alveg sérstaklega er ástæða til að hafa í huga að á þeim stalli sem Eiríkur og Jakob standa nú var áður blogg Láru Hönnu Einarsdóttur, sem óhætt er að segja að hafi verið með öðrum blæ en hjá nýliðunum tveim.  Að ekki sé nú minnst á innihaldið.

Vegna slæmrar reynslu landsmanna af eignarhaldi og stjórn braskara af ýmsu tagi á fjölmiðlum, og af því að Björn þessi Ingi (sem Karli Th. finnst óþarfi að verið sé að röfla mikið um) hefur verið bendlaður við fjármálagjörninga sem hafa á sér oggulítið vafasamt yfirbragð, þá væri líka við hæfi að maðurinn sá gerði hreint fyrir sínum dyrum, svo lesendur Eyjunnar viti hverra hagsmuna hann hefur að gæta í þeirri umræðu sem vonandi visnar ekki strax, þ.e.a.s. um hvernig eigi að taka á þeim sem léku umtalsverð hlutverk í því geðveika sukki sem setti landið á hausinn og fjölda saklauss fólks á vonarvöl.

Sé Bingi vinur Karls Th. að mestu saklaus af því að vera hrunvaldur eða samsekur þeim væri gott að vita það, og fá nægar upplýsingar til að lesendur geti metið það sjálfir.  Sama gildir auðvitað um Róbert Wessman, sem er líka orðinn einn eigenda Eyjunnar, að maðurinn sá hefur, meðal annars af Eyjunni, verið bendlaður við ýmislegt vafasamt í tengslum við hið svokallaða hrun.  Ekki væri úr vegi að Eyjan segði frá stöðu  hans mála, þar sem hún er nú orðin háð vilja hans sem eiganda.

Sem sagt, sleppum röflinu í bili, Karl, en tölum í staðinn tæpitungulaust um fortíð þeirra manna sem þú hefur nú ráðið þig til að þjóna.  Það mætti t.d. gera með ítarlegri úttekt á starfsemi Björns Inga Hrafnssonar og Róberts Wessman síðustu 5-6 árin.  Slíkt myndi taka af allan vafa um að þú vildir láta líta á þig sem sjálfstæðan ritstjóra með bein í nefinu og fréttamannsheiðurinn í fyrirrúmi.  Á því er ekki vanþörf í þessu hrunda landi.  Að því loknu væri gaman að lesa fleiri pistla frá þér í spaugsama tóninum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.2.2011 - 11:36 - 3 ummæli

Lára V. Júlíusdóttir þagði um vanhæfi sitt

Í réttarhöldunum yfir Nímenningunum fór verjandi (nokkurra) sakborninga fram á að settur saksóknari, Lára V. Júlíusdóttir, yrði úrskurðaður vanhæfur, vegna tengsla við meintan brotaþola, þ.e.a.s. Alþingi.  Lára sat nefnilega á þingi sem varamaður nokkrum sinnum á árunum 1987-90, og hún er nú formaður bankaráðs Seðlabankans, kjörin af Alþingi.  Rétturinn synjaði þessu, og það er erfitt að deila við dómara um slíkt, því meint vanhæfi af þessu tagi er matsatriði.

Í jafn alvarlegu máli og saksóknarinn taldi þetta vera (a.m.k. miðað við þá alvarlegu ákæru sem hún lagði fram um tilraun til að svipta Alþingi „sjálfræði“ sínu) er samt óþægilegt, svo ekki sé meira sagt, að vafi af þessu tagi geti leikið á hæfi saksóknarans, og það bætir ekki úr skák að Lára er pólitískur samherji forseta Alþingis.

Hitt er verra, að Lára var í raun vanhæf sem saksóknari í málinu, vegna fjölskyldutengsla við einn sakborninga, eins og fram kemur í tölvupóstum sem birtir eru hér að neðan.  Þessi tengsl (faðir Láru var giftur ömmu eins sakborninga) valda því, samkvæmt þremur lögfræðingum sem ég hef talað við, að Lára var vanhæf, samkvæmt d-lið 6. greinar laga nr. 88 frá 2008 (en sömu reglur gilda um vanhæfi saksóknara og dómara).

Lára segist, í tölvupósti, ekki hafa vitað um þessi tengsl fyrr en henni var bent á þau.  Hún vissi samt um þau áður en aðalmeðferð hófst í málinu, og því bar henni skylda til að segja sig frá því, og dómara hefði borið að víkja henni ef hann hefði orðið þess áskynja, en Lára virðist ekki hafa sagt frá þessu.

Hafi mér ekki yfirsést eitthvað mikilvægt í þessu er hér um að ræða ótrúlega vanvirðingu saksóknara við það réttarríki sem hún á að þjóna.  Það bætist við fleira í sama dúr, sem lýsir lítilsvirðingu hennar og Alþingis á réttarríkinu, þar sem meðal annars hefur verið farið með rangt mál, kærur pantaðar, og saklaust fólk ákært fyrir fádæma alvarleg brot, sem við liggja afar þungar refsingar.  Þetta gerir fólkið (forseti Alþingis og skrifstofustjóri) sem heldur því fram að það hafi eingöngu verið að sinna skyldum sínum í þágu þessa sama réttarríkis.

Ástæða þess að sakborningar kröfðust ekki að Lára viki þegar þeir áttuðu sig á þessu vanhæfi hennar var að þeim hraus hugur við að málið færi aftur á byrjunarreit, enda höfðu þeir þá verið dregnir í gegnum dómskerfið í heilt ár, og meira en tvö ár liðin frá atburðinum.  Það breytir engu um að Láru bar, lögum samkvæmt, skylda til að segja frá vanhæfi sínu og víkja.

——————————————————————

Hér fara á eftir tölvupóstar sem staðfesta þessa vitneskju Láru, tæpum tveim vikum áður en aðalmeðferð hófst í málinu.  Ég hef í einum pósti tekið út nöfn og sett bókstafi í staðinn.  Það er auðvitað ekki leyndarmál um hvaða fólk er að ræða, og tiltölulega auðvelt fyrir hvern sem er að finna út úr því, út frá þessum upplýsingum.  En, þar sem ég tel persónur þessa fólks vera málinu óviðkomandi finnst mér rétt að sleppa nöfnum þeirra.

——————————————————————

From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/1/6
Subject: Re: Samskipti setts saksóknara við Alþingi
To: „Lára V. Júlíusdóttir“ <lara@ll3.is>

Sæl aftur Lára,

Takk fyrir svarið.  Önnur spurning:  Er það rétt að amma eins sakborninga í nímenningamálinu hafi verið gift föður þínum?

Með kveðjur,

Einar
——————————————————————

From: Lára V. Júlíusdóttir <lara@ll3.is>
Date: 2011/1/6
Subject: RE: Samskipti setts saksóknara við Alþingi
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>

Sæll Einar

Mér er ekki kunnugt um það.

Kv.

Lára V.
——————————————————————
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/1/6
Subject: Re: Samskipti setts saksóknara við Alþingi
To: „Lára V. Júlíusdóttir“ <lara@ll3.is>

Sæl enn,

Er eftirfarandi þá rangt?:

Sakborningurinn heitir A.  B, faðir hans, er sonur C af fyrra hjónabandi. Síðari eiginmaður C var D faðir Láru Valgerðar.

Kveðja,
Einar
——————————————————————
From: Lára V. Júlíusdóttir <lara@ll3.is>
Date: 2011/1/6
Subject: RE: Samskipti setts saksóknara við Alþingi
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>

Sæll Einar

Þetta er allt rétt

Mér var þetta ekki ljóst, enda ekki í neinum samskiptum við þetta fólk.  Faðir minn lést 1998 og hef ég haft mjög takmörkuð samskipti við konu hans eftir þann tíma, hvað þá börn hennar af fyrra hjónabandi eða afkomendur þeirra.

Lára V.
——————————————————————

From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/1/6
Subject: Re: Samskipti setts saksóknara við Alþingi
To: „Lára V. Júlíusdóttir“ <lara@ll3.is>

Takk fyrir svarið.
Einar
——————————————————————

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.2.2011 - 14:39 - Rita ummæli

Frábært veitingahús

Fyrir mörgum árum langaði mig dálítið til að skrifa blaðadálk um veitingahús. Annars vegar var það vegna þess að ég bjó þá í Gautaborg og í borgarblaðinu þar var vikulegur dálkur, skrifaður af fólki sem hafði frekar lítið vit á því sem það var að skrifa um, þ.e.a.s. á mat og víni. Sem mér finnst svo sem í lagi (enda þykist ég ekkert vit hafa á slíku sjálfur), en alls ekki þegar skríbentarnir tala eins og þeir séu eitthvert yfirvald, samtímis því sem þeir afhjúpa fákunnáttu sína.

Hin ástæðan var að ég lenti í því nokkrum sinnum á fárra ára tímabili í upphafi siðasta áratugar að fara á (ný) veitingahús í Reykjavík sem byrjuðu mjög glæsilega, og voru virði þeirra miklu peninga sem þurfti að borga, en þar sem seig fljótt á ógæfu- og slappleikahliðina, þótt himinhátt verðið hörfaði ekkert. Tvö dæmi um frábær veitingahús sem síðan slöppuðust umtalsvert án þess að verða ódýrari voru La Primavera og Vox. (Rétt er að geta þess að ég hef á hvorugt komið í nokkur ár, svo þetta segir auðvitað ekkert um hvernig þau eru núna.)

Ég finn reyndar ekki lengur neina knýjandi þörf til að skrifa um veitingahús, en get ekki stillt mig um að segja frá ánægjulegustu uppgötvun sem ég hef gert á því sviði í mörg ár, þ.e.a.s. tiltölulega ódýru veitingahúsi með stórkostlegum mat og góðri þjónustu (en vínlista sem þyrfti að vera metnaðarfyllri). Þetta er Pisa, í Lækjargötu. Þar borðaði ég í gærkvöldi, í annað sinn á hálfu ári eða svo.

Mér datt ekki í hug fyrr en langt var liðið á máltíðina að blogga um þetta, svo ég skrifaði engar athugasemdir meðan ég var á staðnum, og óvíst að ég hefði nennt því hvort sem er, enda hef ég engin plön um að blogga reglulega um veitingahús. Því á ég erfitt með að lýsa því margslungna bragði sem gerði máltíðina svo eftirminnilega, og sem er svo nauðsynlegt til að mér geti fundist eitthvað varið í að fara á veitingahús, hvað þá að ég sé til í að borga mikla peninga fyrir það. Ég verð alltaf svekktur þegar ég fer á dýrt veitingahús þar sem ég fæ mat sem mér finnst að ég hefði getað gert jafn góðan sjálfur.

Pisa stóðst hins vegar með láði prófið að búa til betri mat en ég gæti gert (sem er ekki sérlega erfitt; ég er enginn meistarakokkur). Steinbíturinn, fiskur dagsins, var betri en orð fá lýst, sem mér finnst sérstaklega sláandi í ljósi þess að ég hef enn ekki fengið verulega gómsætan steinbít í heimahúsi (þótt ég þekki fólk sem þykist geta gert slíkt, og bíð spenntur eftir að sjá það sannað). Steinbíturinn var mjúkur í gegn, en stinnur, og samt vel steiktur að utan. Hann var borinn fram með skelfiskrisotto (með humri og rækjum í) og þetta risotto var ekki bara gott, öfugt við öll risotto sem ég hef borðað um ævina (nú móðgaði ég nokkra vini mína, þar með talið vinkonu sem fór einu sinni með mig á einhvern frægan risottostað í New York). Það var ekki bara gott heldur snilldarlegt, og bjó, ásamt einhverjum örfínum röndum af sósu (balsamediksþykkni?) til þetta samspil ólíkra bragða sem undirstrika hvert annað. (Já, ég veit að bragð er ekki til í fleirtölu, en …) Fyrir utan þessa snilld var matnum raðað þannig á diskinn að það var hrein unun á að horfa, og ég verð að játa að það hefur jákvæð áhrif á mig (þótt ég sé enn verri á því sviði sjálfur en í matargerð).

Svo má ekki gleyma forréttinum, nauta-carpaccio sem var líka með því besta sem ég hef fengið af því tagi, jafnvel á dýrustu veitingahúsum bæjarins. Örþunnt og mjög bragðmikið nautakjöt með þessu venjulega: Parmesan, klettasalati, furuhnetum, ólífuolíu.

Sessunautur minn fékk Klaustursbleikju með rótargrænmeti og kartöflumauki í aðalrétt. Ég fékk að smakka og komst að því að fordómar mínir voru ekki á rökum reistir: bleikjan var ljúffengasti silungur sem ég man eftir, þótt ég geti ekki lýst bragðinu. (Hér móðgaði ég líka gamla og góða vini sem gefa mér silung (oftast mjög góðan og framreiddan á ýmsan máta) í öll mál.) Kartöflumaukið var hins vegar óþarflega „fínmalað“, en það er e.t.v. bara smekksatriði.

Þjónustan var líka af þessu tagi sem er of sjaldgæf á Íslandi: Við tókum aldrei eftir þjónunum nema þegar við þurftum á þeim að halda, og þá voru þeir strax til staðar. Eftir á að hyggja átta ég mig líka á því að matinn fengum við nákvæmlega á réttum tíma, og án þess að velta nokkurn tíma fyrir okkur hvort hann væri að koma.

Ef ég á að kvarta yfir einhverju þá er það tvennt. Annars vegar að það var óþarflega mikið salt bæði í forréttinum og aðalréttinum. Það fannst að vísu ekki sessunaut mínum, svo þetta var e.t.v. óþarfa viðkvæmni mín, en það er hins vegar auðveldara að auka við saltið en minnka það, svo ég myndi heldur draga úr því. Hins vegar fannst mér vínlistinn of fátæklegur. Þótt dýrasta rauðvínið á listanum (Villa Puccini Riserva, sem var mjög ódýrt miðað við það sem gengur og gerist) hafi verið skammlaust (og því greinilega vel valið) hefði ég viljað meira úrval. Vilji maður halda sig við ítölsk vín eins og gert er á Pisa, en hafa vínin samt í ódýrari kantinum, má benda á nýlegt Amarone í Ríkinu, frá Sartori. Það er vissulega ekki mjög stórt (eins og fræðingar myndu líklega kalla það), en samt alvöru Amarone, á ótrúlega góðu verði.

Í stuttu máli: Pisa er tiltölulega ódýr veitingastaður, með frábæran mat og natni í allri þjónustu. Vonandi verður þó vínlistinn fjölskrúðugri þegar fram í sækir.

PS. Verði mér að þeirri ósk minni að Pisa bæti við betri (og dýrari) vínum á vínlistann sinn, þá er hér áskorun (til allra veitingahúsa): Álagning veitingahúsa á vín er hrikaleg (yfirleitt þreföldun á verði a.m.k.). Sé nauðsynlegt að leggja 4.000 krónur á flösku af 2.000 kr. víni ætti samt ekki að þurfa að leggja 10.000 á flösku sem kostar 5.000 í ríkinu. Veitingahús gætu gert viðskiptavinum sínum auðveldara að panta gott vín með því að hafa sömu krónutölu í álagningu á allt vín. Það ætti að þjóna hagsmunum þeirra, því mjög fáir panta dýr vín, en mun fleiri myndu gera það (og verða ánægðari með heimsóknina) ef þau væru ekki fáránlega dýr, sem þau verða ef álagningin er margfeldi af innkaupsverðinu.

PPS. Svo það sé á hreinu er rétt að geta þess að ég hef engin tengsl við þá sem eiga eða reka þennan stað (held ég a.m.k. ekki, því ég veit ekkert hverjir það eru).

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.2.2011 - 14:56 - 8 ummæli

Hvað verður um þingforseta sem lýgur?

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, neitaði staðfastlega að tjá sig um mál Nímenninganna á meðan það væri fyrir dómstólum.  Þann 17. maí 2010, löngu eftir að ákæra var gefin út, hafði Ásta hins vegar sent Jóni Ólafssyni, prófessor á Bifröst, tölvupóst, í tilefni af ummælum hans í útvarpi um málið. Þar sagði hún meðal annars (allan póstinn má sjá hér):

Umfjöllun um málaferli gegn svokölluðum 9 menningum er á algjörum villigötum.
Staðreyndir eru þessar:

8. desember 2008 ræðst hópur fólks inn í Alþingishúsið bakdyrameginn, beitir þingverði ofbeldi til að komast upp á þingpalla, – yfirbugar þá og slasar starfsfólk þingsins.
Atburðir þessir koma greinilega fram á upptöku í öryggismyndavél.

Þótt starfsmenn Alþingis hafi (eins og fram kom í réttarhöldunum) valið úr öryggismyndavélunum þá kafla sem þeim fundust „áhugaverðastir“ fyrir sig, þá var þó alveg ljóst af þeim upptökum að þessi hópur fólks sem „ræðst“ inn í þinghúsið slasaði alls engan, enda var niðurstaða réttarins í samræmi við það.

Almenningur vissi að vísu lítið um hvað væri hæft í ásökunum um að Nímenningarnir hefðu slasað fólk fyrr en umrædd upptaka var sýnd í sjónvarpi.  En Ásta hafði auðvitað aðgang að upptökunni, enda vísar hún í hana þegar hún setur fram þessar röngu ásakanir í póstinum til Jóns.

Þar sem augljóst er af þessari upptöku að Ásta fer með rangt mál, eins og dómurinn staðfesti, og þar sem hún byggir staðhæfingar sínar einmitt á vísun í upptökuna, er erfitt að túlka þetta öðru vísi en svo að hún hafi vísvitandi sagt ósatt.  Það er að segja, að forseti Alþingis hafi logið blákalt.

Mörður Árnason fór fram á það á Alþingi í gær að Ásta forseti bæði Nímenningana strax afsökunar á því sem gerðist, en hún svaraði honum ekki, og fréttastofa RÚV náði ekki í hana.  Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður nokkurra af Nímenningunum, hefur lagt til að fram fari óháð rannsókn á aðkomu þingsins að málinu.  Hvort tveggja ætti að vera sjálfsagt mál.

Fyrirgefningarbeiðni Ástu myndi vafalaust létta henni þessa þungu byrði nokkuð, og flestir myndu trúlega líta hana mildari augum ef hún iðraðist og hefði í sér manndóm til að sýna það.

En það er samt hæpið að Alþingi geti haldið nokkurri virðingu ef það lætur sitja áfram forseta sem orðið hefur uppvís að því að ljúga um jafnalvarlegt mál, að ljúga þungum sökum upp á saklaust fólk.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.2.2011 - 11:05 - 10 ummæli

Svartur dagur í sögu lýðveldisins

Í dag féll dómur í Nímenningamálinu.  Þrátt fyrir að ákæruvaldið hafi farið fram með einhverja svívirðilegustu ákæru sem um getur í sögu lýðveldisins vonuðu margir, og töldu augljóst, að sakborningar yrðu sýknaðir af öllum ákærum.  Þrátt fyrir að Pétur Guðgeirsson dómari hafi sýnt verjendum sakborninga skammarlega lítilsvirðingu í þinghaldinu, og ekki heldur lýst saksóknarann vanhæfan þrátt fyrir mikil tengsl við brotaþolann, þá neituðu margir að trúa því að hann gengi erinda þeirra fasísku tilhneiginga sem ríkisvaldið hefur sýnt í þessu máli.  Annað kom á daginn.

Þrátt fyrir að dómendur hafi lýst flestallar ákærurnar fráleitar gátu þeir ekki stillt sig um að dæma nokkra sakborninga fyrir „brot gegn valdstjórninni“.  Ljóst er að þar er um slík matsatriði að ræða að dómurum hefði verið í lófa lagið að sýkna einnig fyrir þau meintu „brot“.  Það hefðu þeir átt að gera, í ljósi þess að hér var um að ræða mótmæli sem eru vernduð af tjáningarfrelsinu, og óskynsamlegt að ætlast til að slík mótmæli séu ávallt sótthreinsuð af öllum átökum þegar valdstjórnin ákveður að beita valdi.

Þetta mál mun ekki gleymast næstu áratugina, og það mun verða fjölda fólks  til skammar svo lengi sem það lifir, að minnsta kosti svo lengi sem það stígur ekki fram og biðst opinberlega fyrirgefningar á svívirðilegri framkomu sinni eða afskiptaleysi.

Gleymum því ekki að mótmælin sem sakborningar tóku þátt í fóru friðsamlega fram af hálfu mótmælendanna.

Gleymum því ekki að mótmælendur neyttu stjórnarskrárvarins réttar síns, sem nú hefur verið svívirtur af stjórnvöldum.

Gleymum því ekki að mótmælin sem dæmt var fyrir voru lítill hluti af gríðarlegum mótmælum sem stóðu mánuðum saman, og sem áttu rætur sínar að rekja til algers hruns íslenska efnahagskerfisins, og skipbrots íslenskra stjórnmála.  Skipbrots þeirra stjórnvalda sem nú fara fram með ofsóknum á hendur þeim sem mótmæltu vanhæfi og spillingu þessara sömu stjórnvalda.

Gleymum því ekki að engir þeirra sem ollu hruninu hafa verið saksóttir.

Gleymum því ekki að starfsmenn Alþingis völdu úr mikilvægustu sönnunargögnunum, myndupptökum úr þinghúsinu, það sem þeim fannst „áhugaverðast“ fyrir sig, en eyddu hinu.

Gleymum því ekki að forseti Alþingis ásakaði nímenningana um að hafa slasað starfsfólk Alþingis, og neitaði að draga þá staðhæfingu tilbaka þrátt fyrir að í ljós kæmi á upptökum úr þinghúsinu að þetta var rangt.

Gleymum því ekki að saksóknarinn, Lára V. Júlíusdóttir, pantaði ákæru fyrir húsbrot frá skrifstofustjóra Alþingis, Helga Bernódussyni.

Gleymum því ekki að bæði Lára og Helgi lugu því að þau hefðu ekkert samráð haft um ákæruna.

Gleymum því ekki að þrátt fyrir að nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, og fjölmargir stuðningsmenn hennar, hafi gagnrýnt þingforseta harðlega fyrir framgöngu sína, þá situr Ásta Ragnheiður á stóli þingforseta í skjóli  Samfylkingarinnar.

Gleymum því ekki að Lára V. Júlíusdóttir er innanbúðarmanneskja í Samfylkingunni, og hjá „brotaþolanum“ Alþingi.

Gleymum því ekki að Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra neitaði að stöðva þessa ógeðfelldu saksókn.

Íslenskur almenningur hefur áður gengið í gegnum svívirðilegar ofsóknir af þessu tagi, eftir mótmælin við inngönguna í NATO 1949.  Þau sár sem valdastéttin veitti þá greru seint, og ennþá sjást örin eftir þau.  Þá voru það hatursfullir og óttaslegnir hægrimenn sem beittu þunga valdsins til að kúga þá sem dirfðust að mótmæla.  Nú fer kúgunin og svívirðan fram í nafni Samfylkingarinnar, með þegjandi samþykki forystu Vinstri Grænna.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.2.2011 - 21:48 - 4 ummæli

Björn Ingi svarar ekki

Í gær sagði ég frá áskorun minni til Björns Inga Hrafnssonar, um að hann skýrði frá þeirri ritstjórnarstefnu sem Eyjan muni fylgja, nú þegar hann er orðinn „útgefandi“ Eyjunnar, og að hann gerði hreint fyrir sínum dyrum varðandi þá fjármálagjörninga hans síðustu árin sem hafa verið fréttaefni..  Mér hafði ekki borist neitt svar í morgun, svo ég skrifaði aftur, og spurði hvort ég mætti búast við viðbrögðum við þessari áskorun minni.  Þá fékk ég svar um hæl.  Fyrir utan kurteislegar kveðjur var svarið stutt og laggott:  „Nei.“

Þegar hafa nokkrir bloggarar yfirgefið Eyjuna vegna húsbóndaskiptanna.   Hætt er við að þeir verði fleiri ef eigendur Eyjunnar halda áfram að þegja um fyrirætlanir sínar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Einar Steingrímsson
Nánar um höfund ...
RSS straumur: RSS straumur