Sunnudagur 16.1.2011 - 20:34 - FB ummæli ()

Mótmæli eða nöldur á morgun…

Á morgun, þ.e. mánudaginn 17 janúar, er boðað til mótmæla fyrir framan Alþingishúsið og hefjast þau kl 16:30 en einhverjir munu mæta strax kl 15:00.

Tímasetningin er vegna þess að Alþingi Íslendinga kemur aftur saman eftir jólafrí.

Okkur finnst við eiga ýmislegt óuppgert við stjórnvöld og Alþingi er táknmynd þeirra þrátt fyrir að hinir raunverulegu valdhafar sitji innan múra fjármálavaldsins. Við erum mjög ósátt við öll sviknu kosningaloforðin, við ætluðumst til að sá samningur sem við gerðum við stjórnmálaflokkana í síðustu kosningum stæði. Við framseldum ekki valdið til þeirra til þess að þeir myndu hygla fáum en skilja okkur eftir í skítnum. Þess vegna ætlum við að mæta á morgun og rifja upp kosningaloforðin.

Daglega er almenningi drekt í lygi valdhafanna. Fréttaflutningurinn er afvegaleiðandi og hlutirnir ekki nefndir réttum nöfnum. Afleiðingar bankahrunsins eru atvinnumissir, tekjumissir og eignamissir. Alveg sama hversu mikið er kallað eftir leiðréttingu á þessari gríðalega miklu eignatilfærslu sem á sér stað gerist ekkert. Bankar eru hiklaust endurreistir á kostnað almennings eins og sú starfsemi sé upphaf og endir alls í tilverunni. Fjölmiðlaumræðan gerir ekkert til að véfengja þessa forgangsröðun, þess í stað dynur á okkur stöðug lygi um mikilvægi þess að bjarga fjármálastofnunum samtímis og það er óvinnandi vegur fyrir sömu stjórnvöld að ákvarða lágmarksframfærslu venjulegs Íslendings.

Hvers vegna ætti venjulegur Íslendingar að samsama sig með valdastétt sem ætlar sér ekki að breyta neinu, valdastétt sem tilheyrir mun frekar sérhagsmunaklíkum landsins en almenningi.

Kvótinn, Magma, gjaldþrota heimili og fyrirtæki, niðurskurðurinn í heilbrigðismálum, hjá öryrkjum, hjá öldruðum, spilling við endurúthlutun fyrirtækja, reykfylltu bakherbergin sem vinstri stjórnin ætlaði að opna fyrir almenningi, skattahækkanir og einkavæðing Íbúðarlánasjóðs Íslands í boði AGS og vegatollar. Öll þessi þjáning til að endurreisa spillt fjármálakerfi sem mun halda áfram að stjórna þeim sem við kusum til að stjórna fyrir okkur.

Mjög margir virðast vera ósáttir og nöldra en…

á morgun ræðst það hvort það er raunverulegur vilji hjá almenningi til að krefjast umbóta eða ekki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 15.1.2011 - 20:09 - FB ummæli ()

Gjaldeyrishöftin-stund sannleikans

Við lestur viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og skýrslu AGS kemur fram greinileg ánægja með árangur AGS á Íslandi. Vonandi verðum við ekki munsturríki AGS í norðri eins og Argentína var í suðri.

Þegar kemur að gjaldeyrishöftunum þá eru nokkur atriði ljós. Það á að afnema gjaldeyrishöftin. AGS vill örugglega vera á staðnum þannig að það gangi eftir og því getum við ályktað að því verki verði lokið áður en að sjóðurinn fer, þ.e. í ágúst næstkomandi.

Í skýrslu AGS kemur greinileg fram áhyggjur þeirra vegna afnáms gjaldeyrishaftanna. Þess vegna á að semja verklag hvernig staðið verður að verki. Sú áætlun á að vera tilbúin í febrúar.

Auk þess vill AGS að Íslendingar séu búnir að safna nægjanlegum varaforða gjaldeyris áður en gjaldeyrishöftunum verður aflétt. „The lifting of capital controls will also require higher reserves“.

Hvernig mun þetta þróast? Talið er að fjármunir munu streyma úr landinu og gjaldeyrisvaraforðinn nýttur til að viðhalda genginu. Þrátt fyrir það gætum við endað með gott gengisfall og 600 milljarða skuld.

Þar með verður að skera enn meira niður og hækka skatta til að greiða skuldina sem mun taka langan tíma. Auk þess mun gengisfallið valda verðhækkunum á öllu sem við þurfum og verðbólguhækkun sem síðan eykur skuldir heimilanna. Sjálfsagt er ég allt of svartsýnn en ég tel að við verðum að fylgjast mjög vel með þessu því ef þróunin verður okkur óhagstæð er um að ræða hrun næsta haust á Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 14.1.2011 - 22:27 - FB ummæli ()

Letter of intent, ástarbréf leppstjórnarinnar

Viljayfirlýsing íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var gerð opinber í dag á heimasíðu sjóðsins og efnahagsráðuneytisins. Viljayfirlýsingin er dagsett 22. desember s.l. og hefur verið haldið leyndri fyrir almenningi allan þennan tíma. Ekki veit ég til þess að hún hafi verið rædd á Alþingi. Auk þess er hún ekki þýdd á íslensku heldur er eingöngu á erfiðri stofnana ensku. Það virðist sem öllum sé sama, alveg skítsama, og þó sérstaklega valdhöfunum sem buðu sig fram til að opna gallsúra íslenska stjórnsýslu.

Í þessari viljayfirlýsingu sem og þeim fyrri lofa þeir sem skrifa undir hana, Jóhanna, Steingrímur, Árni Páll og Már, að fylgja fyrirmælum sjóðsins í einu og öllu og bera allar þær hugmyndir sem þau kunna að fá undir sjóðinn áður en þær eru raungerðar. Þau hreykjast yfir því hversu dugleg þau hafa verið að uppfylla kröfur sjóðsins úr síðustu viljayfirlýsingu og biðjast forláts á þeim kröfum sem þeim hefur ekki enn unnist ráðrúm til að uppfylla.

Það er ekki vafi hver ræður för á Íslandi í dag.

Endurfjármögnun föllnu bankanna er gerð að kröfu AGS og í þessari viljayfirlýsingu er því lofað að sparisjóður Keflavíkur verði endurfjármagnaður fyrir lok febrúar. Íbúum landsins hefur líka verið tjáð að 14 milljarðar munu fara í sparisjóðinn en að öðru leyti er ríkiskassinn tómur eins og Ögmundur sagði þegar rætt var um vegatolla. Góðir vegir auka öryggi vegfarenda en AGS hefur meiri áhuga á heilsu bankakerfisins eins og kemur skýrt fram í viljayfirlýsingunni; „Finally, fully restoring the health of the banking system remains a key objective“.

Það virðist sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórn Íslands séu sammála um að alltaf sé til nægjanlega mikið fé til að endurreisa fallna banka og sparisjóði en alls ekki fyrir fátæka, sjúka og aðra sem þurfa aðstoð samfélagsins.

Til hvers þarf þjóðin alla þessa banka og auk þess minnist ég ekki þess að vinstri pólitík, svona almennt séð, hafi hingað til snúist um að forgangsraða bönkum fram yfir almannahagsmuni. Það er AGS hins vegar þekktur fyrir og því er núverandi ríkisstjórn á Íslandi ríkisstjórn AGS þar sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar skrifa undir viljayfirlýsingu, þar sem ekki örlar á svokallaðri vinstri pólitík.

Þess vegna eru skilgreiningar hjá viðkomadi valdhöfum á sjálfum sér á borð við „vinstri“ rangnefni, nánast ósannsögli. Leppstjórn AGS væri mun nærri lagi. Þess vegna skulum við hafa það hugfast mánudaginn 17. janúar þegar við komum saman til að mótmæla fyrir framan Alþingishúsið að við erum að mótmæla leppum, ekki sjórnvöldum okkar, því við kusum aldrei AGS til að stjórna okkur.

Viljayfirlýsingin: http://www.imf.org/external/pubs/cat/longres.aspx?sk=24571.0

Flokkar: AGS · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 8.1.2011 - 22:08 - FB ummæli ()

Þjóðaratkvæði um ESB er í raun bull

Alþingi Íslendinga ákvað að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það var gert þrátt fyrir að aðeins einn flokkur af fimm hefði það á stefnuskrá sinni. Því má segja að aðeins 30% þjóðarinnar hafi kosið umsókn að ESB. Ef það á að draga umsóknina til baka þá á Alþingi að gera það því þjóðin hefur þegar kosið um það. Þjóðaratkvæðagreiðsla er eingöngu nauðsynleg til að koma vitinu fyrir Alþingi þjóðarinnar-neyðarráðstöfun.

ESB er hagsmunasamtök stórfyrirtækja og fjármalaaflanna. Fiskiskipafloti stórfyrirtækja ESB veiðir út um allan heim, stundar rányrkju og brottkast og ógnar þar með framtíð fiskistofna. Að fyrirtæki vilji græða er nánast eðlilegt en það sem er óeðlilegt er að allt regluverk ESB hefur ekki getað haft áhrif á þessa hegðun. Í raun er regluverkið hannað með götum þannig að það sé ekki að þvælast fyrir stórkapitalinu. Afgangurinn af regluverkinu er hafður þarna fyrir sócílademókratíska blýantsnagara.

Sömu sögu má segja um viðskipti á milli ESB og annarra landa. Hegðun ESB miðast að því að gömlu nýlendurnar flytji hráefni til ESB sem síðan eru fullunnin í ESB. Hegðun ESB er að ná völdum yfir hráefnum í viðkomandi löndum. Tilslakanir á flutningi á vörum, fyrir fátæk ríki, inn á ESB svæðið tengjast kröfum ESB. Kröfur ESB snúast um að auðlindir viðkomandi landa fari á frjálsan markað í stað þess að vera undir ríkisforsjá, það sem er dulbúið undir nafninu „frjáls viðskipti á vörum“. Lokaniðurstaðan er sú að viðkomandi land verður hrávöruútflytjandi. Það er mjög sérkennilegt að fjöldi frjálsra félagasamtaka berst gegn ESB um víða veröld á sama tíma og hámenntaðir Íslendingar vilja endilega inn í klúbb ríka fólksins í Brussel.

EES samningurinn minnkaði varnir íslenskra laga gagnvart aðkomu erlendra aðila að auðlindum okkar og núna erum við að berjast fyrir því að safna undirskriftum til að bjarga auðlindunum okkar.

Það er augljóst að Evrópski Seðlabankinn gengur erinda fjármálavaldsins í Evrópu og í nánu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn innhemtir skuldir einkabanka út um alla álfuna. Þar er ekkert til sparað, velferðakerfið rústað og skattar hækkaðair allt fyrir fjármálaelítuna.

Við höfum nú þegar fundið fyrir nálægð elítunnar í ESB. Við eigum að borga skuldir einkabanka, þ.e. Icesave og kanadískt fyrirtæki nýtir sér gloppur í löggjöfinni til að komast yfir auðlindir okkar. Ekki megum við veiða makrílinn né flytja hann til ESB og sjálfsagt munum við þurfa að heyja nokkur þorskastríð til að endurheimta fiskinn okkar ef við göngum inn í ESB.

Ef hér væri hópur ultra nýfrjálshyggjunýlendusinna(neo-colonialst) sem vildi ólmur ganga inn í ESB hefði ég skilning á því. Fólk sem kallar sig vinstri með hnattræna hugsun á ekki neitt með það að púkka undir samband sem er verkfæri risafyrirtækja og annarra ofurríkra afla.

Flokkar: ESB · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 7.1.2011 - 22:46 - FB ummæli ()

Blaðamannakarókí í Norræna húsinu og veðurfræðingar

Við Íslendingar gætum misst allar auðlindir okkar, orkuna, vatnið og fiskinn. Aðrar þjóðir hafa lent í því og við ættum að hafa lært það af hruninu að við erum ekkert sérstaklega bræt. Það var mjög athyglisvert viðtal við handboltakappann okkar Ólaf Stefánsson á Visi.is um auðlindamál. Ólafur var mættur á maraþon karókí Bjarkar í Norræna húsinu og var að skýra út sína afstöðu fyrir blaðamanninum.

http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=CLP1432

Eins og Ólafur bendir okkur á þá gerist þetta í litlum skrefum sem hafa það að lokamarkmiði að þjóðir missi eignarétt og arð sinn af auðlindum sínum. Arðurinn fer síðan í vasa fárra útvaldra en ekki þjóðarinnar. Ólafur lagði mikla áherslu á að við yrðum að taka eftir þessum litlu skrefum og stöðva þau. Hann lagði líka mikla áherslu að gildi þess að þekkja söguna vel því hér væri um endurtekna atburði að ræða og ferlið þekkt og skilgreint.

Skuldir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sala auðlinda og fátækt er síendurtekin saga. Sá sem er nettengdur getur lesið sig vel til um þessa hluti. Almenningur treystir öðrum fyrir því að fylgjast með og framkvæma rétt. Nú hefur nýtingarétturinn á HS-Orku verið afhentur erlendu fyrirtæki næstu 130 árin og núverandi ríkisstjórn hefur verið verri en gagnslaus við að verja hagsmuni þjóðarinnar í þessu máli. Þess vegna er kominn fram hópur einstaklinga sem krefst þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum. http://www.orkuaudlindir.is/ .

Í raun finnst mér að blaðamenn ættu að gefa út stormviðvörun þegar þessi mál eru rædd. Það ætti að vera mikilvægt fyrir þá að arðurinn af auðlindum okkar komi okkur til góða. Að Björk og félagar séu með karókí í Norræna húsinu er merki um áhugaleysi blaðamanna á málefninu. Að heimsþekktir einstaklingar koma sér fyrir stutt frá öllum helstu fréttastofum landsins með partýuppákomu er eingöngu gert til að fá athygli. Það má skrifa langan pistil um hvers vegna blaðamenn ættu að fjalla um sölu auðlinda á sömu nótum og veðurfræðingar um aðsteðjandi storm. Vörn blaðamanna er alltaf sú að „ ég hef nú fjallað um málið og ekki minna en aðrir“.

Stormar koma aftur og aftur en kreppur og sala auðlinda virðast alltaf koma í fyrsta skiptið. Hver hefur hag af því að sagan sé þannig skráð og hvers vegna sjá blaðamenn ekki samhengið eins og veðurfræðingar. Veðurfræðingar sjá samhengið og skammast sín ekkert fyrir að draga sínar eigin ályktanir; að það er helvíti mikið rok þegar stormur er og það er þjóðhagslega hættulegt.

Koma nú kæru landsmenn og takið þátt í tilverunni;

Ég undirrituð/undirritaður skora á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS Orku og skora jafnframt á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra.

In English

I urge the authorities to stop the sale of HS Orka and for Alþingi to hold a national referendum on the ownership and the utilisation of our energy resources.

Netföng verða undir engum kringumstæðum afhent þriðja aðila.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 6.1.2011 - 21:34 - FB ummæli ()

Látið fólk og bankakerfi

Fréttir dagsins af Landsbankanum haustið 2008 toppar flest allt sem við höfum heyrt hingað til. Gjaldþrota banki sem tekur veð gild frá gjaldþrota fyrirtæki eftir að Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir alla starfsemi bankans er heimsmet. Auk þess er afbrotið samviskulega skráð í fundargerð um fund sem aldrei var haldinn. Ég held að það geti ekki verið klikkaðra. Við erum öllu vön á Íslandi en núna þurftum við virkilega að klípa okkur í handlegginn.

Sennilega verða blaðamennirnir sóttir til saka um að vera geðveikir í vinnunni.

Ef allt heilbrigðiskerfið hefði hrunið haustið 2008 og starfsmenn þess hefðu bara yppt öxlum og sagt, sorry Stína, þá hefði sennilega heyrst hljóð úr horni. Síðan hefði hið opinbera þurft að byggja það allt upp aftur frá grunni. Ef það síðan fréttist að við hefðum meðhöndlað látið fólk og rukkað fyrir það og skrifað sjúkraskýrslur samviskusamlega um það væru heilbrigðisstarfsmenn í rútu núna á leið í fangelsið.

En sennilega keyptu bara of margir sjúklingar sér flatskjá…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.1.2011 - 20:38 - FB ummæli ()

Hvað er evra og til hvers og fyrir hvern -fyrri hluti

„Europe will be built through currency or it will not be built at all“ Jacques Rueff.

Þegar við kaupum verðmæti(vörur, þjónustu) þá greiðum við fyrir það með öðrum verðmætum(alg. unnum klukkustundum). Vegna þess hversu flókið það er að að greiða alltaf með vinnutímum og hversu erfitt það er fyrir kaupmanninn að nota síðan vinnustundirnar okkar til að kaupa af byrgjum þá notum við peninga. Við notum peninga til að auðvelda okkur viðskipti. Við notum peninga sem einingu á verðmæti. Auk þess þá flytjum við magn verðmætanna með peningum frá einum stað til annars.

Ég kaupi eitt kílógramm af gulli fyrir 50 000 dollara eða 6.000.000 krónur(6 milljónir). Til að eignast allan þennan pening þarf ég að vinna mjög lengi og safna öllum þessum vinnustundum inn á bankabókina mína í formi peninga, á Íslandi notum við eininguna krónur. Síðan fer ég og kaupi eitt kílógramm af gulli. Þegar ég fæ gullklumpinn í hendurnar verð ég sennilega sæll og glaður.

Ef seljandinn hefði eingöng selt mér sjálft kílógrammið og fengið 6 milljón krónurnar mínar fyrir það en haldið gullinu sínu eftir hefði ég orðið súr. Ég teldi seljandann klikkaðan því maður selur ekki einingar eins og kílógrömm, einingarnar sjálfar eru algjörlega verðlausar, gullið er verðmætin sem ég sækist eftir. Kílógrömm er bara eining sem við öll erum sátt við að nota til að meta þyngd hluta.

Að sama skapi er krónan, dollarinn eða evran verðlaus. Þetta eru bara einingar fyrir verðmæti. Verðmætin eru t.d. gullið eða vinnustundirnar mínar. Gullsalinn hefur takmarkað gagn af öllum vinnustundunum mínum og þess vegna notum við peninga til að auðvelda okkur viðskiptin.

Það skiptir engu máli hvað peningar heita því þeir eru bara einingar. Stundum er þyngd gulls metin með únsum(oz) í stað kílógramma, það skiptir heldur engu máli því verðmæti gulls eru ekki fólgin í því hvort það er vegið í únsum eða kg. Jafnþungir gullmolar, annar í únsum og hinn í kg kosta það sama.

Það sem gerir evruna sérstaka eru þau skilyrði sem ríkisstjórnir viðkomandi landa skrifa undir þegar þau ákveða að nota eininguna €vru. Þess vegna á umræðan ekki að snúast um eininguna heldur skilyrðin sem fylgja með evrunni. Til að mynda ef tveir einkaþjálfarar ætla að létta mig, annar um 10 kg og hinn um 20 pund, þá hef ég mestan áhuga á að vita hvernig þeir ætla að framkvæma það. Það skiptir mig ekki máli hvort ég grennist um kg eða pund. Sá þjálfarinn sem lokar mig inni með vatnsflösku er ekki heilsusamlegur en áhrifaríkur. Um þau álitamál á umræðan um evruna að snúast.

Flokkar: ESB · Peningar · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 3.1.2011 - 19:12 - FB ummæli ()

Dýragarður Samfylkingarinnar

Jóhanna kallaði þau ketti og Össur kallar Lilju hryssu. Orðaleikir sem sjálfsagt eru ætlaðir til heimabrúks hjá Samfylkingunni. Óvissan sem þessi pólitíska staða skapar er athyglisverð. Margir hafa velt fyrir sér mismunandi niðurstöðum á óvissunni.

Nú er ekki gerlegt fyrir utanaðkomandi aðila, sem þekkir ekki alla málavexti eins vel og þeir sem standa í þessu, að spá fyrir hvernig endalokin verða. Aftur á móti skapar umrótið tækifæri til að meta það sem er sýnilegt.

Það sem var einkennandi í upphafi var umfjöllun blaðamanna að þau þrjú væru ekki með í liði og að þau létu ekki að stjórn. Það virtist sem greining blaðamanna á ástandinu væri að vald formannanna væri ekki ótvírætt og þar lægi hundurinn grafinn. Það tók nokkurn tíma að síast út í umræðuna að um málefnalegan ágreining væri að ræða.

Í raun er andstaða þremenninganna á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum studd skjalfestu séráliti Steingríms í umfjöllun Alþingis um aðkomu AGS á sínum tíma, haustið 2008. Þar sem Steingrímur hefur horfið frá fyrri sannfæringu ættu blaðamenn að reyna að fá skýringu hans á þeirri stefnubreytingu. Þá gæti hugsast að greining blaðamanna yrði sú að Steingrími hefði ekki tekist að fá alla þingmenn flokksins til að fylgja nýrri stefnu varðandi aðkomu AGS á Íslandi. Þar með væri komin málefnaleg umræða um stefnu AGS. Blaðamenn virðast mjög oft ekki sjá neina aðra leið en AGS og þess vegna finnst þeim sjálfsagt út í hött að ræða um stefnu sjóðsins.

Það er orðið nokkuð ljóst að Samfylkingin ætlar með Ísland inn í Evrópusambandið með góðu eða illu. Af þeim sökum er allt sem skerðir völd hennar óæaskilegt og andstaða Samfylkingarmanna gegn þremenningunum því skiljanleg. Það verður mjög athyglisvert að loknum þingflokksfundinum hjá vinstri grænum á miðvikudaginn að sjá hvernig þau taka á þessu máli. Örugglega óska þremenningar sér innst inni að þeim verði kastað út úr flokknum því þá væru þau laus og fengju að starfa í friði. Þau eru þekkt fyrir allt annað en að velja sér auðveldustu leiðina í lífinu og því er lítil hætta á því. Vandamál Steingríms virðist vera að hann er kominn í svikamyllu, hann tapar nánast hvað sem hann gerir. Spurningin er hvernig honum tekst að nýta sér hina miklu pólitísku reynslu sem hann býr yfir.

Hvernig sem fer hef ég á tilfinningunni að þegar horft verður á þessa sögu síðar meir verði niðurstaðan sú að Samfylkingin hafi stækkað á kostnað Vinstri grænna vegna endanlegrar yfirfærslu Steingrímsarmsins (andlega og/eða líkamlega) og eftir sitji kettirnir í Vg.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.1.2011 - 15:29 - FB ummæli ()

ESB og sjávarútvegur

Evrópusambandið vill fisk í matinn. Ekki bara það heldur vill ESB góðan fisk, veiddan á löglegan hátt eftir heilbrigðisstöðlum. Þess vegna eru til lög og stofnun í ESB sem fjallar um slík mál, DG Sanco. Til að geta flutt inn fisk til ESB þurfa skip sem veiða fiskinn að vera á DG Sanco lista ESB (The directorate General of health an consumers). Til að komast á þann lista þurfa skipin að uppfylla skilyrði um hreinlæti og geymslu á fiski og auk þess að stunda löglegar veiðar.

Skip um víða veröld hafa DG Sanco leyfi en ESB virðist ekki leggja mikla fjármuni til eftirlits á því hvort viðkomandi skip fullnægi skilyrðunum eftir að þau hafa einu sinni fengið leyfið. Meðfram strönd Vestur Afríku eru ein auðugustu fiskimið heimsins. Mikill fiskur er veiddur þar og er síðan fluttur til neytenda í ESB. Fiskinum er landað fyrst í spænsku höfninni Las Palmas á Kanaríeyjunum og dreifist síðan þaðan um ESB.

Þegar veiðar skipa eru kannaðar meðfram strönd Vestur Afríku kemur í ljós að mörg þeirra brjóta lög. Þau veiða innan landhelgi og með ólöglegum veiðafærum. Mikið brottkast á sér stað, allt að 70%. Mörg skip hafa ekki einu sinni leyfi til að veiða á svæðunum. Fiskistofnanir eru í verulegri hættu sökum stjórnlausra veiða. Fátæk Afríkulönd hafa litla strandgæslu sem getur ekki rönd við reist. Afrískir sjómenn kvarta sáran yfir ágangi sjóræningjaskipanna og fiskigengd hefur minnkað mikið næst landi sökum ofveiði. Ef strandríki Vestur Afríku hefðu sama styrk og við Íslendingar höfðum í okkar þorskastríðum þá gætu þau gætt landhelgi sinnar, byggt upp öflugan iðnað um sjávarútveg og fætt þjóðir sínar.

Fyrir margt löngu urðu Íslendigar að sætta sig við rányrkju erlendra togara, nánast í flæðarmálinu, en til allra hamingju tókst okkur að verja auðlind okkar.

Sjóræningjaskipin við strönd Afríku vilja veiða með eins litlum tilkostnaði og mögulegt er. Aðstaða sjómanna er oft slæm, umgengni við fiskinn oft ábótavant og því ættu neytendur í ESB aldrei að sjá fisk frá þessum aðilum. Því miður hefur meirihluti þessara skipa leyfi ESB til að landa fiski í ESB, þ.e. þau hafa DG Sanco númer.

Í Las Palmas á að vera eftirlit til að koma í veg fyrir svindl af þessum toga en það er ekki að virka. Þess vegna er Las Palmas gáttin þar sem ólöglega veiddur fiskur flæðir inn í ESB. Því miður virðast kannanir áhugsamtaka benda til þess að fjöldi ólöglegra skipa fjölgi frekar en hitt á lista DG Sanco hjá ESB.

Nú vill svo til að önnur stofnun hjá ESB á að sjá til þess að skip veiði löglega, DG Mare. Svo óheppilega vill til að DG Sanco og DG Mare hafa nánast enga samvinnu í því að útrýma þessum ólöglegu skipum af listanum hjá DG Sanco. Hér er augljóst dæmi um tvær stofnanir hjá ESB þar sem önnur reynir að útrýma sjóræningjaveiðum en hin auðveldar þær.

Ef eftirlit væri hert, skip tekin af listanum og sett löndunarbann á þau inn á ESB markaðinn þá yrðu sennilega mjög miklar breytingar til batnaðar. Mörg félagasamtök(NGO) hafa bent á þessa staðreynd og ESB lofar alltaf bót og betrun án sýnilegs árangurs.

Löndunarbann er Evrópusambandinu ekki framandi sem tæki til að koma hreyfingu á mál. Löndunarbann á Makríl frá Íslandi var nýlega sett á en neytendum í ESB til lukku þá flytjum við engan makríl til ESB og því minnkaði ekki framboð á fiski til þeirra.

Sierra Leone er dæmi um fátækt ríki á Vesturströnd Afríku. Sierra Leone er eitt fátækasta land í heimi og getur því ekki mætt kröfum ESB um innflutning og er þess vegna bannað að flytja fisk til ESB, þ.e.a.s. löndunarbann(2009). Meðan fátækum löndum er ómögulegt að verja landhelgi sína og jafnvel bannað að selja fisk sinn á stærsta fiskmarkað heims er sama heimsveldi að moka upp fiskinum þeirra og flytja til sinna heimahafna. Til að kóróna vitleysuna þá leyfir ESB sjóræningjaskipum að gera slíkt hið sama. Þrátt fyrir að margsinnis hafi verið bent á að fiskistofnar Vestur Afríku séu í útrýmingarhættu gerist ekkert í Brussel. Nema að sjálfsögðu löndunarbann á Makríl frá Íslandi sem er hvort eð er ekki fluttur til ESB.

Ef fátæk Afríkulönd gætu selt fisk inn á Evrópumarkað myndi það stuðla að verðmætasköpun, atvinnu og gjaldeyristekjum fyrir viðkomandi lönd. Sökum örbirgðar leigja þau út veiðiréttinn en geta ekki fylgst með því að rétt sé veitt. Auk þess veiða skip án veiðleyfa en hafa DG Sanco leyfi til að flytja fisk til ESB. Erlendu skipin landa öllum afla á Kanaríeyjum og sækja alla þjónustu þangað. ESB fær því allan fiskinn og þá verðmætasköpun sem verður af veiðunum en ekki viðkomandi Afríkulönd. Að auki er fiskur uppistaðan í næringu Vestur Afríkuþjóða og sá fiskur er ekki tvíétinn sem fer á Evrópumarkað.

Í raun hefur Evrópa ekkert breyst í eðli sínu. Okkur Íslendingum tókst að hrekja Breta og Þjóðverja af miðunum og þurftum að berjast við herskip þeirra til að tryggja okkur sjávarauðlindina. Fátækar Afríkuþjóðir eru ekki í sömu stöðu og við og eru því arðrænd af gömlu nýlenduríkjunum.

Evrópusambandið er að sjálfsögðu hagsmunasamtök þeirra ríkja sem tilheyra því. Hugsanlega getur það gagnast ríkjum að ganga í ESB. Þegar kemur að ESB aðild verður maður að vega og meta heildrænt og hnattrænt hvort slíkt hugnist manni. Ef miðað er við sjávarútvegsstefnu ESB gagnvart fátækum löndum Vestur Afríku er nokkuð ljóst að um pilsfaldakapitalisma/nýlendustefnu er að ræða. Slík stefna á sennilega best heima í röðum nýfrjálshyggjumanna en síst meðal humanista, umhverfis, vinstri og jafnaðrmanna.

Western Africa: A Fish Basket of Europe Past and Present                                              JACQUELINE ALDER USSIF RASHID SUMAILA  http://jed.sagepub.com/content/13/2/156.full.pdf+html

DG Sanco:  http://ec.europa.eu/dgs/health_consumer/index_en.htm

Greenpeace: http://www.greenpeace.org/international/en/news/features/exposed-pirates-bankrolled-by/

Greenpeace: http://www.greenpeace.org/international/Global/international/publications/oceans/2010/351%20-%20WestAfricaReportDEF-LR.pdf

Environmental justice foundation:

http://www.ejfoundation.org/pdf/DIRTY_FISH_EJF_Report.pdf

http://www.ejfoundation.org/pdf/EJF%20pirate%20fish.pdf

http://www.ejfoundation.org/pdf/party_to_the_plunder.pdf

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 31.12.2010 - 23:48 - FB ummæli ()

2010 in memorian-breytan

Við áramót leggur maður mat á hið liðna og reynir að kristalla reynslu sína sér og sínum til framgangs á komandi árum.

Rannsóknarskýrsla Alþingis og fleiri aðilar hafa reynt það sama. Gagnrýnt var að valdhafar landsins í aðdraganda hrunsins hefðu gert mörg mistök. Einnig er það ljóst að almenningur hefur mjög litla möguleika til að hafa raunveruleg áhrif á ákvarðanir valdhafanna milli kosninga. Valdamiklir sérhagsmunahópar hafa stjórnað landinu mun frekar en almenningur.

Það virðist vera að almenningur hafi orðið illilega fyrir barðinu á vondum mönnum.

Nú er það þannig að valdið er hjá þjóðinni svo fremi að hún hafi ekki gleymt því. Til að nota valdið sér til framdráttar þarf almenningur að vita hvað hann vill, hvað hann skortir og hvernig hlutunum er fyrirkomið. Með tilkomu internetsins eru möguleikar almennings til að afla sér upplýsinga meiri en nokkru sinni. Eftir hrunið haustið 2008 virtist það nokkuð ljóst að full þörf væri fyrir almenning að setjast niður og lesa sig til um stefnur og málefni svo að sagan myndi ekki endurtaka sig. Það var stundum sagt um kjósendur Sjálfstæðisflokksins að jafnvel þó að hundur væri í framboði næði hann kjöri. Á hinn bóginn má svo sem segja að kjósendur hafi aldrei rangt fyrir sér og ef að þeir vilja að hundur stjórni verður svo að vera.

Það sem ég er að velta fyrir mér er að almenningur virðist ekki vera að haga sér neitt öðruvísi gagnvart pólitík en áður. Ég tel að ekki hafi orðið nein grundvallarbreyting á hegðun almennings á því hvernig hann myndar sér skoðun á mönnum og málefnum. Þar sem hegðun almennings gagnvart pólitík var talin skipta máli í aðdragnda hrunsins hlýtur það að skipta máli að ekki hafi orðið nein breyting á þeirri hegðun.

Menn töldu að sigur Jóns Gnarr í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík hefði verið sigur almennings, mótmæli almennings og algjör niðurlæging fyrir gömlu flokkana.

Jón áttaði sig á því að almenningur las aldrei stefnuskrá þeirra flokka sem hann kaus, þess vegna skrifaði Jón enga stefnuskrá. Jón vissi líka að sá sem var mest áberandi sigraði. Íslenskir blaðamenn héldu ekki vatni yfir Jóni og því fékk hann massíva kynningu og blaðamenn spurðu engra erfiðra spurninga. Jón sigraði með sömu aðferðarfræði og gömlu flokkarnir hafa alltaf notað, miklum auglýsingum á almenning sem kynnir sér ekki hlutina. Þegar Besti flokkurinn vinnur stórsigur án þess að vera með stefnuskrá segir það mér að almenningur kaus ekki um málefni heldur um eitthvað allt annað. Sigur Besta flokksins er þess vegna gæðastimpill á gömlu aðferðafræðina sem stunduð hefur verið í íslenskri pólitík s.l. áratugi.

Þess vegna verð ég að álykta eftirfarandi í ljósi reynslunnar af árinu 2010. Meðan almenningur breytir ekki hegðun sinni í umgengni við stjórnmál munu valdhafar draga almenning þangað sem þeim sýnist. Þess vegna mun almenningur halda áfram að greiða fyrir kreppuna og mistök fyrri valdhafa.

Mín einlæga von er að allur almenningur á Íslandi hætti að drepa tímann en snúi sér í staðinn að því að kynna sér vel stjórnmál. Kynni sér söguna, noti netið og reyni að átta sig á samhengi hlutanna. Ef almenningur myndar sér sjálfstæða skoðun að lokinni sjálfstæðri rannsóknarvinnu en lætur ekki mata sig eins og kornabarn þá óttast ég ekki framtíðina, þá veit ég að börnin mín munu vilja búa á Íslandi í framtíðinni.

Almenningur á að vera breytan í jöfnunni en ekki fasti.

Gleðilegt ár og þökk fyrir þau liðnu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur