Ráðamenn eru þeir einu sem geta breytt leikreglum og tekið þá úr ábyrgðarstöðum sem beita borgarana órétti og þvingunum.
Þingmenn stjórnarinnar virðist ekki átta sig á því að hún var kosin til breytinga en ekki til þess að horfa á atburðarásina með hendur í skauti. Það hvernig bankarnir hafa komist upp með að virða að vettugi dóm Hæstaréttar í gjaldeyrislánamálinu er eitt skýrasta dæmið um lúpulega framgöngu stjórnvalda. Þrátt fyrir dóminn halda bankarnir áfram innheimtum á ólöglegum lánum eins og ekkert hafi í skorist enda halda stjórnvöld áfram að leita ráða hjá lögbrjótunum.
Afleiðingarnar eru að bankarnir hafa fært sig upp á skaftið og beita nú „viðskiptavinina“ hótunum sem geta ekki kallast annað en ofbeldisfullar. Það dæmi sem ég hef hér fyrir framan mig er af bændum; hjónum sem komin eru á áttræðisaldur og krafin eru um á fjórða hundrað þúsund krónur mánaðarlega í greiðslur af ólöglegu láni. Með aðstoð barna sinna ná þau enn að öngla saman fjárupphæðinni enda verða þeim að öðrum kosti reiknaðir dráttarvextir og þau sett á vanskilaskrá. Bankinn hefur sett það skilyrði fyrir lækkun á mánaðarlegri afborgun að vextir lánsins verði hækkaðir um tugi prósenta. Það er ekki réttarríki þegar lögbrjóturinn setur brotaþolanum afarkosti, sérstaklega ekki þegar ljóst er að bankinn skuldar viðkomandi háar upphæðir.
Á meðan ofbeldisverkin eiga sér stað horfa stjórnarliðar á. Þeir setja sig jafnvel í stellingar íþróttafréttamanna og lýsa atburðum með hneykslun og axla kannski örlitla ábyrgð en varpa þó meginábyrgðinni annað. Þess á milli eiga þeir vinsamleg samtöl við afbrotamennina og borða í boði þeirra snittur og fínerí.