Miðvikudagur 03.10.2018 - 14:26 - FB ummæli ()

Hvers virði eru Viðreisn og Vg

Umræðan á hinu háa Alþingi, um stjórn fiskveiða í tengslum við frumvarp um ákvörðun veiðigjalds var beinlínis farsakennd á köflum. Nokkur fjöldi þingmanna vitnaði um ágæti kerfisins umfram öll önnur kerfi í heimi og það þrátt fyrir að vera bornir og barnfæddir í byggðarlögum sem komin eru í algera rúst vegna kerfisins!

Í umræðunni var hlaupið með öllu yfir þá sorglegu staðreynd að þorskaflinn er mun minni nú en áður en kerfið var sett á og er um helmingur af því sem kerfið átti að skila árlega þegar kerfið var sett á. Enginn minntist heldur á að þrátt fyrir að sjávarútvegurinn búi við miklu meira eftirlit en aðrar atvinnugreinar og að afar hörðum viðurlögum sé beitt við brotum á lögum um stjórn fiskveiða dugir það ekki til. Opinberar skýrslur og myndefni sem sýnt var fyrir nokkru á RÚV sýna glögglega að viðamiklar brotalamir eru á kerfinu enda eru beinir hvatar í kvótakerfinu til brottkasts og framhjálöndunar. Í stað þess að taka umrædda hvata í burtu eru í alvörunni uppi hugmyndir um að koma á enn meira myndavélaeftirliti og jafnvel dróna til að njósna um áhafnir íslenskra fiskiskipa.

Eina einkennilegustu röksemdafærsluna gegn öllum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu flutti sjálfskipaður verndari Vestmannaeyja, Páll Magnússon. Fyrirfram hefði mátt ætla að verndari Eyjanna væri gagnrýninn á kerfið þar sem drjúgur hluti af atvinnuréttindum eyjarskeggja er kominn í eigu kaupfélags norður í landi, sem ég er reyndar félagsmaður í. Á Páli var ekki annað að heyra en að hann væri á móti því að fara í breytingar sem hann væri samt í hjarta sínu sammála, þ.e. að nota markaðslausnir við úthlutun veiðiheimilda. Ástæðan var sú að við útfærslu á útboðum á veiðiheimildum átti að tryggja m.a. byggðsjónarmið, t.d. að allar veiðiheimildir tæmdust ekki úr Eyjum og flyttust norður á Sauðárkrók.

Þingmenn Sigmundar í Miðflokknum stóðu þétt saman með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í að verja og mæra ónýtt kerfi. Persónulegustu ræðuna flutti Sigurður Páll en á honum var að heyra að hann hefði komist í nokkrar álnir vegna kerfisins og jafnvel komist í þann flokk manna sem boðið var í kaffi hjá bankastjóranum.

Það er við hæfi að spyrja hvers virði afstaða og stefna Viðreisnar og Vg sé í sjávarútvegsmálum. Niðurstaðan er augljós hvað Viðreisn varðar, hún er einskis virði. Þegar flokkurinn var komninn í aðstöðu til breytinga í ríkisstjórn, þá gerði hann ekki neitt með stefnuna. Málflutningur og verk Þorgerðar Katrínar, núverandi formanns Viðreisnar, voru ekki í neinu samræmi við stefnu flokksins fyrir kosningar og nú í stjórnarandstöðu á þingi. Það stefnir í Vg geri jafn lítið með stefnu sína og Viðreisn hér um árið, þar sem það lítur út fyrir að prúðbúið ráðherralið Vg, sé búið að steingleyma loforðum um að auka jafnræði og vægi byggðasjónarmiða. Nú er svo komið að forsætisráðherra virðist líða mun betur í dúkalögðum glitsölum með auðmönnum í SFS en á fundi með kjósendum sínum að ræða sjávarútvegsmál. Í því stjórnarsamstarfi sem hún valdi sér er augljóst að hún getur miklu frekar uppfyllt óskir auðmannanna en kjósenda sinna.

Ef ríkisstjórn undir forystu Vg stígur ekki einhver skref, jafnvel þó lítil verði, í átt til jafnræðis og byggðarsjónarmiða í sjávarútvegsmálum, í tengslum við vinnu við endurskoðun veiðigjalda, þá er augljóst að stefna Vg og Viðreisnar er jafn verðmæt þegar til kastanna kemur.

Stefnan er þá einskis virði!

Sigurjón þórðarson, líffræðingur

Flokkar: Óflokkað

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur