Miðvikudagur 18.04.2018 - 11:30 - FB ummæli ()

Þorskstofninn minnkaði um ríflega 20% frá í fyrra

Nú hafa verið birtar niðurstöður stofnmælinga botnfiska (togararallið) sem fram fór í lok febrúar og í mars sl. Niðurstöðurnar eru mjög sláandi eða að stofninn hafi minnkað um ríflega 20% frá í fyrra.  Hér er um gríðarmikla minnkun að ræða eða meiri en það sem veitt var úr stofninum í fyrra –  Aflareglan sem notast er við miðar við að veitt sé 20% af veiðistofni árlega. Framsetning Hafrannsóknarstofnunar á hrapinu í stofnmælingunni gefur mjög skakka mynd af stöðunni, en í skýrslunni segir: „Stofnvísitala þorsks er 5% lægri en meðaltal áranna frá 2012, þegar vísitölur voru háar.“

Niðurstaðan er algert skipbrot fyrir þá veiðiráðgjöf sem Hafró hefur notað á síðustu áratugum – þorskaflinn nú er ríflega helmingur af því sem hann var að jafnaði fyrir daga kvótakerfisins. Upphafleg markmið núverandi stjórnunar var að fá jafnstöðuafla í þorski upp á 500 þús. tonn árlega og komast hjá náttúrulegum stofn- og aflasveiflum.  Frá því snemma á tíundaáratug síðustu aldar hefur verið farið nákvæmlega eftir ráðgjöf Hafró um leyfilegan heildarafla, með það að markmiði að minnkuð veiði gefi meira seinna.  Þetta mikla bakslag í stofnmælinguna nú, er það þriðja í röðinni frá því að stjórnvöld fóru að fylgja ráðgjöfinni upp á punkt og prik. Hingað til þá hefur það leitt til gríðarmikils niðurskurðar á aflaheimildum og óbreytta nýtingarstefnu. Nú við þriðja bakslagið í áralöngu uppbyggingarstarfi hljóta ábyrg stjórnvöld að fara nýjar leiðir og endurskoða veiðiráðgjöfina frá grunni.

Hvað er að núverandi ráðgjöf? Hún byggir alfarið á mjög ónákvæmri fiskatalningu og leggur til hliðar allar líffræðilega og vistfræðilega þekkingu um samspil fæðu og fiskstofna. Grundvöllur fyrir friðun fiskstofna er augljóslega að það sé ofgnótt af fæðu. Hvers vegna kryfja stjórnvöld þetta ekki til mergjar?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur