Nú gengur yfir samfélagið umræðualda um stöðu Íbúðalánasjóðs og er nánast upphlaup í Kauphöllinni, Alþingi og í fjölmiðlum. Ástæðan fyrir æsingnum er nýlegt viðtal við þingkonu Samfylkingarinnar, sem í viðtali við útlendinga, minntist á að mögulega þyrfti Íbúðalánasjóður að rifta gerðum lánasamningum.
Í raun er ekkert nýtt í málinu og fátt nýtt sem útskýrir lætin. Umtalaður vandi Íbúðalánasjóðs, sem snýr að rýrnandi eiginfjárhlutfalli vegna greiðslu gamallar og kostnaðarsamrar fjármögnunar, er búinn að vera lengi ljós. Ég átta mig reyndar ekki á mikilvægi reiknaðs eiginfjárhlutfalls Íbúðalánasjóðs þar sem skuldbindingar sjóðsins eru ríkistryggðar.
Öllum ætti sömuleiðis að vera ljóst að þingmenn Samfylkingarinnar hafa hingað til ekki sett það fyrir sig að breyta gerðum lánasamningum, sbr. Árna Páls-ólögin. Það eina sem mögulega er nýtt er að umræðan rataði í erlenda fjölmiðla en ekki íslenska. Ekki skil ég þá viðkvæmni, þar sem biðröð útlendinga eftir að fjárfesta í innlendum skuldaviðurkenningum er ekki löng. Biðröðin er í hina áttina þ.e. að sleppa með fjármagn úr landi.
Í lokin þá er vert að velta því fyrir sér í hve miklum mæli þetta mál snertir almenning. Vissulega er almenningur að tapa skattfé sem fer í að rétta af Íbúðalánasjóð, en þeir sem eru væntanlega að hagnast á tapi Íbúðalánasjóðs, eru þeir sem lánuðu fjármagnið, sem eru að stærstum hluta lífeyrissjóðirnir, sem eru í eigu þessa sama almennings.
Sjálfur hef ég meiri áhyggjur af annars konar vanda sem snýr að raunverulegri verðmætasköpun í landinu og að þjóðin sé ekki að endurnýja og jafnvel selja úr landi atvinnutæki sem geta skapað raunverulegan arð, þegar ráðamenn verða loksins búnir að komast út úr bóluhagkerfinu og ná jarðsambandi.
Það er auðvitað ekkert vit í öðru en að ráðamenn svari þeirri spurningu hvers vegna í ósköpunum minna magn af þorski var veitt á árinu 2011 en gert var hér við land árið 1913?