Rétt fyrir hrun flutti Hagfræðistofnun Háskóla Íslands þjóðinni þau tíðindi að hagkvæmast væri að hætta þorskveiðum í svona 3 – 4 ár. Tillögurnar voru settar fram í ljósi nýrrar aflareglu, sem stofnunin hafði fundið upp, og sömuleiðis styrkra og fjölbreyttra stoða íslensks efnahagslífs árið 2007.
Allir vita að Hagfræðistofnun hafði rangt fyrir sér hvað varðar trausta stöðu efnahagslífsins árið 2007, en færri vita að umrædd aflaregla byggir ekki á neinni líffræði, enda hefur hún aldrei skilað tilætluðum árangri. Það virðist hins vegar engu máli skipta þar sem fjölmiðlar birta boðskap umræddra „fræðimanna“ algerlega gagnrýnilaust og það þrátt fyrir að þeir hafi alltaf haft rangt fyrir sér!
Hagfræðingarnir í HÍ hafa eins og kunnugt er reiknað út vöxt og viðgang fiskistofna áratugi fram í tímann, sem og virði Heiðmerkur. Nú hlýtur að fara að koma að því Hagfræðistofnun færi út kvíarnar í náttúrufræðinni og spái jafnvel til um vöxt njólans í framtíðinni.