Sunnudagur 08.12.2013 - 16:14 - FB ummæli ()

Í ójafnvægi

Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks virðast ekki vera í neinu  jafnvægi í samskiptum sínum við Evrópusambandið. Í stað þess að reyna afmarka umræðu um einstaka ágreiningsefni við deiluefnið sjálft er ítrekað farin sú leið að grípa til stóryrða og tengja ágreiningsefnin öðrum samskiptum Íslands við Evrópusambandið. Aðferðin er stórfurðuleg í ljósi þess að í þeim málum sem brýtur á, á borð við makrílinn og IPA-styrki, hefur Ísland yfirleitt góðan málstað að verja.

Utanríkisráðherra á reglulega góða spretti  í yfirlýsingum um hve forkastanlegt Evrópusambandið sé. Málflutningurinn nálgast það óðfluga að vera á pari við yfirlýsingar kollega hans í Norður-Kóreu um Vesturlönd. Leiðsögn utanríkisráðherra er síðan fylgt fast eftir af þingmönnum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og jafnvel reynt að yfirtrompa ráðherrann.

Að mínu viti er þessi vegferð ríkisstjórnarinnar vægast sagt óskynsamleg út frá viðskiptahagsmunum þjóðarinnar en samkvæmt vef Hagstofu Íslands voru 78,3%  af vöruútflutningi þjóðarinnar til hinna „óþolandi“ EES-landa á árinu 2012. Engu líkara er af ybbingi ráðamanna en að þeir hafi enga hugmynd um hver séu helstu viðskiptalönd Íslendinga og jafnvel má ráða að þeir hafi ekki heyrt af ágætum vef Hagstofunnar. Á vefnum kemur ennfremur fram að næst á eftir EES eru önnur Evrópulönd næststærstu kaupendur íslensks varnings en síðan koma BNA með um 4,5% og þáJapan með um 2%.  Stórveldið Kína sem öllu á að redda hér á landi ef marka má tal forystu Framsóknar kemst ekki á blað sem eitt af helstu viðskiptalöndum þjóðarinnar.

Eins og fyrr segir er miklu viturlegra að einangra ágreininginn við Evrópusambandið við þau ágreiningsefni sem deilt er um vegna ágæts málstaðar landsins og ekki síður vegna þeirrar staðreyndar að Ísland er ekki að uppfylla saminginn um Evrópska efnahgassvæðið sem felur í sér frjálst flæði vinnuafls, varnings, þjónustu og fjármagns. Frá hruni hafa fjármagnsflutningar ekki verið frjálsir og verða það ekki fyrirsjáanlega á næstu árum. Evrópusambandið hefur því ærna ástæðu til að taka upp samninginn um EES hvenær sem sambandinu dettur það í hug.

Mögulega er það markmið ríkisstjórnarinnar að rifta EES-samningnum og koma á tvíhliða samningi við Evrópusambandið en þá hefði ég talið að vænlegra að gera það í jákvæðara andrúmslofti en ríkisstjórnin er að magna upp.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur