Mánudagur 09.12.2013 - 23:35 - FB ummæli ()

Óþolandi ESB?

Yfirlýsing þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns Vestnorræna ráðsins um að helstu viðskiptalönd Íslands væru óþolandi kom í sjálfu sér alls ekki á óvart, svo undarlegt sem það nú er. Stjórnarflokkarnir hafa nefnilega farið þá leið að magna upp einhverja óbeit á Evrópusambandinu í stað þess að rökstyðja það af yfirvegun að Íslandi sé betur borgið utan sambandsins en innan.

Það sem er meira en lítið öfugsnúið við yfirlýsingu þingmannsins sem sett var fram til að mótmæla aðgerðum ESB til að þvinga  Færeyinga til að draga úr síldveiðum í eigin lögsögu var að íslensk stjórnvöld hafa hingað til staðið þétt við bakið á málstað ESB og gegn málatilbúnaði Færeyinga. Steingrímur J. Sigfússon skrifaði færeyska starfsbróður sínum harðort bréf  í mars sl. þar sem að hann lýsti yfir þungum áhyggjum af því að Færeyingar hefðu ákveðið einhliða að auka veiðar sínar á síldinni.  Ég hélt satt að segja, eftir digurbarkalegar yfirlýsingar ráðamanna um að ESB væri óþolandi, að íslensk stjórnvöld hefðu snúið við blaðinu og tekið að styðja málstað Færeyinga.

Svo er hins vegar alls ekki, heldur standa íslensk stjórnvöld enn með málstað ESB og gegn Færeyingum.

Það hefði verið hægur leikur og meiri mannsbragur fyrir íslensk stjórnvöld að sýna sjónarmiðum Færeyinga meiri skilning í síldveiðimálinu þar sem rök Færeyinga eru nánast þau sömu og íslensk stjórnvöld beita gegn löglausri ásælni ESB til að koma í veg fyrir makrílveiðar Íslendinga í eigin efnahagslögsögu.

Færeyingar benda réttilega á að síldin sem glímir nú við fæðuskort dvelur í auknum mæli í lögsögu eyjanna en á þeim tíma sem kvótanum var skipt  upp á milli veiðiþjóða. Síld er gjarnan meðafli með makrílnum og forsenda stóraukinnar makrílveiði var óhjákvæmilega að auka síldveiðar – eða þá að fara í óréttlætanlegt brottkast.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur