Talsmenn LÍÚ hafa gefið þá skýringu á stórfelldum uppsögnum sjómanna á frystitogurum, að þær megi rekja beint til lækkunar á afurðaverði sjófrystra afurða. Sveinn Hjörtur Hjartarson hagfræðingur LÍÚ hefur bent á að gögn Hagstofunnar staðfesti þá fullyrðingu. Sú skýring LÍÚ gengur einfaldlega alls ekki upp, en samkvæmt talnaefni sem sýnir verðvísitölur sjávarafurða, þá kemur skýrt fram að frá árinu 2008 hefur verð á sjófrystum afurðum hækkað mun meira en almennt á ferskum afurðum. Fráleitt er sömuleiðis að kenna veiðigjaldinu um en það er það sama hvort sem fiskurinn er veiddur af frystitogara eða öðrum skipum.
Augljósasta ástæðan fyrir fjöldauppsögnunum er að laun sjómannanna eru miklu mun hærri en laun fiskverkafólks, á ASÍ töxtunum og með uppsögnunum er verið að draga úr launakostnaði í greininni. Einnig er verið að aftengja launagreiðslur sjómanna við raunverulega verðmætasköpun í greininni og þar með vega að grunnforsendum hlutaskiptakerfisins. Öruggt má telja að launakostnaður muni lækka við breytingarnar, þar sem þær fela í sér að gert verður upp á málamyndverði sem Verðlagsstofa skiptaverðs ákveður, sem er langt frá eðlilegu markaðsverði.
Óneitanlega er það öfugsnúið að þeir sem báru sig afar illa fyrir framan alþjóð og vildu meina að fyrri ríkissjórn hafi alið á óvissu um framtíðarrekstrarumhverfi sjávarútvegsins, skulu nú setja framfærslu hundruð fjölskyldna í uppnám!