Um helgina komu bæði heilbrigðisráðherra og velferðarráðherra fram í viðtölum á Rúv og virtust steinhissa á þeirri staðreynd, sem Félagsvísindastofnun dró fram í nýrri skýrslu, að stór hluti tekjulágra landsmanna hefði neitað sér um nauðsynlega læknisþjónustu. Eiginlega var ég mest hissa á að þetta væru nýjar fréttir fyrir ráðherra í ríkisstjórninni. Er ég þá ekki einungis að vitna til fjölmargra skýrslna sem birst hafa á síðustu misserum um stöðu fólks með lágar tekjur eða þunga skuldabyrði, heldur einnig fyrir þá staðreynd að aðgerðarhópurinn Bót mótmælti síðsumars bágri stöðu þeirra hópa sem standa hvað hallast í samfélaginu.
Mögulega hafa allar skýrslurnar og mótmælin farið algerlega framhjá ríkisstjórninni og getur verið að þar sé komin skýringin á því að láta þann tíunda hluta þjóðarinnar, sem hefur lægstu tekjurnar, fara á mis við skattalækkanir og láta þær frekar renna til þeirra 10% launamanna sem hæstar hafa tekjurnar.
Getur hugsanlega verið að hér sé komin fram skýringin á því að ríkisstjórninni lá svo mikið á að fella niður skatta á auðugustu Íslendingana og leiðrétta laun forstöðumanna stofnanna aftur í tímann?