Sunnudagur 30.03.2014 - 12:43 - FB ummæli ()

Nauðungaflutningar – Hvar er Sigmundur Davíð?

Útgerðarfyrirtækið Vísir hefur, skv. 1. gr.  laga um stjórn fiskveiða, yfir að ráða veiðiheimildum sem úthlutað er til eins árs í senn. Skýrt er tekið fram í lögunum að úthlutunin myndar ekki eignarrétt og markmið laganna sé að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.

Ekki er um það deilt að ætlanir útgerðarfyrirtækisins, að leggja niður alla  fiskvinnslu frá Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri, ganga þvert gegn markmiðum laganna; að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu.  Fréttir herma að fyrirtækið hafi gengið hreint til verks í hreppaflutningum og boðið upp á ókeypis flutninga til Grindavíkur og að skaffa húsnæði á Suðurnesjum. Ef vilji er hjá stjórnvöldum þá er auðvelt að sporna við yfirgangi nokkurra útgerðarfyrirtækja gagnvart búsetu og afkomu heilu byggðalaganna.  Vandinn er sá að LÍÚ á fríðan flokk þingmanna í flestum flokkum þingsins og einn þeirra hefur játað að hann gangi beinlínis erinda LÍÚ í löggjafastörfum sínum á Alþingi Íslendinga.  Á meðan á annað hundrað starfsmenn sem sjá fram á flutning eiga sér vart málsvara á þinginu né virðist sem að kjörnir fulltrúar í viðkomandi sveitarfélögum hafi manndóm í sér til þess að krefjast breytinga á kvótakerfinu sem er að rústa lífsgrundvelli umbjóðenda þeirra.

Ekkert hefur heldur frést af viðbrögðum Sigmundar Davíðs Gunnlauonar fyrsta þingmanns Norðausturkjördæmisins – mögulega finnst honum þetta bara í lagi að hundrað kjósendur hans séu fluttir hreppaflutningum landshorna á milli. Nauðungarflutningar í boði Vísis snerta mun fleiri en starfsmenn fyrirtækisins en þeir munu fyrirsjáanlega raska skólagöngu og fjölskylduhögum.

Ef Sigmundur Davíð hefur áhuga á að grípa inn í þá getur hann auðveldlega gert það – Vilji er allt sem þarf.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur