Mánudagur 31.03.2014 - 20:02 - FB ummæli ()

Brottfallið

Nú hefur verkfall framhaldsskólakennara staðið í á þriðju viku en umræðan um áhrif þess liggur frekar lágt. Það snertir samt þjóðlífið á marga vegu og sjálfan mig beint þar sem ég á tvo krakka í framhaldsskóla. Ég sé að óvissan um hvernig, hvenær og hvort verkfallið leysist hefur mikil áhrif. Ég get tekið undir það sjónarmið að krökkum sem standa höllum fæti í námi og/eða eiga gisið stuðningsnet, m.a. í formi fjölskyldu, sé hættara við að falla úr námi.

Svo er annað brottfall sem ég hef einnig áhyggjur af, brottfall framhaldsskólakennaranna sjálfra. Auðvitað má búast við að mörgum finnist sem störf þeirra séu ekki metin að verðleikum. Búast má við að kennarar fari að leita sér að öðrum starfsvettvangi og þá falla þeir fyrst úr stéttinni sem eiga auðvelt með að fá sér vinnu annars staðar.

Mér finnst ráðherra hafa haldið mjög illa á málum. Í stað þess að taka strax upp alvöruviðræður um það sem deilt er um, þ.e. kaup og kjör, er farið í að flækja deiluna með því að draga inn í hana einhverjar skipulagsbreytingar, helstar þá um styttingu náms til stúdentsprófs. Þær breytingar munu ekki nást með góðu móti nema einnig verði horft til breytinga á grunnskólanámi.

Ráðherrann hefði auðveldlega getað komið til móts við sjónarmið kennra með því að benda á að þeir hefðu dregist aftur úr í launum smám saman á löngu tímabili og þess vegna væri eðlilegt að taka einhvern tíma í að koma leiðréttingunni fram.

Hætt er við því að ef deilan verður ekki leyst í vikunni muni hún harðna enn frekar og brottfall og skaði verði meiri.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur