Í síðdegisþætti Útvarps Sögu var Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins fenginn af Pétri Gunnlaugssyni til að ræða um sjávarútvegsmál. Málflutningur þingmanns Sjálfstæðisflokksins einkenndist af beinum rangfærslum, s.s. að aldrei væri landað meiri afla en nú í Sandgerði og á norðanverðum Vestfjörðum og tiltók hann þá sérstaklega Bolungarvík í því sambandi. Sömuleiðis hélt hann því fram að 95% af kvótanum hefði skipt um hendur og að þjóðir heims öfunduðu Íslendinga af kvótakerfinu.
Mér finnst það verðugra verkefni fyrir fréttahauka landsmanna að ganga eftir því hvers vegna í ósköpunum formaður Atvinnuvegnefndar á hinu háa Alþingis skuli halda fram þvílíku kjaftæði. Það sér það hver maður í hendi sér að landaður afli á norðanverðum Vestfjörðum hefur dregist gríðarlega saman og ekki hve síst í Bolungarvík. Í Bolungarvík voru gerðir út togararnir Dagrún og Heiðrún og í Bolungarvík var einnig rækju- og loðnuverksmiðja en nú er ekkert af framangreindu. Það hefur svo sannarlega verið landað meiri afla áður í öllum fjörðum Vestfjarða og einnig í Sandgerði. Þetta á Jón Gunnarsson að vita rétt eins og að hann veit að það er alls ekki rétt að 95% af gjafakvótanum hafi skipt um hendur og sé að mestu kominn í hendurnar á litlum fjölskyldufyrirtækjum eins og hann gaf í skyn. Staðreyndin er að þeir sem voru stórir fyrir daga kerfisins hafa notað aðstöðu sína til að sölsa undir sig veiðiheimildir minni útgerða.
Fyrir utan allar rangfærslurnar, þá var vægast sagt sérkennilegt að hlýða á fulltrúa evrópsks stjórnmálaflokks, sem kallar sig lýðræðislegan hægriflokk, finna alla mögulega og ómögulega meinbugi á því að heiðarleg samkeppni á jafnræðisgrundvelli ráði í undirstöðuatvinnugrein landsmanna.
Áhugavert var að þingmaður Sjálfstæðisflokksins reyndi hvað hann gat að leiða talið frá stjórn fiskveiða og að óskyldum málum, s.s. stóriðju, orkuöflun og ferðaþjónustu. Ef að Sjálfstæðismenn vissu ekki upp á sig skömmina og væru í raun og sanni stoltir af kvótakerfinu þá væru þingmenn ekki á stöðugum flótta undan umræðunni og settu málið á dagskrá sem víðast.
Svo er alls ekki, heldur eru þeir á stöðugum flótta, líkt og nýi lögreglustjórinn í Reykjavík.