Ríkisstjórnin hélt gríðarmikla skrautsýningu í dag með aðstoð MP banka. Fjölmiðlar hafa gert sýningunni góð skil en samt sem áður er eitt og annað sem ég skil bara alls ekki. Hverjar eru staðreyndir málsins? Jú það er búið að herða gjaldeyrishöftin og búið að gefa í skyn að það sé komið á samkomulag á milli stjórnvalda og hluta kröfuhafa, á grundvelli frumvarps um sérstaka skattlagningu á þrjú fyrirtæki í slitameðferð.
Annað hefur ekki gerst eða hvað?
Það er eitt og annað sem stjórnmálamenn þurfa að útskýra betur fyrir mér saklausum sveitamanninum s.s. hvernig stendur á því að þetta muni færa ríkissjóði tekjur að ígildi vel ríflega heillra fjárlaga íslenska ríkisins. Mér finnst það of gott til að vera satt, að það algjöra hrun sem varð á fjármálamarkaði fyrir 7 árum, skuli verða síðan að gullnámu fyrir ríkissjóð Íslands – Það er bara eittthvað svo Sigmundarlegt við það allt.
Svo er ýmislegt annað sem fávísi sveitamaðurinn skilur ekki . Ég skildi vel útgönguskatt Lilju Mósesdóttur sem gekk út á stighækkandi skatt á fjárhæðir sem voru á leið úr landi – einfalt og gott – stóðst örugglega jafnræðisreglu. Ég á erfitt með að sjá að nýi skattstofninn samkvæmt frumvarpinu standist almenna jafnræðisreglu og 77 gr. stjórnarskrárinnar, þarna er settur sértækur eftir á skattur á einungis þrjú fyrirtæki, en ekki á MP banka frekar en fyrri daginn.
Eftir að hafa rennt í gegnum götótta frumvarpið sem frumsýnt var í dag þá hef ég efasemdir um að það verði til þess að hræða eigendur þrotabúa til samninga – miklu frekar væri það hertu gjaldeyrishöftin en hingað til hafa kröfuhafarnir verið afar vel haldnir af háum vöxtum stjórnvalda, sem þeir hafa getað flutt úr landi að vild.
Það er svoldið furðulegt að allir stjórnmálamenn og skýrendur sem fjalla um málið virðast skilja það upp á 10, en ég og allir sem ég hef talað við eru eitt spurningamerki um flesta þætti málsins.