Davíð Oddsson hefur þann eiginleika að geta túlkað hvaða atburð sem er sér í vil. Hann varpar jafnframt af sér allri ábyrgð á atburðrás sem hann var aðalleikari í, þ.e. hruninu. Gamli forsætisráðherrann gerir gott betur og lætur í veðri vaka að hann hafi verið hrópandinn í eyðimörkinni, sem varaði við og ekki var hlustað á!
Staðreyndin er sú að einkavæðingarsaga ríkisstjórna Íslands undir forystu Davíðs Oddsonar er nánast ein samfelld spillingarsaga.
Hæsta tilboði var t.a.m. ekki tekið í SR-Mjöl. Þess í stað var lægra tilboði Benedikts nokkurs Sveinssonar tekið í staðinn
Salan á Íslenskum aðalverktökum var dæmd ólögleg í Hæstarétti, en réttum upplýsingum um verðmæti félagsins var haldið frá kaupendum.
Salan á áburðarverksmiðjunni var gjöf en ekki gjald. Ríkið hefði fengið miklu mun meiri fjármuni fyrir eignina ef það hefði ákveðið að hætta starfseminni og selja eignirnar á markaðsvirði.
Í Rannsóknarskýrslu Alþingis kemur og fram að við sölu bankanna hafi áhugasömum kaupendum, sem lögðu fram hagstæðari tilboð en þau sem óreiðumennirnir gerðu, verið ýtt til hliðar. Einnig kemur þar fram að óreiðumennirnir hafi beinlínis verið handvaldir af þeim félögum; Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni. Samningar og fjármögnun á kaupum á bönkunum báru með sér, að málið var eitt skítamix. Kaupendur fengu lán í bönkunum sem þeir voru að kaupa og á daginn kom eftir hrun að nokkur hluti af lánunum var aldrei greiddur.
Það er eftir öðru að eftirmaður hans í stóli formanns Sjálfstæðisflokksins og helsti stuðningsmaður Davíðs í kosningabaráttunni, hefur tekið upp gömlu vinnubrögðin og sést það best á því ríkið var snuðað um 6 milljarða við ráðstöfum á Borgun til gamalla viðskiptafélaga fjármálaráðherra.
Það verður fróðlegt að sjá hve hátt hlutfall landsmanna muni kjósa ritstjóra þeirra sem þegið hafa einkaafnot af fiskimiðunum frá fjórflokknum.
Þeir sem kjósa Davíð finnst örugglega betra að gefa en að þiggja.