Miðvikudagur 11.01.2017 - 21:49 - FB ummæli ()

Smitaðist Viðreisn af lygakvillanum?

Það verður að segja Sjálfstæðisflokknum til hróss, að flokkurinn kemur hreint fram þegar hann ber fram sjávarútvegsstefnu sína. Stefnan er í stuttu máli að veita örfáum einstaklingum sérréttindi umfram aðra Íslendinga, til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Stefnunni er haldið að fólki með þeim áróðri að kerfið sé það besta í heimi og afrakstur þjóðarinnar af greininni hafi aldrei verið meiri. Sá áróður er auðvitað hrein vitleysa sem stenst enga skoðun, þar sem sjávarbyggðir hafa veikst, markaðir tapast og afli minnkað.

Viðreisn boðaði aftur á móti veigamiklar breytingar á kvótakerfinu fyrir síðustu kosningar og hélt því fram að breytingarnar væru lykillinn að því að bæta lífskjör landans.  Nú þegar formaður Viðreisnar er orðinn einn valdamesti maður landsins, þá er heldur betur komið annað hljóð í strokkinn.

Í Kastljósi kvöldsins þá hélt hann því fram að nær allir væru sammála um ágæti kvótakerfisins og mátti helst skilja á honum, að málið væri helst nú að gera einhverjar lítilsháttar breytingar á fyrirkomulagi á innheimtu auðlindagjalds. Satt best að segja þá hélt ég að formaður Viðreisnar hefði smitast að einhverju lygakvilla, sem virðist sækja á æðstu ráðamenn landsins þessi missirin, þegar hann greindi frá því að það hefði náðst einhver sigur til kerfisbreytinga í sjávarútvegi í stjórnarsáttmálanum!  Allir sem lesa stjórnarsáttmálann ætttu að sjá að hann er lítið annað en ástaróður til hræðilegs kvótakerfis og ekkert pönk þar að finna.

Og ekki verður sagt um nýskipaðan sjávarútvegsráðherra Viðreisnar, að hún sé að boða kerfisbreytingar, sem miða að því að tryggja jafnræði landsmanna við að nýta og njóta fiskveiðiauðlindarinnar.  Nú skömmu fyrir áramótin lýsti hún því gleið yfir á Útvarpi Sögu, að   helsti vandi kvótakerfisins væri gengamengi íslensku þjóðarinnar þ.e. áhrif öfundargensins, en alls ekki að það væri eitthvað mikið að kerfinu sjálfu!

Auðvelt er að gera sér í hugalund hvers vegna Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem fékk ríkulegar afskriftir finni frekar til samstöðu með útgerðaraðlinum en öfundsjúkum sauðsvörtum almúganum sem borgar brúsann.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur