Viðskiptaráð fór mikinn fyrir hrun og á mikla sök á því hve illa fór fyrir almenningi. Það var gert með því að láta semja falsskýrslur um raunverulega stöðu bankakerfisins og hvetja til þess að dregið yrði úr eftirliti með fjármálakerfinu.
Nú virðist vera kominn upp sami sperringur í ráðið sem leggur til að selt verði ofan af lögreglunni og þjóðminjar boðnar hæstbjóðandi.
Áður en farið er að eyða tíma í að svara efnislega tillögum ráðsins þá er rétt að fara yfir hverjir skipa 38 manna stjórn ráðsins sem sömdu frelsistillögur Viðskiptaráðs.
Í fríðum hópi er að finna forstjóra einokunarfyrirtækis sem hefur beitt óvönduðum ráðum til að berja niður alla samkeppni við smáfyrirtæki á borð við Örnu á Bolungarvík. Í hópnum eru fjölmargir stjórar sem fóru í þrot með sinn rekstur sem blásið hefur verið líf í með afskriftum og fjármagni úr lífeyrissjóðakerfi almennings.
Ef Viðskiptaráð hefði raunverulegan áhuga á að búa til tillögur um eðlilegra viðskiptalífs með heiðarlegum leikreglum, þá væri auðvitað fyrsta skrefið að breyta lífeyrissjóðakerfinu. Það að 15% af launveltu landsmanna fari inn í sjóði, þar sem fulltrúar stærstu fyrirtækjanna ráðskast með peningana, er ekki góð leið. Hún býður augljóslega upp á ómálefnalega ákvarðanatöku um fjárfestingar, minni samkeppni og frekari samþjöppunar atvinnulífsins.
Ef farið yfir er yfir 38 manna hópinn í viðskiptráðinu þá má skilja að slíka borðleggjandi tillögur komi ekki fram þar sem stærsti hlutinn stýra fyrirtækjum sem eru að stórum hluta í eigu sjóðanna eða er á beit í lífeyrissjóðum landsmanna.
Sú er ástæðan fyrir því að við sitjum uppi með vitleysistillögur á borð við sölu á fornminjum og að selt verði ofan af lögreglunni.