Laugardagur 01.07.2017 - 16:43 - FB ummæli ()

Umhverfisstofnun sett í ankannalega stöðu

Nýlega var haldin ráðstefna á Ólafsfirði um sjókvíaeldi. Á ráðstefnunni flutti m.a. sú færeyska  Marita Rasmussen, fróðlegt erindi um hvernig nágrannar okkar í Færeyjum drógu lærdóm af þeim hremmingum sem greinin rataði í, í byrjun aldarinnar.  Svo vel tókst til við endurskipulagninguna að fiskeldið hefur síðan blómstrað í Færeyjum. Sjókvíaeldi er svo sannarlega ekki ný atvinnugrein á Íslandi og ég sakna þess í umræðu um eldið á Íslandi hvernig á að  gera hlutina öðruvísi en áður, en saga sjókvíaeldis á Íslandi  er ekki án áfalla.

Erfitt er að átta sig á stefnu stjórnvalda, en á málþinginu á Ólafsfirði hélt Þorgerður Katrín sköruglega ræðu þar sem slegið var úr og í hvert stefndi. Það eina sem var nokkuð skýrt í málflutningnum var bæði kolrangt og kom málinu lítið sem ekkert við þ.e. sú fullyrðing ráðherra að vel hefði tekist upp við stjórn þorskveiða síðustu áratugina.  Staðreyndin er sú þorskaflinn er nú miklu minni en fyrir daga kvótakerfisins.  Ráðherra eða a.m.k. einhverjir af aðstoðarmönnum hennar ættu að vita betur.

Hverju þarf að breyta í regluverki sjókvíaeldis? Það er ljóst að Umhverfisstofnun er sett í þá ankannalegu stöðu að úthluta náttúruauðlindum án endurgjalds með útgáfu einfalds starfsleyfis á sviði mengunarvarna. Markmið starfleyfa Umhverfisstofnunar snúa eðlilega eingöngu að mengunarvörnum, en hafa í tilfelli fiskeldis orðið ígildi sérleyfis til nýtingar á standsvæða þjóðarinnar. Í Noregi eru umrædd sérleyfi verðlögð fyrir afar háar upphæðir. Umhverfisstofnun er lent í þeirri stöðu að taka að sér skipulagsvinnu sem snertir margvíslega þætti annars skipulags sveitarfélaga á borð við losun fráveituvatns og siglingaleiðir. Nýlegar breytingar sem gerðar voru í nafni einföldunar var að flytja eftirlit með mengunarvörnum fiskeldis frá Umhverfisstofnun og til Matvælastofnunar eru misheppnaðar.

Ef stjórnvöld vilja einföldun á regluverkinu og gera málsmeðferð skýrari þá er nærtækasta leiðin að færa skipulagsvald sveitarfélaga út á strandsvæði, þannig að þau geti boðið út nýtingu á ákveðnum svæðum þar sem eldi er leyfilegt, með ákveðnum skilyrðum.

Sömuleiðis þarf að efla umgjörð og mengunareftirlit með greininni.  Það er ekki einungis gert með því að auka fjármuni til þeirra verka. Það er ekki síður mikilvægt að  það komi fram  pólitískur stuðningur í þá átt líkt og núverandi umhverfisráðherra hefur látið í ljós.

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur