Laugardagur 15.07.2017 - 19:59 - FB ummæli ()

Jónsskatturinn

Ótrúlegt hefur verið að fylgjast með hugmyndaflugi ráðherra byggðamála, Jóns Gunnarssonar. Nýjustu hugðarefni hans hljóða á þá leið að skattleggja eigi allar leiðir út úr Reykjavík. M.ö.o. hyggst æðsti yfirmaður samgöngumála á Íslandi skattleggja alla þá sem vilja inn og út úr höfuðborginni.

Áhugavert væri að gera samanburð á því hve oft meðallandsbyggðarmaðurinn fer oft inn og út úr höfuðborginni samanborið við hinn almenna höfuðborgarbúa. Dettur einhverjum t.a.m. í hug  að borgarbúar neyðist jafnoft og landsbyggðarfólk þarf að gera  til þess að ferðast landshorna á milli að sækja sér læknisþjónustu? Ætla má, m.v. þann gífurlega mun á þjónustu sem boðið er upp á innan höfuðborgarinnar og utan hennar að landsbyggðarfólk þurfi að fara töluvert oftar til Reykjavíkur en Reykvíkingar út úr henni.

Ef hugmyndir ráðherra byggðamála ná fram að ganga leggst hinn nýi skattur Sjálfstæðisflokksins með margföldum þunga á landsbyggðarfólk. Auðsjáanlegt er einnig að ferðaskatturinn muni þjóna sem tvöföld skattlagning þar eð hann mun hafa áhrif á verðlag á vörum úti á landi, enda munu flutninga- og hópflutningabifreiðir væntanlega einnig verða gjaldskyldar. M.t.t. þessa má svo benda á að vöruverð er nú þegar talsvert hærra úti á landi en í höfuðborginni.  Skattahækkunin mun þá einnig verða frekari Þrándur í Götu uppbyggingar ferðþjónustunnar á landsbyggðinni.

Einhverra hluta vegna þá hef ég þá trú á Jóni Gunnarssyni; að hann vilji í hjarta sínu hinum dreifðu byggðum vel. Ef svo er í raun og veru þá ætti hann að gleyma þessum landsbyggðarskatti og, jú,  verða talsmaður aukins frelsis til fiskveiða hringinn í kringum landið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur