Laugardagur 19.08.2017 - 21:44 - FB ummæli ()

Karlmennskan í Barselóna

Það var mikið mannval í þættinum Vikulokunum á RÚV í dag, þann 19. ágúst.  Í þættinum voru aðstoðarmenn ráðherra, sérfræðingur sem hefur veitt íslenskum ráðamönnum ráðgjöf auk þáttarstjórnenda á Ríkisútvarpinu eða þau;  Snærós Sindradóttir, Andrés Jónsson, Ólafur Teitur Guðnason og Karl Pétur Jónsson.  Fyrirfram hefði mátt búast við yfirvegaðri og skynsamari umræðu um menn og málefni sem efst voru á baugi í liðinni viku.

Efst í huga álitsgjafanna var forseti BNA, vinaríkis Íslands og var bróðurparti þáttarins varið í að ræða Donald Trump. Í stað þess að það færi fram yfirveguð umræða, þá upphófst múgæsingur í hljóðverinu, þar sem forseti BNA var nefndur í sömu andrá og fasistar og minnt var á fjöldamorð nasista í seinni heimstyrjöldinni.  Gekk sefjunin í hljóðverinu svo langt að kallað var eftir bandarískt kerfi eða almenningur kæmu réttkjörnum forsetna BNA frá völdum „með einum eða öðrum hætti“, sem auðvelt er að skilja á versta veg.  Mér varð ekki um sel að heyra þessar yfirlýsingar fólks sem allt er nátengt æðstu ráðmönnum í einu friðsælasta ríki heims.

Umræðan í þættinum róaðist mjög þegar talið barst að hryðjuverkaárásum íslamista í Barselóna, en jafnframt varð hún vitlausari. Í stað þess að ræða augljósa rót vandans þ.e. hvernig megi ráðst gegn því að öfga íslamistar nái að spilla ungum múslimum, þá var kastljósinu beint að vanda ungra reiðra karlmanna almennt.    Það var látið að því liggja að það lægi einhver vafi á því hver kveikjan að hryðjuverkunum í Barselóna væri og kastljósinu jafnvel beint að vonleysi ungra karla í stórborgum Evrópu. Þeirri spurningu var jafnframt varpað fram áskandi út til íslensku þjóðarinnar – hvað við værum að gera rangt í uppeldinu sem samfélag!  Þessi bullkenning var síðan undirstrikuð með umræðu um sjálfsvíg ungra íslenskra karlmanna.

Það sem olli mér áhyggjum var niðurstaða opinberu álitsgjafanna. Hún var á þá leið að talsverð von væri á að alda hryðjuverka í Evrópu myndi linna, við það eitt að fjallað yrði minna um voðaverkin. Kenningin var á þá leið, að ef fjallað yrði minna um hryðjuverkin, þá yrði fólk síður hrætt, sem leiddi af sér minni hvata ungra reiðra karlmanna til þess fremja hryðjUverk.

Það að stinga hausnum í sandinn átti að leysa málið að sjálfu sér!

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur