Mér fannst vel fundið að Kastljósið tæki viðtal við nýjan umhverfisráðhera í kjölfar umræðu um hvort fyrrum framkvæmdastjóri Landverndar væri heppilegur í starfi umhverfisráðherra.
Nýliðinn í stjórnmálum Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra komst vel frá Kastljósþætti kvöldsins, þar sem hann lýsti sýn sinni á starfið. Hann greindi réttilega frá því að úrskurðir í deilumálum sem snúa að málaflokkum ráðuneytisins væru að miklu leyti komnir til óháðra úrskurðanefnda. Það að hann hafi unnið af harðfylgni í starfi á vegum áhugamannnafélags um náttúruvernd ætti að gefa til kynna að hann geti tekið til hendi, en alls ekki að hann virði í engu andstæð sjónarmið.
Það er ekki úr vegi að RÚV haldi áfram umfjöllun um augljósa hagsmunaárekstra ráðherra og láti ekki staðar numið við nýliðann Guðmund Inga. Nokkuð hefur borið á efasemdum um hvort fyrrum stjórnarformaður Samherja sé heppilegur í stóli sjávarútvegsráðherra. Fyrir vestan hefur hann verið borinn þeim sökum að hafa misnotað aðstöðu sína sem bæjarstjóri á Ísafirði til þess að koma Guggunni gulu til Samherja.
Efst á blaði ætti auðvitað að vera hjá RÚV að taka til umfjöllunar hvernig tryggja megi að almenningur standi við sama borð viðskiptafélagar og fjölskyldufyrirtæki fjármálaráðherra þegar komið er að samningagerð við hið opinbera. Með öðrum orðum hvernig koma megi í veg fyrir ný Borgunarmál.