Í Sveitarfélaginu Skagafirði blossaði óvænt upp heit umræða um framtíð verðlaunaðs Byggðasafns Skagfirðinga. Umræður fóru fram um málið á sveitarstjórnarfundi í dag. Umræðan var bæði afar kurteis og málefnaleg, enda bera allir fundarmenn með tölu hag sveitarfélagsins mjög fyrir brjósti. Eina skuggann sem bar á fundinn var óvænt upphlaup sveitarstjóra í lok fundar sem ég vonast til að jafni sig á næstunni.
Einróma niðurstaða sveitarstjórnarfundarins var að fresta afgreiðslu samninga við Sýndarveruleika ehf. og sömuleiðis óljósum samningi við hugbúnaðarfyrirtæki um; stjórnun, hönnunarvinnu og ráðningu verktaka auk samningagerðar á vegum sveitarfélagsins.
Það er ljóst að meðferð málsins hingað til hefur algerlega stangast á við 103 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sem segir til um skyldu sveitarstjórna til að upplýsa íbúa um mál sem hafa verulega fjárhagslega þýðingu og langtíma skuldbindingar fyrir sveitarfélagið. Ef ekki verður brugðist við lagalegri skyldu um að upplýsa íbúa um fjárhagslegar byrðar og ívilnanir sem framangreindir samningar hafa í för með sér, þá er nauðsynlegt að óska eftir aðkomu æðri stjórnvalda. Sagan af langtíma leynilegum samningum sveitarfélaga sem tíðkuðust á Reykjanesi, hræðir óneitanlega.
Það leikur einnig verulegur vafi á því að samningarnir séu í samræmi við 65. gr. sveitarstjórnarlaga sem fjalla um ábyrga meðferða fjármuna. Í greininni segir að sveitarfélögum sé óheimilt að fjárfesta í hagnaðarskyni nema þeim sé falið það lögum samkvæmt, en með þeirri undantekningu þó að ef um brýna samfélagslega hagsmuni sé að ræða. Ég held að flestir Skagfirðingar séu mér sammála um að það sé brýnna að reka byggðasafn en sýndarveruleikasýningu.
Hver svo afstaða fólks er til Byggðasafnsins eða sýndarveruleikasýninga, þá gefur frestunin kost á dýpri umræðu um málið og skýru áliti sveitarstjórnarráðuneytisins, sem er vel.