Sunnudagur 03.06.2018 - 21:25 - FB ummæli ()

Tárast vegna Vg

Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með vinum mínum í VG, sem ég studdi dyggilega í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Skagafirði, fylkja sér í vörn fyrir allra ríkasta fólk Íslands, útgerðaraðalinn. Flokkurinn leggur nú höfuðáherslu á að lækka álögur á auðmenn í sjávarútvegi. Helsta skýringin sem forystumenn Vg gefa á undarlegri afstöðu sinni, er sú að minni útgerðir standa höllum fæti. Það er vissulega rétt að minni útgerðir sem settar eru í þá undarlegu stöðu að leigja rétt til að nýta sameiginlega auðlind landsamanna af kvótagreifum, standa afar illa. Í stað þess að jafna samkeppnisstöðu smærri og stærri útgerða, þannig að þær standi jafnar að því að nýta sameiginlega auðlind landsamanna, þá vilja þingmenn Vg lækka skatta jafnt á auðmenn sem leiguliða. Það er augljóst hvor hópurinn fær stærri sneið af þessari gjöf!
Það  er furðulegt að hlusta á þingmann eins og Kolbein Óttarsson Proppé sem ætti að þekkja kröpp kjör, slá um sig í Vikulokunum á RÚV, með fullyrðingum um að útgerðin þurfi að hafa mun hærri EBITDA en aðrar atvinnugreinar, þar sem hún þurfi að fjárfesta svo mikið. Vel að merkja EBITDA er hagnaður að frátöldum afskriftum, vöxtum  og sköttum. Með öðrum orðum, það er búið að borga allar fjárfestingarnar  og veiðileyfagjaldið sem Kolbeinn hafði svo miklar áhyggjur af. Líklegast hefði besta málsvörn hans og Vg verið sú að flokkurinn sé hlyntur brauðmolakenningunni. Ef VG styður brauðmolakenninguna sem gengur út á mikilvægi þess að hinu ríku verði enn ríkari, þar sem að þá munu brauðmolar af gnægtarborðum hinna ríku sáldrast niður til okkar aumingjanna, þá er það eins og það er, en kemur eflaust ýmsum kjósendum flokksins á óvart.
Ég er sorgmæddur yfir þessu öllu saman og hugur minn er hjá kjósendum flokksins sem varla vissu að VG færi fyrir stefnu sem er örlítið hægra megin við stefnu Trumps í efnahagsmálum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurjón Þórðarson
Líffræðingur og sveitarstjórnarmaður á Sauðárkróki.
RSS straumur: RSS straumur