Miðvikudagur 8.12.2010 - 09:50 - FB ummæli ()

Vanhæf ríkisstjórn

Vanhæfni þessarar ríkisstjórnar er alveg með eindæmum og nýjustu tillögur um hvernig á að leysa skuldavanda heimilanna eru enn eitt dæmið um það. Þar er einfaldlega um að ræða einhvern lokakafla í leikriti sem hófst daginn eftir mótmælin 4. október þegar kallað var eftir samráði við stjórnarandstöðu og Hagsmunasamtök heimilanna, samráð sem þegar upp var staðið var bara til málamynda. Þegar ríkisstjórninnni var bent á að skýrsla reiknimeistaranna vantaldi skuldir heimilanna um 1/3 eða sjö hundruð milljarða var einfaldlega hætta að bjóða okkur að borðinu. Ríkisstjórnin hefur gefist upp gagnvart fjármagninu og embættismönnunum og það sérhagsmunabandalag ríkisstjórnarflokka og fjármagns sem var við lýði fyrir hrun hefur verið endurreist. Það hefur að vísu verið skipt um kennitölu á ríkisstjórninni og VG teknir inn í stað Sjálfstæðisflokks en það hefur ekki breytt neinu.

Í tilefni lokasýningarinnar á föstudaginn var forsætisráðherra í viðtali við Hallgrím Thorsteinsson á Rás 2 þar sem hún einfaldlega lýsti því yfir að ekki væri hægt að ætlast til að hér á landi ríkti réttlæti, Hún sagði orðrétt:

“Ég held að í þessu skelfileg hruni sem þjóðin varð fyrir þá sé aldrei hægt að tala um neinn jöfnuð eða réttlæti ég held bara að við stöndum frammi fyrir því.”

Það er að sjálfsögðu einsdæmi að forsætisráðherra í lýðræðisríki tali með þessum hætti og þar sem hún hefur nú greinilega gefist upp er það sjálfsögð og eðilileg krafa að hún fari frá. Þetta fólk hefur misfarið með og þar fyrirgert því umboði sem það fékk í síðustu kosningum.  Ég minntist aðiens á þetta í þinginu í gær, sem má sjá  hér.

Umræðan um fjárlögin heldur áfram í dag og þar kemur enn betur í ljós hvers konar áframhald hrunstjórnarvinnubragða er að ræða.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.12.2010 - 15:13 - FB ummæli ()

ICESAVE samkomulag?

Enn eitt leikritið af hálfu ríkisstjórnarinnar er nú hafið.  Icesave leikritið, þriðji þáttur, hefur hafist með tilheyrandi spuna og lekum í fjölmiðla og þrýstingi  bak við tjöldin á t.d. Samtök atvinnulífsins sem eiga að snúa upp á hendur þingmanna Sjálfstæðisflokksins til að samþykkja nýjan Icesave samning.

Það sanna í málinu er að það hefur ekkert samkomulag verið gert við stjórnarandstöðuna um lyktir málsins og engin drög að samningi hafa verið kynnt. Það sem var gert fyrir um tveimur vikum var að spurt var hvort stjórnarandstaðan væri nokkuð mótfallin því að haldið yrði áfram viðræðum á forsendum sem legið hafa fyrir síðan í ágúst/september.  Forsendurnar eru mjög óljósar og allar tölur mjög á reiki þó sýnt sé að samningur, ef næðist, yrði til mikilla muna betri en Svavars- og Steingrímssamningarnir. Það liggur hins vegar ekkert fyrir um niðurstöðu.

Hvað svo sem verður þá er einsýnt að ekki er hægt að velta meiri álögum yfir á almenning í landinu og hver svo sem niðurstöðutölur verða, þá munu það verða hin áhugasömu Samtök atvinnulífsins og Samtök fjármálafyrirtækja sem þurfa að sannnfæra sín aðildafélög um að þau þurfi að borga brúsann.  Ef Icesave samningi fylgir útspil fjármálaráðherra um tímabundinn skatt á fjármálafyrirtæki til að standa undir kostnaði vegna Icesave, þá og þá fyrst má fara að velta málinu fyrir sér af einhverri alvöru. Vonandi ber fjármálaráðherra gæfu til að skilja það, en það er þó ekki líklegt.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.11.2010 - 18:40 - FB ummæli ()

Sameiningar flokka

Það gæti dregið til tíðinda á okkar guðsvolaða pólitíska fjórflokkavetttvangi áður en langt um líður og áframhaldandi illdeilur innan VG munu fyrr eða síðar leiða til þess.  Augljóst er að afrakstur flokksráðsþingsins um daginn leiddi til þessa eins að báðir armarnir flokksins töpuðu.  Varaformaðurinn Katrín Jakobsdóttir er á leið út, með stæl, enda virðist mér sem þessi leðjuslagur sem stjórnarsamstarf VG og Samó eru í ekki beint vera tebolli að hennar skapi, eins og sagt er.  „Kettirnir“ svo kölluðu halda uppi andófi gegn forystunni sem farið hefur með flokkinn langt af braut stefnuskrárinnar og stjórnarsáttmálans en fjórhjólið undir formanninum (ÁI, ÁÞS, BVG og ÞB) keyrir áfram á fullri ferð með bundið fyrir augun.

Nú þegar forystan hefur skipt um stefnu í varnarmálum er ekki mikið eftir sem skilur VG frá Samfylkingunni.  Rétt er að rifja upp að stóra málið sem út af stóð þegar reynt var að sameina Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkinn var afstaðan til herstöðvarinnar í Keflavík og vera Íslands i NATÓ og það mál varð til þess meira en nokkurt annað, að Steingrímur Joð og félagar stofnuðu VG. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið með stuðningi þessa fólks að standa fyrir eldflaugavarnarkerfi í Evrópu sem mun fljótlega taka á sig mynd hins geggjaða geimvarnarkerfis sem Rónald Reagan óraði svo um.  Það er e.t.v. hlálegt að þessi stuðningur virðist ákveðin meira og minna einhliða af tveimur ráðherrum og án aðkomu Alþingis og sýnir svo ekki verður um villst að starfhættir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar hugnast fleiri þingmönnum og þingflokkum en ég hafði áður reiknað með.

Umhverfisstefna VG virðist einnig að meginhluta vera horfin þar sem Magma málið gerði útslagið og flokknum virðist ekki unnt að koma að neinu marki í gegn umhverfis- og auðlindastefnu sem væri í samræmi við markmið flokksins, heldur er það Samfylkingin sem í gegnum iðnaðarráðuneytið sem virðist ráða ferðinni.

Efnhagsmálin eru í klassískum farvegi sem hvaða hægri stjórn sem er gæti verið stolt af og fjármagnseigendur eru ennþá við völd og að mér sýnist í sama mæli og fyrir hrun,á meðan formaður VG setur kíkinn fyir blinda augað.  Fjárlögin og skattahækkanirnar sem fyrirhugaðar eru, eru að miklu leiti alveg í samræmi við frjálshyggju hagfræðina sem áður réði hér ríkjum þar sem skattaálögur eru færðar til frá sérhagsmunahópum og yfir á almenning, nú undir yfirskyni umhverfisverndar s.s. minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda.

Miðað við þessa stöðu virðist mér heiðarlegast af þessu fólki að klára málið sem fyrst.  SJS verður hvort eð er sendiherra síðustu árin fyrir eftirlaun og óþarfi að bíða með það lengur, ÁÞS og ÞB myndu sóma sig vel í Samfylkingunni, hin harðduglega ÁI yrði ágæt ráðuneytisstjóri og  BVG færi aftur á sjóinn eða til LÍÚ.  „Kettirnir“ yrðu þinghópur óháðra og þau sem eftir eru (LRM, SS og ÞB) munu örugglega passa einhversstaðar inn.  Samhliða þessu færi best á því að Össur yrði gerður að formanni Samfó og ÁÞS að varaformanni. Restin af þeim flokki er svo að mestu auðnin ein og verður því áfram leiðitamur.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.11.2010 - 21:54 - FB ummæli ()

Stjórnlagaþing

Það er merkur dagur í sögu lýðveldisins og lýðræðisins á Íslandi að renna upp. Sjálfur endaði ég með um 65 frambjóðendur sem fækkaði svo niður í um 35 og enn þarf að kveðja nokkra. Verð að viðurkenna að mér finnst þetta alveg hreint frábært fyrirbæri. Það er yfirdrifið framboð af mjög frambærilegu fólki til að kjósa og það hef aldrei upplifað fyrr í kosningum.  Hér er verið að brjóta blað í lýðræðisumbótum og persónukjörsaðferðin þar sem kjósendur sjálfir fá að ráða hvar þeir staðsetja fólk á listann, hlýtur að verða notuð í næstu kosningum til Alþingis. Að vísu eru ekki allir þingmenn því hlynntir enda miðstýringaráráttan og sérplægnin rík hjá þeim mörgum en við munum ræða persónukjörsfrumvarpið í Allsherjarnefnd strax í upphafi desember og verður fróðlegt að sjá hvað það kemst langt. Fékk í dag lista frá íhaldinu yfir „æskilega“ frambjóðendur sem vilja ekki breyta stjórnarskránni.  Það er ekki að Sjálfstæðismönnum að spyrja, skirrast ekki einu sinni við að reyna að höggva í stjórnlagaþingið. Flokkurinn sem hefur meira og minna rústað íslensku efnahagslífi.  Jæja, listinn er alla vega nothæfur til útstrikana.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig stjórnlagaþingið mun vinna. Forsætisnefnd Alþingis á samkvæmt lögunum um stjórnlagaþingið að setja því starfsreglur og fyrstu drögin sem við höfum séð benda til þess að Alþingi eigi ekki  auðvelt með að sleppa takinu.  Starfsreglurnar verða endurskoðaðar eftir að fjöldi athugasemda barst og það skýrist vonandi fljótlega eftir helgina hvort Alþingi mun treysta stjórnlagaþinginu til þeirra verka sem það er kjörið til, eða reyna að hafa áhrif þar á. Hver sem er getur sent inn tillögur til stjórnlagaþingsins og það mun ég svo sannarlega gera og hvet alla til að kynna sér efni um stjórnarskrár á vef stjórnlagaþingsins www.stjornlagathing.is

Hvað um það, á morgun er hátíð og vonandi tekst vel til með framhaldið. Mætum öll og kjósum. Lifi lýðræðið.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.11.2010 - 16:43 - FB ummæli ()

Blinda Vinstra augað

Það er þekkt aðferð frá tímum Nelsons flotaforingja að setja kíkinn á blinda augað til að geta sagst með sanni ekki séð sannleikann.  Enn og aftur er á Smugunni (Vefþjóðvilja vinstri manna) á ferð skríbentinn úr skrímsladeild VG sem kallar sig Vinstra augað.  Skríbent sem hefur eins og flestir aðrir VG liðar verið með vinstra augað lokað frá því að formaður þeirra skipti um föt við Davíð Oddsson, eftir að hafa staðið í skugga hans í nær tuttugu ár. Ég hef nýlokið við að gagnrýna Vinstra augað ásamt öðrum fyrir að brigsla mótmælendum og Hreyfingunni um fasisma en Ármann heldur því miður upteknum hætti sem einhvers konar lærisveinn Richards Nixon fyrrverandi forseta bandaríkjanna sem hikaði ekki við að ata meinta andstæðinga auri með viðkvæðinu „Let them deny it.“   Enn á ný eru mótmælendur atyrtir og kallaðir öfgamenn og leiksoppar Davíðs Oddsonar og Hreyfingin er í einhverju mjög einkennilegu hlutverki þar sem Ármann horfir algerlega fram hjá því að við erum ekki að biðja um stjórn Hreyfingarinnar heldur utanþingsstjórn eða kosningar.  Engu líkara er að óveður samsæriskenninga og vænissýki geisi nú í höfðum margra vinstri manna.  Vel getur verið að Vinstra augað viti ekki hvað utanþingsstjórn sé né hvernig henni verður komið á og greinilegt er að honum er uppsigað við kosningar, en við bara bendum honum aftur  á þær tillögur.  Þess má svo geta að auki að á opnum fundi Hreyfingarinnar í þar-síðustu viku var borin upp tillaga um undirskriftarsöfnun til forseta Íslands um utanþingsstjórn.  Tillagan var borin upp af VG-liða sem verið hefur í framvarðarsveit VG frá upphafi en fengið sig fullsaddann af alræði formannsins og svikum við stefnuskrána.

Nú hefur Ármann fundið sér nýjan óvin, hættulegan öfgahóp sem kallast Hagsmunasamtök heimilanna, samtök sem hafa starfað vel á annað ár í sjálboðaliðastarfi við að benda á að skuldavandi heimilanna er sennilega mesta efnahagsváin sem Ísland stendur frammi fyrir.  Í öllu sínu starfi hafa Hagsmunasmtök heimilana lagt fram vandaða útreikninga og vel ígrundaðar tillögur sem stjórnmálamenn úr öllum flokkum hafa tekið undir, þ.á.m. fjölmargir þingmanna VG.  Hann gerir hins vegar lítið úr málflutningi þeirra sem hann kallar fimbulfamb um eignatilfærsu og forsendubrest en þar er kíkirinn enn aftur settur fyrir blinda vinstra augað því stórfelld eignatilfærsla er einmitt staðreynd og hefur verið fylgifiskur í öllum fjármálakreppum þar sem stjórnvöld hafa fylgt stefnu AGS.  Forrsendubresturinn er einnig til staðar þar sem hvoru tveggja glæpsamleg háttsemi fjármálafyrirtækja (sem lántakendur gátu ekki vitað um), og samspil stjórnvalda og eftirlitsstofnana með athæfinu (sem lántakendur gátu heldur ekki vitað um) gerðu það að verkum að allar forsendur fólks fyrir lántökum voru í raun upplognar af hálfu lánveitenda og stjórnvalda.  Á mannamáli heitir þetta að svindla og blekkja og hluti af þessari starfsemi hefur þegar verið dæmdur ólöglegur af hæstarétti.  Af hógværð sinni hafa Hagsmunasamtök heimilanna lagt til að miðað verði við efri vikmörk verðbólguspár Seðlabankans við endurútreikning verðtryggðra lána, þannig að forsendubresturinn skiptis jafnt á lántakendur og lánveitendur og að sett verði þak á upphæðina.  Þetta eru hins vegar öfgar að mati Vinstra augans, enda kannski ekki furða þar sem það hefur lengi verið blint og sér ekki veruleikann í þessu frekar en öðru.

Því miður er Ármann ekki eini maðurinn í VG hvers formaður flokks hefur algerlega byrgt sýn og Davíð Oddson hafði nákvæmlega sömu áhrif á sinn flokk.  Þetta í sjálfu sér væri ekki tiltökumál (leiðtogadýrkun er mörgum töm) nema að því leitinu að það er restin af þjóðinni sem situr upp með afleiðingarnar.  Í janúar 2009 töldu menn að það væri til staðar á Alþingi valkostur við Hrunstjórnina, valkostur sem birtist svo í minnihlutastjórninni og síðan eftir kosningar í núverandi stjórn.  Nú hefur komið í ljós að farið hefur verið úr öskunni í eldinn, að núverandi stjórn er engu skárri og að samasem merki er milli formanns VG og fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins.  Valkosturinn er ekki fyrir hendi lengur og þar sem núverandi stjórnvöld, Fjórflokkurinn og Alþingi hafa sýnt fram á að þau ráða ekki við vandann er beðið um utanþingsstjórn eða kosningar.  Þannig tekst kannski að leysa brýnasta vandann.  Langtímavandinn er því miður miklu stærri og flóknari en þar eru m.a.  þeir sem skáka í skjóli æðstu menntastofnana landsins sem fræðimenn, en kjósa samt endurtekið að setja kíkinn fyrir blinda augað.  Þar er Ármann ekki einn á ferð en þar hefur hann, eins og dáður formaður hans og sumir kollegar, tileinkað sér vinnubrögð sem eru ósæmileg.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.11.2010 - 13:49 - FB ummæli ()

„Fasistarnir“ á Austurvelli

Gerð var hörð atlaga fyrirfram að fyrirhuguðum mótmælum sem voru boðuð á Austurvelli s.l. fimmtudag.  Í því skyni virðast skrímsladeildir Samfylkingar og Vinstri-grænna hafa verið virkjaðar sem aldrei fyrr og ólíklegasta fólk sem skrifar í fjölmiðla og á Netið spyrti saman alls konar fyrirfram gefnar hugmyndir, bætti í hreinum ósannindum og reyndi að klína á mótmælendur.

Þau sem voru áhugaverðust í áróðrinum voru Ármann Jakobsson bróðir menntamálaráðherra, Jónas Kristjánsson fyrrum ritsjóri DV og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir ritstjóri Smugunnar.  Áhugaverðust segi ég vegna þess að ég sjálfur hef alltaf talið þetta fólk skynsamt og hafið yfir vafa hvað varðar fagmennsku og heiðarleika í opinberri umfjöllun.  Í færslum og greinum sínum undanfarna daga hafa þau hins vegar verið með slíkar ávirðingar á fólkið sem kemur til mótmæla að engin dæmi eru um annað eins.  Ekki einu sinni sjálfstæðismenn töluðu svona um mótmælin í janúar 2009, en öll þrjú gerðu sig sek um að tala af lítilsvirðingu og vanþekkingu um kröfur mótmælenda og bendluðu þá svo að auki við fasisma.  Greinar Ármanns, Jónasar og Þóru fóru sem eldur um sinu á bloggsíðum og fésbókarsíðum Samfylkingar og VG-liða og var það sértaklega sárgrætilegt í tilfelli Ármanns, Þóru og VG vegna þess að það voru einmitt mótmælendur, mikið til þeir sömu og nú, sem komu fyrri ríkisstjórn frá og VG til valda.  Þá var Ármann ánægður en nú kallar hann mótmælendur hryðjuverkamenn og kröfurnar fasisma.

Fyrir okkur í Hreyfingunni hefur verið dapurlegt að sjá hvernig þau hafa líka reynt að tengja Hreyfinguna við fasisma því tillögur okkar um utanþingstjórn eða kosningar eru fyllilega í samræmi við stjórnarskrána og íslenska stjórnskipan og það hefur verið Hreyfingin (áður Borgarahreyfingin) sem hefur mest allra haldið á lofti kröfunni um lýðræðisumbætur.  Á Alþingi höfum við linnulítið talað fyrir persónukjöri sem Samfylking og VG hafa svikið kjósendur um og við höfum í tvígang flutt frumvörp um þjóðaratkvæðagreiðslur sem hafa verið stöðvuð í Allsherjarnefnd af meirihlutanum þar (já Samfó og VG).  Tillögur okkar byggjast ekki síst á því að það Alþingi sem nú situr er ófært um að leysa úr brýnustu vandmálum samtímans og fyrirgerði algerlega trúverðugleika sínum í atkvæðagreiðslunni þann 28. september síðastliðinn þegar 23 þingmenn úr stuðningsliði Hrunstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, þ.á.m. sjálfur forseti Alþingis, greiddu atkvæði og fríuðu samstarfsfólk og vini ábyrgð og höfnuðu því að gera Hrunið upp.  Ekkert af þessu skiptir þríeykið að ofan hins vegar minnsta máli þegar kemur að því að verja völdin og fasista stimpli skal á þau klínt, alveg sama hvað. 

Ekki veit ég hvaða óveður geisar í höfðum þessa þríeykis og dreifingaraðila þeirra en ég tók saman nokkrar fréttir af mótmælunum á fimmtudaginn og tel rétt að lesendur sjálfir ákveði hvort hér sé um fasista og hryðjuverkamenn að ræða.

Sjá hér frá Mbl.is  sjá hér úr kvöldfréttum Stöðvar 2 (3,20 mín. inn í fréttatímann) og hér úr Kastljósi RÚV

Ég læt svo fylgja með til upprifjunar tillögur Hreyfingarinnar um utanþingsstjórn eða kosningar.  Fyrst fer afrit af skeyti sem var sent til forsætisráðherra og formanna allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.  Síðan fylgja tillögur okkar.

Ágæta Jóhanna Sigurðardóttir,  formaður Samfylkingarinnar

Meðfylgjandi er tillaga þingmanna Hreyfingarinnar að myndun neyðarstjórnar.  Tillagan hefur verið send forseta Íslands, hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, með beiðni um fund.

Tillagan er lögð fram vegna þess að okkur þykir einsýnt að hvorki innan ríkisstjórnarinnar né stjórnarflokkanna ríki einhugur né raunverulegur vilji  til almennra aðgerða í þágu heimilanna. Tíminn er á þrotum og samfélagið getur ekki verið í biðstöðu á meðan stjórnvöld og fulltrúar peningaaflanna koma sér saman um að hve litlu leyti þau komist upp með að bæta almenningi þær búsifjar sem þessir sömu aðilar áttu stóran þátt í að skapa eða hefðu getað fyrirbyggt.

Við lítum svo á að okkur beri skylda til að fylgjast áfram með gangi mála og reyna að tryggja hagsmuni almennings.  Við munum því taka þátt í starfi ráðherra og viðræðuaðila áfram þó við höfum miklar efasemdir um að raunverulegur vilji til að koma til móts við þarfir skuldsettra heimila liggi að baki þeim.

 Bestu kveðjur, þingmenn Hreyfingarinnar.

Neyðarstjórn eða kosningar

Yfirlýsing frá þingmönnum Hreyfingarinnar

Sú mesta efnahagsvá sem samfélaginu stafar hætta af í dag er skuldavandi íslenskra heimila.  Undanfarna viku hafa þingmenn Hreyfingarinnar tekið þátt í fjölda samráðsfunda með ráðherrum ríkisstjórnarinnar, öðrum þingmönnum og hagsmunaaðilum til að kanna hvort raunverulegur vilji sé til að leysa málin. Þrátt fyrir að fyrir liggi leiðir til lausnar sem gagnist mjög skuldugum heimilum án kostnaðar fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur, er ríkisstjórnin ekki fær um að leysa úr málinu með sanngjörnum og réttlátum hætti. Ríkisstjórnin hefur nú endanlega sýnt að hún getur ekki stjórnað landinu með almannahag að leiðarljósi og hlýtur því að vera komin að leiðarlokum.

Vegna þeirrar alvarlegu stjórnarkreppu sem nú ríkir og útilokað er að Alþingi geti leyst,  leggja þingmenn Hreyfingarinnar fram eftirfarandi tillögur sem lúta að tímabundinni neyðarstjórn landsins (þingmanna og/eða utanþingsmanna) í stað núverandi ríkisstjórnar samkvæmt eftirfarandi forskrift.

1)      Forsætisráðherra skilar inn umboði sínu til forseta Íslands.

2)      Forseti Íslands kannar hvort þingmeirihluti sé fyrir því að verja slíka neyðarstjórn vantrausti verði henni komið á.

3)      Sé slíkur meirihluti ekki fyrir hendi verði boðað til Alþingiskosninga.

4)      Sé slíkur meirihluti fyrir hendi gerir forseti Íslands tillögu að neyðarstjórn. Tillaga forseta Íslands getur annað hvort falist í uppástungu að forsætisráðherra sem velji sér samráðherra eða tillögu að öllum ráðherrum slíkrar ríkisstjórnar.

5)      Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tillögu forseta Íslands að neyðarstjórn. Kosið verði um neyðarstjórnina í heild sinni. Verði henni hafnað verið boðað til Alþingiskosninga.

6)      Verði tillagan samþykkt starfar neyðarstjórnin þangað til stjórnlagaþing hefur lokið störfum og Alþingi afgreitt frumvarp um nýja stjórnarskrá. Að því loknu verði boðað til Alþingiskosninga.

7)      Neyðarstjórnin skal fá til liðs við sig færustu sérfræðinga. Í störfum sínum notist neyðarstjórnin við þjóðaratkvæðagreiðslur til að skera úr um brýn ágreiningsmál.

Verkefni neyðarstjórnar yrðu m.a.:

a)      Setning neyðarlaga til að leysa bráðavanda skuldsettra heimila sem taki m.a. mið af tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna.

b)      Opinber lágmarks framfærsluviðmið.

c)      Fjárlög.

d)      Lýðræðisumbætur.

e)      Endurskoðun á samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Reykjavík, 14. október 2010,
Baldvin Jónsson
Birgitta Jónsdóttir
Margrét Tryggvadóttir
Þór Saari

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.10.2010 - 13:17 - FB ummæli ()

Veðurspá Kvennafrídagsins

Í tilefni dagsins og þeirri nepju sem úti er er hér birt  ný veðurspá  fyrir kvöldið frá Veðurstúlkunum frægu.  Til hamingju með daginn konur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.10.2010 - 12:18 - FB ummæli ()

Leikritinu lokið, 9% traust.

Jæja, þá er tíu daga leikriti Jóhönnu Sigurðardóttir og Steingríms J. Sigfússonar lokið.  Það hófst daginn eftir mótmælin miklu 4. október þegar þau báðu stjórnarandstöðuna um aðstoð við að finna leiðir út úr vandanum og endaði í gærkvöld með yfirlýsingu Jóhönnu um að það standi ekki til að Ísland verði samfélag réttlætis og sanngirni.  Í millitíðinni vildum við leggja okkar af mörkum, fannst ábyrgðarlaust að mæta ekki á fundina þó að við hefðu litla trú á að þau raunverulega meintu það sem þau sögðu.  Sátum sex fundi með „fimm-ráðherra hópnum“ og tvo þrjátíu manna fundi á stóra sviðinu í Þjóðmenningarhúsinu.  Alveg frá upphafi óskaði ég eftir að ríkisstjórnin setti fram stefnu í málinu og hvernig hún hygðist leysa það en fékk í staðinn boð á næsta fund.    „Sérfræðingahópurinn“ er bara skipaður til að vinna tíma með von um að málið gleymist.  Það er þrautreynd leið óheiðarlegra stjórnmálamanna og tókst m.a. í Magma málinu.  Þrátt fyrir að tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna fari rækilega yfir alla þætti málsins og útfærslurnar líka og að engin málefnaleg rök kæmu fram gegn þeim mun ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis áfram ganga erinda fjármagnseigenda og láta heimilin blæða fyrir skuldir sem þau ættu ekki að borga.

Það er ömurlegt að verða vitni að því þegar stjórnvöld þjóðar fara fram með slíkum hætti og skipulega setja á svið blekkingarleik sem kostar tíma og peninga sem betur væri varið í annað.  Það er ömurlegt að sitja með fólki á fundum sem talar tungum tveim, ekki bara stundum heldur oftar en ekki.  Það er ömurlegt að sjá hvað völdin gera fólk siðblint og forherðir það í því að halda völdum.  Í þessu máli hefur þó einn staðið upp úr heill, óskiptur og heiðarlegur og það er Ögmundur Jónasson sem á öllum fundum talaði af ákafa fyrir almannahagsmunum og var jafnvel harðorður við samráðherra sína. En hinir ráðherrarnir sem og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem einnig sótti suma þessara funda voru staðráðin í því að hunsa tillögur Hagsmunasamtakanna frá fyrsta degi.

Leikritinu er lokið og í gær kom einnig fram að einungis níu prósent þjóðarinnar bera traust til Alþingis.  Svo það sé á hreinu þá tilheyri ég hinu 91 prósenti.  Alþingi sem situr í trausti níu prósenta þjóðarinnar er algerlega umboðslaust og á að sjálfsögðu að víkja strax.  Annað er bara algert rugl og ber keim af valdaráni.  Það skiptir engu máli þótt nýtt þing hafi verið kosið fyrir aðeins 18 mánuðum, það hefur algerlega glatað umboði sínu og það hraðar en nokkurt Alþingi í sögunni.

Ekki veit ég hvað Tunnuhersingin gerir en við í Hreyfingunni lögðum fram eftirfarandi tillögur á fimmtudaginn.  Vonandi ná þær fram því ekkert, ekkert er býnna en að losna við núverandi ríkisstjórn.

Neyðarstjórn eða kosningar

Yfirlýsing frá þingmönnum Hreyfingarinnar

Sú mesta efnahagsvá sem samfélaginu stafar hætta af í dag er skuldavandi íslenskra heimila.  Undanfarna viku hafa þingmenn Hreyfingarinnar tekið þátt í fjölda samráðsfunda með ráðherrum ríkisstjórnarinnar, öðrum þingmönnum og hagsmunaaðilum til að kanna hvort raunverulegur vilji sé til að leysa málin. Þrátt fyrir að fyrir liggi leiðir til lausnar sem gagnist mjög skuldugum heimilum án kostnaðar fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur, er ríkisstjórnin ekki fær um að leysa úr málinu með sanngjörnum og réttlátum hætti. Ríkisstjórnin hefur nú endanlega sýnt að hún getur ekki stjórnað landinu með almannahag að leiðarljósi og hlýtur því að vera komin að leiðarlokum.

Vegna þeirrar alvarlegu stjórnarkreppu sem nú ríkir og útilokað er að Alþingi geti leyst,  leggja þingmenn Hreyfingarinnar fram eftirfarandi tillögur sem lúta að tímabundinni neyðarstjórn landsins (þingmanna og/eða utanþingsmanna) í stað núverandi ríkisstjórnar samkvæmt eftirfarandi forskrift.

1)      Forsætisráðherra skilar inn umboði sínu til forseta Íslands.

2)      Forseti Íslands kannar hvort þingmeirihluti sé fyrir því að verja slíka neyðarstjórn vantrausti verði henni komið á.

3)      Sé slíkur meirihluti ekki fyrir hendi verði boðað til Alþingiskosninga.

4)      Sé slíkur meirihluti fyrir hendi gerir forseti Íslands tillögu að neyðarstjórn. Tillaga forseta Íslands getur annað hvort falist í uppástungu að forsætisráðherra sem velji sér samráðherra eða tillögu að öllum ráðherrum slíkrar ríkisstjórnar.

5)      Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tillögu forseta Íslands að neyðarstjórn. Kosið verði um neyðarstjórnina í heild sinni. Verði henni hafnað verið boðað til Alþingiskosninga.

6)      Verði tillagan samþykkt starfar neyðarstjórnin þangað til stjórnlagaþing hefur lokið störfum og Alþingi afgreitt frumvarp um nýja stjórnarskrá. Að því loknu verði boðað til Alþingiskosninga.

7)      Neyðarstjórnin skal fá til liðs við sig færustu sérfræðinga. Í störfum sínum notist neyðarstjórnin við þjóðaratkvæðagreiðslur til að skera úr um brýn ágreiningsmál.

Verkefni neyðarstjórnar yrðu m.a.:

a)      Setning neyðarlaga til að leysa bráðavanda skuldsettra heimila sem taki m.a. mið af tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna.

b)      Opinber lágmarks framfærsluviðmið.

c)      Fjárlög.

d)      Lýðræðisumbætur.

e)      Endurskoðun á samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Reykjavík, 14. október 2010,
Baldvin Jónsson
Birgitta Jónsdóttir
Margrét Tryggvadóttir
Þór Saari

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.10.2010 - 18:11 - FB ummæli ()

Neyðarstjórn eða kosningar.

Meðfylgjandi er tillaga þingmanna Hreyfingarinnar að myndun neyðarstjórnar.  Tillagan hefur verið send forseta Íslands, hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, með beiðni um fund.  Tillagan er lögð fram vegna þess að okkur þykir einsýnt að hvorki innan ríkisstjórnarinnar né stjórnarflokkanna ríki einhugur né raunverulegur vilji  til almennra aðgerða í þágu heimilanna. Tíminn er á þrotum og samfélagið getur ekki verið í biðstöðu á meðan stjórnvöld og fulltrúar peningaaflanna koma sér saman um að hve litlu leyti þau komist upp með að bæta almenningi þær búsifjar sem þessir sömu aðilar áttu stóran þátt í að skapa eða hefðu getað fyrirbyggt.  Við lítum svo á að okkur beri skylda til að fylgjast áfram með gangi mála og reyna að tryggja hagsmuni almennings.  Við munum því taka þátt í starfi ráðherra og viðræðuaðila áfram þó við höfum miklar efasemdir um að raunverulegur vilji til að koma til móts við þarfir skuldsettra heimila liggi að baki þeim.

Neyðarstjórn eða kosningar

Yfirlýsing frá þingmönnum Hreyfingarinnar

Sú mesta efnahagsvá sem samfélaginu stafar hætta af í dag er skuldavandi íslenskra heimila.  Undanfarna viku hafa þingmenn Hreyfingarinnar tekið þátt í fjölda samráðsfunda með ráðherrum ríkisstjórnarinnar, öðrum þingmönnum og hagsmunaaðilum til að kanna hvort raunverulegur vilji sé til að leysa málin. Þrátt fyrir að fyrir liggi leiðir til lausnar sem gagnist mjög skuldugum heimilum án kostnaðar fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur, er ríkisstjórnin ekki fær um að leysa úr málinu með sanngjörnum og réttlátum hætti. Ríkisstjórnin hefur nú endanlega sýnt að hún getur ekki stjórnað landinu með almannahag að leiðarljósi og hlýtur því að vera komin að leiðarlokum.

Vegna þeirrar alvarlegu stjórnarkreppu sem nú ríkir og útilokað er að Alþingi geti leyst,  leggja þingmenn Hreyfingarinnar fram eftirfarandi tillögur sem lúta að tímabundinni neyðarstjórn landsins (þingmanna og/eða utanþingsmanna) í stað núverandi ríkisstjórnar samkvæmt eftirfarandi forskrift.

1)      Forsætisráðherra skilar inn umboði sínu til forseta Íslands.

2)      Forseti Íslands kannar hvort þingmeirihluti sé fyrir því að verja slíka neyðarstjórn vantrausti verði henni komið á.

3)      Sé slíkur meirihluti ekki fyrir hendi verði boðað til Alþingiskosninga.

4)      Sé slíkur meirihluti fyrir hendi gerir forseti Íslands tillögu að neyðarstjórn. Tillaga forseta Íslands getur annað hvort falist í uppástungu að forsætisráðherra sem velji sér samráðherra eða tillögu að öllum ráðherrum slíkrar ríkisstjórnar.

5)      Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tillögu forseta Íslands að neyðarstjórn. Kosið verði um neyðarstjórnina í heild sinni. Verði henni hafnað verið boðað til Alþingiskosninga.

6)      Verði tillagan samþykkt starfar neyðarstjórnin þangað til stjórnlagaþing hefur lokið störfum og Alþingi afgreitt frumvarp um nýja stjórnarskrá. Að því loknu verði boðað til Alþingiskosninga.

7)      Neyðarstjórnin skal fá til liðs við sig færustu sérfræðinga. Í störfum sínum notist neyðarstjórnin við þjóðaratkvæðagreiðslur til að skera úr um brýn ágreiningsmál.

Verkefni neyðarstjórnar yrðu m.a.:

a)      Setning neyðarlaga til að leysa bráðavanda skuldsettra heimila sem taki m.a. mið af tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna.

b)      Opinber lágmarks framfærsluviðmið.

c)      Fjárlög.

d)      Lýðræðisumbætur.

e)      Endurskoðun á samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Reykjavík, 14. október 2010,
Baldvin Jónsson
Birgitta Jónsdóttir
Margrét Tryggvadóttir
Þór Saari

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.10.2010 - 07:51 - FB ummæli ()

Skuldavandi heimilanna, enn og aftur.

Skuldavandi heimilanna er brýnasti vandinn sem vofir yfir í efnahagsmálum og verður ekki leystur undir forystu núverandi ríkisstjórnar.  Eftir fjölmarga fundi með ráðherrum (s.k. fimm-ráðherra hóp), öðrum þingmönnum (u.þ.b. þrjátíu) og nú síðast í gærkvöldi með s.k. hagsmunaaðilum sem teljast vera fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og Íbúðlánasjóður öðru megin og Hagsmunasamtök heimilanna, Umboðsmaður neytenda og Umboðsmaður skuldara hinum megin (ætti frekar að titlast sem sérhagsmunir versus almannahagsmunir) hefur enn ekkert komið fram sem bendir til að þessi vandi verði leystur öðruvísi en í þágu sérhagsmunanna, þ.e.a.s. ekkert verður gert.  Að vísu hefur dómsmálaráðherra komið fram með tvö mikilvæg frumvörp til laga, annað um frestun uppboða og hitt um fyrningu krafna, og félags- og tryggingarmálaráðherra hefur komið fram með frumvarp um að umsókn hjá Umboðsmanni skuldara jafngildi skjóli fyrir aðför.  Þetta eru frumvörp sem skipta vissulega máli en taka ekki á þeim vanda sem er undirliggjandi, þ.e. að koma í veg fyrir þörfina á þessum lögum sem frumvörpin eru vísir að.  Það þarf að koma í veg fyrir að fólk verði gjaldþrota og lendi með eigur sínar á uppboði eða lendi í viðvarandi greiðsluerfiðleikum vegna lána sem það í raun aldrei tók og vegna skulda sem forsendubresturinn úthlutar því.  Annað er hróplegt óréttlæti.

Ég hef ítrekað lýst eftir stefnu og forystu ríkisstjórnarinnar á þessum fundum en fengið í staðinn fundarboð á næsta fund.  Nú að loknum sex fundum og þar af tveimur sem töldu um eða yfir þrjátíu manns er ríkisstjórnin enn stefnulaus og lokaorð forsætisráðherra í kvöld voru í þá veru að þó fundarmenn væru ósammála væri mikilvægt að halda áfram að funda og jafnvel þó þyrfti fimm fundi til viðbótar yrði að hafa það.

Það er einfaldlega ekki vilji til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara í það sem kallað hefur verið almenn skuldaleiðrétting þar sem forsendubrestur lántakenda vegna gengisfalls krónunnar og verðbólguskotsins er leiðréttur.  Að vísu hefur Ögmundur Jónasson barist af ákafa fyrir þessari leið en aðrir ráðherrar hafa ekki tekið undir og jafnvel talað af ákefð á móti.  Þetta gera menn þrátt fyrir að eftir tvö ár frá hruni sjáist engin ljósglæta framundan í þessum málum og þrátt fyrir að öll þau „úrræði“ sem boðið hefur verið upp á séu meira og minna gagnslaus.  Við munum að vísu halda áfram að mæta á þá fundi sem við erum boðin á en þá fyrst og fremst til að fylgjast með gangi mála. 

Það er því niðurstaða mín að ríkisstjórnin ráði ekki við þennan vanda frekar en fjölmörg önnur mál sem tengjast hruninu og afleiðingum þess og valdi ekki starfi sínu og verði að fara frá.  Vegna þeirrar stjórnarkreppu sem nú ríkir þar sem hver höndin er upp á móti annarri í ríkisstjórninni og í þingliðinu og vegna þess að stór hluti hrunþingmanna og hrunráðherrra er enn á þingi eins og ekkert sé, liggur beinast við að óska eftir utanþingsstjórn eða kosningum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þór Saari
Hagfræðingur með lýðræðis- og stjórnmálavitund sem gerir kröfu um virka þátttöku í samfélaginu.

Er í framboði fyrir Pírata í SV kjördæmi (kraganum). Er fyrrverandi þingmaður í SV kjördæmi (kraganum) fyrir Hreyfinguna (2009-2013) og er einnig í stjórn Samtaka um lýðræði og almannahag.
Netfangið er: saari@centrum.is
RSS straumur: RSS straumur